Jólakveðjur

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 13:35:58 (2519)

1995-12-22 13:35:58# 120. lþ. 78.98 fundur 163#B jólakveðjur#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur


[13:35]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Hér hafa verið miklar annir síðustu daga og bregður ekki venju í því efni. Það verður auðvitað aldrei hjá því komist að taka duglegan lokasprett við afgreiðslu viðamikilla mála undir jól. Ég verð þó að segja að það er nauðsynlegt að bæta hér úr og freista þess að jafna álagið meira við þingstörfin.

Ég nefndi í ræðu minni á þingsetningarfundi 2. október sl. að ég teldi að ríkisstjórn hverju sinni þyrfti að ætla Alþingi rúman tíma til að afgreiða þau mál sem hún leggur fram og vill fá afgreidd. Því miður tókst ekki sem skyldi að standa við þau áform sem uppi voru um bætta starfshætti í þessum efnum. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir umbótum á þessum sviðum.

Ég læt þó í ljós ánægju mína með þingstörfin þessa haustönn Alþingis. Góður starfsandi hefur einkennt haustþingið líkt og var á vorþinginu. Ég vil því láta í ljós sérstakar þakkir mínar til þingmanna fyrir samstarfsvilja þeirra og þakkir til hæstv. ríkisstjórnar fyrir samstarfið.

Jólahátíðin er í nánd, sú hátíð sem mest og best bindur fjölskyldurnar saman. Því miður held ég að þáttur alþingismanna í undirbúningi jólanna á heimilum sínum sé ekki mikill. Þannig þarf það ekki að vera og þannig á það ekki að vera. Ég ítreka því það sem ég sagði í ræðu minni við þingsetningu í haust að við þurfum að bindast samtökum um að skipuleggja störf okkar betur þannig að fjölskyldur þingmanna gleymist ekki. Þær þurfa líka og eiga að fá sinn tíma.

Hv. alþingismönnum og starfsfólki Alþingis gefst nú tækifæri til að vera samvistum við sína nánustu um hátíðarnar og njóta með þeim friðsemdar jólanna. Ég hygg að við séum öll vel að þessu jólaleyfi komin eftir langar vinnustundir undanfarna daga. Ég færi því þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis, bestu óskir um gleðilega og friðsæla jólahátíð og bið fyrir kveðjur til fjölskyldna þeirra. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og ég bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.