Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 313 . mál.


941. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 74/1984, um tóbaksvarnir.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Arnljótsdóttur, deildarstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, frá Krabbameinsfélaginu og tóbaksvarnanefnd Þorvarð Örnólfsson og Helga Guðbergsson, Lilju Sigrúnu Jónsdóttur, lækni hjá Hjartavernd, Guðmund Þorgeirsson hjartalækni, Þórólf Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands, Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Sambands hljómplötuframleiðenda, Sigurð Snæberg Jónsson frá Félagi kvikmyndagerðarmanna, Sigurð Jónsson frá Kaupmannasamtökum Íslands, Davíð Ólafsson frá Félagi matvörukaupmanna, Steinar Waage og Snorra Waage frá Skóverslun Steinars Waage og Sölva Óskarsson frá Tóbaksversluninni Björk. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Landssambandi sjúkrahúsa á Íslandi, Flugmálastjórn, Blaðamannafélagi Íslands, Hollustuvernd ríkisins, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Siglingamálastofnun ríkisins, Samtökum heilbrigðisstétta, Krabbameinsfélagi Íslands, Háskóla Íslands, Verslunarráði Íslands, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Rithöfundasambandi Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, tóbaksvarnanefnd, Bandalagi íslenskra listamanna, oddvita Hraungerðishrepps, Sambandi hljómplötuframleiðenda, Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands, Íslenskri verslun, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Læknafélagi Íslands, Kaupmannasamtökum Íslands, Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og Pétri Heimissyni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til breyting á c-lið 2. gr. þar sem kveðið er á um hvað teljast auglýsingar í skilningi laganna. Megintilgangur breytingarinnar er að gera ákvæði laganna um hvað kaupmönnum er leyfilegt eins skýr og mögulegt er. Þannig er skv. 1. tölul. lagt til að ekki séu lagalegar skorður við því hvar tóbaksvörum er raðað í hillur verslana. Fyrirmæli greinarinnar ganga því skemur en upphafleg gerð frumvarpsins sem var af ýmsum túlkuð þannig að kaupmenn hefðu ekki sjálfdæmi um hvar vara væri sett í hillur. Í 2. tölul. eru tekin af tvímæli um að selja má varning sem framleiddur er undir tóbaksvörumerkjum, svo sem Camel-skó. Breytingartillagan felur hins vegar í sér að útilokað verður að auglýsa vöruna þannig að vörumerki eða nokkur hluti af nafni eða auðkennum tóbaksvörunnar komi fram í auglýsingum eða tilkynningum. Í tilviki Camel-skónna mætti flytja þá inn og selja en ekki auglýsa þá sem Camel-skó. Einnig mætti Camel-vörumerkið eða heitið Camel hvergi koma fram innan eða utan verslunarinnar nema á skónum sjálfum og umbúðum þeirra. Sama gilti um allar vörur sem seldar væru undir auðkennum hefðbundinna tóbaksvörumerkja. Með orðalaginu „hefðbundin tóbaksvörumerki“ eru einnig tekin af tvímæli um að heimil skuli

Prentað upp.

        óheft notkun vörumerkja sem þekkt eru fyrir óskylda framleiðslu en tóbak er nú selt undir. Dæmi um slík vörumerki eru Cartier og Yves St. Laurent. Sérstök athygli er vakin á því að þær takmarkanir sem eru á auglýsingum á tóbaki samkvæmt lögunum ættu að koma tryggilega í veg fyrir landnám nýrra tegunda af tóbaksvörum undir vörumerkjum sem þekkt eru fyrir annað en tóbaksvörur, eins og þeirra tveggja sem áður eru nefnd. Í 3. tölul. er lagt til að umfjöllun um einstakar tóbakstegundir verði óheimil nema ljóst sé að hún verði beinlínis til þess að koma á framfæri upplýsingum sem eru fallnar til þess að minnka skaðsemi tóbaksneyslu. Ef kæmu á markað tóbakstegundir sem hefðu sannanlega minna af skaðlegum efnum en þær sem fyrir eru væri heimilt að fjalla um það í fjölmiðlum. Öllum takmörkunum um auglýsingar er hins vegar einnig ætlað að gilda um slíkar hættuminni tegundir. Loks leggur nefndin til að fellt verði niður ákvæði er felur í sér bann við að framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem tóbaksneysla er áberandi.
                  Loks vill nefndin minna á að ákvæði tóbaksvarnalaga um bann við auglýsingum á tóbaksvörum og um skráningu viðvarana á þær gilda einnig í fríhöfnum landsins og ber að framfylgja þeim.
    Tvær breytingar eru lagðar til á 3. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lagt til að aldursmörk til kaupa á tóbaki verði hækkuð úr 17 í 18 ár. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið, sýna að reykingamönnum er því hættara við að deyja af völdum reykinga því yngri sem þeir byrja að reykja. Þróun á löggjöf um tóbaksvarnir í heiminum virðist almennt vera í þá átt að hækka mörkin. Hin breytingin, sem lögð er til, felst í því að fellt verði brott ákvæði frumvarpsins sem segir að aðeins megi selja vindla í heilum pakkningum nema á vínveitingahúsum þar sem selja megi þá í stykkjatali. Rökin fyrir upphaflegu tillögunni voru að vindlareykingar væru þess eðlis að ætla mætti að það ýtti undir þær ef hægt væri að kaupa vindla í stykkjatali í verslunum. Nefndin telur þessi rök vafasöm og að færa megi rök að hinu gagnstæða.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 5. gr. frumvarpsins. Lagt er til að bætt verði við 1. tölul. greinarinnar ákvæði þess efnis að tóbaksreykingar verði með öllu óheimilar í húsakynnum sem fyrst og fremst eru ætluð til íþróttastarfs barna og unglinga. Einnig er lagt til að forstöðumenn opinberra stofnana, í samráði við starfsfólk, geri áætlun um hvernig útrýma eigi reykingum innan stofnananna fyrir lok ársins 2000. Þó skal í áætlunum þessum heimilt að gera ráð fyrir afdrepi innan hverrar stofnunar þar sem reykingar eru heimilaðar.
    Lögð er til breyting á 7. gr. frumvarpsins er lýtur að því að skylt verði að verja 0,7% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs í stað 0,4% eins og gert er ráð fyrir í greininni. Breytingin er lögð til í ljósi þeirrar skoðunar nefndarinnar að nauðsynlegt sé að efla forvarnir gegn tóbaksneyslu til muna. Einnig var rætt um það í nefndinni hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnarskyni en tæknilega er það mjög erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs. Engin tillaga er þó flutt af nefndinni um það. Mikilvægt er að fé, sem rennur til tóbaksvarna, sé varið á markvissan hátt með vel undirbúnum áætlunum um tóbaksvarnir. Að mati nefndarinnar eru börn og unglingar sá hópur sem helst þarf að beina fræðslu um skaðsemi tóbaks að.
    Loks er lagt til að gildistöku ákvæðis um bann við innflutningi, framleiðslu og sölu á munntóbaki og fínkornóttu neftóbaki verði frestað til 1. febrúar 1997.

Alþingi, 9. maí 1996.



Össur Skarphéðinsson,

Siv Friðleifsdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm., með fyrirvara.



Ásta R. Jóhannesdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.

Guðni Ágústsson,


með fyrirvara.



Ögmundur Jónasson,

Guðmundur Hallvarðsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.


með fyrirvara.

með fyrirvara.