Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 445 . mál.


1089. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon, Hermann Jónasson og Indriða H. Þorláksson frá fjármálaráðuneyti, Jónas Þór Steinarsson og Hallgrím Snorrason frá Bílgreinasambandinu, Birgi Ármannsson og Kristmann Guðmundsson frá Verslunarráði Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Benedikt Davíðsson og Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Rannveigu Sigurðardóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Guðjónsson, Jón Ásbjörnsson og Birgi R. Jónsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og Harald Sumarliðason og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá S. Helgason hf. – Steinsmiðju, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráði Íslands, Bílgreinasambandinu, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Neytendasamtökunum, Vinnuveitendasambandi Íslands, Steinullarverksmiðjunni hf., Kaupmannasamtökum Íslands, Félagi íslenskra stórkaupmanna og Símvirkjanum ehf.
    Með lagafrumvarpi þessu eru lagðar til verulegar breytingar á álagningu vörugjalds. Tilgangur frumvarpsins er að koma til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert við lög nr. 97/1987, um vörugjald. Stofnunin telur lögin brjóta gegn 14. gr. EES-samningsins að tvennu leyti. Annars vegar með því að greiðslufrestur vörugjalds er mismunandi eftir því hvort um er að ræða innfluttar vörur eða innlendar framleiðsluvörur þar sem greiða ber gjald af innfluttum vörum við tollafgreiðslu en ekki fyrr en við sölu innlendra framleiðsluvara. Hins vegar með því að mismunandi gjaldstofn er fyrir innfluttar vörur og innlendar framleiðsluvörur þar sem 25% áætlað heildsöluálag er lagt á tollverð innfluttra vara að viðbættum tollum en ekki er um sambærilegt álag á innlendar framleiðsluvörur að ræða.
    Í frumvarpinu er lagt til að greiðslufresturinn verði samræmdur þannig að uppgjörstímabil allra gjaldskyldra aðila verði tveir mánuðir og gjalddagi 15. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Þá er lagt til að komið verði til móts við athugasemdir ESA um mismunandi gjaldstofn með því að breyta vörugjaldi úr verðgjaldi í magngjald í þeim tilvikum sem það er unnt. Þannig verði þyngd eða rúmmál vöru, mælt í kílógrömmum eða lítrum, gjaldstofn vörugjalds í stað þess að gjaldið sé reiknað af verðmæti vörunnar. Lagt er til að gjaldið verði lagt á í formi magngjalds á ýmis matvæli, t.d. sælgæti, drykkjarvörur og sykur, svo og á einangrunarvörur og hjólbarða og aðrar gúmmívörur. Hins vegar er gert ráð fyrir að vörugjald verði áfram lagt á í formi verðgjalds í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að leggja á magngjald. Gjaldstofn innfluttrar vöru verði í þeim tilvikum tollverð að viðbættum tollum, án áætlaðrar heildsöluálagningar, en gjaldstofn innlendrar framleiðsluvöru verði verð hennar við sölu frá framleiðanda. Þá er gert ráð fyrir að vörugjald verði fellt niður af ýmsum vörum, t.d. málningu og veggfóðri.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
    Við 3. gr. Lagt er til að við upptalningu 1. mgr. 4. gr. laganna á gjaldskyldum aðilum bætist aðilar sem fengið hafa sérstaka skráningu, sbr. 2. tölul. hér á eftir. Þá er lagt til að skráning á gjaldskyldum aðilum verði alfarið í höndum skattstjóra, en ekki jafnframt hjá tollstjórum.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein sem verði 5. gr. laganna. Í henni verði aðilum sem flytja inn eða kaupa innan lands gjaldskyldar vörur til sölu í heildsölu heimilað að fá sérstaka skráningu hjá skattstjóra að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Aðilum, sem skráðir yrðu með þessum hætti, yrði heimilað að flytja til landsins eða kaupa innan lands gjaldskyldar vörur af framleiðanda eða af öðrum aðila sem skráður væri með sama hætti án þess að skylda til greiðslu vörugjalds stofnaðist fyrr en við sölu vörunnar. Með þessu er stefnt að því að fullkomið jafnræði verði tryggt milli innflytjenda og innlendra framleiðenda hvað greiðslufrestinn varðar.
                  Gert er ráð fyrir að við uppgjör skráðra aðila á vörugjaldi samkvæmt þessari grein verði miðað við breytingu á birgðastöðu á uppgjörstímabili. Af þeim sökum er lagt til að þessir aðilar haldi sérstakt birgðabókhald yfir þær vörur sem vegna skráningarinnar lúta sérreglum um uppgjör gjaldsins.
    Við 5. gr. Lagt er til að ákvæði um að ríkisskattstjóri gefi út reglur um mat til verðs nái einungis til 5. mgr. en ekki til allrar greinarinnar eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Við 6. gr. Lagt er til að tollstjórar annist álagningu vörugjalds á innfluttar vörur í þeim tilvikum er innflytjendur eru ekki með sérstaka skráningu. Breytingartillagan leiðir af fyrrgreindri tillögu í 2. tölul. Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um það í 8. gr. laganna hvenær gjaldskylda stofnast, sbr. umfjöllun í 5. lið.
    Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um uppgjörstímabil, gjalddaga, álagningu o.fl. Lagðar eru til breytingar á greininni til samræmis við fyrrgreinda tillögu 2. tölul. Þær eru eftirfarandi:
         
    
    Lögð er til breyting á 2. mgr. sem gerir ráð fyrir að hún nái einungis til innflytjenda sem ekki hafa verið skráðir sérstakri skráningu. Skulu þeir eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils greiða vörugjald af þeim vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu. Aðilar, sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, skulu þó greiða vörugjald þegar við tollafgreiðslu.
         
    
    Lagt er til að ný málsgrein, 3. mgr., bætist við greinina þar sem kveðið verði á um að innlendir framleiðendur skuli eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils greiða vörugjald vegna gjaldskyldra vara sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu. Þó skuli ekki greiða vörugjald af vörum sem seldar eru til aðila sem fengið hafa sérstaka skráningu þar sem gjaldskylda miðast þá við sölu hins síðarnefnda á vörunni.
         
    
    Lagt er til að ný málsgrein, 4. mgr., bætist við er kveði á um greiðsluskyldu aðila sem fengið hafa sérstaka skráningu. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar greiði á gjalddaga hvers uppgjörstímabils vörugjald af þeim vörum sem þeir hafa keypt eða fengið tollafgreiddar á tímabilinu eða voru til í birgðum í upphafi uppgjörstímabils, en eru samkvæmt birgðabókhaldi ekki í birgðum við lok uppgjörstímabils. Gjaldskylda þessara aðila miðast því við sölu eða afhendingu á vörunni, ákvarðað eftir breytingu á birgðastöðu á uppgjörstímabili. Gjaldskyldum aðila samkvæmt þessari málsgrein ber þó hvorki að greiða gjald af vörum sem vörugjald hefur þegar verið greitt af né vörum sem seldar voru án vörugjalds til annars aðila sem skráður er með sama hætti.
         
    
    Lögð er til breyting á 3. mgr. greinarinnar er fjallar um skil á vörugjaldsskýrslum. Gert er ráð fyrir að auk framleiðenda verði skráðum aðilum sem fengið hafa sérstaka skráningu gert skylt að skila vörugjaldsskýrslum vegna vara sem greiða ber vörugjald af á uppgjörstímabilinu.
    Lögð er til breyting á 9. gr. sem leiðir af því að gert er ráð fyrir að skattstjóri í stað tollstjóra annist álagningu vörugjalds á gjaldskyldar vörur sem aðilar sem fengið hafa sérstaka skráningu flytja til landsins.
    Lögð er til breyting á 10. gr. sem einnig leiðir af því að gert er ráð fyrir að álagning verði í höndum skattstjóra í stað tollstjóra þegar aðilar sem fengið hafa sérstaka skráningu flytja inn gjaldskyldar vörur. Þessum aðilum ber að skila vörugjaldsskýrslu vegna sölu eða afhendingar og fer um álagningu gjaldsins eftir sambærilegum reglum og þegar um innlenda framleiðsluvöru er að ræða.
    Lögð er til breyting á 11. gr. laganna þannig að vísað verði í viðauka I þar sem kveðið er á um gjaldskyldu einstakra vörutegunda.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á upptalningu tollskrárnúmera og fjárhæð magngjalds í viðauka I við lögin. Í fyrsta lagi er í a-lið lagt til að vörugjald verði fellt niður af einangrunarvörum úr plasti, korki, tjörupappa, steinull og glerull. Gjald hefur þegar verið fellt niður af flestum byggingarefnum, öðrum en lagnaefnum og klæðningu auk þess sem komið hefur í ljós að annmarkar yrðu á innheimtu magngjalds af þessum vörum yrði frumvarpið að lögum óbreytt. Í öðru lagi er í b-lið lagt til að vörugjald af kaffi og tei verði lækkað. Við útreikning á magngjaldi á þessum vörum var miðað við tekjur af vörugjaldi af þeim á árinu 1995. Það ár var heimsmarkaðsverð á þessum vörum óvenjuhátt vegna uppskerubrests. Skekkti það útreikninga við ákvörðun gjaldsins. Gert er ráð fyrir að vörugjald af óbrenndu kaffi verði 28 kr. á kg í stað 32 kr. og vörugjald af brenndu kaffi og tei 35 kr. á kg í stað 40 kr. Í þriðja lagi er í c-lið lagt til að gjald af efni til framleiðslu á drykkjarvörum verði reiknað af þyngd en ekki rúmmáli eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ekki er talið að breytingin leiði til breytinga á tekjum af þessum vörum. Breytingartillaga d-liðar leiðir af þessari breytingu auk þess sem þar er til leiðréttingar lagt til að eitt tollskrárnúmer, sem ekki er til, falli brott. Þá er loks í tillögum e- til h-liðar lagt til að ýmis tollskrárnúmer falli brott úr viðaukanum. Er þar um leiðréttingar að ræða, ýmist þar sem númerin voru ekki til eða að þau vantaði í viðaukann.
    Lagt er til að við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að fyrsta uppgjörstímabil vörugjalds samkvæmt frumvarpinu verði þrír mánuðir, þ.e. júlí, ágúst og september 1996. Að öðrum kosti yrði fyrsta uppgjörstímabil aðeins einn mánuður, júlímánuður, þar sem gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí nk. Þessi breyting hefur jafnframt í för með sér að lengri tími gefst til að undirbúa breytingar á lögunum, m.a. með því að breyta tölvukerfum, skipuleggja eftirlit o.fl.

Alþingi, 28. maí 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.


form., frsm.



Sighvatur Björgvinsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.


með fyrirvara.



Sólveig Pétursdóttir.