Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 520 . mál.


1030. Nefndarálit



um frv. til l. breyt. á l. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, Kjartan Gunnarsson, deildarstjóra í viðskiptaráðuneyti, Magnús Jónsson veðurstofustjóra og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá barst nefndinni erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að ofanflóðasjóði verði heimiluð lántaka, að upphæð 800 milljónir króna, til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir sumarsins. Í öðru lagi er lagt til að ofanflóðasjóði verði skapaður sjálfstæður tekjustofn með álagningu sérstaks gjalds á brunatryggðar fasteignir í landinu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að nafni sjóðsins verði breytt í Forvarnarsjóð og er stefnt að því að hann gegni víðtækara hlutverki í framtíðinni.
    Umhverfisnefnd mælir með samþykki frumvarpsins með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Fela þær í sér að horfið verði frá nafnbreytingu á ofanflóðasjóði, en nefndin telur að breytingar á hlutverki og nafni sjóðsins eigi að bíða heildarendurskoðunar laganna sem nú er unnið að. Þó er nauðsynlegt að sjóðurinn hafi heimild til lántöku.
    Nefndin vill benda á að við heildarendurskoðun laganna þarf að huga sérstaklega að kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í gerð og viðhaldi varnarvirkja, en samkvæmt gildandi lögum eiga viðkomandi sveitarfélög að greiða a.m.k. 10% kostnaðar við gerð varnarvirkja og 40% kostnaðar við viðhald þeirra.
    Þá leggur nefndin áherslu á að mótaðar verði hið fyrsta skýrar starfsreglur um framtíðarúthlutanir úr ofanflóðasjóði og þær felldar að áætluðum framkvæmdatíma til að ljúka gerð varnarvirkja og öðrum öryggisráðstöfunum.
    Ásta R. Jóhannesdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk því sem fram kemur í áliti þessu.

Alþingi, 21. maí 1996.



Ólafur Örn Haraldsson,

Árni M. Mathiesen.

Gísli S. Einarsson.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Hjörleifur Guttormsson.

Ísólfur Gylfi Pálmason.



Katrín Fjeldsted.

Kristín Halldórsdóttir.