Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 191 . mál.


1000. Nefndarálit



um frv. til l. um rannsókn flugslysa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Þ. Guðmundsson prófessor, Kristján Þorbergsson hdl. og Þorgeir Pálsson flugmálastjóra.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um frumvarpið frá ríkissaksóknara, flugeftirlitsnefnd, Landsbjörgu, Flugleiðum, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Slysavarnafélagi Íslands, Flugvirkjafélagi Íslands, flugráði, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Flugmálafélagi Íslands, flugslysanefnd og Flugmálastjórn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í 3. gr. frumvarpsins verði gerðar sömu kröfur til varaformanns rannsóknarnefndar flugslysa og formanns þar sem varaformaður er staðgengill formanns. Þeir þurfa því báðir að hafa sérmenntun, þjálfun og starfsreynslu á sviði flugrannsókna. Þá er lagt til að skilyrðin, sem talin eru upp í greinargerð með frumvarpinu, athugasemdum við 5. gr., um hvað rannsóknarnefndin skuli rannsaka, verði tekin upp í 5. gr. frumvarpsins.
    Lögð er til sú breyting á 7. gr. frumvarpsins að flugmálayfirvöldum beri að sjá til þess að úrbótatillögur rannsóknarnefndarinnar í flugöryggismálum verði teknar til formlegrar afgreiðslu.
    Þá er lögð til sú breyting á 12. gr. frumvarpsins að gögn úr flugritum beri að varðveita varanlega.
    Lögð er til breyting á 14. gr. frumvarpsins sem snertir birtingu lokaskýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þessi breyting er gerð í samræmi við breytingu sem lögð er til á 16. gr. frumvarpsins. Samkvæmt síðarnefndu greininni ber nefndinni að senda aðilum máls lokaskýrslu rannsóknar og síðan hæfilegan eintakafjölda til Flugmálastjórnar sem afhendir eintök af skýrslunni þeim sem þess óska. Þar er einnig kveðið á um að nefndin skuli taka saman heildarskýrslu um störf sín ár hvert og að skýrslurnar megi selja á kostnaðarverði.
    Þá er loks lagt til að bætt verði við nýju ákvæði þess efnis að drög að skýrslu rannsóknarnefndarinnar um slys skuli send hlutaðeigandi aðilum til umsagnar. Þessum aðilum skal gefinn tilskilinn frestur til þess að koma að athugasemdum sínum áður en endanlega er gengið frá skýrslunni, enda liggi afstaða þeirra ekki þegar fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Egill Jónsson.

Kristján Pálsson.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Ragnar Arnalds.

Ásta R. Jóhannesdóttir.