Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 254 . mál.


764. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu, Jón Sveinsson hdl., Kristján Ragnarsson, formann Landssambands íslenskra útvegsmanna, og Gunnar Helga Hálfdanarson, varaformann Samtaka verðbréfafyrirtækja. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Íslenskum sjávarafurðum hf., Vinnumálasambandinu, Flugleiðum hf., Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landsvirkjun, Samtökum fiskvinnslustöðva, Seðlabanka Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráði Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Einnig barst nefndinni álit nefndar um erlenda fjárfestingu sem starfar skv. 10. gr. gildandi laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að upptalning á reykingu, súrsun, niðursuðu og niðurlagningu verði felld brott úr því ákvæði frumvarpsins þar sem talið er upp hvað teljist til vinnslu sjávarafurða. Nefndin telur eðlilegra að flokka þessa starfsemi undir iðnað.
    Til að fullnægja skuldbindingum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er lagt til að sambærileg undanþága frá búsetuskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og er í hlutafélagalögum verði látin gilda um sérlög um tilteknar fjárfestingar hér á landi, þ.e. lög er varða álverið í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn.
    Lagt er til að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um að takmarkanir b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, eins og sú grein verður eftir þær breytingar sem frumvarpið ráðgerir, eigi ekki við um eignarhluti erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og þeir voru við síðustu áramót fyrr en 1. janúar 1998, enda hafi erlend eignaraðild ekki verið meiri en 49% og eignarhlutur lögaðilans í einstökum fyrirtækjum ekki farið yfir 10%.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.

Sólveig Pétursdóttir.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.