Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 23:53:27 (2447)

1995-12-21 23:53:27# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[23:53]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. hefur mjög gert að umtalsefni í kvöld það minnisblað sem skrifað var upp á í tengslum við tilraunir til þess að ná samkomulagi við Suðurnesjamenn út af sjúkrahúsmálum þar. Hann hefur velt því fyrir sér hvort verið sé að búa til venjur eða skapa venjur. Ég vona svo sannarlega það sé verið að því, já. Venjur sem felist í því að menn telji ríkari ástæðu til að leita samninga en e.t.v. hefur stundum áður verið gert af hálfu framkvæmdarvaldsins. Og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði hvort þekktir væru einhverjir samningar sem hefðu verið undirritaðir af fjármálaráðherrum og viðkomandi fagráðherrum og ekki hefði verið staðið við. Ég get frætt hv. þm. um að ég þekki slíka samninga. Allt hefur nú gerst. Það sem við hv. þm. Jón Kristjánsson vildum leggja áherslu á var að gengið yrði til samninga til þess að reyna að ná niðurstöðu í þá veru, eins og ég sagði fyrr í kvöld, að sameiginlega mætti leysa þetta viðkvæma og erfiða mál til hagsbóta fyrir Suðurnesjamenn.

Ég leyfði mér að vona og raunar veit að hv. þm. Reykn. eru allir af vilja gerðir. Hins vegar eru það e.t.v. mikil meðmæli með samkomulaginu sem gert hefur verið og felst í minnisblaðinu, að svo mikill pólitískur pirringur af hálfu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar skuli koma fram. Ég held að það kannski bendi frekar en hitt til að býsna vel hafi verið að verki staðið, enda liggur fyrir að Suðurnesjamenn undirrituðu þetta minnisblað og eru reiðubúnir til þess að vinna að lausn þessa máls.