Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 232 . mál.


704. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti, Þórð Ólafsson og Jóhann Albertsson frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Halldór Guðbjarnarson og Björn Líndal frá Landsbanka Íslands, Ásmund Stefánsson frá Íslandsbanka hf., Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Sigurð Jónsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands. Nefndin fékk jafnframt sendar skriflegar umsagnir um málið frá sömu aðilum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær fela í sér eftirfarandi:
    Við 1. gr. Lagt er til að bætt verði við að með umsókn um starfsleyfi skuli fylgja upplýsingar um náin tengsl, en fram kemur í breytingartillögunni hvað er átt við með því hugtaki. Breytingin miðar að því að uppfylla skilyrði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 95/26, svokallaðrar Post-BCCI-tilskipunar, er breytir ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu, m.a. tilskipunum 77/780 og 89/646, um lánastofnanir. Ákvæði þetta er nauðsynlegt þar sem tilskipunin leggur ríkari skyldur á herðar endurskoðendum banka og sparisjóða en verið hefur. Jafnframt er lagt til að frestur sem ráðherra hefur til að birta ákvörðun um umsókn um starfsleyfi verði þrír mánuðir en ekki sex, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Breytingin er til samræmis við breytingu sem nefndin lagði til að gerð yrði við frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti, 97. mál.
    Lagt er til að við frumvarpið verði bætt tveimur nýjum greinum til breytinga á 5. og 6. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að skýrt komi fram í lögunum að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis viðskiptabanka og sparisjóða sé að þeir séu með höfuðstöðvar hér á landi. Hins vegar er lagt til að brott falli úr lögunum ákvæði um að allt hlutafé sé greitt áður en banki er skráður í hlutafélagaskrá og að ekki skuli skrá hækkun hlutafjár fyrr en það er að fullu greitt. Meiri hluti nefndarinnar sér ekki ástæðu til að gera það að skilyrði fyrir skráningu í hlutafélagaskrá að allt hlutafé sé að fullu greitt, en eftir sem áður er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en þessu skilyrði er fullnægt. Þá þykir ekki ástæða til að vera með sérákvæði um hækkun hlutafjár í viðskiptabönkum í þessum lögum.
    Lagt er til að 2. gr. frumvarpsins, sem fjallar um víkjandi lántökur ríkisviðskiptabanka, falli brott. Um þetta mál vísast að öðru leyti til skýringa með síðara ákvæði til bráðabirgða hér á eftir.
    Til samræmis við framangreinda tilskipun, nr. 95/26, er lagt til að heimilt verði að synja umsókn um starfsleyfi ef náin tengsl viðskiptabanka eða sparisjóðs við einstaklinga eða lögaðila geti að mati bankaeftirlits hindrað eðlilegt eftirlit með þessum stofnunum. Sama gildir ef lög eða reglur, sem um slíka einstaklinga eða lögaðila gilda, hindra eðlilegt eftirlit.
    Við 8. gr. Breytingartillögur við þetta ákvæði fela í fyrsta lagi í sér að færðar eru á einn stað þau ákvæði frumvarpsins er varða takmarkanir á einstökum eiginfjárþáttum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir sérstakri tilkynningarskyldu til bankaeftirlitsins ef eiginfjárhlutfall fer niður fyrir 10%, en það er til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/6. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði frumvarpsins um að bankaeftirlitið geti veitt heimild til að flýta endurgreiðslu víkjandi lána falli brott þar sem við nánari athugun hefur komið í ljós að það hefur lítið raunhæft gildi.
    Við 10. gr. Lagt er til að kröfur um efnisinnihald ársreiknings verði samræmdar þeim kröfum sem gerðar eru í lögum um ársreikninga.
    Við 11. gr. Lagt er til að bankaeftirlitið skuli hafa samráð við reikningsskilaráð við setningu reglna um uppsetningu ársreiknings o.s.frv., enda er það í samræmi við hlutverk ráðsins skv. IX. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga.
    Við 13. gr. Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til endurskoðenda, sbr. skýringar í 1. tölul. hér að framan. Sérstaklega er tekið fram að geri endurskoðandi bankaeftirliti viðvart um þau atriði er greinin kveður á um brjóti það ekki í bága við þagnarskyldu þeirra. Ákvæðið er byggt á þeim nýmælum sem er að finna í tilskipun nr. 95/26.
    Við 15. gr. Lagt er til að heimild ráðherra skv. 67. gr. laganna til að stytta frest sem hann hefur veitt viðskiptabanka eða sparisjóði til að auka eigið fé verði felld brott. Nefndin lagði til sambærilega breytingu á frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti.
    Við 16. gr. Frumvarpið gerði ráð fyrir að Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða yrðu sameinaðir í einn tryggingarsjóð, Tryggingarsjóð innlánsstofnana. Meiri hluti nefndarinnar telur, með tilliti til athugasemda sem henni bárust, ekki rétt að gera þessa breytingu að svo stöddu. Því er lagt til að frumvarpinu verði breytt í það horf að áfram verði starfandi tveir tryggingarsjóðir. Ákvæði sem gilda um hvorn sjóð fyrir sig eru þó aðlöguð að tilskipun Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi, nr. 94/19, t.d. um að hver innstæðueigandi sé að lágmarki tryggður fyrir um 1.700.000 kr. (20.000 ECU) ef viðskiptabanki eða sparisjóður geta ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart honum. Í breytingartillögunni er jafnframt kveðið skýrar á um rétt erlendra útibúa banka og sparisjóða sem hafa hug á að starfa hér á landi en gert er í frumvarpinu. Þannig er útibúum erlendra viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu í öðru EES-ríki heimil aðild að tryggingarsjóðum innlánsstofnana vegna þeirra innstæðna sem ekki eru tryggðar með öðrum hætti innan EES, en útbúum erlendra banka og sparisjóða með staðfestu utan EES er gert skylt að vera aðilar að sjóðunum ef þau eru ekki aðilar að sambærilegu innlánatryggingarkerfi í heimaríki sínu. Þá eru gerðar nokkrar breytingar á gildandi reglum um sjóðina. Ber þar helst að nefna að skýrt er kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað lánadeilda og innstæðutryggingadeilda. Nánari ákvæði eru sett um hlutverk lánadeildar og gerðar breytingar á stjórnum beggja sjóðanna sem þykja eðlilegar miðað við hlutverk og eðli þessara stofnana. Lagt er til að tekið verði fram í lögunum að innstæðudeildir sjóðanna verði ekki teknar til gjaldþrotaskipta né aðför að þeim heimil og loks er kveðið sérstaklega á um greiðsluskyldu nýrra viðskiptabanka eða sparisjóða til tryggingarsjóðs, en sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Í því sambandi er miðað við að nýr aðili skuli fyrstu sjö árin greiða árlega 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi stofnun á næstliðnu ári.
    Við 20. gr. Lögð er til sambærileg breyting varðandi afturköllun starfsleyfis og lagt er til að gerð verði á ákvæði 3. gr. (25. gr. laganna) um veitingu starfsleyfis. Um skýringu vísast í 4. tölul. hér að framan.
    Við 24. gr. Lagðar eru til tvær breytingar á gildistökuákvæði. Annars vegar er lagt til að ákvæði 8. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1996 þar sem nauðsynlegt er að hlutaðeigandi aðilar hafi nokkurn aðlögunarfrest. Hins vegar er lagt til að felld verði brott heimild fjármálaráðherra til að ábyrgjast lántökur tryggingarsjóða innlánsstofnana allt að 3 milljörðum króna. Af upphaflegri heimild hefur ráðherra þegar ábyrgst lán að fjárhæð 1 milljarður en vegna breytinga sem hér er lagt til að gerðar verði á lánadeildum sjóðanna er eðlilegt að þessi almenna heimild verði felld brott. Tillögur um ný ákvæði til bráðabirgða tengjast þessari breytingu.
    Lagt er til að bætt verði við tveimur ákvæðum til bráðabrigða. Það fyrra lýtur að því að þar sem gert er ráð fyrir að lánadeild Tryggingarsjóðs viðskiptabanka verði lögð niður í núverandi mynd yfirtaki ríkissjóður eignir deildarinnar og skuldir. Til að taka af öll tvímæli um að heimildir ríkissjóðs til að veita lán til beggja tryggingarsjóðanna, sbr. lög nr. 16/1995, um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana, er lagt til að þær heimildir laganna verði afnumdar að því leyti sem þeim er enn óráðstafað. Síðara ákvæðið lýtur að því að veita ríkisviðskiptabönkunum heimild til endurfjármögnunar á víkjandi lánum sem þeir hafa tekið. Heimildin verði þó takmörkuð við þá fjárhæð sem slík lán námu 1. janúar 1994 og jafnframt er hún tímabundin fram til ársloka 1997. Samkvæmt frumvarpinu var ríkisviðskipabönkum heimilt án samþykkis Alþingis að taka víkjandi lán samkvæmt eiginfjárreglum upp að 50% af eiginfjárþætti A. Þetta hefði rýmkað mjög heimildir bankanna til töku víkjandi lána. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að þær heimildir verði verulega takmarkaðar frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir og að einungis verði veitt tímabundin heimild til endurfjármögnunar á hluta þeirra víkjandi lána sem Alþingi hefur áður heimilað.

Alþingi, 13. mars 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.