Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 1 . mál.


346. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 26. september sl. og átti viðtal við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði eftir með bréfi, dags. 14. október sl., álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti og fylgja þau nefndarálitinu sem fylgiskjöl eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Þetta er fimmta árið sem þessi skipan er höfð á um samskipti fastanefnda þingsins við fjárlaganefnd um afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.
    Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárlaganefnd og kallar þá nefndin fyrir sig forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær, sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu, nema samtals 187,2 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umræðu afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umræðu, smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


101    Embætti forseta Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2,4 m.kr. vegna biðlauna forseta Íslands en núverandi forseti lætur af embætti um mitt næsta ár.
201    Alþingi: Rekstrarframlag hækkar alls um 16,5 m.kr. Viðfangsefnið 1.01 Alþingiskostnaður hækkar um 7,8 m.kr. vegna endurmats á starfskostnaði þingmanna. Viðfangsefnið 1.02 Aðalskrifstofa hækkar um 0,5 m.kr. og verður 52,4 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.03 Þingmálaskrifstofa hækkar um 1 m.kr. og verður 122 m.kr. Að lokum hækkar viðfangsefnið 1.04 Rekstrarskrifstofa um 7,2 m.kr., m.a. vegna aukins húsnæðiskostnaðar.
610    Umboðsmaður Alþingis: Framlag til embættisins hækkar um 4,9 m.kr. vegna nýs starfs lögfræðings, auk viðbótarútgjalda vegna námsleyfa o.fl.

01 Forsætisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.23 Hrafnseyri hækkar um 1,5 m.kr. og verður 3 m.kr. Hækkunin er vegna framkvæmda á vegum Hrafnseyrarnefndar.

02 Menntamálaráðuneyti


221    Kennaraháskóli Íslands: Framlag til viðfangsefnisins 1.05 Kennsla hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til fjarnáms í sérkennslufræðum.
299    Háskóla- og rannsóknastarfsemi: Viðfangsefnið 1.15 Nýsköpunarsjóður hækkar um 5 m.kr. og verður 15 m.kr.
318    Framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Framlag til fjárlagaliðarins lækkar alls um 15 m.kr. Viðfangsefnið 5.90 Viðhald lækkar um 10 m.kr. og viðfangsefnið 6.90 Byggingarframkvæmdir lækkar um 5 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðum á viðfangsefnum 5.90 Viðhald og 6.90 Byggingarframkvæmdir skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
506    Vélskóli Íslands: Tekinn er inn nýr liður, 6.01 Tæki og búnaður, og er framlagið 3 m.kr.
514    Iðnskólinn í Reykjavík: Tekinn er inn nýr liður, 6.01 Tæki og búnaður, og er framlagið 3 m.kr.
872    Lánasjóður íslenskra námsmanna: Framlag til sjóðsins hækkar um 50 m.kr. og verður 1.450 m.kr. Hækkunin er vegna endurmats á framlagi ríkisins sem hlutfall af veittum lánum og vegna verðlagsútreikninga.
902    Þjóðminjasafn Íslands: Fjárveiting til fjárlagaliðarins hækkar um 6,5 m.kr. og verður 106,1 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Almennur rekstur hækkar um 5 m.kr. vegna endurskipulagningar á tölvukerfi safnsins. Viðfangsefnið 1.10 Byggða- og minjasöfn hækkar um 1,5 m.kr. vegna framlags til minjasafna og vegna launa minjavarða.
903    Þjóðskjalasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.11 Héraðsskjalasöfn hækkar um 1 m.kr. og verður 4 m.kr.
909    Blindrabókasafn Íslands: Almennur rekstur hækkar um 2 m.kr. og þar af er 1 m.kr. ætluð til eignakaupa í rekstri.
969    Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefnið 6.21 Stofnkostnaður lækkar um 85 m.kr. og verður 330 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands: Framlag hækkar um 3 m.kr. og er ætlað til ferðakostnað-ar vegna tónleika erlendis.
979    Húsafriðunarsjóður: Framlag hækkar um 5 m.kr. og verður 15,5 m.kr.
980    Listskreytingasjóður: Framlag hækkar um 4 m.kr. og verður 8 m.kr.
988    Æskulýðsmál: Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.10 Æskulýðsráð ríkisins hækkar um 0,5 m.kr. vegna upplýsingahandbókar fyrir ungt fólk.
989    Ýmis íþróttamál: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 8,8 m.kr. og verður 81 m.kr. Hækkunin skiptist á fjögur viðfangsefni. Viðfangsefnið 1.11 Ólympíunefnd Íslands hækkar um 5 m.kr. og verður 8 m.kr. vegna ólympíuleika í Atlanta á næsta ári. Viðfangsefnið 1.16 Íþróttafélög hækkar um 0,3 m.kr. og verður 14,8 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti. Framlag til Bridgesambands Íslands á viðfangsefni 1.30 hækkar um 1 m.kr. og verður 2 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 6.11 Skáksamband Íslands, byggingarstyrkur og er fjárveitingin 2,5 m.kr.

03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 1,4 m.kr. og verður 6,2 m.kr.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.11 Samskipti við Vestur-Íslendinga hækkar um 1,5 m.kr. og verður 3 m.kr.
391    Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi: Viðfangsefnið 1.14 Aðstoð Íslands á svæðum Palestínumanna í Ísrael lækkar um 5,4 m.kr. og verður 25,1 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.21 Hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndum, UNIFEM, og er framlag 2,5 m.kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti


211    Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 1,5 m.kr. vegna Stóra-Ármóts.
233    Yfirdýralæknir: Viðfangsefnið 1.52 Eftirlit og eftirlitsferðir hækkar um 3,2 m.kr. og er ætlað til rannsókna á útbreiðslu salmónellu í sauðfé. Á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 851 Greiðslur vegna riðuveiki um sömu fjárhæð.
261    Bændaskólinn á Hvanneyri: Framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 2 m.kr. og verður 6 m.kr. Hækkunin er ætluð til lyftubúnaðar í heimavistarhúsnæði skólans.
283    Garðyrkjuskóli ríkisins: Viðfangsefni 6.25 Tilraunagróðurhús hækkar um 4 m.kr. og verður 8 m.kr.
805    Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 217 m.kr. og verður 2.727 m.kr. Breytingin skiptist á fimm viðfangsefni. Viðfangsefnið 1.01 Beinar greiðslur til bænda hækkar um 60 m.kr. og verður 1.480 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.05 Niðurgreiðslur á ull og gærum lækkar um 20 m.kr. og verður 230 m.kr. Viðfangsefnið 1.10 Vaxta- og geymslukostnaður lækkar um 11 m.kr. og verður 279 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.30 Uppkaup á fullvirðisrétti hækkar um 125 m.kr. og verður 595 m.kr. Að lokum er tekinn inn nýr liður, 1.32 Afsetning birgða, og er framlagið 63 m.kr.
851    Greiðslur vegna riðuveiki: Framlag lækkar um 3,2 m.kr. á móti hækkun til yfirdýralæknis vegna rannsókna á salmónellu í sauðfé.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Framlag til liðarins hækkar um 5,5 m.kr. og skiptist hækkunin á tvö viðfangsefni. Viðfangsefnið 1.21 Sjóvinnukennsla, sjóvinnu- og rannsóknarbátur hækkar um 3,5 m.kr. og verður 6,5 m.kr. vegna sjóvinnukennslu. Tekinn er inn nýr liður, 1.23 Tæknideild Fiskifélagsins. Framlagið er 2 m.kr. og er ætlað til rekstrar og tækjakaupa.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.45 Mannréttindaskrifstofa Íslands, og er framlagið 3 m.kr.
290    Dómsmál, ýmis kostnaður: Viðfangsefni 1.15 Lögfræðiþjónusta neyðarmóttöku vegna nauðgana hækkar um 1 m.kr. og verður 3,3 m.kr.
321    Almannavarnir ríkisins: Almennur rekstur hækkar um 3,5 m.kr. og verður 30 m.kr. Hækkunin er vegna flutnings stofnunarinnar.
418    Sýslumaðurinn á Ísafirði: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 2,6 m.kr. vegna lækkunar sértekna. Á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 490 Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta um sömu fjárhæð þannig að um millifærslu er að ræða.
490    Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta: Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.10 Ýmis sameiginlegur kostnaður lækkar um 2,6 m.kr. og verður 4,8 m.kr. Á móti hækkar framlag til sýslumannsins á Ísafirði um sömu fjárhæð.
491    Húsnæði og búnaður sýslumanna: Viðfangsefnið 6.26 Húsnæði sýslumannsins á Seyðisfirði hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til viðhalds á húsnæði sýslumannsembættisins.
701    Biskup Íslands: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 4,8 m.kr. og verður 539,7 m.kr. Viðfangsefni 1.15 Kirkjumiðstöð Austurlands hækkar um 1,3 m.kr. og verður 1,5 m.kr. Tekinn er inn nýr liður 1.16, Langamýri í Skagafirði, og er framlagið 1,5 m.kr. Að lokum hækkar framlag til viðfangsefnisins 1.21 Prestar og prófastar um 2 m.kr. og er ætlað til stöðu aðstoðarprests.

07 Félagsmálaráðuneyti


702    Málefni fatlaðra, Reykjanesi: Viðfangsefnið 1.20 Sambýli hækkar um 1 m.kr. og er ætlað vistheimilinu að Einibergi 29 í Hafnarfirði.
703    Málefni fatlaðra, Vesturlandi: Framlag hækkar um 6 m.kr. og skiptist á tvö viðfangsefni. Viðfangsefnið 1.40 Leikfangasöfn Vesturlandi hækkar um 1 m.kr. og verður 4,6 m.kr. Hækkunin er vegna stöðu þroskaþjálfa í Dalasýslu. Viðfangsefnið 1.61 Skammtímavistun hækkar um 5 m.kr. og verður 12 m.kr. Af hækkuninni eru 2 m.kr. vegna Snæfellsness og 3 m.kr. vegna Akraness.
972    Bjargráðasjóður: Þetta er nýr fjárlagaliður. Framlagið er 30 m.kr. og er tilfærsla til B-hluta.
981    Vinnumál: Viðfangsefnið 1.90 Ýmislegt lækkar um 10 m.kr. og verður 18,8 m.kr. Á móti hækka nokkrir liðir er varða málefni fatlaðra um sömu fjárhæð.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.90 Ýmis framlög hækkar um 4 m.kr. og verður 12 m.kr. og er hækkunin ætluð til málefna fatlaðra. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefni 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækkar um 48,8 m.kr. og verður 76 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
385    Framkvæmdasjóður aldraðra: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Kostnaður skv. 3.–5. tölul. 12. gr. laga um málefni aldraðra lækkar um 20 m.kr. og verður 310 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti


989    Launa- og verðlagsmál: Framlag til viðfangsefnisins 1.90 Launa- og verðlagsmál lækkar um 100 m.kr. og verður 40 m.kr. Á móti hækka framlög til ýmissa stofnana alls um 158,4 m.kr. vegna endurmats á áhrifum kjarasamninga.
999    Ýmislegt: Viðfangsefnið 1.19 Ýmsar endurgreiðslur hækkar um 5 m.kr. og verður 40 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Framlag til viðfangsefnisins 1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar hækkar um 2,2 m.kr. og verður 30,2 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti. Viðfangsefnið 1.31 Landsbjörg hækkar um 2 m.kr. og verður 11 m.kr. Hækkunin er til kaupa á björgunarbátnum Þór. Tekinn er inn nýr liður, 1.43 Heilsárshótel á landsbyggðinni. Framlag er 15 m.kr. og er ætlað til markaðsaðgerða samkvæmt tillögu nefndar samgönguráðherra.
211    Vegagerðin: Framlag til fjárlagaliðarins lækkar um 250 m.kr. og verður 6.663 m.kr. en jafnframt verður nokkur breyting á framsetningu liða. Fjárhæðir eftirfarandi viðfangsefna breytast: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 49 m.kr. og verður 284 m.kr. Viðfangsefni 5.05 Þjónustuviðhald hækkar um 50 m.kr. og verður 1.465 m.kr. Jafnframt fær liðurinn nýtt heiti, 5.05 Þjónusta. Viðfangsefni 5.10 Stofnviðhald lækkar um 25 m.kr. og verður 1.160 m.kr. Jafnframt fær liðurinn nýtt heiti, 5.10 Viðhald. Viðfangsefni 6.10 Nýframkvæmdir hækkar um 3 m.kr. og verður 2.009 m.kr. Viðfangsefni 6.11 Framkvæmdaátak vegna atvinnumála lækkar um 350 m.kr. og verður 650 m.kr. Viðfangsefni 6.40 Tilraunir hækkar um 3 m.kr. og verður 65 m.kr. Viðfangsefni 6.55 Ferjur og flóabátar hækkar um 1 m.kr. og verður 470 m.kr. Eftirfarandi viðfangsefni falla brott: 6.30 Fjallvegir, 6.51 Sýsluvegir og 6.52 Þéttbýlisvegir. Eftirfarandi viðfangsefni eru ný: 5.52 Þéttbýlisvegir, 310 m.kr., 6.21 Landsvegir, 60 m.kr., 6.43 Safnvegir, 155 m.kr., 6.45 Styrkvegir, 25 m.kr., og 6.47 Reiðvegir, 10 m.kr.
330    Vita- og hafnamálastofnun: Heildarframlag til fjárlagaliðarins breytist ekki en gerðar eru eftirfarandi millifærslur milli liða: Viðfangsefni 6.70 Hafnamannvirki hækkar um 54,6 m.kr. og verður 567 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 6.74 Lendingarbætur lækkar um 3 m.kr. og verður 2 m.kr. Viðfangsefni 6.76 Ferjubryggjur við Ísafjarðardjúp lækkar um 19 m.kr. og verður 5 m.kr. Viðfangsefni 6.80 Sjóvarnargarðar hækkar um 1 m.kr. og verður 51 m.kr. Framlag til viðfangsefnis 6.90 Hafnabótasjóður, framlag lækkar um um 27,6 m.kr. og verður 18 m.kr. Að lokum hækka sértekjur fjárlagaliðarins um 6 m.kr. og verða 206 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðum á viðfangsefnum 6.70 Hafnamannvirki og 6.80 Sjóvarnargarðar skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
651    Ferðamálaráð: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 9 m.kr. og verður 141,7 m.kr. Hækkunin skiptist á þrjú viðfangsefni. Framlag til viðfangsefnis 1.01 Almennur rekstur hækkar um 3 m.kr. og verður 34 m.kr. Hækkunin er ætluð til rannsókna á sviði ferðamála og markaðssetningar vestan hafs. Viðfangsefni 1.11 Ferðamálasamtök landshluta hækkar um 1 m.kr. og verður 6 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.21 Fjölsóttir ferðamannastaðir hækkar um 5 m.kr. og verður 10 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti


201    Iðntæknistofnun: Almennur rekstur hækkar um 0,5 m.kr. og er framlagið ætlað til að sinna rannsókna- og fræðslumiðstöð í hveralíffræði í Hveragerði.

14 Umhverfisráðuneyti


101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 7,8 m.kr. og er ástæða hækkunar margþætt. Í fyrsta lagi er 1,5 m.kr. framlag til hálfs stöðugildis starfsmanns vegna frumvarps til breytinga á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi málaflokkur verði færður frá félagsmálaráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Í öðru lagi hækkar húsaleiga um 2,5 m.kr. vegna aukins húsnæðis. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að ráðuneytið beri að hálfu kostnað vegna ráðherrabílstjóra landbúnaðar- og umhverfisráðherra og er kostnaðurinn metinn 2,3 m.kr. Að lokum er sérstök fjárveiting að fjárhæð 1,5 m.kr. til að gera rekstrarlega og stjórnskipulega úttekt á Hollustuvernd ríkisins.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.23 Ýmis umhverfisverkefni lækkar um 2,3 m.kr. á móti hækkun til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Tekinn er inn nýr liður, 1.58 Náttúrugripasafn Vestmannaeyja. Framlag verður 2 m.kr. en framlag til safnsins var áður á safnlið undir menntamálaráðuneyti.
401    Náttúrufræðistofnun Íslands: Viðfangsefni 1.02 Setur í Reykjavík hækkar um 2,3 m.kr. en á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 14-190-1.23 Ýmis umhverfisverkefni um sömu fjárhæð.
410    Veðurstofa Íslands: Viðfangsefni 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 13 m.kr. en það er í samræmi við mat á fjárþörf stofnunarinnar ef frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verður óbreytt að lögum. Sértekjur fjárlagaliðarins hækka um 0,9 m.kr. vegna þátttöku Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í kostnaði vegna veðurþjónustu fyrir millilandaflug.
    Flutt er sérstök breytingartillaga við 4. gr. vegna endurmats launabóta. Áhrif kjarasamninga hafa verið endurmetin frá því sem þau voru talin vera við gerð fjárlagafrumvarps, en frá þeim tíma hefur verið samið við nokkur stéttarfélög. Að auki bætist við hækkun launa vegna úrskurðar Kjaradóms. Samtals hækkar framlag til einstakra stofnana í A-hluta ríkissjóðs um 158,4 m.kr., en á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 09-989 Launa- og verðlagsmál um 100 m.kr.

Alþingi, 13. des. 1995.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Hjálmar Jónsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Fylgiskjal I.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 14. október 1995. Á fund nefndarinnar kom frá forsætisráðuneyti Guðmundur Árnason deildarstjóri og frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Þorsteinn A. Jónsson skrifstofustjóri og Dagný Leifsdóttir deildarstjóri. Þá kom einnig á fund nefndarinnar Guðmundur Malmquist, forstöðumaður Byggðastofnunar, og Eiríkur Tómasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Ekki er gert ráð fyrir teljandi breytingum á framlagi til forsætisráðuneytis. Áætluð rekstrarútgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hækka hins vegar nokkuð á árinu. Mestan hluta þeirrar hækkunar má rekja til hækkunar launagjalda vegna kjarasamninga, en raunhækkun, tæplega 100 millj. kr., má að mestu rekja til þriggja stofnana. Þannig hækkar framlag til lögreglustjórans í Reykjavík um 30 millj. kr., framlög til Fangelsismálastofnunar hækka um rúmlega 50 millj. kr., bæði vegna reksturs nýja fangelsisins að Litla-Hrauni og vegna halla frá fyrra ári, og framlag til biskupsstofu vegna launa presta og prófasta hækkar um 35 millj. kr. Auk þess hækka aðrir smærri liðir nokkuð. Framlag vegna kosninga lækkar hins vegar úr 35 millj. kr. á þessu ári í 10 millj. kr. Þá ber að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir framlögum til þriggja nýrra fjárlagaliða, þ.e. 5,2 millj. kr. vegna samfélagsþjónustunefndar sem starfar á grundvelli 5. gr. laga um samfélagsþjónustu, nr. 55/1994, er tóku gildi 1. júlí á þessu ári, 15 millj. kr. vegna neyðarsímsvörunar, sbr. lög um neyðarsímsvörun, nr. 25/1995, og loks 2 millj. kr. til rannsókna á heimilisofbeldi, en sú rannsókn byggist á þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti á árinu 1994.
    Síðastliðið vor samþykkti Alþingi lög um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, og áttu þau að öðlast gildi 1. janúar nk. Í fylgiskjali með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að fyrirhugað er að þessum bótagreiðslum verði frestað um eitt ár og jafnframt að ákvæði laganna gildi um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. janúar 1994 og síðar í stað 1. janúar 1993. Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp til þessara laga samhljóða frá sér í upphafi ársins og frumvarpið varð að lögum með samþykki allra þeirra þingmanna er tóku þátt í afgreiðslu málsins. Nefndin telur afar óeðlilegt að nú, átta mánuðum síðar, eigi að fresta gildistöku laganna. Þar sem tilteknir nefndarmenn óskuðu eftir upplýsingum um hvort slík frestun bryti gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar fékk nefndin Eirík Tómasson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands á fund sinn. Hann lét í ljós það álit sitt að þar sem lögin hefðu ekki enn öðlast gildi gæti löggjafinn, ef honum sýndist svo, breytt lögunum fyrir gildistöku. Sú aðgerð bryti ekki í bága við stjórnarskrá. En annað mál er svo hvort löggjafinn telur sig fullsæmdan af slíkri lagasetningu. Þar sem ekki er gert ráð fyrir framlögum í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi til að fullnægja þeim skyldum sem gildistaka umræddra laga mun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð á næsta ári leggur nefndin til að leitað verði annarra leiða þannig að meginmarkmiðum laganna verði náð.
    Þær gagnrýnisraddir hafa heyrst á síðustu árum að vægi álita einstakra fastanefnda til fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga væri ekki mikið. Allsherjarnefnd fagnar því þeirri hugmynd fjárlaganefndar að veita formönnum nefndanna kost á að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir áliti þeirrar nefndar sem þeir eru í forustu fyrir.

Alþingi, 23. nóv. 1995.



Sólveig Pétursdóttir, form.


Valgerður Sverrisdóttir.


Sighvatur Björgvinsson.


Kristján Pálsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir.


Ögmundur Jónasson.


Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.


Viktor B. Kjartansson.




Fylgiskjal II.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og beiðni fjárlaganefndar frá 14. október 1995.
    Nefndin fékk á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra og Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra frá félagsmálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Grétar J. Guðmundsson og Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Gunnar E. Sigurðsson forstöðumaður og Stefán Stefánsson frá vinnumálaskrifstofunni, Ríkharður Steinbergsson, framkvæmdastjóri húsnæðisnefndar Reykjavíkur, og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri.
    Enn fremur komu á fund nefndarinnar Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Sigurður Einarsson frá Sjálfsbjörgu, Guðmundur Ragnarsson formaður og Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar og Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður barnaverndarstofu.
    Loks fékk nefndin á sinn fund Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðing BSRB, frá ASÍ hagfræðingana Gylfa Arnbjörnsson og Guðmund Gylfa Guðmundsson og Hervar Gunnarsson varaforseta og frá VSÍ Þórarin V. Þórarinsson framkvæmdastjóra og Hannes Sigurðsson.
    Í máli fulltrúa Húsnæðisstofnunar ríkisins kom fram að rekstrarkostnaður stofnunarinnar hafi verið innan fjárlaga síðastliðin ár og yrði svo væntanlega einnig á næsta ári. Aðaláhyggjuefnið væri hins vegar eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna. Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga töldu að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir að framlag til Byggingarsjóðs verkamanna lækkaði úr 608 millj. kr. í 400 millj. kr. á næsta ári og að íbúðarbyggingum fækki úr 418 í 230. Jafnframt komu þeir inn á að samkvæmt frumvarpinu lægi fyrir að í lok síðasta árs hafi 115 félagslegar íbúðir verið óseldar í 25 sveitarfélögum og þar af hafi 46 íbúðir staðið auðar. Ljóst væri að mörg sveitarfélög gætu ekki staðið við þær ábyrgðarskuldbindingar sem á þeim hvíla vegna félagslega íbúðakerfisins. Sveitarfélögin hafa haft þá lagaskyldu að byggja félagslegar íbúðir ef gildar umsóknir hafa legið fyrir frá einstaklingum um kaup slíkra íbúða. Þegar sveitarfélögin geta ekki lengur staðið undir skuldbindingum sínum vegna félagslegra íbúða og þær eru ekki lengur raunverulegur valkostur fyrir efnalitlar fjölskyldur verði löggjafarvaldið að taka á þeim vanda áður en í algjört óefni er komið. Varðandi húsaleigubætur ætti framlag ríkissjóðs til greiðslu bóta á næsta ári að nægja, en það er áætlað 200 millj. kr., ef ekki fjölgar þeim sveitarfélögum sem greiða húsaleigubætur. Framkvæmdastjóri húsnæðisnefndar Reykjavíkur benti síðan á að biðlistar vegna eldri íbúða væru orðnir mjög langir og lengri en vegna nýrra íbúða, en þær nýrri gengju út þótt hægt væri. Forsvarsmenn vinnumálaskrifstofunnar komu inn á það að gera mætti ráð fyrir sparnaði með tilkomu nýju laganna um atvinnuleysistryggingar, en sá þáttur væri þó enn óviss. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að endurskoðunin muni skila um 300 millj. kr. í lækkuðum útgjöldum. Varðandi útboð námskeiða upplýstu þeir að allir gætu sótt um og síðan ákvæði sjóðstjórn hvaða námskeið væru viðurkennd, m.a. með hliðsjón af ákvæðum í reglugerð.
    Fulltrúar Öryrkjabandalags Ísland, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar lýstu yfir áhyggjum af niðurskurði til framlaga til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Framlögin eru skert um 133 millj. kr. miðað við áætlaðar tekjur af erfðafjárskatti 1996. Vandi Framkvæmdasjóðs fatlaðra verður því verulegur árið 1997 ef skerðing verður varanleg þar sem langstærsti hluti tekna sjóðsins fer í rekstur, en óverulegur hluti í stofnframkvæmdir.
    Forsvarsmaður barnaverndarstofu skýrði frá því að dagdeild mundi taka við þeirri starfsemi sem áður fór fram á Tindum, en heimilið hefur nú verið lagt niður. Einnig benti hann á að skortur væri á langtímavistunarrými fyrir unglinga.
    Fulltrúar ASÍ og BSRB telja fullvíst að atvinnuleysi muni aukast á næsta ári. Þeir lögðu áherslu á að efla þyrfti alla tækni- og starfsmenntun í landinu. Fulltrúar VSÍ lýstu yfir áhyggjum af því ef hækka ætti launatengd gjöld og að stefna þyrfti að því að koma í veg fyrir það.

Alþingi, 24. nóv. 1995.



Siv Friðleifsdóttir, varaform.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristján Pálsson.


Magnús Stefánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Pétur H. Blöndal.





Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Félagsmálanefnd hefur á undanförnum vikum farið yfir þau atriði fjárlaga sem snúa að nefndinni og hefur kallað til sín fjölda aðila til að fá umsögn um frumvarpið. Á fundi nefndarinnar 14. nóvember sl. urðu nokkrar umræður um það hvernig staðið hefði verið að álitum nefnda þingsins til fjárlaganefndar og hvort það þjónaði nokkrum tilgangi að leggja vinnu í skoðun á fjárlagafrumvarpinu þar sem lítið tillit virtist vera tekið til þeirra ábendinga sem nefndirnar koma með. Það var þó samdóma álit þeirra þingmanna sem hafa reynslu af þessu fyrirkomulagi að það væri mjög gagnlegt fyrir þingmenn að kanna fjárlagafrumvarpið til hlítar en að áfram þyrfti að vinna að því að auka ábyrgð fagnefnda líkt og tíðkast í norska þinginu.
    Minni hluti félagsmálanefndar gerir eftirfarandi athugasemdir við þá liði fjárlagafrumvarpsins sem heyra undir félagsmálaráðuneytið.

Málefni fatlaðra.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er Framkvæmdasjóður fatlaðra skertur verulega þrátt fyrir að sjóðurinn hafi í auknum mæli tekið á sig rekstur sem léttir á stofnanaþjónustu. Sú skýring er gefin að á móti komi peningar sem fást fyrir söluna á Sólborg á Akureyri, eða rúmar 80 millj. kr., en áður fjármagnaði framkvæmdasjóðurinn þau sambýli sem vistmenn Sólborgar hafa nú flutt í. Hingað til hefur erfðafjárskatturinn runnið óskertur í Framkvæmdasjóð fatlaðra lögum samkvæmt og þótt það sem á vantar, eða 133 millj. kr. samkvæmt áætlun, renni til reksturs stofnana fatlaðra viljum við eindregið vara við því að haldið sé inn á þessa braut. Reynslan af þjóðarbókhlöðuskatti og fleiri eyrnamerktum tekjustofnum ætti að kenna okkur að erfitt er að snúa til baka þegar einu sinni er farið að taka peningana í eitthvað annað.

Málefni barna og ungmenna.
    Miklar breytingar eiga sér nú stað varðandi þennan málaflokk með stofnun barnaverndarstofu sem vonandi á eftir að bæta meðferð þeirra mála sem undir hana heyra. Undirritaðir nefndarmenn vilja sérstaklega benda á þann vanda sem steðjar að þjóðinni vegna vímuefnaneyslu unglinga og benda í því sambandi á nýlega ályktun Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur að vímuefnaneysla sé að breiðast út um allt land. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi sem Alþingi verður að bregðast við með auknum forvörnum, aðstoð við unglinga og harðari refsingum við smygli og sölu fíkniefna.

Húsnæðismál.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er boðaður verulegur niðurskurður til bygginga nýrra íbúða á vegum Byggingarsjóðs verkamanna. Samdrátturinn er skýrður með því að húsnæði standi autt í 25 sveitarfélögum. Ýmislegt bendir þó til þess að reyndin sé önnur. Allt annað ástand blasir við á höfuðborgarsvæðinu þar sem hundruð fjölskyldna bíða eftir félagslegu húsnæði. Það hefur hins vegar komið í ljós að eftirspurn er mun meiri eftir gömlum íbúðum eða húsnæði í eldri hverfum. Minni hlutinn varar við því að nota ástandið úti á landi sem röksemd fyrir niðurskurði sem bitnar á þeim sem mest þurfa á félagslegu húsnæði að halda. Það á að beina peningunum þangað sem þörfin er og beina sjónum í mun ríkari mæli en hingað til að eldra húsnæði og byggingu eða kaupum á leiguhúsnæði. Í starfi nefndarinnar og í heimsókn nokkurra þingmanna Reykjavíkur til húsnæðisnefndar borgarinnar kom fram ósk um að það fólk sem býr í félagslegum kaupleiguíbúðum sem leigjendur sitji við sama borð og aðrir leigjendur hvað varðar húsaleigubætur og viljum við vekja sérstaka athygli á þeirri beiðni. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 kemur fram að hugmyndir séu um að ríkið hætti þátttöku í kostnaði við húsaleigubætur. Það teljum við varhugavert nema að undangengnum samningum við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar sem framkvæmd húsaleigubóta væri tryggð, því annars væri grunninum kippt undan þessu bótakerfi og þau sveitarfélög, sem ákveðið hafa að greiða ekki húsaleigubætur fengju, þar með sannanir fyrir því sem var þeirra aðalröksemd gegn bótum: að þær mundu standa stutt við og að þeim yrði fyrr en varði komið yfir á sveitarfélögin.

Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Þjóðhagsstofnun spáir því að atvinnuleysi verði á næsta ári svipað og verið hefur eða um 4,8%. Það þýðir veruleg útgjöld til atvinnuleysismála eins og á undanförnum árum. Ríkisstjórnin ætlar að hluta til að leysa vandann með því að hækka tryggingagjald um 0,5%. Undirritaðir nefndarmenn hafa miklar áhyggjur af því hvort tryggð sé fjármögnun á námskeiðum og fræðslu fyrir atvinnulausa og telja að miklu betur þurfi að gera til að skapa atvinnulausu fólki nýja möguleika til menntunar og vinnu. Í athugasemdum með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er sagt að meðal annars standi til að tryggja að atvinnulausu fólki verði boðin laus störf og að það hætti að fá bætur taki það ekki tilboðinu. Ekki er ljóst hvað við er átt, t.d. hvort fólk hafi ekki rétt til að neita starfi í öðrum landshluta. Þarna þarf að fara varlega því margt getur hamlað því að fólk taki starfi. Við eigum að læra af reynslu annarra í þessum efnum, t.d. Dana sem segja nú að allt of seint hafi verið gripið til þess ráðs að bjóða upp á hvers kyns menntun og endurmenntun sem reynst hefur besta leiðin til að draga úr atvinnuleysi og þeim mikla félagslega vanda sem það skapar.

Alþingi, 24. nóv. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.





Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og beiðni fjárlaganefndar frá 14. október 1995.
    Nefndin fékk á sinn fund til að ræða framtíðarsýn í heilbrigðismálum þau Ástu Möller hjúkrunarfræðing og Ólaf F. Magnússon lækni. Þá kynnti nefndin sér sérstaklega þróun og málefni sjúkrahúsa og komu á fund nefndarinnar vegna þessa frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur þau Jóhannes Pálmason forstjóri, Jóhannes Gunnarsson lækningaforstjóri, Sigríður Snæbjörnsdóttir hjúkrunarforstjóri, Magnús Skúlason og Logi Guðbrandsson framkvæmdastjóri, svo og Bjarni Arthúrsson framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands.
    Enn fremur komu á fund nefndarinnar til að ræða fjárhagsstöðu geðdeilda þau Tómas Helgason, yfirlæknir á geðdeild Landspítalans, og Valgerður Baldvinsdóttir, læknir á barna- og unglingageðdeild, og til að ræða málefni glasafrjóvgunardeildar Landspítala komu Reynir Tómas Geirsson, yfirlæknir kvennadeildar Landspítala, og Þórður Óskarsson, læknir á glasafrjóvgunardeildinni.
    Ólafur Ólafsson landlæknir, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir og Vilborg Ingólfsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur komu einnig á fund nefndarinnar fyrir hönd landlæknisembættisins.
    Loks fékk nefndin á sinn fund frá Öryrkjabandalagi Íslands þau Ólöfu Ríkharðsdóttur og Helga Seljan, Pál Gíslason, formann Félags eldri borgara í Reykjavík, Ólaf Jónsson, formann Landssambands aldraðra, og Guðríði Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Landssambands aldraðra og Félags eldri borgara í Reykjavík.
    Verður hér gerð grein fyrir því helsta sem fram kom í máli framangreindra aðila:
    Hjá Ástu Möller og Ólafi F. Magnússyni kom fram að leggja þyrfti áherslu á að efla rekstur heilbrigðisstofnana í stað þess að leggja mikið fjármagn í að byggja nýtt húsnæði.
    Fram kom í máli forsvarsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur að í kjölfar sameiningar Borgarspítala og Landakotsspítala hafi orðið veruleg lækkun á fjárveitingum og rekstrarkostnaði og því ljóst að ávinningur er mikill nú þegar, þó að formlega verði sameining ekki fyrr en um næstu áramót. Þeir bentu þó á að fyrirhuguð hagræðing af sameiningu næðist ekki að fullu nema ný skrifstofuaðstaða fengist og jafnframt skapaðist þá meira rými á spítalanum í Fossvogi. Í máli þeirra kom einnig fram að nauðsynlegt er að huga frekar að endurnýjun og viðhaldi búnaðar og tækja sem eru mörg orðin úrelt og úr sér gengin. Þá lýstu forsvarsmenn sjúkrahússins yfir áhyggjum sínum vegna lækkunar framlaga til reksturs.
    Framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands gerði nefndinni grein fyrir stöðu sjúkrahússins og aðstöðu sjúkrahúsa á landsbyggðinni gagnvart sjúkrastofnunum í Reykjavík. Kom fram í máli hans að inniliggjandi sjúklingum hefur fjölgað nokkuð en ferliverkum hins vegar fækkað til muna. Af þessum sökum ykist kostnaður til muna. Taldi hann mega rekja þessa þróun að nokkru leyti til mismunandi reglna um þátttöku sjúklinga í kostnaði og starfsaðferða sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.
    Fram kom á fundi nefndarinnar með fulltrúum frá glasafrjóvgunardeild Landspítalans að um 650 pör eru á biðlista hjá deildinni. Þá kom fram að húsnæði deildarinnar er mjög þröngt, vinnuálag mikið og ekki er rúm fyrir nauðsynlegar tækninýjungar. Læknarnir reifuðu enn fremur óánægju sína með að fyrirhugað er að aukin gjaldtaka vegna glasafrjóvgunarmeðferða á ekki að nýtast til þess að byggja upp deildina, heldur eru framlög til kvensjúkdómadeildar skorin niður sem nemur fyrirhugaðri hækkun.
    Fram kom hjá læknum á geðdeildum Ríkisspítala að 125 millj. kr. vantaði til að hægt væri að halda öllum geðdeildum spítalans opnum. Einnig kom fram að óhagræði hlýst af miklum sparnaði. Ekki er hægt að ljúka verkefnum sem búið er að leggja fjármagn í og þau nýtast ekki að fullu. Þá kom enn fremur fram að sökum fjárskorts er göngudeildarmeðferð fyrir börn og unglinga mjög áfátt.
    Landlæknir kynnti nefndinni þau verkefni sem hann hyggst beita sér fyrir á næstunni. Í erindi hans er að finna ýmsar tillögur um aðgerðir á sviði forvarna sem virðast til þess fallnar að skila í senn verulegum sparnaði, þegar fram í sækir, og bæta heilsu landsmanna. Einnig ræddi hann hugmyndir um sjúkrahótel sem hann taldi geta minnkað mjög rekstrarkostnað sjúkrahúsa.
    Í máli fulltrúa aldraðra og öryrkja kom fram að mikil óánægja ríkir með að lífeyrisgreiðslur skuli ekki hækka til samræmis við verðlag og laun í landinu. Þá bentu fulltrúar þessara hópa á að fjölmargir aldraðir og sjúkir bíða eftir þjónustu heilbrigðisstofnana. Einnig kom fram í máli þeirra óánægja með áform um að fjármagnstekjur skerði lífeyri. Sömuleiðis vöktu þeir máls á áhyggjum umbjóðenda sinna yfir því að þeim sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóði verði reiknaðar tekjur eins og iðgjöld hefðu verið greidd.
    Að lokum bendir meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar á að sjálfvirk þensla í heilbrigðiskerfinu veldur því að brýnt er að leita skynsamlegra úrræða til að sporna við síauknum kostnaði.
    Að öðru leyti munu einstakir nefndarmenn gera grein fyrir viðhorfum sínum við 2. umræðu fjárlaga.

Alþingi, 27. nóv. 1995.



Siv Friðleifsdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Katrín Fjeldsted.


Sólveig Pétursdóttir.


Guðni Ágústsson.


Guðmundur Hallvarðsson.





Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og beiðni fjárlaganefndar frá 14. október 1995.
    Nefndin fékk á sinn fund til að ræða framtíðarsýn í heilbrigðismálum þau Ástu Möller hjúkrunarfræðing og Ólaf F. Magnússon lækni. Þá kynnti nefndin sér sérstaklega þróun og málefni sjúkrahúsa og komu á fund nefndarinnar vegna þessa frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur þau Jóhannes Pálmason forstjóri, Jóhannes Gunnarsson lækningaforstjóri, Sigríður Snæbjörnsdóttir hjúkrunarforstjóri, Magnús Skúlason og Logi Guðbrandsson framkvæmdastjóri, svo og Bjarni Arthúrsson, framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands.
    Enn fremur komu á fund nefndarinnar til að ræða fjárhagsstöðu geðdeilda þau Tómas Helgason, yfirlæknir á geðdeild Landspítalans, og Valgerður Baldvinsdóttir, læknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, og til að ræða málefni glasafrjóvgunardeildar Landspítala komu Reynir Tómas Geirsson, yfirlæknir kvennadeildar Landspítala, og Þórður Óskarsson, læknir á glasafrjóvgunardeildinni.
    Ólafur Ólafsson landlæknir, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir og Vilborg Ingólfsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur komu einnig á fund nefndarinnar fyrir hönd landlæknisembættisins.
    Loks fékk nefndin á sinn fund frá Öryrkjabandalagi Íslands þau Ólöfu Ríkharðsdóttur og Helga Seljan, Pál Gíslason, formann Félags eldri borgara í Reykjavík, Ólaf Jónsson, formann Landssambands aldraðra, og Guðríði Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Landssambands aldraðra og Félags eldri borgara í Reykjavík.
    Verður hér gerð grein fyrir því helsta sem fram kom í máli framangreindra aðila:

Sjúkrahús Reykjavíkur.
    Fram kom í máli forsvarsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur að í kjölfar sameiningar Borgarspítala og Landakotsspítala hafi orðið veruleg lækkun á fjárveitingum og rekstrarkostnaði og því ljóst að verulegur ávinningur hefur náðst nú þegar þó að formlega verði sameining ekki fyrr en um næstu áramót. Þeir bentu þó á að fyrirhuguð hagræðing af sameiningu næðist ekki að fullu nema ný skrifstofuaðstaða fengist og jafnframt skapaðist þá meira rými á spítalanum í Fossvogi. Forsvarsmenn sjúkrahússins lýstu einnig yfir áhyggjum sínum vegna lækkunar framlaga til reksturs um 225 millj. kr. frá árinu 1995 og telja að leita verði leiða til að ná niður rekstrarhalla þessa árs sem er áætlaður 105 millj. kr. Í máli þeirra kom einnig fram að nauðsynlegt er að huga frekar að endurnýjun og viðhaldi búnaðar og tækja.

Sjúkrahús á landsbyggðinni.

    Framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands gerði nefndinni grein fyrir stöðu sjúkrahússins og aðstöðu sjúkrahúsa á landsbyggðinni gagnvart sjúkrastofnunum í Reykjavík. Kom fram í máli hans að inniliggjandi sjúklingum hefur fjölgað nokkuð en ferliverkum hins vegar fækkað til muna. Af þessum sökum ykist kostnaður til muna. Taldi hann mega rekja þessa þróun að nokkru leyti til mismunandi reglna um þátttöku sjúklinga í greiðslu kostnaðar og starfsaðferða sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.

Glasafrjóvgunardeild Landspítalans.

    Fram kom á fundi nefndarinnar með fulltrúum frá glasafrjóvgunardeild Landspítalans að um 650 pör eru á biðlista hjá deildinni. Einnig kom fram að stór hluti kvenna sem óska eftir meðferð er fæddur fyrir 1960. Flestar þurfa á tveimur eða fleiri meðferðum að halda og er löng bið því mjög slæm. Síðan 1991 hefur meðalaldur kvenna sem fara í fyrstu meðferð hækkað um tvö ár sem rekja má til langs biðtíma eftir meðferð. Þá kom fram að húsnæði deildarinnar er mjög þröngt, vinnuálag mikið og ekki er pláss fyrir nauðsynlegar tækninýjungar. Læknarnir reifuðu enn fremur óánægju sína með að fyrirhugað er að aukin gjaldtaka vegna glasafrjóvgunarmeðferða á ekki að nýtast til þess að byggja upp deildina, heldur eru framlög til kvensjúkdómadeildar skorin niður sem nemur fyrirhugaðri hækkun.

Málefni geðsjúkra.

    Fram kom hjá læknum á geðdeild Landspítala að 125 millj. kr. vantaði upp á að hægt væri að halda öllum geðdeildum spítalans opnum. Einnig kom fram að gífurlegt óhagræði hlýst af miklum sparnaði og ekki er hægt að klára verkefni sem búið er að leggja fjármagn í og þau nýtast þannig ekki að fullu. Þá kom enn fremur fram að sökum fjárskorts er göngudeildarmeðferð fyrir börn og unglinga mjög áfátt, og stendur geðdeildin samsvarandi deildum annars staðar á Norðurlöndum langt að baki að því leyti.

Landlæknir.

    Landlæknir kynnti nefndinni þau verkefni sem hann hyggst beita sér fyrir á næstunni og fór yfir þann fjárstuðning sem nauðsynlegur er til að árangri verði náð. Einnig ræddi hann hugmyndir um sjúkrahótel og taldi hann slík hótel geta sparað mikið fjármagn af rekstrarkostnaði sjúkrahúsa.

Aldraðir og öryrkjar.

    Í máli fulltrúa aldraðra og öryrkja, sem komu á fund nefndarinnar, kom fram að mikil óánægja ríkir með að lífeyrisgreiðslur skuli ekki hækka til samræmis við verðlag og laun í landinu. Þá bentu fulltrúar þessara hópa á að fjölmargir aldraðir og sjúkir bíða eftir þjónustu heilbrigðisstofnana. Einnig kom fram í máli þeirra óánægja með fyrirætlanir um að leggja fjármagnstekjuskatt óbeint á ellilífeyrisþega þannig að lífeyrir skerðist. Sömuleiðis vöktu þeir máls á áhyggjum umbjóðenda sinna yfir því að þeim, sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóði, verði reiknaðar tekjur eins og iðgjöld hefðu verið greidd.

Niðurstaða.

    Við undirritaðir nefndarmenn teljum að brýn þörf sé á heildarstefnumörkun í heilbrigðismálum þjóðarinnar og að ekki verði gengið lengra í handahófskenndum niðurskurði og sparnaði í velferðarþjónustunni. Því mótmælum við þeim hugmyndum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996.
    Við lýsum andstöðu við aukna gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og teljum að ekki megi víkja frá þeim meginþætti í heilbrigðislöggjöf okkar að ekki skuli mismuna þegnum eftir efnahag. Það mun gerast ef tekin verða upp innritunargjöld á sjúkrahús eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Fyrirhuguð aftenging elli- og örorkulífeyris almannatrygginga við þróun launa á vinnumarkaði og afnám eingreiðslna til lífeyrisþega mun þýða verulega kjaraskerðingu fyrir þennan hóp. Hvetja undirritaðir nefndarmenn í heilbrigðis- og trygginganefnd fjárlaganefnd til að koma í veg fyrir slíkt misrétti.

Alþingi, 28. nóv. 1995.



Össur Skarphéðinsson, form.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Ögmundur Jónasson.





Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 14. október 1995. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Þorkel Helgason, ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins, Kristmund Halldórsson, deildarstjóra í iðnaðarráðuneytinu, Jakob Björnsson orkumálastjóra, Hallgrím Jónasson, forstjóra Iðntæknistofnunar, Kristján Jónsson, forstjóra Rarik, og Eirík Briem, fjármálastjóra Rarik.
    Nefndin ítrekar enn þá afstöðu sem sett hefur verið fram í álitum hennar á undanförnum árum að nauðsynlegt sé að koma betri skipan á samskipti fjárlaganefndar og fagnefnda við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Um leið fagnar nefndin því að fjárlaganefnd hyggst ræða við formenn einstakra fagnefnda um álit viðkomandi nefndar og telur að hér sé um að ræða skref í rétta átt að skipulegri samskiptum nefndanna við gerð fjárlaga.
    Í framhaldi af þeirri umræðu, sem varð um málið, vill nefndin vekja athygli á eftirfarandi atriðum:

1. Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik.
a. Óveðurstjón.
    Verulegt tjón varð á dreifikerfi Rarik í óveðri sem geisaði í lok október og er metið á um 210 millj. kr. Í samræmi við ákvörðun stjórnvalda er Rarik ekki tryggt fyrir slíku tjóni. Telja má að með þeirri ákvörðun taki ríkissjóður á sig ákveðna ábyrgð á tjóni sem þessu og telur iðnaðarnefnd eðlilegt að kanna hvort ekki sé unnt að bæta Rarik tjónið á svipaðan hátt og gert var eftir mikið tjón sem varð á dreifikerfinu 1991. Þá var tjónsupphæðin 250 millj. kr. og greiddi ríkissjóður 200 millj. kr. en Rafmagnsveitur ríkisins greiddu sjálfar 50 millj. kr.

b. Jarðstrengir.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að háspennudreifikerfi í sveitum er um 6.500 km. Rætt hefur verið um hvort leggja megi það í jörðu en almennt er þó talið að ekki sé unnt að ráðast í slíkar stórframkvæmdir. Til að auka rekstraröryggi kerfisins má þó telja raunhæft að leggja um 10–20% af því í jörðu en kostnaður af því er áætlaður allt að 2.000 millj. kr.

c. Arðgreiðslur.
    Í áliti iðnaðarnefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1995 kemur fram að nefnd, sem fjallaði um arðgreiðslur Rarik til ríkissjóðs, hafði ekki lokið störfum þegar iðnaðarnefnd skilaði áliti sínu til fjárlaganefndar. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að árin 1995 og 1996 yrði öllum arði sem Rarik skilar varið til framkvæmda við rafmagnsdreifikerfi í sveitum eða um 100 millj. kr. Jafnframt hefur stofnunin óskað eftir heimild til að veita 100 millj. kr. til viðbótar til styrkingar dreifikerfi í sveitum á næsta ári. Frá og með árinu 1997 mun 65% af arðgreiðslum Rarik verða varið til framkvæmda við dreifikerfi í sveitum og 5% í þróunarverkefni og 30% renna í ríkissjóð.

2. Iðntæknistofnun.
a. Fjármögnun verkefna.
    Nefndin leggur áherslu á að fjármagn til stuðnings- og þróunarverkefna Iðntæknistofnunar verði ekki skert. Iðntæknistofnun á nú í viðræðum við iðnaðarráðuneytið um fjármögnun þessara verkefna og væntir iðnaðarnefnd þess að þær leiði til jákvæðrar niðurstöðu þar sem hér er um að ræða mikilvæga starfsemi sem nauðsynlegt er að sinna.

b. Viðhald bygginga.
    Með stofnun Rannsóknarráðs Íslands árið 1994 tók Bygginga- og tækjasjóður við hlutverki Byggingarsjóðs rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna. Ekki hefur verið gert ráð fyrir framlögum af fjárlögum til viðhalds húsbyggingum Iðntæknistofnunar þar sem slík framlög komu úr Byggingarsjóði sem og framlög til nýbygginga. Huga þarf að fjárveitingum til viðhalds á húsakosti stofnunarinnar í kjölfar þessara breytinga þannig að ekki þurfi að taka fé frá öðrum rekstrarliðum stofnunarinnar vegna viðhalds.

3. Orkustofnun.
    Á síðustu tíu árum hefur starfsmannahald Orkustofnunar dregist verulega saman. Þar af leiðandi hefur stofnunin síður getað sinnt dýrum rannsóknum. Iðnaðarnefnd gerir ekki sérstakar athugasemdir við fjárveitingar til Orkustofnunar en minnir á stöðugt og áframhaldandi mikilvægi þeirra verkefna sem stofnunin vinnur að sem mörg hver eru langtímaverkefni.

4. Nefnd um starfsemi Orkustofnunar og Iðntæknistofnunar.
    Iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd sem ætlað er að kanna ýmsa þætti í starfsemi Orkustofnunar og Iðntæknistofnunar, m.a. hugsanlega sameiningu stofnananna, og er henni ætlað að skila skýrslu eigi síðar en í janúar á næsta ári. Iðnaðarnefnd mun kynna sér rækilega niðurstöður þessara nefndarstarfa þegar þær liggja fyrir.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.
    Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóv. 1995.



Stefán Guðmundsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Svavar Gestsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Viktor B. Kjartansson.


Drífa Sigfúsdóttir.


Katrín Fjeldsted.





Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



1. Inngangur.
    Nefndin hefur farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og beiðni fjárlaganefndar frá 14. október 1995.
    Nefndin fékk á sinn fund Ingimar Jóhannsson, deildarsérfræðing í landbúnaðarráðuneyti, og Ingólf Bender frá fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Ari Teitsson formaður og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Gísli Karlsson frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Árni Ísaksson veiðimálastjóri, Þröstur Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Ólafur Guðmundsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Loks komu til fundar við nefndina Jón Bjarnason, skólastjóri Bændaskólans á Hólum, Magnús B. Jónsson, skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, og Grétar Unnsteinsson, skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins.

2. Jarðræktarframlög.
    Vakin er athygli á því að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum framlögum samkvæmt jarðræktarlögum. Ekki hefur fengist fé fyrir fjölda styrkhæfra framkvæmda frá árunum 1992–94. Meiri hluti landbúnaðarnefndar beinir því til fjárlaganefndar að mikilvægt er að gera þessi framlög upp. Jarðræktarstyrkir eru inni í útreikningi á verðlagsgrunni búvara. Vinna er lögð í að taka út styrkhæf verkefni á hverju ári. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að gera upp skuldir vegna jarðræktarstyrkja og móta verðstefnu til frambúðar.

3. Landgræðsla og skógrækt.
    Meiri hluti landbúnaðarnefndar lýsir yfir áhyggjum af því að framlög til fyrirhleðslna lækka stöðugt. Matsnefndir fyrirhleðslna sem starfa í öllum sýslum landsins, samkvæmt lögum um landbrot af völdum fallvatna, nr. 43/1975, með síðari breytingum, hafa gert úttektir á þessum vanda í viðkomandi sýslum. Ljóst er að landeyðing er mest og hröðust á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra. Landgræðslan hefur raðað verkefnum í forgangsröð en hún breytist frá ári til árs. Fjögur brýnustu verkefnin nú eru við Markarfljót, Jökulsá á Dal, Skaftá og Jökulsá í Lóni. Meiri hluti landbúnaðarnefndar leggur áherslu á að gera þurfi langtímaáætlun um þessi mál og stefna að því að ákvörðunarvald og áætlanagerðir séu ekki á margra hendi.
    Fulltrúi Skógræktarinnar lýsti því yfir að þar væru menn mótfallnir því að Rannsóknastöð Skógræktarinnar að Mógilsá yrði sameinuð Rannsóknastofnun landbúnaðarins og ekki talið að sameining Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar leiði til sparnaðar eða bættra rannsókna. Í sama streng tók landgræðslustjóri. Nú þegar er mikil samvinna fyrir hendi.

4. Veiðimálastofnun.
    Veiðimálastjóri benti á að í fjárlagalið til Veiðimálastofnunar í frumvarpi til fjárlaga væri niðurskurður um 9% miðað við fjárlög 1995. Framlög til annarra stofnana, sem annast rannsóknir, t.d. Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, væru hins vegar einungis skorin niður um 2%. Með þessum niðurskurði taldi hann hætt við að landsbyggðardeildir yrðu verst úti.

5. Yfirdýralæknir.
    Meiri hluti landbúnaðarnefndar bendir á að niðurskurður til embættis yfirdýralæknis hefur sætt gagnrýni og nemur lækkunin að raunvirði um 10% á milli ára. Ljóst þykir að draga verður úr allri starfsemi embættisins, m.a. rannsóknum á sjúkdómavörnum. Stefnt hafði verið að óbreyttum rekstri og því að bæta við einu stöðugildi til að auka eftirlit vegna skuldbindinga í tengslum við GATT-samninginn. Verkefni embættisins hafa einnig aukist við aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Efasemdir eru því m.a. um að skuldbindingum vegna GATT verði fullnægt nema þá með því að skera verulega niður aðra þætti í starfsemi embættisins.

6. Bændaskólar og Garðyrkjuskóli ríkisins.
    Skólastjórar bændaskólanna á Hvanneyri og Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins lýstu yfir áhyggjum sínum yfir þeirri boðuðu stefnu að sameina rannsóknir í landbúnaði undir eina stofnun, Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins. Þeir lögðu áherslu á hlutverk skólanna í þessu sambandi og að rannsóknarverkefni, sem þar er nú sinnt, verði ekki færð frá skólunum.

7. Loðdýrarækt.
    Meiri hluti landbúnaðarnefndar telur að skoða þurfi vel stöðu loðdýraræktenda. Fulltrúar loðdýrabænda hafa sent nefndinni erindi og komið á hennar fund og gert grein fyrir fjárhagsörðugleikum þeirra. Í fyrsta sinn í mörg ár er eftirspurn eftir skinnum meiri en framboð. Meiri hluti nefndarinnar vill benda á að refarækt gengur núna án styrkja en minkaræktin hefur fengið umtalsvert fé í fóðurniðurgreiðslur. Nefndin telur að ef engar niðurgreiðslur fást samkvæmt fjárlögum eða frá Framleiðnisjóði gæti það valdið hruni greinarinnar.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. nóv. 1995.



Guðni Ágústsson, form.


Egill Jónsson.


Magnús Stefánsson.


Guðjón Guðmundsson.


Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.


Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.





Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



1. Inngangur.
    Nefndin hefur farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og beiðni fjárlaganefndar frá 14. október 1995.
    Nefndin fékk á sinn fund Ingimar Jóhannsson, deildarsérfræðing í landbúnaðarráðuneyti, og Ingólf Bender frá fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Ari Teitsson formaður og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Gísli Karlsson frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Árni Ísaksson veiðimálastjóri, Þröstur Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Ólafur Guðmundsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Loks komu til fundar við nefndina Jón Bjarnason, skólastjóri Bændaskólans á Hólum, Magnús B. Jónsson, skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, og Grétar Unnsteinsson, skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins.

2. Skólamál.
    Minni hluti nefndarinnar telur rétt að fjárveitingar verði auknar til sérskóla landbúnaðarins, þ.e. bændaskólanna og Garðyrkjuskólans, að því tilskildu að samvinna verði mikil milli skólanna eins og nú er, rannsóknir samhæfðar og skólarnir verði ótvírætt hluti stefnumörkunar á sviði menntamála, svo sem háskólamenntunar.

3. Rannsóknir.
    Brýnt er að sameina rannsóknir í landbúnaði eins og hægt er, m.a. með samvinnu og/eða sameiningu stofnana.

4. Landgræðsla og skógrækt.
    Því er beint til fjárlaganefndar að kanna ítarlega hagkvæmni þess að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.

5. Yfirdýralæknir.
    Minni hluti nefndarinnar telur rétt að fjárveitingar verði auknar til embættis yfirdýralæknis vegna skuldbindinga í tengslum við GATT-samninginn. Verkefnum embættisins hefur einnig fjölgað við aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

6. Búvörusamningur.
    Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu eru verulegar samkvæmt frumvarpinu en það mál er í vinnslu í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum, vegna staðfestingar á nýjum búvörusamningi. Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu eru 2.612 millj. kr. á næsta ári. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða og er tímabært að endurskoða fyrirkomulag opinberra framlaga vegna mjólkurframleiðslu.

7. Fyrirhleðslur.
    Minni hluti nefndarinnar bendir á að Vegagerðin ætti að koma meira að málum er varða fyrirhleðslur en það er brýnt verkefni eins og fram kom á fundum nefndarinnar.

8. Ýmislegt.
    Umtalsverðum fjármunum er varið til Bændasamtaka Íslands. Ástæða er til að endurskoða stoðkerfi landbúnaðarins og tengsl þess við ríkisvaldið. Jafnframt er því varpað fram hvort nauðsynleg starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins ætti betur heima innan Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu Íslands.

Alþingi, 23. nóv. 1995.



Ágúst Einarsson.


Lúðvík Bergvinsson.





Fylgiskjal IX.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá menntamálanefnd.



    Menntamálanefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við beiðni fjárlaganefndar, sbr. bréf dags. 14. október 1995, farið yfir þann kafla frumvarps til fjárlaga sem er á hennar málefnasviði.
    Nefndin fékk á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Örlyg Geirsson skrifstofustjóra og Ólaf Darra Andrason deildarsérfræðing og frá fjármálaráðuneyti Leif Eysteinsson deildarstjóra. Þá komu á fund nefndarinnar frá Stúdentaráði Háskóla Íslands þeir Guðmundur Steingrímsson formaður og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lánasjóðsfulltrúi og frá Lánasjóði íslenskra námsmanna Lárus Jónsson framkvæmdastjóri og Gísli Fannberg deildarstjóri.
    Þeir fjárlagaliðir, sem snúa að menntamálum, voru ítarlega ræddir á fundum nefndarinnar.
    Menntamálanefnd telur gagnlegt að fara yfir frumvarp til fjárlaga með þeim hætti sem nú er gert þar sem við yfirferð koma fram upplýsingar sem veita nefndinni betri yfirsýn yfir málefnasvið sitt. Nefndin gerir ekki tillögur um breytingar á einstökum liðum frumvarpsins en bendir á eftirfarandi atriði sem komu fram í máli gesta er komu á fund nefndarinnar:
    Í máli fulltrúa frá Lánasjóði íslenskra námsmanna kom fram að skipuð hefur verið nefnd sem vinnur að endurskoðun laga um lánasjóðinn. Þá er komin fram skýrsla Ríkisendurskoðunar um lánasjóðinn sem varpar ljósi á fjárhagsstöðu sjóðsins. Í ljósi þessa þykir ekki ástæða til að fjalla nánar um málefni lánasjóðsins að svo stöddu.
    Fulltrúar stúdenta sem komu á fund nefndarinnar lýstu áhyggjum sínum yfir því að framlög til Rannsóknarnámssjóðs og Nýsköpunarsjóðs námsmanna hafa verið skert nokkuð frá síðasta ári. Sjóðir þessir, sem eru nýjungar, hafa sannað gildi sitt og er ástæða til að styrkja þá frekar. Þá eru hugmyndir um aðstoðarmannakerfi við Háskóla Íslands athygliverðar en þær þykja líklegar til að stuðla að því að kennarar hljóti meira svigrúm til rannsókna, stúdentar öðlist reynslu sem nýtist þeim á vinnumarkaði eða í framhaldsnámi og gæti slíkt kerfi að einhverju leyti minnkað þörf nemenda fyrir lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera nánar grein fyrir afstöðu sinni í umræðum um frumvarpið og flytja við það breytingartillögur.
    Tómas Ingi Olrich var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. nóv. 1995.



Sigríður A. Þórðardóttir, form.


Ólafur Örn Haraldsson.


Drífa Sigfúsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.


Árni Johnsen.


Guðný Guðbjörnsdóttir.



Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin fékk á sinn fund Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu. Þá komu til fundar við nefndina Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerð ríkisins, Hermann Guðjónsson, vita- og hafnamálastjóri, og Benedikt Árnason, viðskiptafræðingur frá Vita- og hafnamálastofnun, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Haukur Hauksson og Jóhann Jónsson frá Flugmálastjórn og loks Magnús Oddsson framkvæmdastjóri og Birgir Þorgilsson frá Ferðamálaráði.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir umtalsverðum niðurskurði til allra helstu framkvæmdaflokka samgöngumála og er það verulegt áhyggjuefni.
    Niðurskurður til vegamála samkvæmt frumvarpinu er um 700 millj. kr. miðað við vegáætlun en um 350 millj. kr. miðað við síðustu fjárlög. Heildarfjárframlög til rekstrar Vegagerðarinnar og hvers konar framkvæmda í vegamálum voru á fjárlögum þessa árs 7.425 millj. kr. en samsvarandi fjárhæð í fjárlagafrumvarpinu er 6.913 millj. kr., þar af er gert ráð fyrir að framlög til reksturs ferja og flóabáta séu óbreytt milli ára.
    Framlög til vita- og hafnamála lækka um 91,5 millj. kr. frá fjárlögum ársins í ár í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1996. Heildarframlög samkvæmt núgildandi fjárlögum nema 783,6 millj. kr. en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 692,1 millj. kr. Ljóst er að ef litið er til lengri tíma hafa framlög til framkvæmda í hafnarmálum dregist verulega saman og því blasir við að fresta verður framkvæmdum á næsta ári miðað við óbreytta fjárlagatölu. Þess ber að geta að gerð hefur verið úttekt á stöðu 60 hafnarsjóða og í ljós kom að 34 hafnarsjóðir hafa enga eða litla fjárhagslega getu til að standa við heimahluta framkvæmda og þar að auki er í 27 tilfella veikur sveitarsjóður á bak við hafnarsjóð.
    Framlög til framkvæmda og reksturs flugvalla eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 501,3 millj. kr., þar af 203 millj. kr. til framkvæmda. Fulltrúar Flugmálastjórnar lýstu yfir áhyggjum vegna niðurskurðar til flugmála. Ljóst er að fresta verður framkvæmdum við ýmsa flugvelli vegna fjárskorts ef tekið er mið af fjárlagafrumvarpinu. Fjárveitingar til framkvæmda verða 150 millj. kr. lægri en í gildandi fjárlögum og 190 millj. kr. lægri en tekjustofnar flugáætlunar gera ráð fyrir sem er um 50% niðurskurður. Fram undan eru mörg brýn verkefni og ber þar hæst stórverkefni á Reykjavíkurflugvelli sem orðið er mjög aðkallandi.
    Framlög til Ferðamálaráðs hafa ekki haldið raungildi sínu á undanförnum árum. Heildarframlögin eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 115,2 millj. kr. Sérstakar fjárveitingar til landkynningar hafa þó auðveldað að halda uppi starfseminni. Mikilvægt er að verja fjármagni til rannsókna og þróunarstarfsemi í ferðamálum. Það er álit samgöngunefndar að forsenda fyrir aukinni sókn í ferðamálum sé að þeim málum verði betur sinnt.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera nánar grein fyrir afstöðu sinni í umræðu um fjárlagafrumvarpið og flytja við það breytingartillögur.

Alþingi, 24. nóv. 1995.



Einar K. Guðfinnsson, form.


Magnús Stefánsson.


Árni Johnsen.


Stefán Guðmundsson.


Egill Jónsson.


Kristján Pálsson.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Ragnar Arnalds.





Fylgiskjal XI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar, sbr. bréf frá 14. október sl., farið yfir þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Nefndin fékk á sinn fund frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra og Arndísi Steinþórsdóttur skrifstofustjóra. Þá komu á hennar fund Jakob Jakobsson, Jóhann Sigurjónsson og Vignir Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnun, Grímur Valdimarsson og Jón Heiðar Ríkharðsson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og loks Bjarni Kr. Grímsson, Hjörtur Gíslason og Kristján Loftsson frá Fiskifélagi Íslands.
    Þeir fjárlagaliðir sem snúa að sjávarútvegsmálum voru ítarlega ræddir á fundum nefndarinnar.
    Í máli fulltrúa Hafrannsóknastofnunar kom fram eindregin ósk um fjárveitingu til að hleypa af stokkunum sérstöku „haustralli“ og „þorsknetaralli“ sem lið í að efla stofnrannsóknir. Þá telur stofnunin brýnt að efla rannsóknir á djúpslóð vegna síaukinna úthafs- og djúpvatnsveiða. Sjávarútvegsnefnd er hlynnt báðum þessum verkefnum og telur mikilvægt að reynt verði að koma til móts við óskir stofnunarinnar að þessu leyti. Á fundi nefndarinnar með Hafrannsóknastofnun var spurt um stöðu rannsókna á áhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríkið. Í ljós kom að stofnunin hefur haft lítið bolmagn til að sinna þeim rannsóknum og telur sjávarútvegsnefnd það miður. Í þessu sambandi má minna á umfjöllun í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar um öflugar líffræði- og hagkvæmnirannsóknir og nauðsyn þess að bæta umgengni um auðlindir sjávar, sem og að í verkefnaskrá sjávarútvegsráðuneytisins frá 20. apríl 1995 er sérstaklega vikið að samanburðarrannsóknum á áhrifum mismunandi veiðarfæra. Nefndin telur kominn tíma til að huga að endurnýjun á skipakosti Hafrannsóknastofnunar, en til að geta sinnt rannsóknum á djúpslóð er nauðsynlegt að fá stærra og öflugra rannsóknaskip.
    Fulltrúar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sem og ráðuneytisins lögðu áherslu á nauðsyn þess að vinna meira að rannsóknum á nýtingu vannýttra tegunda. Sérstaklega var bent á nauðsyn sýnatöku og rannsókna vegna fyrirhugaðra nytja á kúfiski. Nefndin tekur undir að það sé slæmt að skortur á fé til nauðsynlegra rannsókna og sýnatöku hamli nýtingu vannýttra fisktegunda og leggur því til að stofnunin fái aukið fé til þessa á næsta ári, a.m.k. 3–5 millj. kr. Þá bentu fulltrúar stofnunarinnar á að mörg helstu viðskiptalönd Íslands gerðu sífellt meiri heilbrigðiskröfur og kröfur um upplýsingar í sambandi við kaup á sjávarfangi. Nauðsynlegt væri að fylgja þessari þróun og efla rannsóknir á lífríki sjávar og ýmsum umhverfisþáttum.
    Sjávarútvegsnefnd telur að undirbúa þurfi betur fyrirhuguð útboð á upplýsingaöflun sem minnst er á í lið 1 42 í frumvarpinu og eyða þeirri óvissu sem þetta mál skapar fyrir Fiskifélag Íslands. Nefndin beinir þeim tilmælum til fjárlaganefndar að hún skoði þetta mál vel með ráðuneytinu og Fiskifélaginu áður en gengið verður endanlega frá fjárlögum næsta árs. Sjávarútvegsnefnd telur jafnframt að sjóvinnukennsluverkefnið, sem Fiskifélagið óskar eftir stuðningi við, sé mjög þarft málefni og því nauðsynlegt að fjárlaganefnd leiti leiða til að styðja við það verkefni. Nefndin telur hins vegar að nauðsynlegt sé að endurskoða tilhögun starfsmenntunar og námskeiðahalds sem tengist sjávarútveginum og bendir á áherslur í framhaldsskólafrumvarpi um að efla verkmenntun innan skólanna í samvinnu við atvinnulífið. Þá leggur nefndin áherslu á að Fiskifélagið fái áframhaldandi stuðning til reksturs tæknideildar þar sem sú starfsemi sem þar fer fram, m.a. rannsóknir á toggetu fiskiskipa, er sérlega mikilvæg fyrir togveiðar í heild sinni og ekki fyrirsjáanlegt hver mundi annast slíkar rannsóknir ef frekari fjárstyrkur verður ekki veittur. Sjávarútvegsnefnd gerir þá tillögu að Fiskifélagið fái 5 millj. kr. til reksturs tæknideildarinnar á næsta ári.
    Þá vill sjávarútvegsnefnd taka undir það sem fram kom bæði hjá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneyti að mjög mikilvægt er að halda áfram rannsókna- og tilraunastarfi á klaki og eldi lúðu. Þar geta legið miklir möguleikar í framtíðinni og íslenskir vísindamenn hafa þegar náð árangri sem skipar okkur í fremstu röð. Þessu starfi verður að fylgja eftir, m.a. með stuðningi við eldistilraunir sem nú er komin röðin að.
    Loks vill sjávarútvegsnefnd vekja athygli fjárlaganefndar á því að fjárlagaliðinn 1 41, Lúðueldi á Reykjanesi, væri réttara að nefna t.d. „Tilraunastöðin á Stað“ miðað við að sú starfsemi sem nú fer þar fram er alls ekki bundin við lúðueldi.

Alþingi, 22. nóv. 1995.



Steingrímur J. Sigfússon, form.


Stefán Guðmundsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Ólafur Hannibalsson.


Drífa Sigfúsdóttir.


Sighvatur Björgvinsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Viktor B. Kjartansson.





Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.



    Umhverfisnefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 14. október 1995 farið yfir þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem snýr að hennar málefnasviði.
    Nefndin fékk til viðræðna við sig Þórð H. Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneyti, og skýrði hann þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá kom á fund nefndarinnar Magnús Jónsson veðurstofustjóri. Einnig átti nefndin fund með Náttúruverndarráði og starfsmönnum þess um þann hluta fjárlagafrumvarps sem að ráðinu snýr.
    Nefndin gerir ekki formlegar breytingartillögur við einstaka liði þess þáttar fjárlagafrumvarpsins sem heyrir undir málefnasvið hennar en leggur áherslu á eftirfarandi atriði:
    Fulltrúar Náttúruverndarráðs vöktu athygli umhverfisnefndar á því að áætlað framlag til almenns reksturs ráðsins dugar ekki til að ráðið geti rækt nægilega vel það hlutverk sem því er ætlað í lögum. Kom fram í máli þeirra að 3–5 millj. kr. vantar til að hægt sé að sinna þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að ljúka eða hefja vinnu við á árinu. Er þar m.a. um að ræða verndaráætlanir fyrir Jökulsárgljúfur og Skaftafell, rannsóknir og uppbyggingu hverasvæðisins við Geysi og skipulagningu friðlýsts svæðis á Búðum. Beinir nefndin því til fjárlaganefndar að þetta verði skoðað sérstaklega.
    Að því er varðar fjárhagsvanda Hollustuverndar ríkisins vísar nefndin til þess að fulltrúar frá fjárlaganefnd og umhverfisráðuneyti vinna nú að lausn málsins. Í ljósi þess þykir nefndinni ekki ástæða til að fjalla nánar um málið að svo stöddu.
    Fram kom í máli veðurstofustjóra að skortur á rekstrarfé hamlar því að Veðurstofa Íslands geti tekið tilboðum sem borist hafa stofnuninni um fjármögnun og uppsetningu á jarðskjálftamælum víðs vegar um landið. Þá benti hann einnig á að vegna aukinnar eftirspurnar væru veðurspár orðnar markaðsvara sem skilað gætu verulega auknum sértekjum í framtíðinni, en vegna skorts á stofnfjármagni væri ekki hægt að nýta þessa nýju markaðsmöguleika. Var það mat hans að í verkefnið þyrfti að leggja u.þ.b. 10 millj. kr. á ári næstu tvö til þrjú ár. Vekur umhverfisnefnd athygli fjárlaganefndar á málinu.
    Loks beinir umhverfisnefnd því til fjárlaganefndar að nefndin taki til greina þá ósk veðurstofustjóra að Veðurstofunni verði veitt 3,5 millj. kr. framlag á fjáraukalögum ársins 1995 vegna kostnaðarauka er orðið hefur af aukinni veðurþjónustu við snjóflóðasvæði og snjóflóðaeftirliti á Vestfjörðum, auk þess sem kostnaður af framkvæmdum við húsnæði reyndist hærri en gert var ráð fyrir.
    Tómas Ingi Olrich og Hjörleifur Guttormsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóv. 1995.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Gísli S. Einarsson.


Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Kristín Halldórsdóttir.


Katrín Fjeldsted.


Ólafur Hannibalsson.





Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.



     Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 14. október 1995. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Benedikt Jónsson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu.
    Í framhaldi af þeirri umræðu, sem varð um málið í nefndinni, vill hún vekja athygli á eftirfarandi atriðum:
    Á liðnu kjörtímabili fjallaði nefndin nokkuð um málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og hefur ákveðið að skoða þau sérstaklega áfram. Nefndin leggur áherslu á að rekstri flugstöðvarinnar verði þannig hagað að tryggt sé að hún standi undir þeim lánum er á henni hvíla og verði ekki fjárhagslegur baggi á ríkissjóði. Enn fremur mun nefndin kynna sér vegabréfaeftirlit og tollskoðun í stöðinni og hugsanleg áhrif hins svonefnda „Schengen-samkomulags“ á þá þætti og á fjármál stöðvarinnar.
    Nefndarmenn ræddu nokkuð framlög Íslands til þróunarmála en þau verða samkvæmt frumvarpinu 264,4 millj. kr. og lækka um 13,4 millj. kr. milli ára. Framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verða 152,6 millj. kr. og lækka um 8 millj. kr. en framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi verða 111,8 millj. kr. og lækka um 5,4 millj. kr. á milli ára. Nefndarmenn minna á að vorið 1985 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að Íslendingar skyldu á næstu sjö árum þar á eftir ná því marki að verja 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar á hverju ári. Langt er í land með að þetta markmið náist. Nefndin fagnar því að áætlað er að veita 3,5 millj. kr. til Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna.
    Nefndin vekur athygli á erindi Menntastofnunar Íslands og Bandaríkjanna, Fulbright-stofnunarinnar, þar sem farið er fram á hækkun framlags um 2,5 millj. kr. Nefndin telur æskilegt, ekki síst í ljósi sívaxandi tengsla við Evrópu, að styrkja eftir megni fjárhagsgrundvöll tengsla Íslands og Bandaríkjanna á sviði menntamála.
    Nefndarmenn eru almennt sammála um að tímabært sé orðið að endurskoða lög nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, og vænta þess að eiga samstarf við utanríkisráðuneytið um slíka endurskoðun.
    Að lokum mælist nefndin til þess að hugsanleg aðild Íslands að Norður-Suðurstofnun Evrópuráðsins, sem staðsett er í Portúgal, verði könnuð. Talið er að árlegur kostnaður geti numið um 300.000 kr.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma við þá hluta fjárlagafrumvarpsins er undir nefndin heyra.
    Tómas Ingi Olrich var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóv. 1995.



Geir H. Haarde, form.


Ólafur Ragnar Grímsson.


Siv Friðleifsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Össur Skarphéðinsson.


Ólafur Örn Haraldsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.