Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 43 . mál.


445. Nefndarálit


um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1996.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Lánsfjárlög eru, ásamt fjárlögum, helsta verkfærið sem ríkisstjórnum eru tiltæk til að hafa áhrif á framvindu efnahagsmála. Það skiptir því miklu máli fyrir þróun efnahagsmála, og þar með afkomu þjóðarinnar, með hvaða hætti ríkistjórnir nota þessi tæki.
     Eins og komið hefur fram í skýrslum Þjóðhagsstofnunar skiptir það mestu máli við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar að gætt sé mikillar aðhaldssemi af hendi ríkisvaldsins. Gildir þetta ekkert síður í lántökumálum en í fjárlögunum sjálfum.
    1. Í opinberri umræðu hérlendis undanfarið hafa ríkisfjármálin verið ofarlega á baugi. Skuldastaðan er fólki eðlilega mikið áhyggjuefni og er allmikil samstaða um að vinna þar bug á. Það væri vissulega að bera í bakkafullan lækinn að birta enn á ný hrikalegar tölur um skuldastöðu ríkissjóðs og greiðslubyrði þeirra. Það ætti einnig að vera ljóst að ríkissjóði hefur ekki tekist að draga úr lántökum sínum að neinu verulegu marki. Skuldir hins opinbera, en þar er ríkissjóður stærsti aðilinn með yfirburðum, hafa rétt tvöfaldast á síðustu átta árum ef miðað er við hlutfall af VLF sem er skynsamlegasta viðmiðunin. Þær virðast nú aukast um u.þ.b. 2,5% af VLF á ári. Með áframhaldandi vexti ríkisskulda verður fljótlegt að koma skuldastöðu ríkissjóðs í óviðráðanlegar upphæðir.
    Heimilin í landinu eru einnig stórskuldug þótt aukning þeirra skulda hafi ekki verið jafnstórstíg og hjá hinu opinbera. Skuldir heimilanna eru nú 120% af ráðstöfunartekjum. Þau heimili, sem verst eru stödd, munu á næstunni þurfa að draga úr neyslu sinni og byrja að endurgreiða lánin. Fyrirtækin eru best stödd hvað þetta snertir og hafa á undanförnum missirum endurgreitt og lækkað skuldir sínar myndarlega.
     Ekki er auðvelt að greina neina viðleitni frá ríkisstjórninni til að feta í fótspor atvinnulífsins í landinu og hefja endurgreiðslur og lækkun skulda.
    2. Þjóðhagsstofnun spáðir mikilli aukningu þjóðarútgjalda á næsta ári, vaxandi verðbólgu og miklum halla á viðskiptunum við útlönd. Þetta setur mikinn þrýsting á vexti og gengi og getur ógnað dýrkeyptum stöðugleika ef ekki er gætt ýtrustu varúðar af öllum þeim sem taka mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum. Sá sýnilegi bati sem er fram undan í þjóðarbúskapnum er ekki verk núverandi ríkisstjórnar. Stækkun álversins í Straumsvík er ákvörðun sem tekin er af erlendum aðilum og kemur inn í íslenskan þjóðarbúskap sem eins konar happdrættisvinningur. Ekki hvað síst þess vegna skiptir það höfuðmáli að ríkisstjórnin afgreiði hallalaus fjárlög og að lánsfjárþörf ríkissjóðs verði stillt sem mest í hóf.
    Um fjárlög er fjallað á öðrum þingskjölum, en niðurstaða þeirra virðist ekki stuðla að aðhaldssemi og jafnvægi. Þvert á móti bendir of margt til þess að veikleikar þeirra séu óvenjumiklir og endanleg niðurstaða verði mun lakari en ríkisstjórnin fullyrðir nú. Því væri enn meiri þörf á að lánsfjárlögin gætu myndað mótvægi við fjárlögin; væru vísbending um aðhald og lækkun opinberra skulda. Þessu er ekki til að dreifa.
    Til að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum verður að gera fleira en að spara og skera niður. Óhjákvæmilegt er að auka tekjur ríkissjóðs frá því sem nú er. Einstaka fulltrúar minni hlutans hafa margsinnis áður lagt til að hraðað verði upptöku fjármagnstekjuskatts. Sú tekjuöflun er óhjákvæmileg til að ná jöfnuði í ríkisrekstri.
    3. Ríkisstjórnin gumar mikið af aðhaldi og ráðdeild. Það aðhald hefur eingöngu beinst að öldruðu fólki og sjúklingum. Þar er ríkisstjórnin vissulega liðtæk. Þá hefur menntakerfið ekki farið varhluta af þessu aðhaldi. Enginn þjóðfélagshópur fær þó viðlíka útreið og aldraðir. Þar er marghöggvið í sama knérunn og nánast engin greiðsla til þeirra eða stofnana þeirra látin ósnert. Nái áform ríkisstjórnarinnar um grundvallarbreytingar varðandi afkomuöryggi aldraðra fram að ganga stendur ekki steinn yfir steini á því sviði velferðarþjónustunnar.
    Allt er enn á huldu um afdrif heilbrigðisgeirans. Ljóst er þó að þar er fyrst og fremst skorið niður á liðum sem þegar eru of lágir en ekki reynt að takst á við vöxtinn í heilbrigðiskerfinu.
    Fulltrúar Háskólans segja að skólinn geti ekki staðið undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar nema gjörbreyting verði á fjárveitingum til hans.
    Eru þetta ekki nægileg skilaboð? Hið félagslega velferðarkerfi er undir skurðarhníf ríkisstjórnarinnar. Það skapast enginn friður í samfélaginu um þess konar „aðhald og ráðdeild“.
    4. Enn eitt er athyglisvert í frumvarpi til lánsfjárlaga. Það stefnir ekki fram á við. Það tekur mið af fortíð en ekki framtíð. Sem slíkt ýtir það ekki undir uppbyggingu atvinnuvega framtíðarinnar. Það gerir ekki ráð fyrir að nein ný lán verði tekin til þróunar og rannsókna eða til að auðvelda markaðsrannsóknir erlendis. Þetta frumvarp, verði það að lögum, mun því ekki styrkja stoðir atvinnulífsins. Það mun ekki draga úr atvinnuleysi og það mun ekki auðvelda þjóðinni inngöngu í nýja öld.
    5. Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að fara út í einstök efnisatriði frumvarpsins í þessu nefndaráliti. Vinnubrögð stjórnarliða gefa ekki tilefni til þess konar nákvæmni í vinnubrögðum.
    Hjá því verður þó ekki komist að minna á málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en þau hafa um langt skeið verið til mikillar vansæmdar. Þar hefur togstreita innan stjórnkerfisins um skiptingu tekna og yfirstjórnun komið í veg fyrir að leysa það afar brýna mál. Það er ríkisstjórninni til verulegs vansa að gera ekkert í því annað en velta lánum á undan sér.
    Þá verður ekki hjá því komist að geta málefna Byggingarsjóðs verkamanna og reyndar félagslega húsnæðiskerfisins í heild. Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna Byggingarsjóðsins blasir annað tveggja við, að hækka vexti af lánum eða sjóðurinn verður gjaldþrota, nema ríkissjóður hlaupi undir bagga. Sé þetta frumvarp lesið er ljóst að ríkissjóður hleypur víða undir bagga þegar viðkomandi hafa reist sér hurðarás um öxl. Einhverra hluta vegna gerist það ekki þegar félagslegir sjóðir — ekki hvað síst félagslegir byggingarsjóðir — eru annars vegar. Það er ekki tilviljun hjá núverandi ríkisstjórn.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli sem áheyrnarfulltrúi og lýsir sem samþykka áliti minni hlutans.

Alþingi, 20. des. 1995.


Jón Baldvin Hannibalsson,

Ágúst Einarsson.

Steingrímur J. Sigfússon.

frsm.