Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 171 . mál.


369. Nefndarálit



um frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og rætt við Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu, Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu, Helgu Jónsdóttur, stjórnarformann Landsvirkjunar, Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, Jóhann Má Maríusson, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Agnar Olsen, framkvæmdastjóra verkfræði- og framkvæmdasviðs Landsvirkjunar, Elías B. Elíasson, deildarstjóra þróunarmála hjá Landsvirkjun, Kristján Gunnarsson, yfirmann fjárhags- og hagmála hjá Landsvirkjun, Stefán Pétursson, deildarstjóra fjármála- og markaðsdeildar Landsvirkjunar, Þorstein Hilmarsson, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, Baldur Guðlaugsson, lögmann Landsvirkjunar, Yngva Harðarson, hagfræðing Landsvirkjunar, Gylfa Ingvarsson, aðaltrúnaðarmann starfsmanna Ísals, Einar Guðmundsson og Rannveigu Rist frá Ísal, Ingvar Viktorsson, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Jóhann G. Bergþórsson, Valgerði Sigurðardóttur, Magnús Jón Árnason, Guðmund Benediktsson og Eyjólf Sæmundsson frá Hafnarfjarðarbæ, en auk þess mætti Eyjólfur á annan fund nefndarinnar fyrir hönd Vinnueftirlits ríkisins. Þá komu Jón Erlingur Jónasson, varaformaður stjórnar Hollustuverndar ríkisins, og Ólafur Pétursson frá Hollustuvernd á fund nefndarinnar. Einnig bárust að ósk iðnaðarnefndar umsagnir efnahags- og viðskiptanefndar og umhverfisnefndar um skattalegar hliðar málsins og umhverfisþætti þess, auk gagna sem gestir lögðu fram.
     Auk þess sem að framan er talið fjallaði iðnaðarnefnd um málið á 119. þingi. Á fundi nefndarinnar 30. maí 1995 gerðu Halldór J. Kristjánsson og Geir A. Gunnlaugsson nefndinni grein fyrir stöðu álviðræðna og 19. júlí 1995 var haldinn sameiginlegur fundur iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra með iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd þar sem kynnt var mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í álverinu í Straumsvík.
     Með viðaukasamningi ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza, sem undirritaður var 16. nóvember 1995 og nú er borinn undir Alþingi til staðfestingar, er áætlað að auka framleiðslugetu álbræðslu Íslenska álfélagsins hf. (Ísals) í Straumsvík úr 100.000 árstonnum í alls 162.000 árstonn í árslok 1997. Til þess að unnt sé að ná því markmiði þarf að reisa nýjan kerskála til álvinnslu með 160 rafgreiningarkerum, auk annarra mannvirkja, svo sem þurrhreinsibúnaðar og viðbótar við álsteypuskála. Þá þarf einnig að bæta hafnaraðstöðu með byggingu nýs 100 m viðlegukants í Straumsvík. Hafnarfjarðarbær mun annast bygginguna sem á að vera lokið áður en rekstur hefst í fyrirhuguðum kerskála. Ísal greiðir kostnað af gerð hafnaraðstöðunnar en verður undanþegið greiðslu vörugjalda fyrir útflutning af áli um það sem nemur framleiðsluaukningu vegna stækkunar fram til 1. október 2014. Stækkun álbræðslunnar leiðir til þess að öll umframorka í raforkukerfi Landsvirkjunar, um 730 gwst. í árslok 1997, fullnýtist auk þess sem ráðast þarf í frekari framkvæmdir til orkuöflunar. Með samningnum um stækkun Ísals er leitast við að gera skattaumhverfi álversins sem líkast því sem önnur fyrirtæki á Íslandi búa við. Vegna viðaukasamningsins hefur fyrirtækið nú fengið útgefið starfsleyfi á grundvelli íslenskra laga en fram til þessa hafa ákvæði um mengunarvarnir og umhverfismál verið hluti af aðalsamningi.
     Eftir nokkurra ára stöðnun í uppbyggingu stóriðju og litlar erlendar fjárfestingar er nauðsynlegt að kanna fyrst hvaða áhrif mætti ætla að viðaukasamningurinn hefði á þjóðarhag. Fjárfesting eykst væntanlega á næstu tveimur árum um 14 milljarða kr. vegna stækkunar álversins og hafnaraðstöðu en um 3 milljarða kr. vegna fjárfestingar í raforkumannvirkjum, eða um 10–11% frá því sem orðið hefði að óbreyttum horfum. Rúmlega þriðjungur þessarar eftirspurnar, um 4,5 milljarðar kr., fer væntanlega til innlendra aðila og væntir meiri hluti nefndarinnar þess að íslensk fyrirtæki geti boðið í sem flesta verkþætti. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu árið 1996 hækkar um 1,5% og árið 1997 væntanlega um 1,8% og verður þá í heild 18,5%, en talið er æskilegt að hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu sé nálægt 20% til að standa undir væntanlegum hagvexti á næstu árum.
     Ársverk vegna framkvæmdanna verða á bilinu 800–900 og er áætlað að eftirspurn verði mest vorið 1997. Stækkun álversins mun auka byggingarstarfsemi um 3–4% árin 1996 og 1997 en þar hafa framleiðsluþættir verið vannýttir að undanförnu og er tímasetning framkvæmdanna því hagkvæm frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að mati Þjóðhagsstofnunar. Um 90 varanleg störf munu skapast í Straumsvík vegna stækkunarinnar, 72 hjá Ísal og 18 við verktöku. Á undanförnum árum hefur Ísal leitast við að hagræða í rekstri sínum og hefur starfsmönnum fækkað verulega. Framleiðni í fyrirtækinu hefur aukist verulega og nemur álframleiðsla á þessu ári um 230 tonnum á hvern starfsmann. Byggðastofnun telur að fyrir hvert starf í álverinu skapist 2,6 störf utan þess, aðallega í þjónustu, verslun eða iðnaði, vegna margfeldisáhrifa og varanleg heildaraukning verði því rúmlega 300 ársverk. Þegar stækkun álversins er lokið er gert ráð fyrir að heildarfjöldi starfsmanna í Straumsvík verði um 530 manns. Með hliðsjón af framangreindum margfeldisáhrifum má segja að eftir stækkun álversins hafi orðið til hér á landi um 1.900–2.000 störf vegna starfsemi Ísals.
     Lauslegar áætlanir Þjóðhagsstofnunar benda til þess að hagvöxtur árið 1996 verði 0,7% meiri en ella, að viðskiptajöfnuður verði 1% lakari en ella, að verðbólga og kaupmáttur launa verði óbreytt og að atvinnuleysi verði 0,3% minna en ella. Þá má búast við að með stækkun álversins aukist útflutningur um 6,6–8 milljarða kr. á ári, eða sem nemur 3,7–4,4% af útflutningi vöru og þjónustu. Ekki er unnt að gera tæmandi talningu á áhrifum stækkunarinnar á þjóðarhag en í nýrri endurskoðun þjóðhagsspár vegna lokaafgreiðslu fjárlaga, sem er væntanleg innan skamms, verður tekið tillit til stækkunarinnar. Meiri hlutinn telur að með vísan til þess sem að framan er greint og út frá þjóðhagslegum ávinningi hnígi öll rök til þess að viðaukasamningur ríkisstjórnarinnar og Alusuisse-Lonza um álbræðslu við Straumsvík verði staðfestur.
     Veigamikil forsenda fyrir viðaukasamningnum, sem nú er lagður fram til staðfestingar, er samningur Landsvirkjunar og Ísals um breytingar á orkusölusamningi til álversins. Var viðauki við samninginn undirritaður 16. nóvember 1995. Stjórn Landsvirkjunar telur þörf á að viðskiptaleynd hvíli yfir orkusölusamningum við einstaka stórnotendur og ályktaði að það gæti verið til þess fallið að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar að því er varðar orkusölu til stóriðju að viðsemjendur fyrirtækisins hefðu aðgang að verðákvörðun áður gerðra orkusölusamninga. Því samþykkti stjórnin að viðskiptaleynd skyldi hvíla yfir orkuverðsákvæði viðaukasamningsins við Ísal. Iðnaðarráðherra féllst á framangreind sjónarmið Landsvirkjunar og því hefur ekki verið skýrt opinberlega frá orkuverðinu sjálfu. Á fundi með iðnaðarnefnd gerði Landsvirkjun grein fyrir öllum þáttum orkusölusamningsins, einnig orkuverðinu sem trúnaðarmáli. Hjá nokkrum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd komu fram efasemdir um réttmæti þeirrar ákvörðunar að viðskiptaleynd hvíldi yfir orkuverði, en meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við þá málsmeðferð. Fram kom í máli stjórnarformanns Landsvirkjunar að erlendis hvíli almennt viðskiptaleynd yfir orkusölusamningum í áliðnaði og að slíkt færðist í vöxt hvað varðar orkusölusamninga yfirleitt. Landsvirkjun ætti nú í könnunarviðræðum við aðra aðila um orkuverð en Ísal, eða að slíkar viðræður væru fyrirhugaðar, og því væri talið mikilvægt að meðal annars þeir aðilar gætu ekki fengið staðfestar upplýsingar frá fyrirtækinu um orkuverð í nýgerðum samningi við Ísal. Rétt er einnig að benda á að ályktun stjórnar Landsvirkjunar um viðskiptaleynd nær aðeins til orkusölusamningsins við Ísal en hefur ekki almennt gildi.
     Iðnaðarnefnd hefur kynnt sér alla þætti samningsins um orkuverð milli Landsvirkjunar og Ísals sem Landsvirkjun telur mjög hagstæðan sér. Samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar verður núvirtur hagnaður af viðaukanum við orkusölusamninginn um 8 milljarðar kr. miðað við grundvallarforsendur og um 80% líkur á því að arðsemi af nauðsynlegum fjárfestingum Landsvirkjunar vegna viðaukans verði 15% eða meira og nánast engar líkur á því að fjárfestingin skili minni arði en 5,5%. Meiri hlutinn tekur undir það mat iðnaðarráðherra að samningurinn uppfylli skilyrði laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, þ.e. hann valdi ekki hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Þvert á móti gerir Landsvirkjun ráð fyrir að orkuverð til almenningsveitna muni lækka til lengri tíma litið fyrir áhrif samningsins.
     Mikilvægt er að hafa í huga að raforkukerfi Landsvirkjunar hefur ekki verið fullnýtt og getur framleitt verulega orku sem í dag er skilgreind sem umframorka. Samkvæmt gildandi raforkusamningi skal Landsvirkjun sjá álverinu fyrir 1.413 gwst. á ári, þar af 106 gwst. sem afgangsorku, auk samnings um 223 gwst. af ótryggu rafmagni á ári til ársins 1997. Samkvæmt nýgerðum orkusölusamningi ber Landsvirkjun að sjá álverinu fyrir 2.583 gwst. á ári eigi síðar en 1. janúar 1998. Aukningin, 1170 gwst. á ári, samanstendur annars vegar af viðbótarorkuþörf Ísals vegna stækkunarinnar, 947 gwst. á ári, og hins vegar hefur framangreindur samningur um ótryggt rafmagn verið felldur inn í samninginn. Einnig er umsamið að Ísal geti óskað eftir því að árlegt samningsbundið rafmagn verði aukið um allt að 88 gwst. í tveimur áföngum, árin 1999 og 2000. Talið er að um 730 gwst. af forgangsorku verði til reiðu í raforkukerfinu árið 1997 en til þess að útvega það sem á vantar og anna orkuþörf almenningsveitna fram til aldamóta þarf að ráðast í eftirtaldar virkjunarframkvæmdir: Stækkun Blöndulóns, fimmta áfanga Kvíslaveitu og 35 mw. aflaukningu í núverandi Búrfellsstöð auk þess sem settir verða upp raðþéttar í háspennulínur. Samkvæmt núgildandi orkusölusamningi ber Ísal að greiða að lágmarki fyrir 1.110 gwst. á ári enda þótt orkuneysla ársins kunni að hafa verið minni, en með nýgerðum samningi mun lágmarksmagnið hækka í 2006 gwst. á ári. Nýti Ísal rétt sinn til að fá allt að 88 gwst. aukningu á árlegu samningsbundu rafmagni eykst lágmarksmagnið um 0,765 gwst. fyrir hverja gwst. til viðbótar. Samningnum er ætlað að gilda til ársins 2014, en eftir það er gagnkvæm heimild til framlengingar um 10 ár til viðbótar og verða verðákvæði samningsins þá háð endurskoðun. Umsamið orkuverð til stækkunar álversins ræðst á hverjum tíma af verði áls á alþjóðamarkaði. Gert er ráð fyrir að í nokkur ár frá upphafi samningstímabilsins verði í gildi afsláttur á orkuverði til stækkunarinnar. Árið 2004 mun núgildandi orkuverð til tveggja eldri kerskálanna falla úr gildi, en frá þeim tíma gildir fyrir allt álverið það orkuverð sem nú hefur verið samið um.
    Viðaukasamningurinn, sem hér er til umfjöllunar, gerir ráð fyrir töluverðum breytingum á þeim skattareglum sem gilt hafa um Ísal. Felast þær breytingar fyrst og fremst í því að gera skattaumhverfi álversins sem líkast því sem önnur fyrirtæki á Íslandi búa við. Þannig verður horfið frá stighækkandi skattþrepi, á bilinu 35–55%, yfir í sama skattþrep og gildir um íslensk hlutafélög, þ.e. 33%. Álverið í Straumsvík hefur að meira eða minna leyti verið rekið með tapi á undanförnum árum. Reksturinn hefur því skilað litlum tekjuskattsgreiðslum í ríkissjóð umfram lágmarksframleiðslugjald. Þar sem álverð hefur hækkað mikið nú á allra síðustu árum og gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári má búast við verulegum tekjuskattsgreiðslum vegna áranna 1995 og 1996. Ólíklegt er að fyrirtækið greiði tekjuskatt á afskriftartíma meginhluta fjárfestingarinnar, þ.e. frá 1997 og næstu sjö ár þar á eftir. Hins vegar er gert ráð fyrir verulegri hækkun tekna af tekjuskatti miðað við 160.000 tonna framleiðslu eftir þann tíma. Samkvæmt núgildandi samningi er það fastagjald sem Ísal greiðir af framleiðslu sinni að lágmarki 20 Bandaríkjadalir á hvert útskipað tonn af áli og viðbótarframleiðslugjald ef hagnaður gefur tilefni til. Samkvæmt hinum nýja samningi lækkar lágmarksgjaldið í 10 Bandaríkjadali á hvert tonn og verður jafnframt aðeins frádráttarbært frá tekjum sem rekstrarkostnaður í stað þess að vera frádráttarbært frá tekjuskattgreiðslum. Helsta breytingin frá núverandi fyrirkomulagi er því að lágmarksgjaldið lækkar í 10 Bandaríkjadali fyrir hvert útflutt tonn frá og með 1. janúar 1998 og í stað stighækkandi skattþreps kemur eitt 33% skattþrep sem tekur gildi frá og með 1. janúar 1995. Miðað við gefnar forsendur um álverð er gert ráð fyrir að hagnaður verði af rekstri Ísals á árunum 1995 til og með 1997 eða fram til þess tíma að stækkunin verður tekin í notkun.
     Samningurinn gerir ekki ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær fái hlutdeild í tekjuskatti fyrirtækisins eftir 1. janúar 1998. Gert er ráð fyrir að hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi á árunum 1995–1997 verði 28% í stað 18% nú og fastagjaldið hækki úr 250.000 Bandaríkjadölum í 500.000 Bandaríkjadali í samræmi við samkomulag milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Viðbótarhlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi áranna 1995 og 1996 gæti því orðið á bilinu 40–80 millj. kr., en er þó alfarið háð afkomu Ísals. Frá 1. janúar 1998 er hins vegar gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær fái 6 Bandaríkjadali fyrir hvert tonn af útfluttu áli. Miðað við 160.000 tonna framleiðslu nemur þetta um 62 millj. kr. á ári. Þetta jafngildir fasteignagjaldi á lögðu með 0,80–0,85% stuðli eða sem svarar um 30% afslætti frá því fasteignagjaldi sem gildir í Hafnarfirði í dag.
     Á fundi með bæjarstjórn Hafnarfjarðar komu fram upplýsingar um bréfaskipti Ísals og iðnaðarráðuneytisins annars vegar og bæjarins hins vegar um þróun byggðar í nágrenni álverksmiðjunnar frá nóvember og desember 1995. Meiri hlutinn lýsir ánægju með að frekari viðræður eigi sér nú stað á milli aðila um þessi mál.
     Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar til iðnaðarnefndar um skattaþátt viðaukasamningsins frá 4. desember 1995 segir: „Ljóst er að til lengri tíma litið mun hinn nýi viðaukasamningur þýða verulega auknar tekjuskattsgreiðslur Ísals í ríkissjóð vegna aukinnar framleiðslu og meiri hagkvæmni. Í raun mun fyrirtækið greiða sambærilega skatta í framtíðinni eins og ef það félli undir gildandi íslensk skattalög að frátalinni heimild til 10% arðsfrádráttar. Efnahags- og viðskiptanefnd gerir því ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins.“ Á fund efnahags- og viðskiptanefndar komu Halldór J. Kristjánsson og Þorkell Helgason frá iðnaðarráðuneyti, Indriði H. Þorláksson frá fjármálaráðuneyti, Ólafur Kristinsson og Gunnar Sigurðsson frá Coopers & Lybrand hf., Sveinn Hannesson og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins og Jóhann Bergþórsson og Tryggvi Harðarson frá Hafnarfjarðarbæ. Meiri hlutinn tekur undir álit efnahags- og viðskiptanefndar á skattaþætti málsins.
     Á liðnum árum hefur Ísal stöðugt bætt mengunarvarnabúnað sinn, nú síðast með rafstýrðum felliþekjum á rafgreiningarkerin sem takmarka opnunartíma keranna eins og unnt er og bæta þar með afköst þurrhreinsibúnaðar verksmiðjunnar. Hollustuvernd ríkisins telur árangurinn af þeim framkvæmdum umtalsverðan. Samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld frá árinu 1992 hafði Ísal heimild til 105.000 tonna ársframleiðslu áls en stækkun umfram það skyldi háð útgáfu starfsleyfis samkvæmt lögum og mati á umhverfisáhrifum. Ísal sótti um starfsleyfi til reksturs allt að 200.000 tonna álvers í Straumsvík og á grundvelli þeirrar umsóknar hefur nú verið gefið út starfsleyfi fyrir stækkun álversins í heild, að undangengnu lögbundnu mati á umhverfisáhrifum. Ef framleiðslugeta álversins verður aukin úr 170.000 tonnum í 200.000 tonn á ári ber að yfirfara og endurskoða það ákvæði leyfisins er fjallar um losun mengunarefna. Í meðfylgjandi áliti meiri hluta umhverfisnefndar til iðnaðarnefndar segir m.a.: „Það er því mikilvægur áfangi að nýútgefið starfsleyfi nær til allrar framleiðslu fyrirtækisins og fagnar nefndin því. Hér er um að ræða sérstakar aðstæður þar sem verið er að stækka álbræðslu sem þegar hefur starfað um árabil. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð umhverfismats og starfsleyfis. Með starfsleyfinu, sem umhverfisráðherra hefur gefið út, er tryggt að allar þær kröfur, sem gerðar eru til umhverfisverndar í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, séu uppfylltar. Gerir meiri hluti nefndarinnar því ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins.“ Álit minni hluta umhverfisnefndar er meðfylgjandi. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir álit meiri hluta umhverfisnefndar á umhverfisþáttum málsins. Meiri hlutinn telur einnig æskilegt að umhverfisyfirvöld kanni í samvinnu við Ísal hvernig minnka megi hljóðmengun frá súrálsuppskipun í Straumsvík.
     Nokkur umræða varð í iðnaðarnefnd um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi loftmengun. Stækkun álversins í Straumsvík brýtur ekki í bága við neinar slíkar skuldbindingar. Hins vegar kann það að vera sérstakt athugunarefni fyrir stjórnvöld hvernig beri almennt að takmarka útblástur koltvíoxíðs og brennisteinstvíoxíðs með tilliti til alþjóðasamninga án þess að það komi í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar til uppbyggingar atvinnu. Jafnframt telur meiri hlutinn rétt að huga að frekari endurskoðun þeirra reglna sem gilda um mengunarvarnir með það fyrir augum að skilgreina eins og frekast er kostur mengunarmörk og önnur viðmið í umhverfismálum. Enn fremur er bent á að kanna má nánar samspil þeirra þátta sem teknir eru til athugunar við gerð mats á umhverfisáhrifum annars vegar og gerð starfsleyfis hins vegar þannig að ekki sé verið að auglýsa og óska eftir athugasemdum hagsmunaaðila nema einu sinni um hvert efni.
    Að lokum vill meiri hluti iðnaðarnefndar taka fram að hann telur þörf á að iðnðarráðuneytið athugi sérstaklega hvernig auka megi úrvinnsluiðnað í tengslum við álverið og þá þjónustu sem þar er í boði.
     Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna Sigurðardóttir gerir fyrirvara um einstaka þætti málsins og mun gera grein fyrir þeim við 2. umræðu.

Alþingi, 12. des. 1995.



Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Hjálmar Árnason.

Petrína Baldursdóttir.



Árni R. Árnason.

Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.






Fylgiskjal I.


Álit meiri hluta umhverfisnefndar.


(4. desember 1995.)



    Umhverfisnefnd hefur, sbr. bréf iðnaðarnefndar frá 29. nóvember sl., fjallað um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um málið frá umhverfisráðuneyti Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóra og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur deildarstjóra og Ólaf Pétursson frá Hollustuvernd ríkisins. Þá fjallaði nefndin einnig um umhverfismat og útgáfu starfsleyfis vegna stækkunar álbræðslu við Straumsvík að eigin frumkvæði á haustdögum og fékk þá á sinn fund frá umhverfisráðuneyti Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóra og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur deildarstjóra, frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti Eyjólf Sæmundsson og Jón Ingimarsson skrifstofustjóra, frá Skipulagi ríkisins Stefán Thors skipulagsstjóra og Halldóru Hreggviðsdóttur, frá Náttúruverndarráði Arnþór Garðarsson formann, Aðalheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra og Trausta Baldursson, frá Hollustuvernd ríkisins Hermann Sveinbjörnsson framkvæmdastjóra, Ólaf Pétursson og Þór Tómasson, frá Hafnarfjarðarbæ Guðmund Benediktsson og Tryggva Halldórsson, frá Hafnarfjarðarhöfn Má Sveinbjörnsson framkvæmdastjóra, frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar Andrés Svanbjörnsson, frá Vatnaskilum Snorra Pál Kjaran og frá Hönnun Eyjólf Árna Rafnsson.
    Fram til þessa hefur Ísal ekki þurft starfsleyfi fyrir rekstri álbræðslu við Straumsvík. Hefur einungis verið stuðst við samning milli ríkisstjórnar Íslands og Alusiusse frá árinu 1966, með síðari breytingum, sem staðfestur hefur verið af Alþingi með lögum. Það er því mikilvægur áfangi að nýútgefið starfsleyfi nær til allrar framleiðslu fyrirtækisins og fagnar nefndin því. Hér er um að ræða sérstakar aðstæður þar sem verið er að stækka álbræðslu sem þegar hefur starfað um árabil.
    Mikil vinna hefur verið lögð í gerð umhverfismats og starfsleyfis. Með starfsleyfinu, sem umhverfisráðherra hefur gefið út, er tryggt að allar þær kröfur, sem gerðar eru til umhverfisverndar í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, séu uppfylltar.
    Gerir meiri hluti nefndarinnar því ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins. Gísli S. Einarsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

Ólafur Örn Haraldsson, form.


Árni M. Mathiesen.


Magnús Stefánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.





Fylgiskjal II.


Álit minni hluta umhverfisnefndar.


(11. desember 1995.)



    Umhverfisnefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórna Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Hér fer á eftir umsögn minni hluta umhverfisnefndar um málið.
    Umhverfisþættir er tengjast áformum um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík hafa verið á dagskrá umhverfisnefndar Alþingis á nokkrum fundum frá því í júlí 1995. Málið var fyrst kynnt nefndarmönnum á fundi sem iðnaðar- og umhverfisráðherra boðuðu fulltrúa í iðnaðar- og umhverfisnefnd Alþingis til 19. júlí 1995. Að beiðni undirritaðs var haldinn sérstakur fundur í umhverfisnefnd um málið 31. ágúst og var ákveðið á þeim fundi að halda fund um málið og fá ýmsa til viðræðna. Sá fundur var haldinn 15. september 1995, og komu á hann ýmsir þeir sem unnið höfðu að athugun á umhverfisþáttum vegna stækkunar álbræðslunnar fram að þeim tíma.
    Fyrir fundi umhverfisnefndar 4. desember 1995 lá skrifleg ósk iðnaðarnefndar um að umhverfisnefnd gæfi umsögn um þann þátt frumvarpsins um viðaukasamning um álbræðslu við Straumsvík er varðar umhverfismál. Á þann fund komu til viðræðu að ósk formanns nefndarinnar Ingimar Sigurðsson og Sigurbjörg Sæmundsdóttir frá umhverfisráðuneyti og Ólafur Pétursson frá Hollustuvernd ríkisins. Voru þau beðin um skrifleg svör og greinargerðir um nokkur atriði og var á það fallist. Þrátt fyrir að efnislegri athugun málsins væri ekki lokið í nefndinni bar formaður upp tillögu að umsögn sem hlaut stuðning stjórnarliða í nefndinni og afgreiddi meiri hlutinn málið þá samstundis frá nefndinni. Beiðni um að dokað yrði við og beðið greinargerða frá viðmælendum sem formaðurinn hafði boðað á fundinn hafnaði hann staðfastlega. Þessum óvenjulegu og óþinglegu vinnubrögðum mótmælti undirritaður og kvaðst mundu skila sérstakri umsögn um málið.

Helstu athugasemdir við starfsleyfi.
    Hér verða dregnar saman í stuttu máli helstu athugasemdir undirritaðs við starfsleyfi álbræðslu Íslenska álfélagsins hf., en að öðru leyti vísast til fylgiskjala:

1. Ófullnægjandi ákvæði í lögum og reglugerð.
    Ýmis ákvæði laga og reglugerða er varða mengunarvarnir iðnfyrirtækja eru gölluð og ófullnægjandi, ekki síst að því er varðar varnir gegn loftmengun. Á þetta var m.a. bent af minni hluta umhverfisnefndar árið 1992 í sérstakri skýrslu til Alþingis á 115. löggjafarþingi (493. mál, þskj. 774) og þar lagt til að ákvæði þessi yrðu endurskoðuð. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Telja verður einnig að við útgáfu starfsleyfis til álbræðslunnar hafi verið gengið á svig við almenn ákvæði 25. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 þar sem kveðið er á um að halda beri loftmengun í lágmarki og beita til þess fullkomnustu tækni sem völ er á.

2. Allt of víðtækt starfsleyfi.
    Starfsleyfið er gefið út fyrir allt að 200 þúsund tonna álbræðslu þótt sú stækkun um 62 þúsund tonn, sem leitað er lagaheimildar fyrir samkvæmt frumvarpinu, feli í sér að ársframleiðsla verði að hámarki 170 þúsund tonn. Ástæðulaust og óráðlegt er að veita nú starfsleyfi fyrir viðbót upp á rúmlega 30 þúsund tonn sem enginn veit hvort eða hvenær verður reist. Breytir litlu í því sambandi þótt kveðið sé á um að yfirfara skuli grein 2.1.7, um losun mengunarefna, ef til frekari stækkunar kemur.

3. Ekki sett bindandi mengunarmörk fyrir nýjan kerskála.
     Í stað þess að gefa nú út aðgreint starfsleyfi fyrir nýjan kerskála er starfsleyfið gefið út fyrir bræðsluna í heild. Viðmiðunarmörk fyrir flúoríðútblástur frá nýja kerskálanum eru ekki bindandi samkvæmt grein 2.1.7 í starfsleyfinu heldur aðeins til að hafa til hliðsjónar. Viðurkennt er af fulltrúum Hollustuverndar að starfsleyfið breyti í raun engu gagnvart núverandi álbræðslu miðað við þá skilmála sem í gildi voru frá 1992. Er því ekki hægt að sjá neinn sérstakan ávinning af því, að því er útblástur mengandi efna varðar, að fella gamla hlutann nú undir starfsleyfi samkvæmt mengunarvarnareglugerð.

4. Úrelt tækni hjá Ísal.
    Tæknin, sem Ísal notar, stenst ekki þær kröfur sem nú eru almennt gerðar til álvera samkvæmt alþjóðasamningum um bestu fáanlega tækni (BAT). Útblástur frá Ísal-bræðslunni verður af þessum sökum meiri en ef notuð væru stærri ker og ekki þyrfti að opna kerin við aftöppun á áli. Jafnframt hefur Pálmi Stefánsson, tæknilegur framkvæmdastjóri hjá Hydro Ekupment A/S í Noregi og lengi verkefna- og þróunarstjóri hjá Ísal, bent á að þessi tækni sem orðin eru um 40 ára gömul standist ekki alþjóðlega samkeppni til lengri tíma litið (sjá fylgiskjal).

5. Tilslökun vegna hreináls.
    Sérstök ótímabundin tilslökun er veitt fyrir losun mengunarefna vegna svonefndrar hreinálsframleiðslu, allt að 25% fyrir flúor. Ekki er gert ráð fyrir slíkum „fríðindum“ til álvera samkvæmt alþjóðasamþykkt sem Íslendingar eiga aðild að. Með þessari tilslökun er verið að heimila fyrirtækinu verulega aukna losun á flúoríði út í umhverfið og það á afar óljósum forsendum.

6. Losun flúoríðs langtum meiri en í grannlöndum.
     Heimiluð mörk fyrir losun flúoríðs samkvæmt starfsleyfinu sem nemur 1,2 kg/tAl eru margfalt hærri en heimiluð eru annars staðar á Norðurlöndum, þar á meðal í „gömlum“ álbræðslum. Þannig voru mörk fyrir flúoríð í starfsleyfi gamallar álbræðslu Sør-Norge Aluminium A/S Husnes í Noregi 0,7 kg/tAl frá 1. júní 1992, en sú álbræðsla er að meiri hluta í eigu Alusuisse! Hliðstæð mörk hjá álbræðslu Gränges Aluminium Metall í Sundsvall í Svíþjóð samkvæmt starfsleyfi frá 1991 voru 0,5 kg/tAl. Mæld flúoríðlosun frá þeim kerskálum Hydro Aluminium Karmøy Verk í Noregi þar sem notuð eru forbökuð skaut hliðstætt og í Straumsvík var 0,38 kg/tAl að meðaltali árið 1990.
     Systurstofnun Hollustuverndar ríkisins í Noregi, Statens forurensningstilsyn (STF) hefur undanfarin ár miðað við 0,4 kg/tAl sem hámark fyrir flúoríðlosun (ársmeðaltal) frá nýjum kerskálum. Það er vægast sagt einkennilegt að umhverfisyfirvöld hérlendis reyna stöðugt að draga fjöður yfir þennan árangur í mengunarvörnum hjá nágrönnum okkar, síðast í úrskurði umhverfisráðherra vegna athugasemda 7. nóvember 1995.

7. Alþjóðlegar skuldbindingar sniðgengnar.
    Hámark fyrir losun flúoríðs samkvæmt ákvæðum Parísarsamningsins (PARCOM recommendation 94/1), sem við Íslendingar erum aðilar að, er 0,6 kg/tAl án vothreinsibúnaðar en 0,5 kg/tAl ef notaður er vothreinsibúnaður. Norðmenn lögðu til lægri mörk eða 0,5 og 0,4 kg/tAl við undirbúning þessarar samþykktar.
    Í óskuldbindandi viðmiðun fyrir nýjan kerskála Ísals er samkvæmt starfsleyfi ekki einu sinni fylgt hámarki samkvæmt þessum samningi heldur nefnd 0,65 kg/tAl sem fara yfir 0,8 kg/tAl ef heimild um 25% „hreinálsframleiðslu“ er notuð. Heildarviðmiðunin fyrir verksmiðjuna (1,2 kg/tAl) er tvöfalt hærri en viðmiðunarmörk þessa alþjóðasamnings!

8. Engin hreinsun á brennisteini.
    Starfsleyfið gerir ekki ráð fyrir neinni hreinsun á brennisteini og viðmiðanir í starfsleyfinu um hámarkslosun brennisteinstvíoxíðs eru haldlausar. Væri beitt vothreinsun eins og undantekningarlaust er krafist annars staðar á Norðurlöndum væri unnt að hafa losunarmörk fyrir SO 2 allt að tífalt lægri og auk þess ná betri og öruggari árangri í hreinsun flúoríðs.
    Í skýrslu umhverfisnefndar til Alþingis árið 1992 vegna starfsleyfistillagna fyrir álver á Keilisnesi (493. mál, þskj. 774, bls. 4) kemur fram það álit Hollustuverndar ríkisins „að ef reist væri álver í Eyjafirði eða Reyðarfirði yrði að gera kröfu um vothreinsibúnað“.
    Ísal-bræðslan veldur nú samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneyti um 19% af heildarbrennisteinslosun hérlendis ef frá eru taldar jarðvarmavirkjanir og þetta hlutfall fer í 27% eftir að næsti áfangi kemur í gagnið.
    Íslensk stjórnvöld hafa til þessa ekki sýnt neinn lit á að framfylgja ákvæðum alþjóðlegs sáttmála um loftmengun sem við gerðumst aðilar að 1983 að því er varðar losun brennisteinssambanda.

9. Koltvísýringsmengun og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með staðfestingu á rammasamningnum um loftslagsbreytingar sem umhverfisráðherra Íslands undirritaði á Ríó-ráðstefnunni vorið 1992 skuldbinda Íslendingar sig eins og aðrir aðilar samningsins að gera viðeigandi ráðstafanir til að losun koltvísýrings (CO 2 ) og annarra gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum verði ekki meiri en var árið 1990. Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 1995 sérstaka framkvæmdaáætlun með tilliti til þessa samnings.
    Samkvæmt greinargerð með framkvæmdaáætlun ríkisstjórninnar eru um 64% af útstreymi koltvíoxíðs hérlendis rakin til samgangna og fiskveiða, en um 36% til staðbundinnar mengunar aðallega frá stóriðju og öðrum iðnaði. Í umræddri framkvæmdaáætlun segir m.a.: „Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þess skuli gætt að þetta markmið (að útstreymi gróðurhúsalofttegunda verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990) komi ekki í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar t.d. í nýjum stóriðjufyrirtækjum, jafnvel þótt fyrirtækin stundi starfsemi sem óhjákvæmilega felur í sér aukið útstreymi koltvíoxíðs eða annarra gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðarferla.“
    Fulltrúar umhverfisráðuneytisins, sem komu á fund umhverfisnefndar 4. desember 1995, töldu að miða ætti losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu sem færi til „neyslu innan lands“ og þannig mætti taka losun þessara efna frá álbræðslu Ísals út úr viðmiðuninni! Erfitt er að sjá hvernig ætti að ná markmiðum loftslagssamningsins á veraldarvísu ef slík rökleysa væri almennt höfð að leiðarljósi.
    Auk koltvíoxíðs myndast aðrar gróðurhúsalofttegundir við álframleiðslu, svo sem flúorkolefni. Mengun af völdum koltvíoxíðs frá álbræðslunni í Straumsvík vex í beinu hlutfalli við aukna álframleiðslu þar eð ekki er um neina hreinsun á því efni að ræða fremur en almennt gerist í áliðnaði. Komið hefur fram að hér sé um að ræða magn sem svarar til CO 2 -útblásturs frá um 20 þúsund bifreiðum.
    Telja verður að stækkun álbræðslunnar setji í uppnám alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt loftslagssáttmálanum, sérstaklega þar eð ekki er sjáanlegt að marktækar aðgerðir séu í gangi til að draga úr umræddri mengun á öðrum sviðum.

10. Lífræn kolefnasambönd, PAH (polycyklisk aromatisk hydrokarbon).
    Athygli vekur að ekki er í starfsleyfi álbræðslunnar minnst á mengun af völdum tjöruefna sem sum hver geta verið krabbameinsvaldandi. Þessi tjöruefni eru að vísu ekki talin falla til í miklum mæli þar sem notuð eru forbökuð skaut eins og hjá Ísal, en engu að síður er ástæða til að gjalda varhug við þeim.

11. Rykmengun.
    Hollustuvernd ríkisins hefur ekki talið rykmengun sérstakt vandamál í álbræðslunni í Straumsvík. Í starfsleyfinu eru mörkin sett við 1,5 kg/tAl. Athygli vekur að þetta er til muna hærra en mörk fyrir ryk samkvæmt Parísarsamningnum (PARCOM recommendation 1/94) þar sem hámark rykmengunar er sett 1 kg/tAl.

12. Hávaðamengun og síðbúið erindi stjórnvalda.
    Við viss skilyrði berst truflandi hávaði frá álbræðslunni til íbúðabyggðar á Álftanesi og Hvaleyrarholti. Samkvæmt starfsleyfi skal hávaði frá verksmiðjunni, sem mælist við lóðamörk álversins, ekki vera yfir 70 desibel(A)r. Í niðurstöðum frumathugunar skipulagsstjóra vegna mats á umhverfisáhrifum frá verksmiðjunni, dags. 11. september 1995, bls. 21, kemur fram að afar lítið hefur verið fylgst með hávaða frá starfsemi verksmiðjunnar hingað til. Þar er getið um að hávaði hafi verið mældur „í umhverfi álversins árið 1989. Þá stóð súrálslöndun ekki yfir. Einnig var mældur hávaði við álverið í byrjun september 1995, en niðurstöður úr þeim mælingum liggja ekki enn fyrir.“ Truflandi hávaði frá verksmiðjunni gagnvart íbúðarbyggð mun vafalítið vaxa við stækkun hennar og þá m.a. vegna meiri umsvifa við höfnina.
    Ísal og einnig iðnaðarráðuneytið hafa nýlega skrifað bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði og varað þau við að fara með íbúðarbyggð nær álbræðslunni en nú er orðið. Samkvæmt því yrði að endurskoða 15 ára gamalt skipulag þar sem gert er ráð fyrir um 90 húsa byggð á Hvaleyrarhrauni vestan Hvaleyrarholts. Í erindi Ísals er varað við því að 60% framleiðsluaukning álversins leiði til meiri efna- og hávaðamengunar en áður og auk þess fari umferð vaxandi. Iðnaðarráðherra bendir á í bréfi til Hafnarfjarðarbæjar að búast megi við að framleiðsla álversins þrefaldist á komandi árum og fari í 300 þúsund tonn á ári og tekur undir erindi forsvarsmanna Ísals.
    Með fádæmum verður að telja að slíkt erindi skuli koma frá æðsta stjórnvaldi eftir að starfsleyfi hefur verið gefið út.

13. Mismunandi kröfur um mengunarvarnir eftir landshlutum.
    Af hálfu starfsmanna Hollustuverndar ríkisins hefur ítrekað komið fram að aðrar og þá væntanlega strangari köfur yrðu gerðar til álverksmiðja sem staðsettar væru t.d. í Eyjafirði eða á Reyðarfirði, m.a. yrði á slíkum stöðum að setja skilyrði um vothreinsibúnað. Auðsætt er til hvers slíkar mismunandi kröfur, sem haft geta verulegan kostnaðarauka í för með sér, munu leiða varðandi staðsetningu orkufrekra iðnfyrirtækja þegar erlendir fjárfestar eiga í hlut. Í Noregi hefur sú stefna rutt sér til rúms að sömu lágmarkskröfur um útblástursmörk eru látnar gilda um orkufrekan iðnað hvar sem er í landinu.

14. Reynt að þrengja verulega rétt til athugasemda.
    Af hálfu meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins hefur „að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið“ (sbr. upphafsorð lögfræðiálits, sjá fylgiskjal) verið leitast við að þrengja stórlega rétt almennings til athugasemda við tillögur að starfsleyfi eins og hér um ræðir. Þannig vísaði meiri hluti stjórnar Hollustuverndar frá ósk undirritaðs um að stjórnin úrskurðaði um athugasemdir undirritaðs við endurskoðaðar tillögur að starfsleyfi fyrir álbræðsluna. Við þá ákvörðun var stuðst við lögfræðiálit frá Eiríki Tómassyni prófessor.
    Hér er um afar alvarlegt mál að ræða sem stangast á við réttarþróun og nýlega löggjöf um upplýsingaskyldu stjórnvalda og aðra málsmeðferð í umhverfismálum. Mál þetta er nú fyrir sérstakri úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

15. Umhverfisáhrif vegna viðbótarorkuöflunar.
    Meðal aðgerða til raforkuöflunar vegna stækkunar álbræðslunnar er gert ráð fyrir að ráðast í svonefndan 5. áfanga Kvíslaveitu nálægt upptökum Þjórsár innst í Þjórsárverum. Mikill hluti Þjórsárvera eru friðlýst svæði og á alþjóðlegri verndarskrá samkvæmt Ramsarsáttmálanum þannig að athuga verður gaumgæfilega þessa ráðgerðu framkvæmd. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, sem stundað hefur rannsóknir á Þjórsárverum, hefur nýlega varað við áhrifum þessara vatnaflutninga á vistkerfi friðlandsins og umferð inn á svæðið. Er óhjákvæmilegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna þessara framkvæmdaáforma, sbr. lög nr. 63/1993, og á hið sama raunar við um aðrar orkuöflunaraðgerðir.

16. Málsmeðferð stjórnvalda ámælisverð.
    Eins og hér hefur komið fram er meðferð stjórnvalda gagnrýniverð að því er varðar fjölmarga umhverfisþætti í sambandi við stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Fram kom á fundi umhverfisnefndar 15. september 1995 með sérfróðum aðilum sem unnið höfðu að undirbúningi vegna umhverfismála álbræðslunnar, að markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) hefði í reynd gengið í hlutverk Ísals sem frumkvæðisaðili við undirbúning á skýrslu um frummat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar verksmiðjunnar. Ísal hefði ekki treyst sér til að standa fyrir því verkefni vegna hraða málsins og tilkostnaðar. Því hafi MIL lagt út fyrir kostnaði við þetta verk sem framkvæmdaraðilanum er lögum samkvæmt ætlað að standa fyrir. Ástæða er til að kanna sérstaklega hvort hér hafi verið unnið í samræmi við ákvæði og/eða anda laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum.
    Vegna óvenjulegs hraða í málsmeðferð var samhliða unnið að mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 63/1993, og að undirbúningi starfsleyfis fyrir verksmiðjuna eins og nánar kemur fram í yfirliti um málsmeðferð hér á eftir. Verður að telja afar óheppilegt að þessi ferli skarist með þeim hætti sem hér varð raun á.
    Þá er það áhyggjuefni hversu litla alúð meiri hluti umhverfisnefndar hefur lagt við athugun þessara mála sem varða miklu fyrir umhverfið á aðalþéttbýlissvæði landsins auk alþjóðlegra skuldbindinga. Andvaraleysi meiri hluta nefndarinnar birtist m.a. í þeirri tillögu að umsögn sem formaður nefndarinnar lagði fram á fundi 4. desember 1995 og afgreidd var frá nefndinni með stuðningi stjórnarliða þegar á þeim fundi.


YFIRLIT UM MÁLSMEÐFERÐ



Mat á umhverfisáhrifum.
    
Þann 14. júlí 1995 auglýsti skipulagsstjóri eftir athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993. Gerði undirritaður athugasemdir til skipulagsstjóra með bréfi, dags. 18. ágúst 1995. Úrskurður skipulagsstjóra er dagsettur 11. september 1995 og kærufrestur auglýstur í Lögbirtingablaði 22. september 1995. Þar eð ekki var þar tekið tillit til nefndra athugasemda kærði undirritaður úrskurðinn til umhverfisráðherra með bréfi, dags. 19. október 1995 (fylgiskjal). Úrskurður ráðherra vegna kærunnar er dagsettur 7. nóvember 1995 (sjá fylgiskjal), sama dag og starfsleyfi til álbræðslunnar var gefið út af ráðuneytinu. Í úrskurðinum var í engu komið til móts við efnisatriði kærunnar og kveðið á um að úrskurður skipulagsstjóra standi óbreyttur.

Starfsleyfi til álbræðslunnar.
    Auglýsing um tillögur Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir álbræðslu Ísals birtist í Lögbirtingablaði 24. júlí 1995. Undirritaður gerði við þær athugasemdir í bréfi 14. september 1995. Þann 5. október 1995 átti undirritaður fund með starfsmönnum Hollustuverndar sem gerðu grein fyrir á hvern hátt stofnunin hygðist bregðast við framkomnum athugasemdum. Voru endurskoðaðar tillögur að starfsleyfi kynntar skömmu síðar. Við þær gerði undirritaður athugasemdir til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar með bréfi, dags. 20. október 1995, með vísan til 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 (sjá fylgiskjal).
    Þann 2. nóvember 1995 barst undirrituðum bréf frá meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins, undirritað af Jóni Erlingi Jónassyni varaformanni og aðstoðarmanni landbúnaðarráðherra (fylgiskjal). Er þar frá því greint að Hollustuvernd hafi af tilefni erindis undirritaðs leitað lögfræðilegs álits á því hverjir eigi rétt lögum samkvæmt á því að skjóta máli til úrskurðar stjórnar stofnunarinnar. „Niðurstaða meiri hluta stjórnarinnar er sú að einungis þeir sem eiga einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta eigi slíka kæruaðild. Þar sem þér eigið ekki slíka kæruaðild vísar stjórnin erindi yðar frá sér.“ Þessu bréfi fylgdi álitsgerð Eiríks Tómassonar prófessors við lagadeild Háskóla Íslands (sjá fylgiskjal). Minni hluti stjórnar Hollustuverndar, Kristín Einarsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, gerði sérstaka bókun þar sem hún telur niðurstöðu meiri hlutans fráleita og að stjórninni beri að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu (fylgiskjal). Undirritaður ritaði stjórn Hollustuverndar bréf samdægurs, 2. nóvember 1995 (fylgiskjal), og bendir þar á að meiri hluti stjórnarinnar hafi í málsmeðferð sinni eigi gætt andmælaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum og sé afgreiðsla hans þegar af þeirri ástæðu markleysa.

Kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar.
    Í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbriðiseftirlit, vísaði undirritaður málsmeðferð og niðurstöðu meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins að því er varðar rétt undirritaðs til athugasemda um starfsleyfi til úrskurðarnefndarinnar og gerði kröfu til þess að lagt yrði fyrir stjórn Hollustverndar ríkisins að fjalla efnislega um athugasemdir undirritaðs, en til vara að málið yrði sent til baka til að gera undirrituðum kleift að koma að andmælum. Málið var þingfest hjá úrskurðarnefndinni 7. nóvember 1995 og er þegar þetta er ritað enn til umfjöllunar þar.
    Kristín Halldórsdóttir, sem ekki gat setið fund nefndarinnar 4. desember, óskar eftir að fram komi að hún er í meginatriðum sammála efni þessa álits.

Alþingi, 11. des. 1995.



Hjörleifur Guttormsson.





Fylgiskjöl:
    Bréf HG til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, dags. 20. október 1995.
    Bréf meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins til HG, dags. 2. nóvember 1995.
    Bókun Kristínar Einarsdóttur á fundi stjórnar Hollustuverndar, dags. 2. nóvember 1995.
    Álitsgerð Eiríks Tómassonar frá 31. október 1995.
    Bréf HG til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, dags. 2. nóvember 1995.
    Kæra HG til umhverfisráðherra vegna úrskurðar skipulagsstjóra, dags. 19. október 1995.
    Úrskurður umhverfisráðuneytis vegna kæru HG, dags. 7. nóvember 1995.
    Rammasamningur um loftslagsbreytingar — Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá nóvember 1995.
    Umsögn Náttúruverndarráðs um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers í Straumsvík, dags. 21. ágúst 1995.
    Athugasemdir þingflokks Kvennalistans til Hollustuverndar ríkisins vegna stækkunar álvers í Straumsvík, dags. 9. september 1995.
    Grein Pálma Stefánssonar: Skammsýni að stækka Ísal með sömu kertækni. Morgunblaðið 5. september 1995.