Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 164 . mál.


343. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Elínu S. Jónsdóttur, deildarsérfræðing í félagsmálaráðuneytinu, og Sigurð Helga Guðjónsson, hrl. og formann Húseigendafélagsins. Þá komu á fund nefndarinnar Marteinn Másson, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, og Andri Árnason hrl., formaður laganefndar félagsins, Gylfi Thorlacius, lögmaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, Jón Guðmundsson, formaður Félags fasteignasala, Sigurður Harðarson framkvæmdastjóri og Magni Baldursson frá Arkitektafélagi Íslands og Magnús Sædal, byggingarfulltrúi í Reykjavík.
    Skriflegar athugasemdir um málið bárust frá Lögmannafélagi Íslands og Arkitektafélagi Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til breyting á 1. gr. frumvarpsins til skýringar á því hvenær allir eigendur fjöleignarhúss þurfi að undirrita eignaskiptayfirlýsingar. Er þar vísað til A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna, en í 9. og 10. tölul. þess stafliðar er tilvitnun til ákvæða 4. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 57. gr. laganna. Í þeim ákvæðum er annars vegar kveðið á um að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Hins vegar segir að húsfélag geti ekki tekið ákvarðanir gegn vilja eiganda sem feli í sér meiri og víðtækari takmarkanir á ráðstöfunar- og umráðarétti hans yfir séreign en leiði af ákvæðum laganna eða eðli máls. Í slíkum tilvikum þarf eignaskiptayfirlýsing fortakslaust að vera undirrituð af öllum eigendum, þ.e. ef leggja skal ríkari skyldur eða kvaðir á eigendur eða skerða rétt eigenda meira en gengur og gerist í sambærilegum húsum á grundvelli fyrirmæla laganna. Með sömu rökum er lögð til breyting á 4. gr. frumvarpsins.
    Þá eru lagðar til breytingar á 2. gr. frumvarpsins. Breytingarnar eru í fyrsta lagi nánari útlistun á hvaða skilyrðum menn þurfi að fullnægja til að fá leyfi félagsmálaráðherra til að gera eignaskiptayfirlýsingar. Í öðru lagi er lögð til breyting sem felur í sér að þeir sem eftir leyfi sækjast þurfi ekki nauðsynlega að gangast undir próf til að fá leyfið. Nefndin telur ýmsa aðra kosti en próf koma til greina til að staðreyna þekkingu og færni manna, m.a. í formi raunhæfra verkefna.
    Þá vill nefndin leggja áherslu á að við setningu reglugerðar um skilyrði leyfisveitingar verði skoðað sérstaklega hvort ástæða sé til að leyfishafi taki sérstaka starfsábyrgðartryggingu.
    Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Magnús Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Drífa Sigfúsdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.



Bryndís Hlöðversdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.