Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 339 . mál.


594. Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 1995.

    VES-þingið er þingmannasamkunda Vestur-Evrópusambandsins (VES) sem er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og stofnað var með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Í Maastricht-sáttmála ESB árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB. VES er einkum ætlað að gegna tveimur hlutverkum, að annast samræmingu á varnarmálahluta ESB, eins og að framan greinir, og jafnframt eru samtökin Evrópustoð NATO, þ.e. Evrópuríki sem aðild eiga að NATO eiga einnig aðild í einhverju formi að VES. Ofarlega á baugi umræðunnar innan VES-þingsins er framtíð sambandsins sjálfs, en fyrir ríkjaráðstefnu ESB sem hefjast á í mars 1996 liggur m.a. að taka stöðu og hlutverk VES til endurskoðunar. Aukið sjálfstæði Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum, staða evrópskra aðildarríkja NATO sem ekki eiga aðild að ESB, tengsl VES við NATO og ESB og stækkun VES og NATO til austurs er á meðal þess sem hefur verið til umræðu á vettvangi VES-þingsins árið 1995.

I. Markmið og skipulag VES-þingsins.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til þess að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild. Aðildarríki þingsins eru tíu talsins og eru þau jafnframt öll aðildarríki ESB og NATO. Þau eru: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Samtals eiga þessi ríki 108 fulltrúa á VES-þinginu. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, Ísland, Noregur og Tyrkland. Aukaaðildina fengu þau formlega 6. mars 1995. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð. Loks hafa níu ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES og hafa í krafti þess áheyrnaraðild að VES-þinginu. Þau eru: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, í júní og desember, en þingið getur haldið aukafundi að ákvörðun forsætisnefndar. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES. Þingið fjallar um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það tekur margvísleg málefni til umfjöllunar í nefndum þingsins, ályktar og gerir tillögur til VES-ráðsins. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku. Umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Fastanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Varamenn í landsdeildum mega taka aðalsæti í nefndum. Á þinginu starfa auk fastanefnda forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þremur fulltrúum til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna nokkra fundi á ári utan þingfundanna.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Þá mega varamenn landsdeilda taka aðalsæti í nefndum en geta einungis sótt þingfundina sem áheyrnarfulltrúar. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið mikinn þátt í störfum þess. Þeir hafa þó ekki full réttindi, t.d. geta þeir ekki tekið þátt í kosningu framkvæmdastjórnar þingsins eða umfjöllun um ársskýrslu VES. Þeir hafa heldur ekki rétt til að tala sitt eigið tungumál á fundunum. Í flestum tilfellum hafa þeir þó atkvæðisrétt í nefndum, rétt á að taka til máls, gera breytingartillögur, taka þátt í nefndastarfi o.s.frv.

II. Stofnun Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Vegna aðildar Íslands að NATO hefur Alþingi lengi staðið til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boð VES-þingsins árið 1993, en árið áður hafði Ísland fengið aukaaðild að VES sem þó tók ekki formlega gildi fyrr en í mars 1995. Í umboði forsætisnefndar tilnefndu Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og síðar Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins áheyrnarfulltrúa á desemberþing VES-þingsins árin 1994 og 1995. Í kjölfar þess að Ísland hlaut formlega aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu í mars 1995 samþykkti forsætisnefnd á fundi í maí 1995 að stofna Íslandsdeild VES-þingsins. Tilnefnd af þingflokkunum til setu í Íslandsdeildinni voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sem aðalmenn, og Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki, og Ásta R. Jóhannesdóttir, Þjóðvaka, sem varamenn. Á fyrsta fundi Íslandsdeildarinnar 8. júní 1995 var Lára Margrét Ragnarsdóttir kjörin formaður og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari. Alþingi á sem fyrr segir rétt á að senda þrjá fulltrúa á VES-þingið í krafti aukaaðildarinnar auk áheyrnarfulltrúa sem jafnframt geta tekið sæti aðalmanna í nefndum þingsins. Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir er sem hér segir:
     Forsætis-, stjórnar- og stjórnmálanefnd     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Varamaður          Össur Skarphéðinsson
     Varnarmálanefnd     Össur Skarphéðinsson
    Varamaður          Kristján Pálsson
     Nefnd um almannatengsl     Össur Skarphéðinsson
     Tækni- og geimvísinda-, fjármála- og
         stjórnsýslu- og þingskapanefnd
    Siv Friðleifsdóttir

III. Starfsemi á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegra þingfunda, í júní og desember, auk þess sem nefndir þingsins funda nokkrum sinnum á ári utan þingfunda. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í þingfundunum í júlí og desember auk þess sem formaður sótti sameiginlega fundi forsætis-, stjórnmála-, varnarmála- og tækni- og geimvísindanefndar í nóvember. Einnig tók Íslandsdeildin þátt í að taka á móti forseta VES-þingsins, Sir Dudley Smith, sem heimsótti Ísland í september í boði forseta Alþingis.

    III. hluti 40. fundar VES-þingsins.
    Dagana 19.–22. júní var haldinn III. hluti 40. fundar VES-þingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Össur Skarpéðinsson, Kristján Pálsson og Siv Friðleifsdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Eftirfarandi aðilar fluttu ávörp á þinginu og svöruðu fyrirspurnum: Sir Dudley Smith, forseti VES-þingsins, Durao Barroso, utanríkisráðherra Portúgals og formaður VES-ráðsins, Jose Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Figueiredo Lopez, varnarmálaráðherra Portúgal, Klaus Kinkel, utanríkisráðherra Þýskalands, Dr. Tansu Ciller, forsætisráðherra Tyrklands, Charles Millon, varnarmálaráðherra Frakklands, Kiro Gligorov, forseti fyrrum Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu, Gerasimos Arsenis, varnarmálaráðherra Grikklands, og Algirdas Brazauskas, forseti Litáens.
    Breytingar sem gerðar voru á starfsreglum þingsins gera aukaaðilum formlega kleift að taka fullan þátt í nefndafundum þingsins með atkvæðisrétti, nema í örfáum málum. Jafnframt hafa þeir í flestum tilfellum málfrelsi og tillögurétt á þingfundum. Í upphaflegu tillögunni um breytingar á starfsreglum þingsins var lagt til að aukaaðilar fengju jafnframt atkvæðisrétt á þingfundum, nema í einstöku tilvikum, en sú tillaga var dregin til baka þegar ljóst var að hún mundi mæta töluverðri andstöðu. Össur Skarphéðinsson ræddi undir þessum lið þátttöku Alþingis í starfi VES-þingsins og vilja sendinefndarinnar til að taka virkan þátt í starfi þess. Hann harmaði að tillagan um atkvæðisrétt á þingfundum til handa aukaaðilum skyldi vera dregin til baka. Í umræðum um Eystrasaltsþingið ræddi Össur Skarphéðinsson um tengsl Íslands og Eystrasaltsríkjanna og samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að VES-þingið legði sitt af mörkum til að treysta tengsl Eystrasaltsríkjanna við umheiminn. Hann hvatti til aukins samstarfs við Eystrasaltsþingið og aðstoð við þróun þess.
    Eftirfarandi skýrslur voru lagðar fram á fundinum og ályktanir afgreiddar um efni þeirra:
    Framtíð evrópskra öryggismála og undirbúningur Maastricht II
         — svar við 40. ársskýrslu ráðsins.
    Breytingar á starfsreglum VES-þingsins með tilliti til stöðu
         auka- og samstarfsaðila.
    Evrópa og ný heimsskipan fyrir frið og öryggi.
    Evrópskir herir.
    Í átt að eftirlitskerfi í geimnum.
    Nýir straumar í utanríkisstefnu ríkja Norður-Ameríku og afleiðingar
         þeirra fyrir samstarf Atlantshafsríkja á sviði varnar- og öryggismála.
    Austur-Miðjarðarhafssvæðið.
    Ástandið í fyrrum Júgóslavíu.
    Úkraína og öryggismál í Evrópu.
    Eystrasaltsþingið.

    Íslandsheimsókn Sir Dudley Smith, forseta VES-þingsins, í boði forseta Alþingis.
    Dagana 13.–17. september heimsótti forseti VES-þingsins, Sir Dudley Smith, Ísland í boði forseta Alþingis. Sir Dudley átti fundi með forseta Alþingis, utanríkismálanefnd, Íslandsdeild VES-þingsins, starfandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og embættismönnum varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, auk þess sem hann heimsótti herstöðina á Miðnesheiði og flutti framsögu og sat fyrir svörum á fundi Varðbergs.
    Á fundunum kom fram vilji íslenskra ráðamanna til virkrar þátttöku í starfi VES, en jafnframt sú megináhersla sem Íslendingar leggja á mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið og á áframhaldandi þátttöku Bandaríkjanna í vörnum Evrópu, Íslendingar litu á VES sem Evrópustoð NATO sem viðhalda bæri í núverandi mynd. Sir Dudley tók undir mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið og hvatti Íslendinga til þess að nota aukaaðild sína að VES til að halda þessum hugmyndum sínum á lofti í evrópskri öryggis- og varnarmálaumræðu. Hann sagði ekkert eins fjarri veruleikanum og grunsemdir um að VES ætti á einhvern hátt að taka við af NATO. Jafnframt lagði Sir Dudley áherslu á hlutverk VES sem varnarmálahluta Evrópusamstarfsins annars vegar og Evrópustoðar NATO hins vegar.

    Sameiginlegir fundir forsætis-, stjórnmála-, varnarmála- og tækni- og geimvísindanefndar.
    Fundirnir voru haldnir dagana 15.–17. nóvember í Madríd og voru sóttir af Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Þá fluttu ávörp m.a. Javier Solana og Suarez Pertierra, utanríkis- og varnarmálaráðherrar Spánar, en Spánn fór á þessum tíma með formennsku í ráðherraráði ESB. Ríkjaráðstefna ESB sem hefjast á í mars 1996 var m.a. til umræðu, en þar er ætlunin að taka hlutverk og stöðu VES til endurskoðunar, tengsl þess við ESB og þar með hugsanlega stöðu evrópskra NATO-ríkja utan ESB.

    I. hluti 41. fundar VES-þingsins.
    Dagana 4.–6. desember var haldinn I. hluti 41. fundar VES-þingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Siv Friðleifsdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Verkfallsaðgerðir opinberra starfsmanna í Frakklandi höfðu verulega áhrif á störf þingsins. Þannig hafði t.d. staðið til að fundinum yrði slitið um hádegi 7. desember, en vegna orðróms um lokun flugvalla þann dag var ákveðið að flýta dagskránni og slíta fundinum 6. desember. Þegar 5. desember tók þó að bera á að fulltrúum á þinginu færi fækkandi og hamlaði það ýmsum atkvæðagreiðslum á fundinum að ekki var nægur fjöldi atkvæðisbærra fulltrúa viðstaddur. Eftirfarandi aðilar fluttu ávörp á þinginu og svöruðu fyrirspurnum: Sir Dudley Smith, forseti VES-þingsins, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Suarez Pertierra, varnarmálaráðherra Spánar sem þá gegndi formennsku í ráðherraráði VES, Guila Horn, forsætisráðherra Ungverjalands, Michael Portillo, varnarmálaráðherra Bretlands, sem tók við formennsku í ráðherraráði VES í ársbyrjun 1996, Barnier, aðstoðarutanríkisráðherra Frakklands, sem fer með málefni Evrópu, og Javier Solana, utanríkisráðherra Spánar. Solana tók sem kunnugt er við starfi framkvæmdastjóra NATO í desember.
    Í setningarávarpi sínu greindi forseti þingsins, Sir Dudley Smith, frá heimsóknum sínum til Íslands í september og Noregs í nóvember, í boði Alþingis og norska Stórþingsins. Sagðist hann hafa fundið fyrir miklum áhuga ríkjanna á þátttöku í starfi VES, en bæði ríkin fengu formlega aukaaðild að VES í mars 1995. Sir Dudley lét þess enn fremur getið að fulltrúar umræddra aukaaðildarríkja væru nú þegar orðnir áhrifamiklir í nefndastarfi þingsins, en aukaaðildarríki hafa fullan atkvæðisrétt í nefndum þingsins. Í umræðum um VES í NATO ræddi Lára Margrét um mikilvægi þess að halda umræðunni um eflingu VES innan þess samhengis að verið væri að efla Evrópustoð NATO. Hún varaði við því að öll umræða um aukið sjálfstæði Evrópu í öryggis- og varnarmálum gæti ýtt undir einangrunarsjónarmið í Bandaríkjunum væri þess ekki gætt að fjalla um eflingu sjálfstæðs varnarmáttar Evrópu sem hluta af eflingu NATO þar sem VES gegndi hlutverki Evrópustoðar bandalagsins og væri undir það sett. Hún vísaði til orða Michaels Portillo, varnarmálaráðherra Bretlands, þess efnis að röð umsækjenda um aðild að NATO bæri áframhaldandi vægi bandalagsins vitni og sagði óráðlegt að fresta lengur inngöngu stöðugra lýðræðisríkja sem aðildar æskja í bandalagið. Við sömu umræðu mælti Norðmaðurinn Vidar Bjørnstad fyrir fullri aðild Noregs að VES, þrátt fyrir að vera ekki aðili að ESB, á grundvelli þess að Noregur væri evrópskt aðildarríki NATO og að VES skilgreindi hlutverk sitt sem Evrópustoð NATO. Finsberg lávarður, framsögumaður umræðunnar um VES í NATO, tók undir orð Láru Margrétar um stækkun NATO sem og orð Bjørnstads um fulla aðild evrópskra NATO-ríkja að VES, þótt þau væru ekki aðilar að ESB. Hann minnti jafnframt á að fyrir því hefði ávallt verið meiri hluti innan VES-þingsins að öll evrópsk aðildarríki NATO ættu kost á fullri aðild að VES.
    Eftirfarandi skýrslur voru lagðar fram á fundinum:
    Ríkjaráðstefna ESB og skipan öryggis- og varnarmála í Evrópu.
    VES í NATO.
    Öryggis- og varnarmálasamstarf á Eystrasalti.
    Kjarnorkuvopnatilraunir Frakka í Kyrrahafi.
    Evrópusamstarf í vopnaframleiðslu (WEAG): Leiðin fram undan.
    Hernaðarleg burðargeta í lofti — útlitið fyrir Evrópu.
    Samstarf þjóðþinga við Miðjarðarhafið.
    Þjóðþing, öryggis- og varnarmál Evrópu og leiðin að ríkja-
         ráðstefnu ESB árið 1996.
    Eins og áður segir reyndist ekki unnt að samþykkja ályktanir um öll efnin.

Alþingi, 16. febr. 1996.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Össur Skarphéðinsson,


form.

varaform.