Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 89 . mál.


1099. Nefndarálit



um till. til þál. um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra.
    Fram hefur komið að stofnkostnaður við notkun steinsteypu til slitlagsgerðar er hár og því hefur hingað til verið talið að slíkt svaraði ekki kostnaði nema þar sem umferð er mikil. Reynsla af notkun steinsteypu er hins vegar góð og hún talin nýtast vel sem undirlag.
    Nefndin leggur til, með hliðsjón af umsögn iðnaðarnefndar og umsögnum um samhljóða tillögu frá 117. löggjafarþingi frá Vegagerð ríkisins, Malbikunarstöðinni Hlaðbæ-Colas hf., Sementsverksmiðjunni hf. og borgarverkfræðingnum í Reykjavík, að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar á vegum þar sem álagsumferð er mikil og við flugvallagerð. Könnunin nái til nýlagningar og endurnýjunar slitlags og verði lokið á árinu 1997.

    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 29. maí 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.

Árni Johnsen.



Ásta R. Jóhannesdóttir.

Ragnar Arnalds.

Gísli S. Einarsson.




Fylgiskjal.


Umsögn iðnaðarnefndar.


(28. maí 1996.)



    Tillaga þessi er efnislega samhljóða tillögu til þingsályktunar sem flutt var á 117. löggjafarþingi, 355. mál. Að beiðni samgöngunefndar sendi iðnaðarnefnd umsögn um þá tillögu 18. apríl 1994. Nefndin vill ítreka þessa umsögn og bæta við hana eftirfarandi atriðum:
    Nefndin álítur að réttara sé að nota í tillögugreininni orðalagið „mikil umferð“ eða „umferðarþungi og álag er mikið“ sem viðmið fyrir notkun steinsteypu til slitlagsgerðar frekar en að miða við umferð 5 þúsund bíla á sólarhring eða meira. Er þessi tillaga reyndar til samræmis við síðari málslið tillögugreinarinnar.
    Nefndin telur að það séu enn fremur rök með samþykkt þessarar tillögu, sem ekki koma nægjanlega skýrt fram í greinargerð með henni, að vegna aukinnar umferðar og sífellt vaxandi umferðarþunga mun viðhaldskostnaður malbikaðra vega og gatna trúlega stóraukast. Þá vantar nokkuð á að í greinargerð með tillögunni sé litið á málið frá sjónarhóli vegfarenda, en styttri ending malbiks í samanburði við steypu kemur óneitanlega niður á vegfarendum ef viðhaldi er ekki sinnt reglulega. Einnig má benda á að miklar og tíðar viðhaldsframkvæmdir á malbikuðum vegum og götum gera þessi mannvirki ónothæf í lengri eða skemmri tíma á meðan.
    Nefndin vill vekja athygli á þeim möguleika að Sementsverksmiðjan hf., Vegagerð ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga geri með sér tækniþróunarsamning sem hafi það að markmiði að auka hlutdeild steinsteypu í gatna-, vega- og flugvallagerð.
    Að lokum vekur nefndin athygli á því að við gerð Vestfjarðaganga er ætlunin að nota malbik í stað steypu við gerð slitlags, jafnvel þótt steypan hafi verið boðin á sambærilegu verði.
    Með hliðsjón af fyrri umsögn nefndarinnar og því sem hér hefur verið rakið er það enn afstaða nefndarinnar að rétt sé að mæla með samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Fyrir hönd iðnaðarnefndar,



Stefán Guðmundsson, form.