Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 492 . mál.


1024. Nefndarálit



um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og komu Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, og Tómas H. Heiðar, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, á fund nefndarinnar. Jafnframt var óskað eftir áliti efnahags- og viðskiptanefndar en engar athugasemdir bárust.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ákvæði samningsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum öðlist lagagildi hér á landi en slíkt fyrirkomulag hefur færst í vöxt með auknu samstarfi þjóða á milli. Í fylgiskjali með frumvarpinu eru ákvæði samningsins sett upp á íslensku og ensku á greinargóðan hátt. Hins vegar telur nefndin nægjanlegt og eðlilegt, með tilliti til íslenskra laga og meðferð mála á Alþingi (sjá nefndarálit allsherjarnefndar á þskj. 715, um frumvarp til laga um mannréttindasáttmála Evrópu, á 117. löggjafarþingi) að alþjóðasamningar séu lögfestir á íslensku. Hin enska gerð samningsins er birt í frumvarpinu og er eðlilegt skýringargagn, en á að mati nefndarinnar ekki erindi í Stjórnartíðindi og lagasafn. Nefndin vill þó leggja áherslu á að opinber tungumál samningsins eru enska og franska og enda þótt einungis íslenski textinn verði lögtekinn geta enski og franski textinn verið mikilvægir, m.a. til túlkunar á vafatilvikum um merkingu orða samningsins. Er því mikilvægt að sérfræðingar og allur almenningur eigi greiðan aðgang að samningnum á frummálum hans jafnt sem íslensku þótt einungis hin íslenska þýðing hans birtist í Stjórnartíðindum og lagasafni.
    Með vísan til þessa leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.
    Árni R. Árnason, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 1996.



Geir H. Haarde,

Siv Friðleifsdóttir.

Tómas Ingi Olrich.


form., frsm.



Jóhanna Sigurðardóttir.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Hjörleifur Guttormsson.