Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 111 . mál.


198. Nefndarálit



um breyt. á l. nr. 34/1995, um vörugjald af olíu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Jón Steingrímsson frá embætti ríkisskattstjóra, Árna Ólaf Lárusson frá Skeljungi hf., Gunnar Sveinsson og Kristínu Sigurðardóttur frá Samtökum landflutningamanna, Svein Hjört Hjartarson frá LÍÚ, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins og Guðmund Arnaldsson, Sigurgeir Aðalgeirsson og Óla Aadnegard frá Landvara – félagi vörubifreiðaeigenda.
    Í framhaldi af fundi nefndarinnar um málið barst henni bréf frá fjármálaráðuneytinu, dags. 10. nóvember 1995, þar sem fram kemur að verði frumvarpið samþykkt hyggist fjármálaráðherra skipa nefnd eða nefndir embættismanna og hagsmunaaðila til áframhaldandi undirbúnings og samráðs um upptöku olíugjalds. Í því sambandi skuli kannaðar nánar forsendur sem liggja til grundvallar fjárhæð olíugjalds og gerð ítarleg athugun á því hvernig unnt sé með hagkvæmum hætti að koma við litun gjaldfrjálsrar olíu til eftirlits. Jafnframt segir í bréfinu að þegar sé hafinn af hálfu ráðuneytisins, í samráði við Vegagerðina, undirbúningur að endurskoðun á lögum um fjáröflun til vegagerðar til að styrkja framkvæmd þungaskatts, sbr. tillögur samráðsnefndar um olíugjald, dags. 5. október 1995. Tekið er fram að leitað verði álits hagsmunaaðila í flutningastarfsemi áður en frumvarp þess efnis verður lagt fyrir Alþingi.
    Með hliðsjón af framansögðu mælir nefndin með að frumvarpið verði afgreitt óbreytt.
    Steingrímur J. Sigfússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. nóv. 1995.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form.

frsm.



Pétur H. Blöndal.

Jón Baldvin Hannibalsson.

Ólafur Hannibalsson.



Sólveig Pétursdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.