Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 475 . mál.


938. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Helga Ágústsson og Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Björgu Thorarensen frá dómsmálaráðuneyti.
    Hvað varðar efni tillögunar telur nefndin mikilvægt og löngu tímabært að þessi samningur verði fullgiltur fyrir Íslands hönd.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram athugasemd við að í samningnum er enska orðið „inhuman“ þýtt sem „ómannlegt“ í stað þess að nota orðið „ómannúðlegt“. Í 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, segir: „Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“ Í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979, er hins vegar notað orðalagið „ómannleg eða vanvirðandi meðferð“. Því virðist sem við þýðingu alþjóðasamninga á þessu sviði hafi skapast hefð um að þýða orðið „inhuman“ sem „ómannlegt“.
    Nefndin telur það til baga að þessa misræmis gæti í íslenskum lagatexta og mælist til þess að orðið „ómannúðlegt“ verði framvegis notað í stað orðsins „ómannlegt“. Nefndin telur þó ekki rétt að breyta orðalagi fyrirliggjandi tillögu heldur þurfi að samræma orðnotkun á þessu sviði í heild. Beinir nefndin því til þeirra ráðuneyta sem hlut eiga að máli.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. maí 1996.



Geir H. Haarde,

Össur Skarphéðinsson.

Siv Friðleifsdóttir.


form., frsm.



Hjörleifur Guttormsson.

Árni R. Árnason.

Jóhanna Sigurðardóttir.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Árni M. Mathiesen.