Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 173 . mál.


620. Nefndarálit



um frv. til l. um Siglingastofnun Íslands.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá samgönguráðuneyti Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra og Helga Jóhannesson lögfræðing. Þá komu til fundar við nefndina Hermann Guðjónsson, vita- og hafnamálastjóri, Benedikt Guðmundsson siglingamálastjóri, Jóhanna Stefánsdóttir og Sigurður Guðmundsson, fulltrúar starfsmanna Vita- og hafnamálastofnunar, og Stefán Geir Karlsson, Páll Guðmundsson og Sævar Vigfússon, fulltrúar starfsmanna Siglingamálastofnunar.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um frumvarpið frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landhelgisgæslu Íslands, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sjómannasambandi Íslands, Sysavarnafélagi Íslands, Siglingamálastofnun Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskifélagi Íslands og Vita- og hafnamálastofnun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. frumvarpsins að forstjóri Siglingastofnunar Íslands skuli skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn og að hann skuli síðan ráða allt annað starfsfólk stofnunarinnar. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem boðuð er í starfsmannamálum hjá ríkinu, þ.e. að auka ábyrgð stjórnenda stofnana. Þá er þetta ákvæði í samræmi við ákvæði hafnalaga.
    Með breytingartillögu við 3. gr. frumvarpsins er lagt til að þau verkefni, sem heyra undir Siglingastofnun Íslands, verði nánar skilgreind. Þá er sett inn heimild fyrir Siglingastofnun til að fela öðrum tiltekin verkefni að fengnu samþykki ráðherra og heimild til að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum, m.a. til að stuðla að útflutningi á íslenskri þekkingu á starfssviði stofnunarinnar, einnig að fengnu samþykki ráðherra.
    Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um skipan hafnaráðs og siglingaráðs í 4. og 6. gr. frumvarpsins. Miðað er við að skipt verði um fulltrúa í hafnaráði að loknum sveitarstjórnar- og alþingiskosningum og einnig að skipt verði um þrjá af fulltrúum siglingaráðs að loknum alþingiskosningum. Þá er og lagt til með breytingartillögu við 5. gr. frumvarpsins að hafnaráð hafi samráð við fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna með því að halda fundi með þessum aðilum a.m.k. einu sinni á ári.
    Þá er loks lagt til að lögin öðlist þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. október 1996. Með ákvæði til bráðabirgða er hins vegar gert ráð fyrir að svo fljótt sem verða má eftir gildistöku laganna verði skipað í hafna- og siglingaráð og hafist         handa við að undirbúa framkvæmd laganna. Þá er í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um rétt starfsmanna þeirra stofnana sem sameinast í Siglingastofnun Íslands.

Alþingi, 28. febr. 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Kristján Pálsson.

Árni Johnsen.



Guðmundur Árni Stefánsson,

Ragnar Arnalds,

Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.