Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 443 . mál.


1035. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995, sbr. lög nr. 163/1995.

Frá fjárlaganefnd.



         Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og fengið skýringar frá fjármálaráðuneyti. Enn fremur óskaði nefndin eftir umsögn Ríkisendurskoðunar. Í greinargerð frá stofnuninni kemur fram að framsetning frumvarpsins sé ekki nægjanlega skýr þannig að fyrir liggi hvað afgreiðsla frumvarpsins feli í raun í sér, einkum er varðar tilflutning fjárheimilda á milli ára sem stofnunin telur nauðsynlegt að sé afgreitt jafnhliða, á sama tíma og uppgjör fjáraukalaga viðkomandi fjárlagaárs, en ekki beðið með þá afgreiðslu til haustsins eins og tíðkast hefur.
    Greiðsluyfirlit samkvæmt frumvarpi sýnir að innheimtar tekjur eru aðeins 7 millj. kr. lægri en fjárlög og fjáraukalög 1995 gerðu ráð fyrir. Á gjaldahlið hafa samþykktar heimildir hins vegar orðið 2,1 milljarði kr. lægri en gert var ráð fyrir. Þannig varð tekjuhalli A-hluta ríkissjóðs 2,1 milljarði kr. minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá sýndu greiðsluhreyfingar nettó á efnahagslið rúmlega 900 millj. kr. minni útgreiðslur en áformað var. Lántökur A-hluta ríkissjóðs urðu 3,0 milljörðum kr. minni en áður fengnar heimildir gerðu ráð fyrir. Heildarbreytingar á gjaldahlið nema því um 10%. Hlutfallsbreytingar á árinu 1994 er varðar frávik frá fjárlögum eru svo til þær sömu og árið 1995.
    Nefndin tekur undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar um framsetningu frumvarpsins og telur enn fremur að frávik á niðurstöðum gjaldahliðar sé óeðlilega hátt, nær því hið sama og árið 1994 þrátt fyrir litla verðbólgu á árinu 1995.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, en tilflutningur fjárheimilda á milli ára verður afgreiddur með fjáraukalögum fyrir árið 1996 að hausti. Hins vegar ber nauðsyn til að vinna að því að afgreiðsla þessara fjárheimilda geti framvegis farið fram á vorþingi.

Alþingi, 21. maí 1996.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Kristinn H. Gunnarsson.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Árni Johnsen.

Gísli S. Einarsson.



Kristín Halldórsdóttir.

Hjálmar Jónsson.

Bryndís Hlöðversdóttir.



Ísólfur Gylfi Pálmason.

Arnbjörg Sveinsdóttir.