Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 1 . mál.


459. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 14. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hlutastofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í máli fulltrúa Þjóðhagsstofnunar kom fram að horfur í efnahagsmálum eru hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun sem lögð var fyrir Alþingi í haust.
    Á árinu 1995 varð minni aukning á útflutningi vöru og þjónustu en reiknað var með í þjóðhagsáætlun, eða 0,3%, en áætlunin gerði ráð fyrir 3,2%. Verðbólga á árinu 1995 verður nokkurn veginn sú sama og spáð var eða 1,6% á milli ára. Nú er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 4% frá árinu 1994 samanborið við 3,5% í þjóðhagsáætlun.
    Þjóðhagsstofnun áætlar að þjóðarútgjöld aukist um 4,9% á árinu. Afgangur á viðskiptajöfnuði stefnir í að verða minni á þessu ári en gert var ráð fyrir. Reiknað er með að afgangurinn verði 2 milljarðar kr. á þessu ári í stað 4,7 milljarða kr. samkvæmt þjóðhagsspá. Þjóðhagsstofnun gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur á árinu verði 2,6% í stað 3,2% í þjóðhagsáætlun og spáir 3,2% hagvexti á næsta ári og aukningu þjóðartekna um 3,7%.
    Vegna aukinna umsvifa í þjóðarbúskapnum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki á árinu 1996 og verði 4% í stað 5% eins og þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir. Þjóðhagsstofnun telur líklegt að verðbólga aukist nokkuð á næsta ári og er því spáð að neysluverð hækki um 2,75% milli ára.
    Gert er ráð fyrir mun óhagstæðari viðskiptajöfnuði en í þjóðhagsáætlun. Nú er talið að hann verði 7,3 milljarðar kr. á árinu 1996 í stað 3,6 milljarða kr.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku nefndaráliti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum. Tillögur meiri hluta nefndarinnar, er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs, leiða til hækkunar útgjalda um 829,6 m.kr.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996 var reiknað með að tekjur ríkissjóðs yrðu 119,9 milljarðar kr., en nú er gert ráð fyrir að tekjurnar verði 120,9 milljarðar kr. eða 976 m.kr. meiri en í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í haust.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Viðfangsefnið 5.20 Fasteignir hækkar um 20 m.kr. og verður 54 m.kr. vegna endurbóta á húseignum Alþingis.

01 Forsætisráðuneyti


101    Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa: Framlag hækkar um 6 m.kr. vegna formennsku Íslands í EFTA.
190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.52 Undirbúningur að 1000 ára afmæli kristnitöku. Framlag er 4 m.kr. og er ætlað til að undirbúa hátíðarhöld árið 2000 til að minnast 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.
221    Byggðastofnun: Framlag til stofnunarinnar hækkar um 8 m.kr. og verður 218 m.kr. vegna sérstakra aðgerða til stuðnings ferðaþjónustu.

02 Menntamálaráðuneyti


201    Háskóli Íslands: Framlag til viðfangsefnisins 1.06 Kennslu- og vísindadeildir hækkar um 15 m.kr.
210    Háskólinn á Akureyri: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 1,5 m.kr. og verður 197 m.kr.
981    Kvikmyndasjóður: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 9,3 m.kr. og verður 98 m.kr.
982    Listir, framlög: Viðfangsefnið 1.30 Íslenska óperan hækkar um 6,8 m.kr. og verður 53,3 m.kr.
983    Ýmis fræðistörf: Tekinn er inn nýr liður, 1.23 Hið íslenska bókmenntafélag. Veitt er sérstök fjárveiting að fjárhæð 12 m.kr. til að ljúka megi útgáfu Sögu Íslands.
989    Ýmis íþróttamál: Viðfangsefnið 1.14 Íþróttasamband fatlaðra hækkar um 4 m.kr. og verður 12,5 m.kr. Hækkunin er vegna þátttöku íþróttasambandsins á Ólympíuleikum fatlaðra.
999    Ýmislegt: Viðfangsefnið 1.63 Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna hækkar um 2 m.kr. og verður 7,5 m.kr.

03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3 m.kr. og verður 319,7 m.kr. Hækkunin er vegna samstarfsnefndar utanríkisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um verkefnaútflutning.
390    Þróunarsamvinnustofnun Íslands: Framlag hækkar um 5 m.kr. og verður 157,6 m.kr. Á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi um sömu fjárhæð.
391    Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi: Viðfangsefnið 1.14 Aðstoð Íslands á svæðum Palestínumanna í Ísrael lækkar um 5 m.kr. og verður 20,1 m.kr. en á móti hækkar framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um sömu fjárhæð.

04 Landbúnaðarráðuneyti


101    Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2,2 m.kr. vegna stöðu ritara.
190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.55 Tilraunastöðin Stóra-Ármóti, og er framlag 1,5 m.kr., ætlað til að mæta afborgunum af lánum vegna framkvæmda við tilraunastöðina. Á móti lækkar framlag til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um sömu fjárhæð.
211    Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 2,5 m.kr. og verður 202,6 m.kr. Framlag hækkar um 4 m.kr. vegna breyttra áforma varðandi starfsemi RALA í straumfræðihúsi á Keldnaholti en á móti lækkar það um 1,5 m.kr. vegna framlags til Stóra-Ármóts á fjárlagalið 190 Ýmis verkefni.
821    Framleiðnisjóður landbúnaðarins: Viðfangsefnið 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 8,1 m.kr. og verður 208,1 m.kr. vegna endurgreiðslu stimpilgjalda.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


101    Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3 m.kr. vegna samstarfsnefndar utanríkisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um verkefnaútflutning.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.45 Mannréttindaskrifstofa Íslands hækkar um 1 m.kr. og verður 4 m.kr.
235    Bætur brotaþola: Þetta er nýr fjárlagaliður og er framlag 45 m.kr.
331    Umferðarráð: Framlag til fjárlagaliðarins lækkar um 13 m.kr. vegna hækkunar sértekna. Fyrirhugað er að leggja til breytingu við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem leiðir til þess að umferðaröryggisgjald hækkar úr 100 kr. í 200 kr. Áætlað er að tekjur vegna þessarar hækkunar muni verða 13 m.kr. á næsta ári og færist það sem sértekjur á fjárlagalið Umferðarráðs.
417    Sýslumaðurinn í Bolungarvík: Heildarframlag hækkar um 14,9 m.kr. þar sem fallið er frá áformum um að leggja embættið niður. Hækkunin skiptist á tvo liði. Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 7,1 m.kr. og verður 11,7 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Löggæsla hækkar um 7,8 m.kr. og verður 9,1 m.kr. Á móti lækkar framlag til sýslumannsins á Ísafirði um 7,1 m.kr.
418    Sýslumaðurinn á Ísafirði: Heildarframlag lækkar um 7,1 m.kr. þar sem fallið er frá áformum um að leggja niður sýslumannsembættið í Bolungarvík. Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn lækkar um 0,2 m.kr. og verður 38,8 m.kr. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla lækkar um 6,9 m.kr. og verður 46,3 m.kr.
423    Sýslumaðurinn á Ólafsfirði: Heildarframlag hækkar um 15,1 m.kr. þar sem fallið er frá áformum um að leggja embættið niður. Hækkunin skiptist á tvo liði. Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 7,1 m.kr. og verður 12,4 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Löggæsla hækkar um 8 m.kr. og verður 9,1 m.kr. Á móti lækkar framlag til sýslumannsins á Akureyri um 7,2 m.kr.
424    Sýslumaðurinn á Akureyri: Heildarframlag lækkar um 7,2 m.kr. þar sem fallið er frá áformum um að leggja niður sýslumannsembættið á Ólafsfirði. Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 0,1 m.kr. og verður 73,6 m.kr. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla lækkar um 7,3 m.kr. og verður 97,8 m.kr.
434    Sýslumaðurinn í Keflavík: Framlag hækkar um 9 m.kr. vegna breytts fyrirkomulags á innheimtu opinberra gjalda á Suðurnesjum. Á móti fellur fjárlagaliðurinn 09-259 Gjaldheimta Suðurnesja niður.

07 Félagsmálaráðuneyti


722    Sólheimar Grímsnesi: Framlag hækkar um 17,4 m.kr. og verður 98,8 m.kr. í tengslum við fyrirhugaðan samning félagsmálaráðuneytis og Sólheima.
801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Framlag hækkar um 50 m.kr. og verður 2.161 m.kr. Hækkunin er vegna endurskoðunar á tekjuáætlun og felur einnig í sér fjárhæð sem ætluð er til átaks um sameiningu sveitarfélaga.
981    Vinnumál: Viðfangsefnið 1.90 Ýmislegt hækkar um 6 m.kr. og verður 24,8 m.kr.
984    Atvinnuleysistryggingasjóður: Framlag lækkar um 400 m.kr. og verður 3.040 m.kr. Breytingin skiptist þannig að framlag hækkar um 150 m.kr. vegna hækkunar bóta atvinnuleysistrygginga. Á móti er í þjóðhagsspá gert ráð fyrir minna atvinnuleysi sem leiðir til 300 m.kr. lækkunar á útgjöldum sjóðsins. Enn fremur eru millifærðar 250 m.kr. af sjóðnum yfir á fjárlagalið 08-214 Eftirlaunasjóður aldraðra.
999    Ýmislegt: Viðfangsefnið 1.31 Félagasamtök, styrkir hækkar um 2 m.kr., og er ætlað til Blindrafélagsins. Gerð er breyting á sundurliðun liðarins frá 2. umræðu fjárlaga.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


203    Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð: Framlag til almennrar starfsemi hækkar um 80 m.kr. og verður 3.865 m.kr. Hækkunin er tvíþætt. Annars vegar hækkar framlag um 30 m.kr. þar sem áform um lækkun heimildarbóta hafa verið endurskoðuð. Hins vegar hækkar framlag um 50 m.kr. í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins vegna hækkunar á bótum.
204    Lífeyristryggingar: Framlag hækkar um 460 m.kr. og verður 13.900 m.kr. Hækkunin er tilkomin vegna 3,5% hækkunar á helstu bótaflokkum lífeyristrygginga 1. janúar 1996 og vegna þess að áform um að telja fjármagnstekjur með í tekjugrunni við ákvörðun tekjutengdra bóta taka ekki gildi fyrr en 1. september 1996.
206    Sjúkratryggingar: Framlag lækkar um 135,2 m.kr. og verður 10.324,8 m.kr. Breytingin er margþætt. Í fyrsta lagi hækkar framlag um 10 m.kr. vegna breyttra sparnaðaráforma. Þar er annars vegar um að ræða 70 m.kr. hækkun vegna þess að ekki munu ganga eftir að fullu áform um hert eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með greiðslum samkvæmt samningum við ýmsar heilbrigðisstéttir og strangara eftirlit með erlendum sjúkrakostnaði. Á móti lækkar framlag um 60 m.kr. vegna endurskoðunar á greiðslum fyrir sérfræðilæknisþjónustu. Í öðru lagi lækkar framlag um 14,5 m.kr. á móti hækkun til Ríkisspítala vegna kaupa á hjartagangráðum. Í þriðja lagi lækkar framlag um 10,7 m.kr. á móti lækkun sértekna hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur vegna neyðarvaktar á Reykjavíkursvæðinu. Að lokum lækkar framlag um 120 m.kr. á móti lækkun sértekna á sjúkrahúsum en fallið hefur verið frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum.
208    Slysatryggingar: Framlag lækkar um 110 m.kr. og verður 390 m.kr. Lækkunin stafar af því að frá og með næsta ári verður útgerðum gert að greiða sérstakt iðgjald til slysatryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins til að standa undir aflahlut sem stofnunin greiðir sjómönnum vegna vinnuslysa.
214    Eftirlaunasjóður aldraðra: Framlag hækkar um 250 m.kr. og verður 350 m.kr. Á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður um sömu fjárhæð.
301    Landlæknir: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2 m.kr. og verður 38,1 m.kr. Hækkunin er vegna átaks til að draga úr lyfjaávísunum og til fræðsluátaks um beinþynningu.
340    Málefni fatlaðra: Heildarframlag til liðarins er óbreytt en fjárveiting er flutt á milli viðfangsefna. Tekinn er inn nýr liður, 1.80 Gigtarráð, og er framlag 2 m.kr. en á móti lækkar framlag til viðfangsefnisins 1.90 Ýmis starfsemi um sömu fjárhæð.
350    Sjúkrahúsið Akranesi: Framlag til sjúkrahússins hækkar um 13,6 m.kr. og verður 448,2 m.kr. Breytingin er tvíþætt. Annars vegar hækka launagjöld um 7,6 m.kr. og er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð. Hins vegar hækkar framlag um 6 m.kr. vegna lækkunar sértekna en fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum.
355    Sjúkrahús Austur-Húnvetninga, Blönduósi: Launagjöld hækka um 0,5 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
356    Sjúkrahúsið Sauðárkróki: Launagjöld hækka um 5 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
357    Sjúkrahúsið Siglufirði: Launagjöld hækka um 1,1 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 37 m.kr. Launagjöld hækka um 15 m.kr. vegna innbyrðis leiðréttinga á fjárveitingu til stofnunarinnar. Á móti lækkar framlag um sömu fjárhæð vegna hækkunar sértekna þannig að heildaráhrif verða engin. Í annan stað lækka sértekjur um 10 m.kr. en fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum. Í þriðja lagi hefur verið samþykkt 75% staða barna- og unglingageðlæknis við sjúkrahúsið. Fjárveiting vegna þessa er 4,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting til fjárlagaliðarins 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi um sömu fjárhæð. Að lokum hækkar rekstrarframlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um 22,5 m.kr. og er það hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
361    Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað: Launagjöld hækka um 3 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
363    Sjúkrahúsið Egilsstöðum: Launagjöld hækka um 1 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
365    Sjúkrahús Suðurlands, Selfossi: Launagjöld hækka um 1 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
366    Sjúkrahúsið Vestmannaeyjum: Launagjöld hækka um 1 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
367    Sjúkrahúsið Suðurnesjum: Fjárveiting til almennrar starfsemi lækkar um 5 m.kr. sem er hlutur sjúkrahússins í þeim sérstaka sjóði sem nota skal til aukinnar samvinnu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.
370    Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi: Framlag til almennrar starfsemi hækkar um 195,5 m.kr. og verður 220,5 m.kr. Annars vegar hækkar framlagið um 200 m.kr. vegna sérstaks sjóðs sem nota á til aukinnar samvinnu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Hins vegar lækkar framlagið um 4,5 m.kr. á móti hækkun til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
371    Ríkisspítalar: Heildarframlag til fjárlagaliðarins lækkar um 23,5 m.kr. Framlag hækkar um 14,5 m.kr. vegna kostnaðar við hjartagangráða en á móti lækkar framlag til sjúkratrygginga um sömu fjárhæð. Í öðru lagi lækkar fjárveiting til almennrar starfsemi um 120 m.kr. sem er hlutur Ríkisspítala í þeim sérstaka sjóði sem nota skal til aukinnar samvinnu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Loks hækkar framlag um 82 m.kr. vegna lækkunar sértekna en fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum.
375    Sjúkrahús Reykjavíkur: Heildarframlag til fjárlagaliðarins hækkar um 37,7 m.kr. Framlag til almennrar starfsemi lækkar um 70 m.kr. sem er hlutur sjúkrahússins í þeim sérstaka sjóði sem nota skal til aukinnar samvinnu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 107,7 m.kr. vegna lækkunar sértekna og er breytingin tvíþætt. Annars vegar lækka sértekjur um 97 m.kr. þar sem fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum. Hins vegar lækka sértekjur um 10,7 m.kr. vegna neyðarvaktar á Reykjavíkursvæðinu. Á móti lækkar framlag til sjúkratrygginga um sömu fjárhæð.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefnið 6.60 Tækjakaup hækkar um 2 m.kr. og verður 19,4 m.kr. Hækkunin er ætluð til hópslysabúnaðar á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 5,5 m.kr. og skiptist hækkunin á þrjú viðfangsefni. Framlag til viðfangsefnisins 1.59 Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili hækkar um 2 m.kr. og verður 14 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.67 Sjálfsbjörg Reykjavík, og er framlagið 3 m.kr. sem er ætlað til félagsstarfsemi Sjálfsbjargar. Viðfangsefni 1.90 Ýmis framlög hækkar um 0,5 m.kr. og er framlagið ætlað til fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir.
400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði: Framlag lækkar um 5 m.kr. sem er hlutur sjúkrahússins í þeim sérstaka sjóði sem nota skal til aukinnar samvinnu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Á móti hækkar framlag um 5 m.kr. vegna lækkunar sértekna en fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum.
404    Sjúkraskýlið Hólmavík: Launagjöld hækka um 2 m.kr. sem er hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.
430    Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun: Fjárveiting til almennrar starfsemi lækkar um 17 m.kr. vegna breytts fyrirkomulags sjúkraþjálfunar en á móti hækkar framlag um 3,3 m.kr. og er það hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð. Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 17 m.kr. vegna lækkunar sértekna.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt: Framlag til viðfangsefnisins 1.10 Almenn starfsemi lækkar um 5 m.kr. vegna nýrra stöðuheimilda í heilsugæslu. Á móti hækkar fjárveiting til þriggja heilsugæslustöðva samtals um 5 m.kr.
512    Heilsugæsla í Reykjavík, Austurbæjarumdæmi syðra: Viðfangsefni 1.10 Heilsugæslustöðin Efra-Breiðholti hækkar um 1,7 m.kr. vegna stöðu læknis en á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 500 Heilsugæslustöðvar, almennt um sömu fjárhæð. Viðfangsefni 1.20 Heilsugæslustöðin Mjódd hækkar um 1,6 m.kr. vegna stöðu læknis en á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 500 Heilsugæslustöðvar, almennt um sömu fjárhæð.
553    Heilsugæslustöðin Akureyri: Framlag hækkar um 0,7 m.kr. og verður 112,9 m.kr. vegna heimahlynningar.
581    Heilsugæslustöð Suðurnesja: Framlag til almennrar starfsemi hækkar um 8 m.kr. og verður 92,8 m.kr. Hækkunin er vegna leiðréttingar á rekstrarframlagi og staða heilsugæslulæknis er þar með talin.
585    Heilsugæslustöðin Seltjarnarnesi: Viðfangsefni 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 1,7 m.kr. vegna stöðu læknis en á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 500 Heilsugæslustöðvar, almennt um sömu fjárhæð.
511-586 Heilsugæslustöðvar: Ákveðið hefur verið að endurskoða gjaldtöku á heilsugæslu         stöðvum og mun það leiða til alls 50 m.kr. lækkunar framlags vegna hækkunar sértekna. Skipting á heilsugæslustöðvar er sýnd í yfirliti í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar.
950    Rekstrarhagræðing: Framlag til almennrar starfsemi lækkar um 40,6 m.kr. Annars vegar lækkar framlagið um 48 m.kr. á móti hækkunum til sjúkrahúsa. Hins vegar hækkar framlagið um 7,4 m.kr. og er ætlað til að fjármagna samning við Hornafjarðarbæ vegna verkefnis í tengslum við reynslusveitarfélög.

09 Fjármálaráðuneyti


211    Skattstofa Reykjaness: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til starfs vegna skatteftirlits. Á móti lækkar framlag til fjárlagaliðarins 212 Skattamál, ýmis útgjöld um sömu fjárhæð.
212    Skattamál, ýmis útgjöld: Viðfangsefnið 1.10 Skatteftirlit lækkar um 2 m.kr. en á móti hækkar framlag til skattstofu Reykjaness um sömu fjárhæð.
259    Gjaldheimta Suðurnesja: Fjárlagaliður þessi fellur niður og flyst fjárveitingin, sem er 9 m.kr., á fjárlagalið 06-434 Sýslumaðurinn í Keflavík
381    Uppbætur á lífeyri: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 90 m.kr. og verður 960 m.kr. Í kjölfar kjarasamninga og úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar hafa verið endurmetnar áætlaðar greiðslur til lífeyrisþega sem eiga aðild að lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og öðrum lífeyrissjóðum sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum: Tekinn er inn nýr liður, 1.90 Sparnaður í ríkisrekstri, og er framlag 150 m.kr. vegna kostnaðar í tengslum við átak til að lækka ríkisútgjöld.

10 Samgönguráðuneyti


341    Siglingamálastofnun ríkisins: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 2 m.kr. vegna lækkunar sértekna.
651    Ferðamálaráð: Viðfangsefnið 1.01 Ferðamálaráð lækkar um 3 m.kr. en fjárveiting vegna rannsókna á sviði ferðamála og markaðssetningar vestan hafs var ranglega færð við 2. umræðu fjárlaga. Fjárveitingin er flutt yfir á lið 1.81 Ferðamálaráð skv. 8. gr. laga nr. 117/1994 og hækkar sá liður því um 3 m.kr. Viðfangsefni 1.15 Samstarfssamningur við Grænland og Færeyjar hækkar um 1 m.kr. og verður 9,7 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti


101    Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3 m.kr. vegna samstarfsnefndar utanríkisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um verkefnaútflutning.

12 Viðskiptaráðuneyti


101    Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Yfirstjórn hækkar um 5 m.kr. vegna nýrra laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

    Nefndinni hafa borist óskir fjármálaráðuneytis og annarra ráðuneyta um leiðréttingar á heitum fjárlagaliða og viðfangsefna í 4. gr. Hér er ekki um efnislegar breytingar að ræða en þær eru sem hér segir:
1.    Fjárlagaliðurinn 02-804 Kvikmyndaeftirlit ríkisins fær heitið 02-804 Kvikmyndaskoðun í samræmi við 2. gr. laga nr. 47/1995.
2.    Viðfangsefnið 03-401-1.16 Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti, GATT fær heitið 03-401-1.16 Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO.
3.    Viðfangsefnið 03-401-1.75 Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE fær heitið 03-401-1.75 Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE.
4.    Viðfangsefnið 04-891-1.11 Framleiðsla og markaðssetning lífrænna afurða fær heitið 04-891-1.11 Framleiðsla og markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða.
    Nefndin hefur fallist á þessar breytingar og verða þær teknar upp í fjárlögum þegar þau verða prentuð eftir 3. umræðu, en ekki fluttar sérstakar breytingartillögur um þær.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 5. GR. (B-HLUTA)



    B-hlutaáætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga og nýrra upplýsinga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða á næsta ári. Í framhaldi af því gerir meiri hlutinn tillögu um breytingar á sjö áætlunum í B-hluta.

22 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna: Samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins fjölgar lánþegum nokkuð þannig að útlán verða 2.790 m.kr. sem er 40 m.kr. hækkun frá fjárlagafrumvarpi. Í fjárlagafrumvarpi var framlag ríkisins miðað við 51% af áætluðum útlánum, en nú er gert ráð fyrir að hlutfallið hækki í 52%. Er það í samræmi við niðurstöðu athugunar Hagfræðistofnunar Háskólans og Ríkisendurskoðunar á fjárhagsstöðu sjóðsins. Framlag ríkisins var hækkað af þessum sökum um 50 m.kr. í A-hluta við 2. umræðu fjárlaga og verður 1.450 m.kr. Áætlun í B-hluta er nú breytt til samræmis. Áætlað er að vaxta- og lántökukostnaður sjóðsins lækki um 110 m.kr. frá fjárlagafrumvarpi þar sem fallið var frá því á þessu ári að innheimta sérstakt ríkisábyrgðargjald af sjóðnum. Lántökukostnaður er nú áætlaður 1,6% af útlánum í stað 4% áður. Gert er ráð fyrir því að afborganir af lánum lækki um 20 m.kr. og verði 2.660 m.kr. Innheimtir vextir og lántökugjald er áætlað 75 m.kr. sem er hækkun um 2 m.kr. Rekstrarkostnaður er áætlaður 2 m.kr. hærri en í fjárlagafrumvarpi. Lántökur eru áætlaðar 3.930 m.kr. sem er lækkun um 100 m.kr. frá frumvarpi.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands: Við 2. umræðu fjárlaga var framlag til hljómsveitarinnar í A-hluta hækkað um 3 m.kr. vegna tónleikaferðar sem farin verður á næsta ári. Áætlun í B-hluta er breytt til samræmis við þá hækkun.

27 Félagsmálaráðuneyti

972    Bjargráðasjóður: Við 2. umræðu fjárlaga var samþykkt að veita 30 m.kr. til sjóðsins. Á árinu hefur orðið mikið tjón á túnum og mannvirkjum af völdum snjóþunga og aurskriða sem ekki er hægt að tryggja fyrir. Einnig hafa orðið miklar kalskemmdir í túnum. Bjargráðasjóður hefur bótaskyldu vegna umræddra tjóna en fyrirséð er að hann getur ekki staðið undir bótagreiðslum til tjónþola nema hann fái framlag úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að fjármunatekjur sjóðsins nemi 6 m.kr. og aðrar tekjur 56,7 m.kr.
984    Atvinnuleysistryggingasjóður: Breytingartillögur vegna sjóðsins skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi er atvinnuleysi á næsta ári áætlað 4,4% samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsáætlun Þjóðhagsstofnunar í stað 4,8% í fjárlagafrumvarpi. Áætlaðar bótagreiðslur sjóðsins lækka af þessum sökum um 300 m.kr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að bætur hækki 1. janúar 1996 um 2.700 kr. á mánuði í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins í lok nóvember. Talið er að þessi hækkun auki bætur atvinnuleysistrygginga um 150 m.kr. á árinu 1996. Loks er gerð tillaga um að færa 250 m.kr. framlag af fjárlagalið Atvinnuleysistryggingasjóðs yfir á fjárlagaliðinn 08-214 Eftirlaunasjóður aldraðra. Með þessu er verið að létta af Atvinnuleysistryggingasjóði kostnaði vegna eftirlauna aldraðra sem sjóðurinn hefur samkvæmt lögum borið hingað til. Þess í stað mun hlutur sjóðsins framvegis verða greiddur beint úr ríkissjóði. Þessi breyting tengist þeirri ákvörðun að skipta tryggingagjaldi í atvinnutryggingagjald og almennt tryggingagjald. Atvinnutryggingagjaldinu er alfarið ætlað að standa undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóð.

30 Samgönguráðuneyti

101    Póst- og símamálastofnun og 110 Póst- og símamálastofnun, samkeppnisrekstur: Breytingartillögum má skipta í fernt. Í fyrsta lagi gerðu forsendur fjárlagatillagna stofnunarinnar ekki ráð fyrir launabreytingum eða verðlagsbreytingum á milli áranna 1995 og 1996. Í breytingartillögum er hins vegar gert ráð fyrir 12% hækkun launa auk almennra verðlagsbreytinga og hækka því laun um 460 m.kr. og önnur rekstrargjöld um 224 m.kr. Í öðru lagi var í frumvarpi til fjárlaga gert ráð fyrir að stofnunin greiddi 810 m.kr. í arð til ríkissjóðs en samkeppnissviðið 50 m.kr. Lagt er til að samkeppnisreksturinn beri stærri hlut af þessari arðgreiðslu eða 125 m.kr. og annar rekstur greiði 735 m.kr. Í þriðja lagi er fjárfesting stofnunarinnar áætluð 10 m.kr. lægri en áður vegna millifærslna. Í fjórða lagi blasir við að rekstrarniðurstaða stofnunarinnar árið 1995 verður betri en ráð var fyrir gert þegar fjárlagatillögur stofnunarinnar voru frágengnar. Af þessum sökum hækkar greiðsluafgangur frá fyrra ári um 169 m.kr. hjá samkeppnissviðinu og um 250 m.kr. hjá öðrum hluta stofnunarinnar.
330    Hafnabótasjóður: Við 2. umræðu fjárlaga var framlag í A-hluta til sjóðsins lækkað um 27,6 m.kr. Var þetta gert til að mæta auknum framlögum til hafnamannvirkja. Áætlun í B-hluta er breytt á þann hátt að veitt lán Hafnabótasjóðs lækka úr 45 m.kr í 17,4 m.kr.

31 Iðnaðarráðuneyti

321    Rafmagnsveitur ríkisins: Raforkukerfi fyrirtækisins urðu fyrir töluverðu tjóni á þessu ári vegna óveðurs og ísingar. Lagt er til að fyrirtækinu verði heimilað að taka ný lán að fjárhæð 200 m.kr. til framkvæmda í viðbót við þær 450 m.kr. sem í fjárlagafrumvarpi voru áætlaðar til að fjármagna kaup á veitum og greiðslu skammtímalána. Er þetta gert til að flýta framkvæmdum við lagningu jarðstrengs á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti vegna ísingar á síðustu árum. Helmingi fjárhæðarinnar verður varið til lagningar jarðstrengs sem komi í stað helmings línunnar frá Kópaskeri til Brúarlands í Þistilfirði, en framkvæmdin var ráðgerð árið 1998.

Alþingi, 20. des. 1995.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Hjálmar Jónsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.





Fylgiskjal I.


Álit


um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.
    

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp, hefur nefndin fjallað um tekjugrein fjárlagafrumvarpsins og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Til að skýra málið frekar fékk nefndin á fund sinn Bolla Þór Bollason skrifstofustjóra og Maríönnu Jónasdóttur deildarstjóra í fjármálaráðuneytinu.
    Þær skattabreytingar, sem varða tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1996, koma einkum fram í frumvörpum til laga um breytingar á tekju- og eignarsköttum og tryggingagjaldi. Einnig hefur nefndin fjallað um frumvörp til laga um breytingar á skattskyldu innlánsstofnana, bifreiðagjaldi og aukatekjum ríkissjóðs, en þau eru talin hafa óveruleg áhrif á tekjuhliðina.
    Í frumvarpi til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum sem flestar tengjast ákvörðunum stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga á þessu ári. Fyrst ber að telja skattfrelsi lífeyrisiðgjalda, en kostnaður af þeirri breytingu nemur um 1.400 m.kr. á næsta ári. Þar af eru 600 m.kr. þegar komnar fram á þessu ári. Í tengslum við þessa breytingu er skattfrelsi 15% af lífeyrisgreiðslum ellilífeyrisþega fellt niður sem sparar ríkissjóði 250–300 m.kr. Þá eru breytingar á barnabótaauka til að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfsins sem skerða tekjur ríkissjóðs um 500 m.kr. Enn fremur verður einstaklingum heimiluð fyrning einkabifreiða sem talið er að skerði tekjur ríkissjóðs af eignarskatti einstaklinga um 50–60 m.kr. á komandi ári. Á móti vegur afnám sjálfvirkrar verðuppfærslu á afsláttar- og bótaliðum í tekjuskattskerfinu, en sú breyting er talin spara ríkissjóði nálægt 1 milljarði kr. árið 1996. Að lokum er álagning 5% hátekjuskatts framlengd um eitt ár, samtals um 300 m.kr.
    Í frumvarpi til laga um breytingar á tryggingagjaldi er gert ráð fyrir 0,5% hækkun þess frá og með næstu áramótum. Þessari breytingu er ætlað að mæta tekjutapi vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda að hluta, auk þess að styrkja fjárhag Atvinnuleysistryggingasjóðs, en hún er talin skila ríkissjóði tæplega 1 milljarði kr. í viðbótartekjur á árinu 1996.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 (3. gr.) voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar tæplega 120 milljarðar kr. Frá því að sú áætlun var gerð hafa efnahagsforsendur að ýmsu leyti breyst. Meðal annars er búist við meiri einkaneyslu heimilanna í kjölfar aukins kaupmáttar sem hefur jákvæð áhrif á tekjuhliðina. Þannig er talið að tekjur ríkissjóðs verði um 1 milljarði kr. meiri á næsta ári en áður var áætlað, eða tæplega 121 milljarður kr. Á móti auknum tekjum kemur ákvörðun stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga um að flýta gildistöku skattfrelsis lífeyrisiðgjalda. Sú ráðstöfun kostar ríkissjóð um 400 m.kr. árið 1996 til viðbótar þeim 1.000 m.kr. sem þegar hafði verið reiknað með í tekjuáætlun frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að skatttekjur hækki um 1.226 m.kr. en á móti koma lækkaðar vaxtatekjur. Þegar allt er lagt saman fela breyttar þjóðhagsforsendur í sér 976 m.kr. hærri tekjur en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt því verður hlutfall skatttekna af landsframleiðslu 23,2% sem er lægsta hlutfall síðan 1987.

Alþingi, 19. des. 1995.



Vilhjálmur Egilsson, form.


Valgerður Sverrisdóttir.


Einar Oddur Kristjánsson.


Sólveig Pétursdóttir.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.





Fylgiskjal II.


Álit


um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í þingbyrjun og þar til nú hefur ýmislegt orðið til að breyta þeim tekjuforsendum sem kynntar voru í fyrstu útgáfu frumvarpsins.
    Náðst hefur samkomulag um stækkun álversins í Straumsvík, gerðar hafa verið viðbætur við gildandi kjarasamninga og flest virðist benda til að aflahorfur séu góðar og að úthafsveiði muni lítið skerðast. Þá aukast líkur á framkvæmdum við Hvalfjarðargöng.
    Þetta leiðir til þess að fjárfesting innlendra aðila mun vaxa og hagvöxtur taka við sér á ný í meiri mæli en sést hefur frá árinu 1987. Þjóðhagsstofnun spáir nú 3,2% hagvexti á næsta ári.
    Allt hefur þetta í för með sér að þjóðarútgjöld munu aukast nokkuð umfram þetta. Það mun vonandi slá eitthvað á atvinnuleysið, jafnframt því sem aukin þensla mun hafa áhrif á verðlag og vexti, verði ekki spornað við fótum. Samkvæmt fyrrnefndri spá Þjóðhagsstofnunar munu þjóðarútgjöld aukast um 5,6% á næsta ári. Samhliða aukinni neyslu er fátt sem bendir til þess að útflutningur muni aukast að sama skapi til að vega upp á móti væntanlegum halla á viðskiptunum við útlönd. Því er spáð að sá halli verði 7,3 milljarðar kr. Komandi ár mun því einkennast af aukinni eyðslu og vaxandi þenslu í þjóðarbúskapnum.
    Á sama tíma og sýnileg þenslumerki eru fram undan og viðskiptahallinn við útlönd fer vaxandi stefnir ríkisstjórnin að því að afgreiða fjárlög með yfir 4 milljarða kr. halla og með mörgum og stórum innbyggðum veikleikum, einkum í heilbrigðiskerfinu. Þetta gerist þrátt fyrir harkalegar aðgerðir er skerða kjör aldraðra og lokun stórra deilda á sjúkrahúsum.
    Ríkisstjórnin stefnir samtímis að því að auka á skuldsetningu ríkissjóðs með nýjum lánsfjárlögum. Ríkisstjórnin ætlar því sýnilega að sitja hjá í aðhaldsaðgerðum því að það eru einkum þessi tæki sem hún hefur í hendi sér að beita.
    Tekjuáætlun fjárlaga endurspeglar að mestu þessar breyttu forsendur. Þar er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins aukist um 1.500 m.kr. brúttó. Til frádráttar koma af öðrum og óskyldum ástæðum um 520 m.kr. Þannig verður nettótekjuaukning tæpur 1 milljarður kr.
    Rétt er að hafa í huga að aflaforsendur hafa ekki verið endurskoðaðar af Þjóðhagsstofnun og endurskoðuð tekjuáætlun tekur því ekki mið af neinum væntanlegum breytingum á afla. Allveruleg óvissa er því fyrir hendi um endanlegar niðurstöður.

Alþingi, 20. des. 1995.



Jón Baldvin Hannibalsson.


Ágúst Einarsson.


Steingrímur J. Sigfússon.