Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 134 . mál.


393. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fyrsti minni hluti nefndarinnar leggst gegn frumvarpinu. Það endurspeglar þá stefnu ríkisstjórnarinnar að fjármagna ákvörðun um skattfrelsi lífeyrissjóðsiðgjalda launafólks með hækkun tryggingagjalds. Við kjarasamninga í vor var ekki sagt til um slíka hækkun tryggingagjalds og er því verið að koma aftan að samningsaðilum. Jafnframt er í 4. gr. frumvarpsins afnumin sjálfvirk viðmiðun við verðlag.
    Allir umsagnaraðilar, þar með taldir aðilar vinnumarkaðarins, leggjast gegn þessu frumvarpi. Afnám viðmiðunar við verðlag er rauður þráður í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu fjárlaga nú á haustdögum. Þessi aðferðafræði hefur ekkert með meiri skilvirkni í ríkisrekstri að gera heldur er hún notuð til að rýra bætur úr almannatryggingakerfinu og hækkar skatta launafólks. 1. minni hluti leggst eindregið gegn þessum ákvæðum.
    Hækkun tryggingagjaldsins samkvæmt frumvarpinu stefnir kaupmáttaraukningu launafólks á næsta ári í hættu að mati ASÍ og VSÍ. Sú aðferðafræði að ríkisvaldið komi hvað eftir annað inn í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og lofi lækkun á ýmiss konar álögum en lendi síðan í sífelldum vandræðum við fjármögnun slíkra loforða hefur gengið sér til húðar.
    Þannig greiddi ríkissjóður um 4 milljarða kr. vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á liðnu vori. Nú í haust bætti ríkisstjórnin um betur og ákvað hækkun útgjalda um 1 milljarð kr. til að freista þess að láta kjarasamninga halda. Sú ákvörun kallar á aukin vandamál í ríkisfjármálum. Þessi stefna gengur ekki lengur og þess vegna er stefnan í fyrirliggjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar röng í grundvallaratriðum.
    Það skal ítrekað að allir aðilar vinnumarkaðarins, bæði vinnuveitendur og launafólk, lögðust eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk framangreindu áliti.

Alþingi, 15. des. 1995.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.