Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 44 . mál.


278. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar og leitað skýringa um einstök atriði frá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum 1995. Einnig hafa komið fyrir nefndina forsvarsmenn nokkurra ríkisstofnana sem lagt hafa fram upplýsingar um tiltekin verkefni. Nefndin leitaði enn fremur eftir áliti Ríkisendurskoðunar um frumvarpið. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem fram koma í frumvarpinu. Nokkur atriði bíða 3. umræðu, svo sem málefni er varða Sjúkrahús Reykjavíkur og Sólheima í Grímsnesi.
    Á meðan nefndin hafði frumvarpið til athugunar var unnið að sérstakri skoðun á nokkrum málum í ráðuneytunum sem nú hafa verið leidd til lykta, auk þess sem önnur ný útgjaldatilefni hafa komið fram.
    Nefndin í heild og meiri hluti hennar ásamt fulltrúum Alþýðubandalagsins gera á tveimur þingskjölum 11 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 424,8 m.kr. til hækkunar. Þingmenn Alþýðuflokks og Kvennalista hafa fyrirvara um eina breytingartillögu og er hún því flutt á sérstöku þingskjali. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


201     Alþingi. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar verði aukin um 31,4 m.kr. Eru það annars vegar útgjöld sem fylgt hafa í kjölfar kosninga og breytinga á skipan þingsins, 11,4 m.kr., og hins vegar aðkallandi viðgerðir á Alþingishúsinu og framkvæmdir við hús Alþingis við Kirkjustræti, samtals 20 m.kr.

02 Menntamálaráðuneyti


905     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Fjárheimild verði hækkuð um 5,5 m.kr. vegna hallareksturs áranna 1994 og 1995.
989     Ýmis íþróttamál. Lagt er til að veitt verði 1,5 m.kr. viðbótarfjárveiting til Íþróttasambands Íslands til að mæta kostnaði sem fylgdi lántöku sambandsins til að fjármagna viðbyggingu íþróttahallarinnar í Laugardal vegna HM-keppninnar í handknattleik. Hér er um að ræða gjöld sem runnu í ríkissjóð, svo sem lántökugjald, þinggjöld o.fl.

03 Utanríkisráðuneyti


401     Alþjóðastofnanir. Lögð er til hækkun á fjárheimild um 29,7 m.kr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins.

04 Landbúnaðarráðuneyti


805     Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Lagt er til að veitt verði fjárheimild að fjárhæð 150 m.kr. vegna afsetningar birgða, en samningur, er undirritaður var 1. október sl., um breytingu á búvörusamningi felur í sér að ríkissjóður greiði þá fjárhæð á árinu 1995.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


361     Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað. Gerð er tillaga um 4,2 m.kr. viðbótarframlag vegna dóms sem fallinn er um greiðslur til starfsmanna sjúkrahússins fyrir gæsluvaktir. Með greiðslunum hefur spítalinn að fullu gert upp við hlutaðeigandi starfsmenn. Gerður er fyrirvari af hálfu ríkissjóðs um endurkröfurétt á sveitarfélagið sem stóð að rekstrinum á þeim tíma sem dómurinn tekur til.
586     Heilsugæslustöðin Reykjalundi. Lagt er til að veitt verði viðbótarfjárheimild að fjárhæð 15,5 m.kr. vegna rekstrarhalla frá árinu 1991.

09 Fjármálaráðuneyti


989     Launa- og verðlagsmál. Lagt er til viðbótarframlag að fjárhæð 130 m.kr. til launauppbóta í kjölfar kjarasamninga.
999     Ýmislegt. Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við björgunaraðgerðir, útfararkostnað, tjón á búnaði og fleiri þætti í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri.

10 Samgönguráðuneyti


330     Vita- og hafnamálastofnun. Lagt er til að veitt verði fjárheimild að fjárhæð 22 m.kr. til endurbóta á bryggjunni í Holti í Önundarfirði og til að laga skemmdir sem urðu á nokkrum sjóvarnargörðum í óveðri í október sl.
472     Flugvellir. Lagt er til að veitt verði fjárheimild að fjárhæð 10 m.kr. til snjómoksturs.

Alþingi, 4. des. 1995.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Hjálmar Jónsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.