Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 437 . mál.


1092. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ara Edwald og Árna Kolbeinsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Stefán Friðriksson frá Fiskistofu, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Eirík Tómasson frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja, Magnús Magnússon frá Útvegsmannafélagi Norðurlands, Sigurbjörn Svavarsson frá Útvegsmannafélagi Reykjavíkur, Guðrúnu Lárusdóttir frá Útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar, Þorleif Pálsson frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða, Magnús Kristinsson frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Svan Guðmundsson frá Útvegsmannafélagi Akraness, Halldóru B. Jónsdóttur og Sigurð Bjarnason frá Útvegsmannafélagi Hornafjarðar, Eirík Ólafsson frá Útvegsmannafélagi Austfjarða, Guðmund Smára Guðmundsson frá Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Óskar Þór Karlsson og Kristján Guðmundsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá bæjarráði Vesturbyggðar, Útvegsmannafélögum innan LÍÚ, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þjóðhagsstofnun, Vélstjórafélagi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi smábátamanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskifélagi Íslands, Framleiðendafélagi íslenskra sjávarafurða, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Vinnumálasambandinu, Fiskmarkaði Suðurnesja, Íslandsmarkaði hf., Samtökum fiskvinnslustöðva, Jóni Ásbjörnssyni, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar.
    Það frumvarp sem hér um ræðir byggist á samkomulagi milli Landssambands smábátaeigenda og sjávarútvegsráðherra. Meiri hluti nefndarinnar leggur því áherslu á að ákvæði frumvarpsins verði lögfest á þessu þingi. Meiri hlutinn gengur út frá því að Landssamband smábátaeigenda sjái til þess að þeir sem gera út krókabáta standi við samkomulagið, enda er með þessu móti komið mjög til móts við smábátaeigendur. Þá vill meiri hlutinn taka skýrt fram að ekki verða gerðar frekari breytingar á þeim reglum sem gilda um sóknardaga eftir lögfestingu þessa frumvarps.
    Við umfjöllun málsins bárust nefndinni óskir frá sjávarútvegsráðuneytinu um að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, til viðbótar þeim sem frumvarpið mælir fyrir um. Tengjast þær svokallaðri „línutvöföldun“ o.fl. en snerta á engan hátt þau ákvæði er varða krókabáta. Gerð er grein fyrir þessum breytingum á sérstöku þingskjali, en í þeim felst:
    Lagt er til fellt verði brott úr lögunum ákvæði um að sjávarútvegsráðherra sé ekki heimilt að breyta úthlutuðum heildarþorskkvóta eftir 15. apríl. Þannig verði heimilt að gera slíkar breytingar út fiskveiðiárið.
    Lagt er til að svokölluð línutvöföldunarregla í 6. mgr. 10. gr. laganna verði felld brott, en samkvæmt henni skal fiskur, sem veiðist í mánuðunum nóvember–febrúar, aðeins að hálfu talinn til aflamarks þangað til sameiginlegur línuafli af þroski og ýsu hefur náð 34.000 lestum miðað við óslægðan fisk. Tillögu um að fella brott úr lögunum 2. tölul. 3. mgr. 7. gr. leiðir af þessari breytingu. Til að koma til móts við þau skip sem stundað hafa þessar veiðar á síðustu þremur fiskveiðiárum er í tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að þeim verði reiknuð sérstök viðbótaraflahlutdeild í hlutfalli við veiddan línuafla á þessum tímabilum sem nemur 60 af hundraði af þeim hluta aflans sem ekki taldist til aflamarks.
    Lagt er til að ákvæði 1. gr., sem verður 2. gr., öðlist þegar gildi svo að eigendur þeirra báta sem þegar hafa verið dæmdir óbætandi vegna sjótjóns þurfi ekki að bíða fram til 1. september með endurnýjun.
    Í 4. mgr. 12. gr. laganna er ákvæði um að veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö ár í röð falli veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður. Lagt er til að við málsgreinina verði bætt ákvæði um að þetta gildi ekki um skip sem tefjast frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana.
    Frumvarpinu er ætlað að öðlast gildi í upphafi næsta fiskveiðiárs. Lagt er til að heimild ráðherra í sambandi við sjóstangaveiðimót, sbr. 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins, öðlist þó þegar gildi.

Alþingi, 29. maí 1996.



Árni R. Árnason,

Stefán Guðmundsson.

Einar Oddur Kristjánsson.


frsm.



Hjálmar Árnason.

Guðmundur Hallvarðsson.

Sighvatur Björgvinsson,


með fyrirvara.



Hjálmar Jónsson.