Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 365 . mál.


1080. Nefndarálit



um till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1996–1999.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Halldór Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti, Þorgeir Pálsson flugmálastjóra, Hauk Hauksson aðstoðarflugmálastjóra, Jóhann H. Jónsson, Jón Baldvin Pálsson og Sigrúnu Traustadóttur frá Flugmálastjórn. Þá komu til fundar Stefán Hermannsson borgarverkfræðingur, Þorvaldur S. Þorvaldsson og Bjarni Reynarsson frá skrifstofu Reykjavíkurborgar, Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri og Þórður I. Guðmundsson frá utanríkisráðuneyti.
    Nefndin fékk sendar umsagnir og athugasemdir frá samgönguráðuneytinu, Flugmálastjórn, Flugklúbbnum Kára, Borgarnesi, Sælubúinu hf., ferðaþjónustu á Hvolsvelli, Hvolhreppi, hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhreppi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að markaðar tekjur af flugvallagjaldi hækki sem nemur 45 millj. kr. á árunum 1997–99, 15 millj. kr. hvert ár. Óhætt þykir að gera ráð fyrir slíkri hækkun þegar tekið er tillit til þeirrar aukningar sem búist er við í flugi á næstu árum. Hækkunin leiðir því til þess að tekjur af flugvallagjaldi þessi þrjú ár munu nema 442 millj. kr. á ári í stað 427 millj. kr. eins og upphaflega var gengið út frá og miðað við fyrir árið 1996. Gert er ráð fyrir að þessi tekjuaukning muni standa undir kostnaði við verkefni á Ísafirði og Þingeyri, sbr. nánar 2. og 3. lið.
    Lagt er til að 15 millj. kr. verði veittar til viðbótar til að endurbæta flugstöðina á Ísafirði á árinu 1997. Talið er mikilvægt að gera endurbætur á flugstöðinni vegna samkeppni sem þegar er hafin í flugi frá þessum flugvelli. Allt útlit er fyrir að samkeppnin muni færast í aukana á næsta ári þegar sérleyfi falla úr gildi í innanlandsfluginu. Því er lagt til að í stað þess að gera ráð fyrir 25 millj. kr. á árinu 1997 til liðarins Byggingar, undir liðnum 2.2 Áætlunarflugvellir I, verði miðað við 40 millj. kr.
    Undanfarin ár hafa staðið yfir athuganir á framtíðarflugvallarstæði í Dýrafirði. Niðurstaða er ekki fengin. Ljóst er að veita verður fé til Þingeyrarflugvallar, enda er núverandi flugvöllur eini malarvöllurinn sem er notaður fyrir Fokker 50 flugvélar í áætlunarflugi. Því er lögð til sú breyting við lið 1. Flugbrautir og stæði, undir lið 2.3 Áætlunarflugvellir II, að bætt verði við 30 millj. kr. árin 1998 og 1999, 15 millj. kr. hvort ár.
    Þá er lagt til að veittar skuli 3 millj. kr. á árinu 1996 til að ljúka flugstöðvarbyggingu við nýju flugbrautina á Þórshöfn en byggingin er nú fokheld. Æskilegt þykir að verkinu ljúki á þessu ári svo að unnt verði að taka húsið í notkun. Því er bætt við 3 millj. kr. árið 1996 við lið 3, Byggingar, undir lið 2.4 Áætlunarflugvellir III. Til að mæta þessu er lagt til að liðurinn Óskipt, undir lið 2.7 Til leiðréttingar og brýnna verkefna, lækki að sama skapi og verði 17 millj. kr. í stað 20 millj. kr.
    Loks er lagt til að flugvöllurinn í Borgarnesi verði færður í A-flokk (Þjónustuvellir) úr C-flokki (Sportflugvellir) og flugvöllurinn á Bakkafirði verði einnig færður í A-flokk úr D-flokki (Lendingarstaðir) í lið 3.4 Aðrir flugvellir og lendingarstaðir, og þannig haldið sömu flokkun og er í núgildandi flugmálaáætlun. Þá er lagt til að flugvöllurinn á Hvolsvelli verði aftur færður inn á flugmálaáætlun og verði hann settur í E-flokk (Lendingarstaðir í eigu og í umsjá annarra aðila en Flugmálastjórnar).
    Nefndin ræddi sérstaklega flokkun flugvalla og beinir því til flugmálayfirvalda að heildarendurskoðun á flokkun flugvalla fari fram.

Alþingi, 24. maí 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.

Árni Johnsen.



Guðmundur Árni Stefánsson,

Ragnar Arnalds,

Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.