Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 394 . mál.


1005. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín frá fjármálaráðuneyti Skarphéðinn Berg Steinarsson deildarstjóra og Gylfa Ástbjartsson deildarsérfræðing og frá Ríkisendurskoðun Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Lárus Ögmundsson yfirlögfræðing og Láru Sverrisdóttur lögfræðing. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Ríkisendurskoðun og héraðslækni Austurlands.
    Leiga af íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins hefur alls ekki staðið undir viðhaldi eignanna og eðlilegum vöxtum af því fjármagni sem í þeim er bundið. Það er því hagkvæmt fyrir ríkissjóð að selja þessar eignir. Í því skyni að hvetja til og auðvelda sölu er lagt til að íbúarnir geti fengið lán til 15 ára með 3% vöxtum. Þessir vextir eru töluvert undir markaðsvöxtum og má ætla að verðmæti hlunnindanna sé á bilinu 500.000 kr. til 700.000 kr. eða 5% til 7% af íbúðarverði. Þetta er talin nægilegt hvatning til þess að þetta íbúðarhúsnæði seljist.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
    Að 3. gr. falli brott. Samkvæmt lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, og reglugerðum settum samkvæmt þeim er það hlutverk Ríkiskaupa að annast sölu eigna ríkisins. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður það hlutverk Ríkiskaupa að annast sölu embættisbústaða. Eftir sem áður er samt mikilvægt að fjármálaráðuneytið hafi samráð við þau ráðuneyti sem í hlut eiga áður en til sölu embættisbústaða kemur.
    Að gerðar verði þrjár breytingar á 4. gr. Í fyrsta lagi að miðað verði við byggðakjarna í stað sveitarfélaga. Með sameiningu sveitarfélaga getur komið upp sú staða að sveitarfélag sé með yfir 1.000 íbúa en sé samt að miklu leyti í dreifbýli eða með nokkra smáa þéttbýliskjarna. Í öðru lagi er kveðið nánar á um hvað felist í þeim sérstöku kjörum sem boðin verða við sölu eignanna. Í þriðja lagi er lagt til að fjármálaráðherra verði einnig heimilt að selja íbúðarhúsnæði ríkisins á smærri stöðum ef ábúendur óska sérstaklega eftir kaupum. Það verður þá að vera mat fjármálaráðherra hvort hagkvæmt sé fyrir ríkið að selja á hlutaðeigandi stað.

Alþingi, 18. maí 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form, frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.

Pétur H. Blöndal.



Gísli S. Einarsson,


með fyrirvara.