Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:22:58 (2486)

1995-12-22 11:22:58# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að málið fjallaði ekki um það hvort hv. þm. hefði getað komið skoðunum sínum á framfæri í þingi eða þingnefndum. Auðvitað fjallar úrskurðurinn ekki um það. Það sem ég var að tala um áðan er að efnisatriði málsins hafa komið mjög ítarlega fram og kæruatriðin sem hv. þm. hefur vísað bæði inn í þingið til skipulagsstjóra ríkisins og til Hollustuverndar ríkisins eru efnislega öll þau sömu. Og um þau atriði hefur verið fjallað af hálfu ráðuneytisins. 7. nóvember var kveðinn upp úrskurður um þau efnisatriði og undirritaður af ráðherra. Ég vildi láta þetta koma skýrt fram og ítreka það að starfsleyfi hefur verið gefið út.

Síðan bendir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir á það að málið fjalli um aðgengi almennings og andmælarétt. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Enda sagði ég í upphafi að ég geri úrskurð úrskurðarnefndarinnar í sjálfu sér ekki að umtalsefni hér. Sjálfur er ég ekki að kveða neinn dóm upp í því máli, enda er það alls ekki í mínum verkahring. Stjórn Hollustuverndarinnar tekur það mál til athugunar eins og þessi úrskurður kveður á um. En auðvitað er það ráðherra sem gefur starfsleyfið út og það er á hans ábyrgð. Hann hefur farið yfir þessi efnisatriði og ég álít, án þess að geta svarað því sem lögfræðingur, að þá sé ekki annarra en dómstóla að kveða upp úr um það ef hnekkja á þeim úrskurði sem ráðherra hefur kveðið upp.