Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:11:41 (2482)

1995-12-22 11:11:41# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:11]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þar sem hv. 4. þm. Austurl. hefur kosið að hreyfa þessu máli í þingsölum og gera grein fyrir úrskurði úrskurðarnefndarinnar vil ég aðeins segja að ég ætla mér ekki og tel ekki rétt að fjalla um sjálfan úrskurð nefndarinnar hér, né heldur hver viðbrögð stjórnar Hollustuverndar ríkisins verða. Ég vil hins vegar benda á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar stangast á við álit sem umboðsmaður Alþingis gaf árið 1990 í máli þar sem umsækjandi um lán til Húsnæðisstofnunar ríkisins krafðist þess að fá að sjá lögfræðilega álitsgerð sem lá frammi í málinu. Umboðsmaður taldi ekki skylt að veita hlutaðeigandi færi á að tjá sig um þetta lögfræðilega álit þar sem um væri að ræða lagaskýringar. Þetta taldi ég rétt að kæmi fram sem hliðstætt mál.

Í öðru lagi langar mig að segja að öll þau atriði sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði athugasemdir við þegar starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins lágu frammi komu einnig fram við mat á umhverfisáhrifum en þingmaðurinn kærði úrskurð skipulagsstjóra ríkisins til ráðuneytisins og ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn 7. nóvember 1995. Þannig hefur umhvrn. í reynd nú þegar tekið efnislega afstöðu til athugasemda hv. þm. þótt eftir öðrum leiðum sé. Hollustuvernd ríkisins og skipulagsstjóri ríkisins hafa staðfest að athugasemdirnar sem fram komu frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni annars vegar við starfsleyfistillögurnar og hins vegar við úrskurð vegna mats á umhverfisáhrifum hafa verið nákvæmlega þær sömu. Samkvæmt þessu hefur ráðuneytið því í reynd þegar tekið efnislega afstöðu til athugasemda hv. þm. og starfsleyfinu verður ekki breytt.

Það má svo auðvitað til frekari upplýsinga einnig benda á að hv. þm. hefur í raun komið athugasemdum sínum á framfæri og fengið umfjöllun um þær, ekki aðeins í umhvn. þar sem hann á sæti heldur og í iðnn. af því að þetta er tekið aftur upp í þinginu nú. Athugasemdirnar voru þær sömu og við starfsleyfatillögurnar og við matið á umhverfisáhrifunum. Í áliti meiri hluta umhvn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það er því mikilvægur áfangi að nýútgefið starfsleyfi nær til allrar framleiðslu fyrirtækisins og fagnar nefndin því. Hér er um að ræða sérstakar aðstæður þar sem verið er að stækka álbræðslu sem þegar hefur starfað um árabil. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð umhverfismats og starfsleyfis. Með starfsleyfinu sem umhvrh. hefur gefið út er tryggt að allar þær kröfur sem gerðar eru til umhverfisverndar í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, séu uppfylltar. Gerir meiri hluti nefndarinnar því ekki athugasemd við afgreiðslu frv.``

Í iðnn. Alþingis var farið yfir sömu athugasemdir lið fyrir lið og meiri hluti nefndarinnar var sammála mati því sem umhvrn. hefur þegar staðfest eins og fram kemur annars vegar í mati á umhverfisáhrifum og hins vegar í starfsleyfi. Starfsmenn umhvrn. og Hollustuverndar ríkisins unnu náið með báðum þingnefndum þegar málið var þar til meðferðar og veittu munnlega sem og skriflega svör auk þess sem þeir sendu inn greinargerðir um einstaka þætti.

[11:15]

Ég taldi rétt, hæstv. forseti, að ítreka þetta núna varðandi efnisatriði málsins þótt hér sé að vísu fyrst og fremst vakin athygli á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Ég mun að öðru leyti ekki fjalla um hana, en ítreka að það starfsleyfi sem ég hef gefið út mun ekki breytast við þetta.