Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 100 . mál.


383. Nefndarálit



um frv. til l. um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Tryggva Axelsson, Þorkel Helgason og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Verkfræðingafélagi Íslands, Rafmagnseftirliti ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Hollustuvernd ríkisins, Verslunarráði Íslands, Framleiðsluráði landbúnaðarins og Neytendasamtökunum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Stór hluti þeirra varðar einungis orðalag og uppsetningu en ekki efni frumvarpsins. Aðrar breytingar eru þessar:
1.    Tekið er af skarið um það í 1. gr. að lögunum sé ekki ætlað að taka til starfsemi þeirra aðila sem sérlög eða reglur gilda um. Jafnframt er lagt til að ákvæði IV. og V. kafla skuli einnig gilda þar sem ákvæði sérlaga eru ófullnægjandi eða ganga skemur en ákvæði þeirra kafla.
2.    Að afdráttarlaust komi fram í 10. gr. að þau skilyrði sem ráðherra er heimilt að setja í reglugerð samkvæmt greininni séu í samræmi við staðla og venjur sem gilda um öryggi vöru á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðsins. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir slíkri skyldu þrátt fyrir að 10. gr. feli í sér rúma heimild fyrir ráðherra til að skipa málum varðandi öryggi vöru með reglugerð.
3.    12. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að framleiðendum og dreifingaraðilum sé skylt að halda sérstaka upplýsingaskrá. Nefndinni þykir ákvæðið ekki nægilega skýrt. Því er lagt til að einungis í tengslum við rannsókn máls sé þessum aðilum skylt að afhenda eftirlitsstjórnvöldum skrá með upplýsingum um birgja og þá er bjóða fram vörur þeirra.
4    Tekið er fram í 7. tölul. 14. gr. að tilkynningar Löggildingarstofunnar, þar sem varað er við hættulegum vörum, eigi eingöngu við þær vörur sem lögin taka til.
5    Tekið er af skarið um að ákvæði 15. gr. eigi aðeins við að því leyti sem ekki er ákveðið á annan hátt í sérlögum. Lagt er til að 3. tölul. 15. gr. verði felldur brott og að orðalagi 4. tölul. verði breytt þannig að megintilvísunin verði í ákvæði sérlaga en ákvæði IV. og V. kafla gildi einnig eftir því sem við getur átt.
6.    Lagt er til að 19. gr., sem fjallar um samspil við stjórnsýslulög, verði markvissari. Ljóst er að stjórnsýslulög, nr. 37/1993, eiga við um athafnir eftirlitsstjórnvalda samkvæmt lögum þessum. Hins vegar kemur fram í greininni að í vissum tilvikum geti verið nauðsynlegt að taka skyndiákvörðun til bráðabirgða. Endanleg ákvörðun, þar sem ákvæða stjórnsýslulaga er gætt í hvívetna, skal samt tekin eins fljótt og unnt er.
7.    Lagt er til að ákvæði stjórnsýslulaga um rökstuðning sé tekið inn í 1. mgr. 20. gr. og að afdráttarlaust sé að sönnunarbyrðin á því hvort framleiðandi eða dreifingaraðili torveldi rannsókn, sbr. 2. mgr. 20. gr., hvíli á eftirlitsstjórnvöldum.
8.    Að skorður verði settar við töku sýnishorna skv. 24. gr. umfram það sem nauðsynlegt getur talist. Jafnframt að inn í greinina komi ákvæði um að framleiðandi eða fulltrúi hans greiði allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru. Eftirlitsstjórnvöldum ber þó ávallt að gefa þeim fyrst kost á að annast slíkar tilkynningar sjálfir enda séu þær þá með þeim hætti að eðlilegum varnaðaráhrifum verði náð.
9.    Loks leggur nefndin til að gjaldtökuákvæði 27. gr. verði fellt brott þar sem hætta sé á því að það feli í sér of víðtækt framsal á skattlagningarvaldi til framkvæmdarvaldsins.
    Að lokum skal tekið fram að við samningu frumvarpsins hefur númeraröð kafla farið úr skorðum. Munu þau mistök verða lagfærð við útgáfu stöðuskjals eftir 2. umræðu þar sem hér er um augljós mistök að ræða sem varða ekki efni frumvarpsins.

Alþingi, 14. des. 1995.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon,

Valgerður Sverrisdóttir.


með fyrirvara.



Einar Oddur Kristjánsson.

Jón Baldvin Hannibalsson.

Pétur H. Blöndal.