Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 295 . mál.


890. Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á þál. um vegáætlun fyrir árin 1995–1998.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra, Hannes Má Sigurðsson, forstöðumann hagdeildar, og Eymund Runólfsson frá áætlanadeild Vegagerðarinnar.
    Gildandi vegáætlun fyrir árin 1995–1998 var samþykkt í febrúar árið 1995. Var það fyrsta vegáætlun sem samþykkt var eftir að ný vegalög tóku gildi vorið 1994. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996 var ákveðið að útgjöld til vegamála yrðu lægri en vegáætlun gerði ráð fyrir. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er einungis tekin til endurskoðunar áætlun yfirstandandi árs en nefndin leggur að auki til breytingar á flokkun vega í vegáætlun. Vinnutilhögun við afgreiðslu tillögunnar var með hefðbundnu sniði.
    Nefndin hefur fjallað um skiptingu fjár á milli kjördæma og á milli einstakra verkefna undir liðnum Stórverkefni. Fjárveitingar til kjördæma lækka hlutfallslega í samræmi við forsendur tillögunnar. Við skiptingu fjár til stórverkefna var sömu aðferð beitt og áður, þ.e. allar fjárveitingar til þeirra lækka hlutfallslega.
    Þingmannahópar kjördæmanna hafa unnið tillögur til breytinga á skiptingu fjármagns til einstakra verkefna innan almennra verkefna og framkvæmdaátaks á stofnvegum svo og til verkefna á tengivegum. Meiri hluti nefndarinnar tekur upp tillögur þingmannahópanna og fellir þær inn í sínar breytingartillögur.
    Tvær breytingar eru gerðar á tekjuáætlun tillögunnar og hækka áætlaðar tekjur samtals um 84 m.kr. vegna breytinganna.
    Fyrri breytingin er sú að nýr liður, 1.1.5. Innheimtuátak í þungaskatti, 50 m.kr., bætist við markaðar tekjur. Í tengslum við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 endurskoðaði ríkisstjórnin forsendur fyrir framlögum til Vegagerðarinnar. Þar kom fram að eftirlit með innheimtu og skilum þungaskatts hefur verið aukið að undanförnu og til stendur að auka það enn árið 1996. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var gert ráð fyrir því að innheimta þungaskatts yrði hert. Jafnframt var ráð fyrir því gert að ykjust tekjur af þessum sökum rynnu þær til vegamála á árinu. Þessar tekjur eru áætlaðar 50 m.kr. og er sú upphæð tekin inn í tekjuáætlunina.
    Í skiptingu útgjalda er þessum 50 m.kr. bætt við lið, 2.2.3.6. Vatnaskemmdir. Þar sem þetta viðbótarfjármagn er háð því að tekjurnar skili sér er Vegagerðinni óheimilt að ráðstafa þessu fé fyrr en ljóst er að svo verði. Ef tekjurnar skila sér ekki lækkar liðurinn sem því nemur.
    Seinni breytingin varðar nýjan lið, 1.1.6. Hækkun á þungaskatti, 34 m.kr. Þungaskattur var hækkaður um 3,2% við síðustu áramót en ekki hafði verið gert ráð fyrir því við mat á mörkuðum tekjum. Sú hækkun ætti að gefa um 60 m.kr. í tekjuauka. Á móti kemur að 98 oktana blýbensín verður ekki lengur á markaði. Við það lækka tekjur af bensíngjaldi nokkuð og er sú lækkun metin á um 26 m.kr. Mismunurinn, 34 m.kr., er tekinn inn í tekjuáætlun vegáætlunar.
    Í skiptingu útgjalda er þessari upphæð bætt við lið, 2.2.3.5. Öryggisaðgerðir, en mikil þörf er á auknum aðgerðum til að draga úr umferðarslysum. Þar sem hér er verið að auka verulega framlög til þessa verkefnis og ljóst að stórauka má aðgerðir á þessu sviði er eðlilegt að skipting fjár til öryggisaðgerða verði lögð fyrir í samgöngunefnd áður en framkvæmdir hefjast.
    Loks eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á flokkun vega í vegáætlun. Allar eru þær tengdar jarðgöngum undir Hvalfjörð en samkvæmt lögum um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð skal vegurinn teljast til þjóðvega samkvæmt ákvæðum vegalaga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem fram koma á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. maí 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Egill Jónsson.

Árni Johnsen.






Fylgiskjal.


Vegagerðin:





(4-5 síður myndaðar.)