Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 43 . mál.


458. Framhaldsnefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1996.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Meiri hluti nefndarinnar hefur flutt breytingartillögu á þskj. 456 um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs fyrir Spöl hf. Ábyrgðin er tilkomin vegna eftirfarandi:
    Til þess að unnt yrði að ganga frá samningum við Enskilda Bank í Svíþjóð var óhjákvæmilegt að verktakar tækju á sig kostnað vegna tafa á því að vinna við jarðgöngin gæti hafist. Jafnframt hafa verktakar tekið ábyrgð á kostnaði sem verða kann ef verklok dragast fram yfir það sem samið er um. Þá bera verktakar ábyrgð á vissum ófyrirséðum áhættuþáttum sem ekki er hægt að tryggja sig fyrir. Ábyrgð af þessum sökum nemur allt að 300 millj. kr. sem þó gjaldfalla ekki fyrr en séð verður að staðið verður við samninginn.
    Taldar eru 1–12% líkur á að til frekari styrkingar á göngunum en segir í verksamningi kunni að koma. Ógjörningur er að meta slíkan ófyrirsjáanlegan kostnað en hér er reiknað með að ríkisábyrgð af þessum sökum á lánum til Spalar hf. kunni að nema allt að 300 millj. kr. sem gjaldfalla einu ári eftir að göngin hafa verið tekin í notkun.
    Reiknað er með að vegtenging við göngin kosti um 800 millj. kr. Gert er ráð fyrir að Spölur hf. taki lán með ríkisábyrgð fyrir helming fjárhæðarinnar sem endurgreiðist af veggjaldi. 400 millj. kr. verða greiddar af vegafé Reykjaneskjördæmis og Vesturlandskjördæmis á árunum 1999–2003 en vextir greiðast þó af óskiptu fé vegasjóðs.

Alþingi, 20. des. 1995.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.