Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 423 . mál.


1047. Breytingartillögur



við frv. til l. um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, VS, EOK, GMS, PHB, KPál).



    Við 1. gr.
         
    
    Inngangur 1. mgr. orðist svo: Einstökum ráðherrum er heimilt.
         
    
    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Felur hann í sér rétt þess sem veitir þjónustuna til að taka þær stjórnvaldsákvarðanir sem nauðsynlegar eru til þess að þjónustan verði veitt með þeim hætti sem lög áskilja og samningur gerir ráð fyrir.
         
    
    Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                            Samning má því aðeins gera að í honum felist sparnaður fyrir ríkissjóð án þess að dregið sé úr gæðakröfum til þjónustunnar.
    Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Réttarstaða notenda þjónustu, sem gerður er samningur um samkvæmt lögum þessum, er hin sama hvort sem þjónustan er veitt af ríkisstofnun, sveitarfélagi eða einkaaðila. Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og laga nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem og aðrar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, gilda um þá sem taka að sér að veita þjónustuna. Þeir eru einnig bundnir trúnaði og þagnarskyldu samkvæmt þeim lögum og reglum er gilda um opinbera starfsmenn að því er varðar alla starfsemi samkvæmt samningi.
    Við 3. gr., er verði 4. gr., bætist ný málsgrein er orðist svo:
                  Í útboðsskilmálum skal ítarlega gerð grein fyrir þeim kröfum sem sá þarf að uppfylla sem gerir tilboð í að veita þjónustuna. Skal tilboðsgjafi m.a. sýna fram á að hann hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna þjónustunni eins og lög gera ráð fyrir, að hann hafi í röðum sínum starfsfólk með nauðsynleg réttindi, nægjanlega fagþekkingu og reynslu og að hann ráði yfir fullnægjandi búnaði og aðstöðu. Ráðherra er heimilt að gera úttekt á högum tilboðsgjafa í því skyni að ganga úr skugga um að tilboðsgjafi geti tekist á hendur þær skyldur sem felast í þeirri þjónustu sem boðin er út.
    Á eftir 3. gr., er verði 4. gr., komi ný grein er orðist svo:
                  Ríkisendurskoðun hefur sama endurskoðunar- og eftirlitshlutverk með þeim einkaaðilum, sveitarfélögum og ríkisaðilum sem gera þjónustusamning við ríkið á grundvelli laga þessara eins og stofnunin hefur gagnvart ríkisaðilum á grundvelli laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, að því er varðar starfsemi samkvæmt þjónustusamningi. Þannig getur Ríkisendurskoðun gert hefðbundna fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun hjá samningsaðilum í því skyni að kanna hvernig þeim fjármunum sem ríkissjóður greiðir er eða hefur verið varið, hvernig samningsaðilinn rækir skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi og hver hefur orðið árangurinn af starfi hans. Þá hefur Ríkisendurskoðun sama aðgang að upplýsingum og gögnum þess aðila er tekur að sér að veita þjónustu á grundvelli samnings samkvæmt lögum þessum og stofnunin hefur gagnvart ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.
    Við ákvæði til bráðabirgða.
         
    
    Í stað orðanna „aðila utan hins opinbera“ í 1. málsl. komi: einkaaðila.
         
    
    Síðasti málsliður orðist svo: Að öðrum kosti ber að segja upp gildandi samningum og draga úr eða fella niður framlög úr ríkissjóði til viðkomandi aðila.