Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 233 . mál.


870. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingum, lögum um vörumerki, nr. 47/1968, með síðari breytingum, og lögum um hönnunarvernd, nr. 48/1993.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Ástu Valdimarsdóttur lögfræðing og Ómar Grétar Ingvarsson verkfræðing frá Einkaleyfastofunni, en þau áttu sæti í þeirri nefnd sem samdi frumvarpið. Þá komu einnig fyrir nefndina þeir Friðrik Kristjánsson frá Omega Farma hf., Ottó B. Ólafsson frá Delta hf., Ólafur Helgi Árnason frá Samtökum iðnaðarins, Örn Guðmundsson frá Lyfjaverslun Íslands og Jón L. Arnalds héraðsdómari.
    Með frumvarpinu er lagt til að breytt verði ýmsum ákvæðum laga um einkaleyfi ásamt einu ákvæði vörumerkjalaga og einu ákvæði laga um hönnunarvernd, með vísan til breytinga vegna skuldbindinga Íslands í alþjóðasamstarfi. Annars vegar er um að ræða samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO, World Trade Organization) og samning um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS, Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights) og hins vegar er um að ræða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Enn fremur eru gerðar tillögur um breytingar í samræmi við tillögur sem norrænn vinnuhópur um einkaleyfamál hefur gert. Meginbreytingin felst í því að heimilt verður að veita einkaleyfi fyrir lækningalyfjum hér á landi verði frumvarpið að lögum.
         Nefndin leggur til að tveimur nýjum greinum verði bætt við frumvarpið er breyti 31. og 33. gr. einkaleyfalaganna. Við framkvæmd á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (PCT, Patent Cooperation Treaty) hafa komið í ljós annmarkar á þessum greinum. Með breytingunni er heimilað að í reglugerð verði kveðið á um þýðingar á alþjóðlegum einkaleyfisumsóknum við innlagningu þeirra hérlendis og þegar slíkar umsóknir eru yfirfærðar til Íslands. Felld er að hluta til niður skylda til að leggja inn íslenska þýðingu á umsókn við yfirfærslu. Þar sem Einkaleyfastofan er ekki byggð upp sem rannsóknastofnun á sviði einkaleyfa, en stofnunin hefur til þess hvorki nægilegan fjölda sérfræðinga né rannsóknargögn, verður hún að leita til erlendra rannsóknastofnana vegna rannsókna á einkaleyfishæfi umsókna. Þessar rannsóknastofnanir geta ekki framkvæmt rannsóknina ef umsóknargögn eru á íslensku. Þá er ekki nauðsynlegt að óska eftir afriti af alþjóðlegri umsókn sem óskast yfirfærð til Íslands þar sem hægt er að fá slík afrit send frá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) og lýtur hluti breytingarinnar að því atriði.
    Breytingar á 25. og 28. gr. varða gildistöku ef frumvarpið verður að lögum.
    Mikil umræða varð í nefndinni um túlkun á 3. tölul. 3. mgr. 3. gr. einkaleyfalaganna sem fjallar um takmarkanir á einkarétti einkaleyfishafa. Í ákvæðinu segir að einkaréttur nái ekki til tilrauna með efni uppfinningar og telja íslenskir lyfjaframleiðendur eðlilegt að skýra ákvæðið svo að heimilt verði að vinna að þróun og skráningu samheitalyfja hér á landi á meðan einkaleyfisverndar nýtur.
    Íslensku einkaleyfalögin eru í öllum meginatriðum samhljóða einkaleyfalöggjöf annars staðar á Norðurlöndum, þar með talið ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 3. gr. laganna. Norræn löggjöf hefur verið samræmd löggjöf helstu iðnríkja Evrópu og þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðavettvangi. Einkaleyfi eru í eðli sínu alþjóðleg og því nauðsynlegt að um löggjöf á þessu sviði skapist samstaða á alþjóðlegum vettvangi. Nefndin telur ekki ástæðu til að breyta ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 3. gr. að svo stöddu. Nefndin minnir á að það er hlutverk íslenskra dómstóla að kveða á um túlkun einkaleyfalaganna ef ágreiningur rís um hana fyrir þeim. Hins vegar telur nefndin brýnt að einkaleyfayfirvöld, iðnaðarráðuneyti og Einkaleyfastofan, fylgist náið með réttarþróun á þessu sviði og beiti sér fyrir umræðum um túlkun og endurskoðun þessa ákvæðis, t.d. á norrænum vettvangi. Varðandi alþjóðaskuldbindingar almennt telur nefndin eðlilegt og mikilvægt, bæði við gerð og túlkun þeirra, að íslenskir hagsmunir verði ávallt hafðir að leiðarljósi til hins ýtrasta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. apríl 1996.



Stefán Guðmundsson,

Sigríður A. Þórðardóttir.

Pétur H. Blöndal.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.

Árni R. Árnason.

Svavar Gestsson.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.