Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 372 . mál.


1057. Breytingartillögur



við frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (EOK, GMS, PHB, VS, SP, ArnbS).



    Við 2. gr. Í stað orðanna „Þá taka lögin heldur ekki“ í 2. mgr. komi: Lögin taka ekki.
    Við 5. gr. Orðin „og hvort skipa skuli eða ráða í starfið“ í 1. mgr. falli brott.
    Við 9. gr. Í stað síðari málsliðar 2. mgr. komi þrír nýir málsliðir er orðist svo: Þessum ákvörðunum má breyta hvenær sem er. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkrar breytingar, enda skýri hann forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingin var tilkynnt honum. Sé breytingin starfsmanni í óhag tekur hún ekki gildi fyrr en að liðnum uppsagnarfresti hans, sbr. 46. gr.
    Við 19. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Á eftir 1. málsl. komi nýr málsliður er orðist svo: Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga, enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum.
         
    
    Orðið „þó“ í 2. málsl. falli brott.
    Við 22. gr.
         
    
    1. mgr. orðist svo:
                            Embættismenn teljast samkvæmt lögum þessum einvörðungu þeir starfsmenn ríkisins sem taldir eru upp hér á eftir:
                   
    Skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis.
                   
    Forsetaritari, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði, sendiherrar og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni.
                   
    Hæstaréttardómarar, hæstaréttarritari og héraðsdómarar.
                   
    Biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.
                   
    Ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar.
                   
    Ríkislögmaður, ríkissáttasemjari og umboðsmaður barna.
                   
    Sýslumenn, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins, ríkistollstjóri, lögreglustjórinn í Reykjavík og tollstjórinn í Reykjavík, lögreglumenn og tollverðir.
                   
    Fangelsismálastjóri og fangaverðir.
                   
    Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir.
         
    
    Í stað orðanna „8. og 10. tölul.“ í 2. mgr. komi: 9. tölul.
    Við 28. gr. 2. mgr. orðist svo:
                  Nú tekur sá aftur við embætti sínu sem lausn hefur fengið um stundarsakir og skal þá líta svo á að hann hafi gegnt starfanum óslitið, þar á meðal skulu honum þá greidd þau laun er hann hefur verið sviptur skv. 1. mgr.
    Við 29. gr. Við 2. mgr. bætist: nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.
    Við 34. gr. Í stað orðanna „fá föst laun, er embættinu fylgdu, greidd“ í 1. mgr. komi: halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu.
    Við 35. gr. Í stað orðanna „fá föst laun, er embættinu fylgdu, greidd“ í 1. mgr. komi: halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu.
    Við 37. gr. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Ákvörðun þessi skal tilkynnt embættismanni svo fljótt sem verða má og eigi síðar en þegar sex vikur eru eftir af upphaflegum uppsagnarfresti.
    Við 40. gr. Orðin „stuðla að“ falli brott.
    Við 46. gr.
         
    
    Í stað orðanna „hjá stofnun“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: í sömu starfsgrein innan stofnunar.
         
    
    Við 2. mgr. bætist tveir nýir málsliðir er orðist svo: Ákvörðun þessi skal tilkynnt starfsmanni svo fljótt sem verða má og eigi síðar en þegar sex vikur eru eftir af upphaflegum uppsagnarfresti. Sé uppsagnarfrestur skemmri skal ákvörðunin tilkynnt um leið og starfsmaður segir upp störfum.
    Við 47. gr. 2. mgr. falli brott.
    Við 55. gr. Orðin „og ákvæði laga“ í 1. mgr. falli brott.
    Við 56. gr.
         
    
    Við 1. tölul. bætist ný málsgrein er orðist svo:
                            Í stað orðanna „1. og 2. svo og 4.–6. tölul. 19. gr.“ í 2. mgr. 22. gr. sömu laga kemur: 2.–4. og 6.–8. tölul. 19. gr.
         
    
    2. tölul. orðist svo: Eftirfarandi breytingar verða á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992:
                   
    Í stað orðanna „og umboðsmanns Alþingis“ í 2. gr. laganna kemur: umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna.
                   
    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
                                 Kjaranefnd ákveður laun og starfskjör embættismanna, annarra en þeirra sem taldir eru upp í 2. gr., lögreglumanna, tollvarða og fangavarða, sbr. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
                   
    9. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.
                   
    Í stað 1. og 2. mgr. 12. gr. (er verður 11. gr.) laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
                                 Kjaranefnd skal ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Hún úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Við ákvarðanir sínar getur nefndin tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir.
                   
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
                                 Þrátt fyrir breytingu á 2. mgr. 8. gr. þessara laga samfara gildistöku nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal kjaranefnd fyrst ákveða laun og starfskjör þeirra embættismanna, sem fram að þessu hafa ekki fallið undir lög þessi, frá og með 1. janúar 1997. Fram að þeim tíma skulu laun og starfskjör þessara embættismanna ráðast af kjarasamningum.
    Við ákvæði til bráðabirgða.
         
    
    Orðið „föstum“ í 5. mgr. falli brott.
         
    
    Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                            Fram til 1. júlí 1997 gilda eftirfarandi ákvæði:
                   
    Þrátt fyrir eldri ákvæði í öðrum lögum er skylt að auglýsa öll laus embætti, sem talin eru upp í 22. gr. laganna, skv. 7. gr. laga þessara, nema kosið sé til embættis án undangenginnar auglýsingar.
                   
    Þrátt fyrir ákvæði í öðrum lögum skal ekki skipað í önnur störf en þau embætti sem talin eru upp í 22. gr. laga þessara. Í önnur störf skal ráðið með þeim réttaráhrifum sem fram koma í III. hluta laganna.
                   
    Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. laga þessara skulu hæstaréttardómarar, héraðsdómarar og ríkissaksóknari skipaðir ótímabundið í embætti.