Ferill 421. máls. Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 421. og 422 . mál.


1117. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og um frv. til l. um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar fjögur þingmál í tengslum við svokallaðan fjármagnstekjuskatt. Í fyrsta lagi er um að ræða stjórnarfrumvarp um fjármagnstekjuskatt, 421. mál, og í öðru lagi stjórnarfrumvarp um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, 422. mál. Jafnframt hefur verið til umfjöllunar í nefndinni svokallað formannafrumvarp, en það er frumvarp um fjármagnstekjuskatt borið fram af Jóni Baldvini Hannibalssyni, Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur (428. mál). Í tengslum við formannafrumvarpið er jafnframt staðgreiðslufrumvarp (429. mál).
    Álit minni hluta nefndarinnar á formlega við 421. mál, en jafnframt er fjallað um samsvarandi staðgreiðslufrumvarp, þ.e. 422. mál. Í álitinu er einnig komið inn á formannafrumvörpin.

Inngangur.
    
Um langt skeið hefur verið hávær umræða í þjóðfélaginu um að setja beri lög um fjármagnstekjuskatt og hefur sú umræða færst í aukana. Hér hefur þó verið um nokkurn misskilning að ræða því að fjármagnstekjur hafa verið skattlagðar til þessa eins og aðrar tekjur ef vaxtatekjur eru undanskildar. Hugtakið fjármagnstekjuskattur eins og það hefur verið notað hefur því þýtt vaxtatekjuskattur. Þess vegna er notkun hugtaksins fjármagnstekjuskattur í frumvarpi ríkisstjórnarinnar í reynd rangnefni.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar fjallar ekki um að taka upp fjármagnstekjuskatt heldur að samræma skattlagningu á sumar fjármagnstekjur, einkum með því að lækka skatta á þeim. Í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu er sagt að markmið þess sé að taka upp samræmda skattlagningu allra fjármagnstekna einstaklinga. Til að svo geti orðið er lagður 10% skattur á vaxtatekjur, en þær hafa verið skattfrjálsar hingað til. Þrátt fyrir þessa samræmingu er ekki verið að koma á heildstæðu skattlagningarkerfi fjármagnstekna. Þeir einstaklingar, sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni, munu áfram þurfa að greiða 42–47% tekjuskatt. Til að sleppa við það munu þeir þurfa að breyta um rekstrarform.
    Jafnframt er í þessu stjórnarfrumvarpi kveðið á um að arður, söluhagnaður og leigutekjur verði skattlagðar á sama hátt og vaxtatekjur, þ.e. með 10% skatthlutfalli. Arður, söluhagnaður og leigutekjur hafa verið skattlagðar fram til þessa innan almenna tekjuskattskerfisins, þ.e. með 42–47% skatthlutfalli.
    Í stjórnarfrumvarpinu er gert ráð fyrir að samræma skatt á fjármagnstekjur með 10% skatti þannig að í fyrra tilfellinu er hvað varðar vaxtatekjur um skattahækkun að ræða. Í síðara tilvikinu er hvað snertir arð, söluhagnað og leigutekjur um verulega skattalækkun að ræða.
    Stjórnarfrumvarpið byggist á störfum nefndar sem fjármálaráðuneytið skipaði, en í henni áttu sæti ýmsir hagsmunaaðilar, svo og fulltrúar þingflokka. Fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðunnar gerðu hins vegar sérstaklega grein fyrir ágreiningi sínum um nefndarálitið og kynntu að þeir mundu áskilja sér allan rétt gagnvart málinu þegar það kæmi til umfjöllunar á Alþingi.
    Almennt ríkir ekki pólitískur ágreiningur um að skattleggja beri vaxtatekjur hér á landi. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við þá stefnu og ríkisstjórnin kynnti áform um fjármagnstekjuskatt í stefnuskrá sinni. Því er ljóst að álagning fjármagnstekjuskatts hér á landi nýtur mikils pólitísks stuðnings, þó svo að í umræðum á Alþingi hafi komið andstaða fram við þessi áform, einkum af hálfu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
    Fjármagnstekjur eru skattlagðar í langflestum nágrannalöndum okkar þannig að álagning fjármagnstekjuskatts hérlendis lýtur að samræmingu skattareglna. Vaxtatekjur eru nú skattlagðar í atvinnurekstri hérlendis, en frumvörpin fjalla að langmestu leyti um einstaklinga utan atvinnurekstrar.
    Bent hefur verið á sem rök fyrir álagningu vaxtatekjuskatts að óeðlileg mismunun skapist milli sparnaðarforma ef vaxatekjur eru skattfrjálsar en arðgreiðslur og söluhagnaður skattlögð eins og almennar tekjur. Slíkt fyrirkomulag beinist gegn áhættufjárfestingu í atvinnuvegunum. Þannig sé arðbærara að fjárfesta í tekjuskattsfrjálsum verðbréfum en öðrum eignum. Þess má geta að þeir aðilar sem hafa miklar vaxtatekjur eru jafnframt þeir sem bæði njóta hærri tekna og eiga meiri eignir þannig að upptaka vaxtatekjuskatts hefur ákveðin tekjujöfnunaráhrif.
    Hafa verður í huga að eignarskattar eru nokkru hærri hér á landi en annars staðar og oft hefur verið litið svo á að tiltölulega hár eignarskattur hérlendis komi að einhverju leyti í staðinn fyrir fjármagnstekjuskatt. Ekki er farin sú leið, hvorki í stjórnarfrumvarpinu né formannafrumvarpinu, að skoða álagningu eignarskatts samhliða upptöku fjármagnstekjuskatts.
    Ástæða þess að enn hefur ekki verið tekinn upp fjármagnstekjuskattur hér á landi er pólitísk andstaða við málið sem hefur m.a. byggst á áhyggjum af hugsanlegum fjármagnsflótta og neikvæðum áhrifum á sparnað. Þessi rök hafa látið undan síga hin síðari missiri, meðal annars í kjölfar opnunar fjármagnsmarkaða til útlanda og samræmingar vaxtakjara við það sem tíðkast annars staðar. Hvorki stjórnarfrumvarpið né formannafrumvarpið gera ráð fyrir mikilli skattlagningu þannig að ekki er talin ástæða til að óttast fjárflótta, enda eru fjármagnstekjur skattlagðar í langflestum nágrannalöndunum.

Efni stjórnarfrumvarpanna.
    Meginatriði stjórnarfrumvarpanna eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi verður lagður 10% skattur á fjármagnstekjur einstaklinga, þ.e. vexti, verðbætur, afföll, gengishagnað, tekjur af hlutdeildarskírteinum, tekjur af arði, leigu íbúðarhúsnæðis og söluhagnað. Áfram verður lagður 42–47% skattur á rekstrarhagnað einkaaðila.
    Í öðru lagi verður skatturinn innheimtur í staðgreiðslu eftir því sem við verður komið en uppgjör fari fram í skattframtali.
    Í þriðja lagi verður einstaklingum heimilt að nýta persónuafslátt sinn til greiðslu fjármagnstekjuskatts, en ekki er gert ráð fyrir sérstöku frítekjumarki. Skatturinn er heildarskattur, þ.e. reiknast af öllum vaxta- og fjármagnstekjum án frádráttar vaxta eða annars kostnaðar.
    Í fjórða lagi verður skattlagning fjármagnstekna almenn og án undantekninga, þó þannig að fjármagnstekjur lífeyrissjóða eru ekki skattlagðar.
    Hafa ber í huga hið tvíþætta markmið stjórnarfrumvarpanna, þ.e. að skattleggja vaxtatekjur með almennum hætti en í öðru lagi að gera arðgreiðslur og söluhagnað skattskyldan í mun lægra skattþrepi en verið hefur hingað til. Það er seinni þátturinn sem ekki hefur verið fjallað nægjanlega um í tengslum við frumvarp ríkisstjórnarinnar. Einnig kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu sú ætlun ríkisstjórnarinnar að létta sköttum verulega af stórum hlutafjáreigendum á sama tíma og smærri sparifjáreigendur verða að búa við aukna skattheimtu.
    Í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu kemur fram að 80% af úthlutuðum arði fer til þeirra einstaklinga sem greiða skatt af arði. Þeir eru hinir eiginlegu fjárfestar í fyrirtækjum, þ.e. stórir hlutafjáreigendur, og skattar þeirra munu samkvæmt stjórnarfrumvarpinu lækka verulega. Þetta leiðir einnig til þess að væntanlega mun fjölga til muna í þessum hópi. Stjórnarfrumvarpið miðar fyrst og fremst að skattalækkun fyrir hina betur stöddu stærri hlutafjáreigendur en hefur sáralítið með almennan fjármagnstekjuskatt að gera eins og hann hefur verið ræddur undanfarin missiri.
    Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar fyrir þessum ívilnunum til handa hlutafjáreigendum er m.a. sá að aukin athafnasemi á hlutabréfamarkaði leiði til aukinna fjárfestinga í atvinnurekstri. Í stjórnarfrumvarpinu segir að þessi samræming á skattlagningu fjármagnstekna sé forsenda fyrir traustri eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja og uppbyggingu atvinnulífsins, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þessi rökstuðningur og aðferðafræði er meginhugsun stjórnarfrumvarpsins. Þar sem ívilnunin er einkum til eigenda en ekki fyrirtækjanna sjálfra er þessi röksemdafærsla á nokkrum brauðfótum.
    Áhrif stjórnarfrumvarpanna eru m.a. þau að fjölmargir aðilar, sem nú eru skattfrjálsir, munu greiða skatt samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar og kemur það harkalega niður á líknarfélögum, íþróttafélögum og sveitarfélögum.
    Talið er að skattlagning fjármagnstekna samkvæmt stjórnarfrumvarpinu skili ríkissjóði u.þ.b. 800 millj. kr. á ári og er því augljóst að hér er ekki um að ræða mikla skattlagningu þegar haft er í huga að tekjur ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum eru um 120 milljarðar kr. Mikil óvissa ríkir í þessu tekjumati vegna þess að skattar hækka hjá ýmsum hópum, sérstaklega hjá almennum sparifjáreigendum, en hjá fyrirtækjum og stórum hlutafjáreigendum koma skattar til með að lækka verulega.
    Ekki er talið að álagning fjármagnstekjuskatts muni hafa mikil áhrif á sparnað eða vexti og ekki er talin ástæða til þess að óttast fjárflótta vegna samþykktar þessara frumvarpa. Á það bæði við um stjórnarfrumvarpið og formannafrumvarpið.
    Staðgreiðslufrumvarp ríkisstjórnarinnar, 422. mál, er fylgifrumvarp stjórnarfrumvarpsins um fjármagnstekjuskatt og fjallar um með hvaða hætti staðið verði að staðgreiðslunni og er þar fylgt almennum reglum um staðgreiðslu eins og mælt er fyrir í lögum um staðgreiðslu. Staðgreiðslufrumvarp ríkisstjórnarinnar var hins vegar illa úr garði gert í upphafi og var það gagnrýnt harkalega af hálfu skattyfirvalda. Ráðin hefur þó verið bót á því að nokkru leyti í breytingartillögum meiri hlutans.

Gallar stjórnarfrumvarpanna.
    Grundvallaratriði varðandi fjármagnstekjuskatt er hvort skattleggja eigi með sambærilegum hætti tekjur af launaðri vinnu og tekjur af fjármagni. Í stjórnarfrumvörpunum er ekki farin sú leið heldur eru fjármagnstekjur skattlagðar með lægra hlutfalli en almennar launatekjur sem þýðir að frumvörpin fela ekki í sér heildstæða lausn í skattamálum þar sem hér er um sérsköttun að ræða sem nær einungis til einstaklinga með vaxtatekjur en er útfærð með ívilnandi hætti til hlutafjáreigenda varðandi arð, söluhagnað og leigutekjur. Þetta er einn alvarlegasti galli málsins í heild sinni. Fjármagnstekjuskattur ríkisstjórnarinnar miðar að lækkun skattsins, nánast afnámi hans, um leið og tekinn er upp 10% vaxtaskattur.
    Minni hlutinn hefði talið mun heppilegra að skoða sérstaklega skattlagningu í atvinnulífi hér á landi, bæði skattlagningu einstaklinga utan atvinnureksturs og skattlagningu lögaðila. Í þeirri endurskoðun hefðu menn átt að líta bæði til tekjuskatts, fjármagnstekjuskatts, eignarskatts og annarra skatta og móta heildstæða stefnu sem hefði leitt til aukinna umsvifa og minni undanskota frá skatti. Sú leið er ekki farin í stjórnarfrumvörpunum heldur einungis tekinn út úr einn afmarkaður þáttur.
    Skattalækkunin í frumvörpum ríkisstjórnarinnar kemur einkum þeim til góða sem eiga miklar eignir og hafa háar tekjur, en íþyngjandi þáttur frumvarpsins lendir á smærri sparifjáreigendum. Bent hefur verið á að með því að halda vaxtatekjum utan skattkerfisins með sérstökum vaxtaskatti, eins og stjórnarfrumvörpin gera ráð fyrir, hafa sveitarfélög engar tekjur af vaxtatekjum einstaklinga sem er vitaskuld mikið misræmi og hefur kallað á mjög mikla óáægju hjá sveitarfélögum.
    Helsta breytingin, sem felst í stjórnarfrumvörpunum, að horfið er frá þeirri meginreglu íslenskra skattalaga að leggja heildartekjur til grundvallar við ákvörðun tekjuskatts, er ámælisverð. Hún felur í sér aðgreiningu skattskyldra tekna í launa- og lífeyristekjur annars vegar og tekjur af eignum hins vegar og skattleggur þær á mismunandi hátt. Hér er ekki gætt jafnræðis milli þegna landsins.
    Lækkun skattlagningar á arði, söluhagnaði og leigutekjum niður í 10% kemur eingöngu þeim tekjuhæstu til góða, léttir skattbyrði þeirra og hefur í för með sér verulegan tilflutning á skattlagningu sem gengur þvert á sjónarmið greiðslugetu, tekjujöfnunar og jafnræðis.
    Benda má á að í frumvörpunum er gert ráð fyrir að verð hlutabréfa verði fært upp með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og arðgreiðslur miðaðar við slíkt uppfært verð. Þetta þýðir að skattfrjáls arður mun aukast, auk þess sem frádráttarbærum þáttum hjá fyrirtækjum mun jafnframt fjölga með þessari breytingu. Í íslenskum fyrirtækjum er mjög mikið af ónotuðum jöfnunarhlutabréfaheimildum sem nýtast eftir lögfestingu þessa frumvarps til að koma fé til eigenda fyrirtækjanna með mun lægri sköttum en áður.
    Eitt hið alvarlegasta í stjórnarfrumvörpunum er það að aðilar munu vitaskuld freista þess að taka tekjur sínar inn sem arðgreiðslur í stað þess að þær séu skattlagðar sem launatekjur. Þannig er mikill munur á stjórnarfrumvörpunum og formannafrumvörpunum og hefur ítrekað verið bent á þetta af skattyfirvöldum.
    Samþykkt stjórnarfrumvarpanna gerir þeim aðilum, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni, mögulegt að breyta þeim rekstri í einkahlutafélag og taka út úr því félagi í formi arðs verulegan hluta þess fjár sem áður hefur verið skattlagt hjá þeim sem reiknað endurgjald eða rekstrarhagnaður. Með því að taka það út úr fyrirtækjum sem arð verður það einungis skattlagt með 10% skatti í stað rúmlega 40% nú. Ekki þurfa miklar breytingar að verða til þess að skatttekjur ríkisins minnki verulega. Þannig ríkir veruleg óvissa í tekjuöflun stjórnarfrumvarpsins, sérstaklega hvað varðar hina ívilnandi útfærslu gagnvart stærri hlutafjáreigendum.
    Við afgreiðslu síðustu fjárlaga var settur fjármagnstekjuskattur á eldri borgara. Það var gert þannig að tekjutengdar bætur voru skertar um 50% af vaxtatekjum þessara einstaklinga. Tekinn var upp fjármagnstekjuskattur þegar á síðasta hausti en einungis á ellilífeyrisþega. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þá málsmeðferð harkalega þar sem hún taldi að ekki væri sanngjarnt að þessi eini hópur yrði að greiða fjármagnstekjuskatt. Þá var því lofað að við samræmingu fjármagnstekna, sem væri þá væntanleg á næsta vori, þ.e. núna, yrðu þessi mál endurskoðuð. Það er hins vegar ekki gert í stjórnarfrumvörpunum né í breytingartillögum meiri hlutans.
    Þetta kemur því þannig út hjá eldra fólki að tekjutengdar bætur eru skertar um fjármagnstekjur og það þarf til viðbótar að greiða 10% fjármagnstekjuskatt. Af þessu er augljóst að ríkisstjórnin ber hag eldra fólks ekki fyrir brjósti. Það er skattlagt alveg sérstaklega og við afgreiðslu fjárlaga er gengið á loforð um að skoða þessi mál í samhengi við almenna álagningu fjármagnstekjuskatts.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar felur í sér tvö meginatriði, þ.e. nýtt skattkerfi vegna vaxtatekna sem er búið til við hliðina á gildandi tekjuskattskerfi og hins vegar aðrar fjármagnstekjur, svo sem arð af hlutabréfum, leigutekjur og söluhagnað, lagað að hinu nýja 10% skattkerfi. Þessar tekjur eru þannig teknar út úr gildandi skattkerfi. Stjórnarfrumvörpin hefðu frekar átt að ganga út á það að finna góða útfærslu á skattlagningu vaxtatekna, en það er einmitt það sem frumvarp formannanna fjallar um. Því hefði verið með öllu ástæðulaust að lækka skatta af hlutabréfum, leigutekjum og söluhagnaði eins og stjórnarfrumarpið gerir ráð fyrir. Með því móti er ekkert annað gert en að láta eignafólk fá verulega skattalækkun með stjórnarfrumvarpinu.
    Því ber að hafa skýrt í huga að frumvörp ríkisstjórnarinnar fela ekki í sér skref í átt að fjármagnstekjuskatti. Hér er miklu frekar farin sú leið að hygla stórum hlutafjáreigendum auk þess sem hagsmunum lífeyrissjóðanna er mjög vel borgið með því að undanþiggja þá fjármagnstekjuskattinum. Með samþykkt þessa frumvarps er borgunum landsins skipt í tvo aðskila hópa. Annars vegar launafólk og einstaklinga í rekstri sem greiða 42–47% af tekjum sínum. Hins vegar fjármagnseigendum sem greiða 10% af tekjum sínum.
    Hægt er að taka dæmi um félag sem hefði greitt 10% arð, alls 50 millj. kr., og ef 30 eigendur hefðu átt í þessu félagi þyrftu þeir samkvæmt núgildandi skattalögum að greiða 19,3 millj. kr. í skatt. Ef hins vegar frumvörp ríkisstjórnarinnar verða samþykkt munu þessir eigendur hlutafjárins einungis greiða 5 millj. kr. í skatt. Þeir fá þannig 14,3 millj. kr. skattalækkun, auk þess sem hlutafélagið fær lækkun skatta þar sem skattfrjáls úthlutun arðs er hækkuð. Um verulegar fjárhæðir getur verið að ræða, sérstaklega ef fyrirtækið á miklar og ónýttar heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Einnig er hægt að sýna fram á einfalt dæmi um 800 millj. kr. söluhagnað eigenda sem seldu hlutabréf í fyrirtæki sínu. Í núverandi kerfi mundu þeir greiða u.þ.b. 330 millj. kr. í skatt. Frumvörp ríkisstjórnarinnar gera hins vegar ráð fyrir að þeir muni einungis greiða um 80 millj. kr. Í þessu dæmi er um skattalækkun að ræða sem nemur um 250 millj. kr. Mikilvægt er að vekja ítrekað athygli á því að samþykkt stjórnarfrumvarpanna þýðir að einstaklingar munu reyna eftir því sem þeir geta að taka til sín greiðslur í formi arðs í stað launa vegna þess að arðgreiðslur og vaxtagreiðslur eru einungis skattlagðar með 10% skatti en laun eru skattlögð með 42–47% skatthlutfalli.
    Skattyfirvöld hafa bent mjög ítrekað á þennan galla stjórnarfrumvarpanna sem mun kalla á aukin undanskot. Það hefði verið hægt að mæta þessu að hluta með því að setja hámark á arðgreiðslur sem væru skattlagðar með 10% hlutfalli, en stjórnarmeirihlutinn tók einmitt það atriði út við lokaafgreiðslu málsins.
    Í stjórnarfrumvörpunum er ekki gætt að því að samræma skattlagningu mismunandi tegunda fjármagnstekna. Þvert á móti er búið til sérstakt kerfi sem hyglar þeim sem eiga mikið hlutafé, auk þess sem ekki er fullvíst nema síður sé að þetta muni örva atvinnulíf.
    Benda má á að ýmis fyrirtæki hafa tekið út hundruð milljóna króna úr rekstri sínum og munu gera það áfram á miklu lægri skattprósentu heldur en tíðkaðist. Þekktasta dæmið um þetta er þegar hluthafar Sameinaðra verktaka greiddu nokkur hundruð milljóna króna til eigendanna, en slík útgreiðsla verður nú skattlögð með mun lægra hlutfalli en áður. Hér er öllu snúið á haus í eðlilegri skattlagningu. Nú bíða 2–3 milljarðar kr. af óskattlögðu eigin fé Sameinaðra verktaka þess að frumvarp ríkisstjórnarinnar verði samþykkt. Góð gjöf það.
    Íslensk fyrirtæki búa samt við eitt hagstæðasta skattkerfi og rekstrarumhverfi í Evrópu. Skattar íslenskra fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu og skatthlutfall fyrirtækja sem er 33% í tekjuskatti er mjög lágt miðað við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.
    Minni hlutinn bendir á að íslensk fyrirtæki njóta þeirrar sérstöðu að geta dregið arð frá tekjum áður en tekjuskattur er lagður á. Það hlutfall hefur hingað til verið 10% en er með breytingartillögu meiri hlutans lækkað niður í 7%. Hins vegar ber að hafa í huga að þessi 7% eru hlutfall af mun hærri fjárhæð, eða af mögulegri jöfnunarhlutabréfaútgáfuheimild. Það þekkist ekki í nágrannalöndunum að fyrirtæki geti dregið útborgaðan arð frá tekjum sínum í þessu formi sem íslensk fyrirtæki geta gert. Hér er enn eitt dæmið um ívilnandi þátt til fyrirtækja hérlendis miðað við önnur lönd.
    Frumvörp ríkisstjórnarinnar fela þannig fyrst og fremst í sér að lækkaðir eru skattar á einstaklinga sem eiga hlutabréf og þeim mun meira sem eign þeirra er meiri. Það gerir þessa einstaklinga ríkari og öflugri, en það flokkast ekki undir bætt rekstrarskilyrði atvinnulífsins heldur er einungis tilfærsla á skattbyrði.
    Vitaskuld hefði átt að skoða almennt skattlagningu í atvinnulífi, ef það var tilgangur þessara frumvarpa, og stjórnarandstaðan hefði getað lagt til mörg efnisatriði við þá umræðu, t.d. endurskipulagingu á eignarskatti og veltusköttum, svo og aukna frádráttarbærni varðandi rannsóknir og þróunarvinnu innan fyrirtækja og lengingu tímabila sem flytja má tap eða hagnað milli ára. Allar þessar aðgerðir hefðu getað stuðlað að öflugra atvinnulífi og kerfisbreytingu sem hefði horft til bóta í stað þess að hyglað sé þeim fáu efnuðu einstaklingum sem fyrst og fremst njóta velvildar ríkisstjórnarflokkanna með útfærslu þessara frumvarpa sem hér er til umræðu.
    Frumvörpin munu þannig leiða af sér tekjutap fyrir ríkissjóð, og það tekjutap verður bætt upp með skattahækkun hjá almenningi því að ljóst er að frumvörpin eiga ekki að leiða til tekjulækkunar fyrir ríkissjóð.
    Bent skal á að í stjórnarfrumvarpinu um breytingar á lögum nr. 75/1981 eru lagðar til mjög miklar breytingar á einum flóknustu ákvæðum skattalaga án þess að það sé skýrt nákvæmlega í greinargerð og ekki er fjallað um hin miklu áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs. Þetta mun þýða að skattfrjáls útborgun á arði getur margfaldast og það leitt til lækkunar á skatttekjum ríkissjóðs svo að skipti hundruðum milljóna króna. Forsvarsmenn frumvarpsins hafa ekki getað borið á móti þessum áhrifum af samþykkt frumvarpsins og er mjög ámælisvert að ekki skuli liggja fyrir betri útreikningar og kannanir á áhrifum þess.
    Söluhagnaður hlutabréfa er færður úr 42–47% skatti niður í 10% sem þýðir að í fjölmörgum tilfellum, þar sem uppsafnaður hagnaður frá fyrri árum er mikill í fyrirtækjum, eru eigendum hlutafjár í slíkum fyrirtækjum færðar milljónir eða milljónatugir.
    Hér er rétt að vekja athygli á möguleika til útgáfu jöfnunarhlutabréfa, en frádráttur fyrirtækja miðast við þá heimild. Það er vitað að heimildir íslenskra fyrirtækja eru mjög miklar til jöfnunarhlutabréfaútgáfu sem mun margfalda möguleika þeirra til frádráttar. Ekki var hægt að fá upplýst í nefndinni hve ónotaðar jöfnunarhlutabréfaheimildir væru miklar hjá íslenskum fyrirtækjum. Því er rennt algerlega blint í sjóinn við útfærslu fjármagnstekjuskattsins í stjórnarfrumvörpunum og eru þetta mjög ámælisverð vinnubrögð.
    Skattfrelsismörk hjá launafólki eru nú 58.500 kr. á mánuði. Hins vegar eru skattleysimörk einstaklings sem hefur eingöngu tekjur af eignum, þ.e. arðstekjur, vaxtatekjur, söluhagnað eða leigu, 245.000 kr. á mánuði. Þannig þýðir þetta að skattleysimörk hjá hjónum gagnvart eignatekjum eru um 5,9 millj. kr. á ári. Það þýðir að fólk getur verið með söluhagnað, arðstekjur eða vaxtatekjur allt að 6 millj. kr. á ári án þess að greiða nokkurn skatt. Einnig má benda á að séu hjón með tvö börn yfir 16 ára aldri geta þau hagað tekjuskráningu sinni þannig að þau séu skattlaus þrátt fyrir allt að 12 millj. kr. tekjur á ári. Það er augljóst hvílík fásinna það er að setja slík ívilnandi ákvæði handa þeim sem best mega sín í þjóðfélaginu.

Efnisatriði formannafrumvarpsins.
    Fjármagnstekjuskattsfrumvarp flokksformannanna er miklu einfaldara í sniðum en stjórnarfrumvarpið. Það gerir ráð fyrir að fella skattlagningu á vaxtatekjum inn í núverandi skattkerfi, þ.e. að vaxtatekjur myndi sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum en ekki sé búið til nýtt skattkerfi eins og stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í formannafrumvarpinu er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að frá vaxtatekjum skuli draga 40 þús. kr. hjá einstaklingi en 80 þús. kr. hjá hjónum.
    Í öðru lagi skulu 60% af því sem eftir stendur leggjast við skattstofn sem skattskyldar tekjur.
    Í þriðja lagi er eitt af meginatriðum formannafrumvarpsins það að innheimt er í staðgreiðslu og endanlegt uppgjör fari fram við álagningu. Þetta er sambærilegt við stjórnarfrumvarpið.
    Í fjórða lagi er upplýsingaskyldu stjórnvalda ekki breytt og er það sambærilegt við stjórnarfrumvarpið.
    Í fimmta lagi er hins vegar ekki gert ráð fyrir að breyta skattlagningu á arði, söluhagnaði og leigutekjum frá því sem nú er.
    Síðasta atriðið er einna mikilvægast í samanburði þessara frumvarpa. Formannafrumvarpið fjallar eingöngu um skattlagningu á vaxtatekjur innan núverandi skattkerfis en það eru ekki gerðar ívilnandi ráðstafanir handa hlutafjáreigendum eins og gert er í stjórnarfrumvarpinu. Jafnframt er formannafrumvarpið þannig upp byggt að það fellur algerlega inn í núverandi skattkerfi með sérstöku frítekjumarki.
    Minni hlutinn telur að útfærslan í formannafrumvarpinu sé mun betri en í stjórnarfrumvarpinu vegna þess að fjármagnskattur er felldur inn í núverandi skattkerfi en ekki búið til sérstakt skattkerfi fyrir fjármagnstekjur. Minni hluti nefndarinnar telur algjörlega ótímabærar hinar ívilnandi ráðstafanir gagnvart hlutafjáreigendum eins og þær koma fram í stjórnarfrumvarpinu.
    Útfærsla formannafrumvarpsins er einnig algeng í öðrum löndum. Einn kostur formannafrumvarpsins er sá að ekki er breytt neinu gagnvart þeim aðilum sem nú eru undanþegnir skattskyldu eins og líknarfélög, íþróttafélög eða sveitarfélög sem verða fyrir þungum búsifjum með stjórnarfrumvarpinu. Ekkert slíkt gerist með lögfestingu formannafrumvarpsins þar sem það nær einungis til þeirra aðila sem nú þegar eru skattskyldir.
    Einn meginmunurinn á frumvörpunum tveimur snýr að sveitarfélögum en upprunaleg útfærsla stjórnarfrumvarpsins gerði ráð fyrir að rýra tekjur þeirra um tæpar 300 millj. kr. Formannafrumvarpið hefði hins vegar aukið þær um nokkur hundruð milljónir, þar sem það hefði verið fellt inn í almennt skattaumhverfi. Þetta skiptir vitaskuld verulegu máli við mat á þessum tveimur aðferðum.
    Sú aðferð í formannafrumvarpinu að einungis 60% af vaxtatekjum séu reiknaðar til skattstofns svarar til þess að þar er verið að skattleggja raunvaxtahluta tekna. Með þessari aðferð er náð nokkuð utan um það sjónarmið, sem oft hefur heyrst, að ekki sé eðlilegt að skattleggja nafnvexti heldur raunvexti. Skattlagning á raunvöxtum hefur oft verið skoðuð en menn hafa horfið frá henni vegna hinnar flóknu aðferðafræði sem það krefst. Minni hlutinn styður það sjónarmið að skattleggja beri nafnvexti eins og reyndar er gert í báðum frumvörpunum.
    Persónuafsláttur nýtist í formannafrumvarpinu til að greiða vaxtaskattinn sem þýðir það að hinir tekjulægstu sem hafa lágar vaxtatekjur verða eftir sem áður skattlausir. Meðalskattur á vexti samkvæmt formannafrumvarpinu verður í upphafi í kringum 11% en fer í liðlega 18% þegar skattlagning er komin að fullu til framkvæmda.
    Sú skattlagning sem viðkemur fyrirtækjarekstri, þ.e. breikkun vaxtahugtaksins þannig að það nái til arðs, söluhagnaðar og leigutekna, hefði þurft að skoðast í mun víðara samahengi en gert er í stjórnarfrumvarpinu.
    Staðgreiðslufrumvarp formannanna er einföld útfærsla og er fylgifrumvarp með fjármagnstekjuskattsfrumvarpinu. Gert er ráð fyrir í formannafrumvarpinu að innheimta skattinn í staðgreiðslu eins og stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggur til verulegar breytingar á báðum stjórnarfrumvörpunum. Þær eru helstar:
    Í fyrsta lagi að sett verði hámark á söluhagnað sem er skattlagður með 10% hlutfalli. Þetta hámark er 3 millj. kr. fyrir einstakling og 6 millj. kr. fyrir hjón en tekjur umfram það af þessum þáttum verði skattlagðar með almennu skatthlutfalli, þ.e. 42–47%.
    Í öðru lagi verður heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvö ár ef viðkomandi hefur keypt nýtt hlutafé á þeim tíma. Þetta á við um þá aðila þar sem söluhagnaður er meiri en 3 millj. kr. á einstakling eða 6 millj. kr. á hjón.
    Í þriðja lagi verður hámark á frádrætti arðs hjá fyrirtækjum lækkað úr 10% í 7%.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að leigutekjur og hagnaður vegna eignasölu verði undanþeginn fjármagnstekjuskatti hjá aðilum sem eru ekki skattskyldir, t.d. sveitarfélög, líkarfélög, íþróttafélög o.fl. Hjá þessum aðilum verða skattlagðar vaxtatekjur og arður.
    Fyrrgreind fjögur atriði eru efnisbreytingar frá upphaflegu frumvarpi. Einnig eru í breytingartillögum meiri hlutans ýmsir þættir útfærðir skýrar en áður, m.a. að ótvírætt sé að heimilt verði að gefa út jöfnunarhlutabréf og það notað sem viðmiðun við arðsúthlutun til aðila og til frádráttar hjá fyrirtækjum.
    Jafnframt eru frádráttarheimildir vegna fjármagnstekna gerðar mun skýrari með breytingartillögum meiri hlutans. Vaxtaskattur er gerður hlutlaus gagnvart barnabótaauka og vaxtatekjur koma til frádráttar vaxtabótagrunni með almennum 6% frádrætti í stað endurgreiðslu eins og fyrirhugað var í frumvarpinu. Jafnframt er kveðið á um að seljendur hlutabréfa í áður skráðum félögum geti valið milli viðmiðunar við jöfnunarhlutabréfaheimildir eða uppreiknaðs kaupverðs. Almennt gildir við eigendaskipti hin almenna regla um mismun á sölu- og kaupverði þegar reiknaður er söluhagnaður.
    Breytingartillögur við staðgreiðslufrumvarp ríkisstjórnarinnar eru verulegar, þar á meðal er fellt inn í lögin ákvæði um upplýsingaskyldu, skatteftirlit og skattrannsóknir, innheimtumenn, refsingar, málsmeðferð og fyrningar og uppgjör staðgreiðslu. Hér eru teknir inn kaflar úr núgildandi lögum um staðgreiðslu, nr. 45/1987.
    Aðrar breytingar á staðgreiðslufrumvarpinu eru smávægilegar, þar á meðal er hlutdeildarsjóðum skylt að senda sundurgreint yfirlit til skattgreiðenda, fellt er niður ákvæði um að endurgreiða oftekna staðgreiðslu með dráttarvöxtum og skattfrelsi forseta Íslands er staðfest í staðgreiðslufrumvarpinu.
    Breytingartillögur meiri hlutans við fjármagnstekjuskattsfrumvarp ríkisstjórnarinnar eru almennt til bóta, sérstaklega hvað varðar ákvæðið um hámark við skattlagningu söluhagnaðar í 10% skatthlutfalli og einnig að hámark frádráttar hjá fyrirtækjum verði lækkað úr 10% niður í 7%. Fjölmargar breytingartillagna meiri hlutans lúta hins vegar einungis að tæknilegri útfærslu einstakra atriða.
    Í breytingartillögu sem lögð var fram á fundi nefndarinnar af meiri hlutanum og ættuð var úr fjármálaráðuneyti var gert ráð fyrir að setja þak á arð og söluhagnað þannig að arður og söluhagnaður sem væri undir 3 millj. kr. á einstakling og 6 millj. kr. á hjón yrði skattlagður með 10% skatti, en það sem umfram færi væri skattlagt með almennu skattþrepi, þ.e. 42–47%.
    Stjórnarliðar drógu hins vegar þessa tillögu til baka og breyttu henni þannig að þeir tóku út ákvæði um þak á arðgreiðslu. Breytingartillaga stjórnarmeirihlutans hljóðar nú einungis upp á að sett er þak á söluhagnað en ekki á arðgreiðslu. Þessi breytingartillaga þýðir að í reynd er ekkert þak á tekjum á söluhagnaði einstaklinga í þeirri útfærslu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.
    Ein breytingartillaga meiri hlutans gengur út á að hægt sé að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvö ár ef aðilar, sem hafa meiri tekjur en nemur 3 millj. kr. á einstakling og 6 millj. kr. á hjón, fjárfesta aftur innan tveggja ára í verðbréfum eða hlutabréfum. Með þessari aðferð geta einstaklingar í reynd frestað skattlagningu söluhagnaðar endalaust.
    Þetta er öldungis ófær útfærsla af hálfu meiri hlutans, ekki síst í ljósi þeirrar tillögu sem unnið var með um nokkurn tíma og m.a. kynnt ýmsum hagsmunaaðilum, þ.e. að sett yrði þak á arðgreiðslur í 10% skatthlutfalli. Minni hlutinn studdi þá breytingartillögu meiri hlutans og taldi að með því hefði verið komið til móts við gagnrýni sem minni hlutinn hafði uppi um stjórnarfrumvarpið.

Umsagnir.
    Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni og m.a. fer Öryrkjabandalag Íslands þess á leit við Alþingi að séð verði til þess að félög fatlaðra og sjóðir þeirra verði undanþegin fjármagnstekjuskatti, en þessi félög eru nú undanþegin tekju- og eignarskatti. Ekki er orðið við þessari ósk í breytingartillögu meiri hlutans að öðru leyti en því að leigutekjur þeirra verða ekki skattskyldar. Þessi félög, líknarfélög, íþróttafélög og sveitarfélög verða öll að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum sínum og söluhagnaði ef einhver er.
    Bandalag háskólamanna leggur til að fjármagnstekjur verði skattlagðar á hliðstæðan hátt og aðrar tekjur í skattkerfinu eftir því sem unnt er. Það er einmitt þessi stefna sem endurspeglast í formannafrumvarpinu en gengið þvert á hana í stjórnarfrumvarpinu.
    Samband lánastofnana bendir á að vaxtatekjur lífeyrissjóða verði undanþegnar skattinum og það kveður upp úr um að hér sé alls ekki um að ræða samræmda skattlagningu fjármagnstekna. Þar segir jafnframt: „Núverandi ríkisstjórn hefur heildarendurskoðun lífeyrismála á verkefnaskrá sinni og hefur viðskiptaráðherra lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að sett verði lög um stöðu og hlutverk þeirra og séreignasjóða lífeyrisréttinda og að launafólki verði heimilað að greiða hluta lífeyrisgjalds í slíka sjóði að eigin vali. Spyrja má hvort undanþága frá fjármagnstekjuskatti fyrir lífeyrissjóðina sé ekki til þess fallin að viðhalda núverandi lífeyrissparnaðarkerfi og tefja þær nauðsynlegu breytingar sem um hefur verið rætt.“ Ekki er hlustað á athugasemdir Sambands lánastofnana um að lífeyriskerfið skuli skoðað í heild, þar með talin skattlagning vaxtatekna þeirra.
    BSRB leggst gegn því að fjármagnstekjur séu undanskildar tekjuskattsgrunni. Það vill að fjármagnstekjur séu skattlagaðar á sama hátt og aðrar tekjur. Einnig leggst bandalagið gegn því að auka skattlagningu ýmissa félagasamtaka, líknarstofnana og sjálfseignarstofnana og styrktarsjóða, eins og gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpinu. Benda má á að BSRB fékk ekki að eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem samdi frumvarpið.
    Afstaða BSRB til breytingartillagna meiri hlutans er sú að það telur að hér sé aðeins um lagatæknileg atriði að ræða. Það breyti ekki því að til standi að koma á tvískiptu tekjuskattskerfi. Eitt kerfi með háu tekjuskattshlutfalli sé sett fyrir launafólk og lífeyrisþega en annað fyrir þá sem hafa tekjur af eignum og greiða munu lága eða enga tekjuskatta. Bandalagið telur að með samþykkt frumvarpsins verði horfið frá þeirri grundvallarreglu í skattlagningu að þegnarnir séu skattlagðir eftir greiðslugetu.
    Segja má að verði stjórnarfrumvarpið að lögum sé þessu snúið við því að tekjuhæstu einstaklingarnir koma til með að greiða minnst til samfélagsins. BSRB telur einnig að með þessum tillögum séu opnaðar nýjar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti. Með því að létta skatti af arðgreiðslum og söluhagnaði er ójafnræði og óréttlæti aukið í stað þess að draga úr því.
    Blindravinafélagið leggst gegn þessari skattlagningu sem beinist að því eins og öðrum líknarfélögum. Samkvæmt upplýsingum félagsins tíðkast slíkir skattar á samtök af þessu tagi hvergi í nágrannalöndunum. Félagið segir það slysalegt ef Alþingi uppgötvar áður óþekktan skatt, líknarfélagaskattinn. Með þessu hafa frjáls félagasamtök á sviði líknarmála fundið nýja nafngift á þetta stjórnarfrumvarp, „líknarfélagaskattinn“, og er það ósvinna að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ábendinga þeirra.
    Í stjórnarfrumvarpinu eru fjármagnstekjur lífeyrissjóða undanþegnar skattinum. Í umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka segir eftirfarandi um þennan þátt:
    „Fyrir þessari tillögu eru færð fern rök í skýrslu nefndarinnar sem fyllsta ástæða hefði verið til að útlista nánar því að rökin eru umdeilanleg. Þetta er þeim mun mikilvægara þar sem meginmarkmiðið með frumvörpunum er að samræma skattlagningu fjármagnstekna. Undanþága lífeyrissjóðanna þýðir hins vegar að skattstofninn rýrnar um 17,5 milljarða kr. og verður aðeins 13 milljarða kr. Að frátöldum vaxtatekjum ríkis og sveitarfélaga lækkar skattstofninn í 11 milljarða. kr. Hér er því augljóslega ekki um samræmda skattlagningu fjármagnstekna að ræða.
    Að mati Sambands íslenskra viðskiptabanka hefði verið ástæða til að kanna mun betur hvort ekki væri rétt að skattleggja fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna í stað þess að undanþiggja þær. Með því að fella niður almenna tekjuskattsskyldu af þeim hluta lífeyrisgreiðslna sem samsvara uppsöfnuðum fjármagnstekjum má koma í veg fyrir tvísköttun. Undanþága af þessu tagi gefur til kynna að sparnaður í lífeyrissjóðakerfinu standi öðrum sparnaði framar. Enn fremur er hún til þess fallin að ýta enn frekar undir þá vafasömu skoðun að lífeyrissjóðakerfið sé svo sérstakt að um það geti ekki gilt almennar reglur. Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að enn hafa ekki verið sett almenn lög um starfsemi lífeyrissjóða og er það í hrópandi andstöðu við það sem gildir um aðra aðila á fjármagnsmarkaði.“
    Hér er um mjög mikilvæga athugasemd að ræða, þ.e. hið sérstaka skattfrelsi lífeyrissjóðanna, en af ýmsum umsagnaraðilum er þetta talið skekkja mjög samkeppnisstöðu á fjármagnsmarkaði. Með því að undanskilja langstærsta aðilann sem hefði greitt fjármagnstekjuskatt, jafnvel þó að hluti af honum væri undanþeginn til að koma í veg fyrir tvísköttun, þá er stigið skref til mismununar á íslenskum fjármagnsmarkaði í stað þess að endurskoða lífeyrissjóðakerfið í heild.
    Samtök íslenskra verðbréfafyrirtækja benda á að þessi útfærsla í stjórnarfrumvarpinu gagnvart hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða geri samkeppnisstöðuna mun lakari, m.a. vegna þess að lífeyrissjóðir eru undanþegnir skattinum. Hér er enn og aftur bent á að þessi mikilvæga undanþága getur raskað samkeppnisstöðu á fjármagnsmarkaði.
    Neytendasamtökin telja eðlilegt að allar tekjur séu skattlagðar með sama hætti og það eigi við fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur. Þau óttast að fjármagnseigendum verði hlíft við skattlagningu fjármagnstekna sinna. Benda má á að formannafrumvarpið gerir einmitt ráð fyrir því að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og aðrar tekjur.
    Rauði kross Íslands, eins og Blindravinafélagið, beinir þeirri ósk til Alþingis að hann verði undanþeginn þessum fjármagnstekjuskatti, en ekki er farið að þeim tilmælum og koma hér enn og aftur fram áhrif líknarfélagaskattsins.
    Að beiðni minni hlutans svöruðu ýmsar stofnanir tilteknum spurningum í tengslum við frumvörpin.
    Skattrannsóknarstjóri telur að frumvörpin feli ekki í sér möguleika til skila- eða skattsvika umfram þá sem kunnir eru úr innheimtu opinberra gjalda. Hann bendir hins vegar á að í stjórnarfrumvörpunum séu fyrir „alls kyns möguleikar á skattundandrætti, skilasvikum og skattasniðgöngu“.
    Í umsögn skattrannsóknarstjóra segir jafnframt: „Í því sambandi er rétt að hafa í huga að fjármagnstekjur eru mjög ólíkar tekjur í eðli sínu. Þar má nefna að söluhagnaður og arður lýtur allt öðrum lögmálum en vextir, gengishagnaður eða afföll. Mjög oft fer saman arðsmóttaka og launagreiðslur frá sama aðila. Sömuleiðis er það oft á tíðum arðsmóttakandi sem ákveður arðsgreiðsluna. Með fjölgun hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem einstaklingsrekstur er færður yfir í félagaform mun fara saman í æ auknum mæli greiðsla á arði og greiðsla launa. Augljós er þá sú hætta að óeðlilega stór hluti greiðslna verði færður sem arður sem ella væri meðhöndlaður sem laun. Verður að telja öruggt að einhver hópur sjálfstætt starfandi einstaklinga muni breyta formi rekstrar síns í því skyni að lækka skattgreiðslur sínar með því að taka fé út úr félögunum í formi arðs að svo miklu leyti sem eigið fé félags leyfir slíkt.”
    Enn fremur segir í umsögn skattrannsóknarstjóra:
    „Verulegir hagsmunir munu verða af því að stofna einkahlutafélög og fá greiðslur frá þeim í formi arðs. Þá er frádráttarmöguleiki félagsins á arðgreiðslunni umtalsverður hvati til formbreytingar á atvinnurekstri.”
    Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að samkvæmt formannafrumvarpinu mun skatturinn skila sér fyrr og eftirliti verður betur við komið en ef einungis er um að ræða einn gjalddaga og eina skilagrein á liðnu tekjuári. Hafa ber í huga að ríkisskattstjóri telur að engin tæknileg vandamál séu fólgin í því að skattleggja fjármagnstekjur með þeim hætti sem bæði formannafrumvarpið og stjórnarfrumvarpið gera ráð fyrir. Í umsögn ríkisskattstjóra segir: „Hins vegar er ljóst að ef allar fjármagnstekjur verða skattlagðar með mun lægri skattprósentu en launatekjur mun það örugglega hafa þau áhrif að þeir sem eiga þess kost munu taka út laun í formi vaxta, arðs eða leigu.“
    Þessar athugasemdir skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra eru alvarlegar og þær fela í sér áfellisdóm yfir stjórnarfrumvarpinu. Jafnframt bendir ríkisskattstjóri á að það geti verið ýmsum erfiðleikum bundið að halda utan um það kerfi sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpinu og þetta muni skapa ýmsa erfiðleika í skattframkvæmdinni.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að hin fyrirhugaða skattlagning, bæði í formannafrumvarpinu og stjórnarfrumvarpinu, er talin hófleg miðað við það sem gerist í mörgum nágrannalandanna og það sé ekki hægt að sjá að hún muni stuðla að umtalsverðum fjárflótta.
    Þjóðhagsstofnun telur að þjóðhagsleg áhrif beggja frumvarpanna, þ.e. stjórnarfrumvarpsins og formannafrumvarpsins, séu tiltölulega lítil og að álagning 10% skatts á fjármagnstekjur geti ekki talist mikil skattlagning. Hins vegar bendir Þjóðhagsstofnun á að útfærsla stjórnarfrumvarpsins þýði hættu á tilfærslu milli launatekna og arðgreiðslu eftir því sem við verður komið. Hún telur einnig afar erfitt að greina þar á milli og er þetta sambærilegt við athugasemdir skattyfirvalda við stjórnarfrumvarpinu.
    Í umsögn Þjóðhagsstofnunar kemur fram að hún telur að formannafrumvarpið feli í sér meiri tekjujöfnun og jafnari eignaskiptingu í framtíðinni en stjórnarfrumvarpið. Hins vegar er bent á að heildaáhrif á tekju- og eignaskiptingu séu ekki mjög mikil, en þó er sagt að þessi áhrif séu þeim eigna- og tekjumeiri í hag samkvæmt stjórnarfrumvarpinu miðað við formannafrumvarpið. Þannig er ljóst af umsögn Þjóðhagsstofnunar að hún gerir sér fullkomlega ljóst hverjir munu hagnast meira á þessari útfærslu ríkisstjórnarinnar í stjórnarfrumvarpinu. Það eru hinir eigna- og tekjumeiri sem hafa hagnað af því.
    Samband íslenskra sveitarfélaga leggst gegn stjórnarfrumvarpinu um fjármagnstekjuskatt. Það telur að árlegt tekjutap sveitarfélaganna muni nema 155 millj. kr. Auk þess munu greiðslur til ríkissjóðs aukast um 84 millj. kr. Þannig þýðir samþykkt frumvarpsins 239 millj. kr. fjárhagstjón fyrir sveitarfélögin í landinu. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að með þessu sé stefnt í hættu samningum um flutning grunnskólaverkefna frá ríki til sveitarfélaga. Sambandið bendir á að til að framfylgja grunnskólalögunum var samið um að ríkið greiddi sveitarfélögunum 265 millj. kr. á næstu fjórum árum, en með álagningu fjármagnstekjuskattsins í því formi sem ríkisstjórnin leggur til er sú umsamda fjárhæð næstum öll tekin til baka. Það telur að traust sveitarstjórnarmanna á samningagerð við ríki munu bresta og enginn friður verði um önnur fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
    Taka ber þessar athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga mjög alvarlega. Það bendir á að á fundi með fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra hafi verið gefnar yfirlýsingar sem það túlkaði sem svo að sveitarfélögin mundu verða jafnsett fyrir og eftir samþykkt þessa frumvarps. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að við endanlega gerð frumvarpsins hafi ekki verið komið til móts við þá samþykkt og bendir á að það hefði verði hægt að hækka hlutdeild sveitarfélaganna í staðgreiðslu um tæpt 0,1 prósentustig.
    Það segir einnig í áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga:
    „Útilokað er að fallast á annað en að samtímis því að lög um fjármagnstekjuskatt öðlist gildi verði sveitafélögunum bætt fjárhagsleg áhrif þeirrar lagasetningar. Ef það verður ekki tryggt er eindregið lagt til að afgreiðslu stjórnarfrumvarps um fjármagnstekjuskatt verði frestað á yfirstandandandi þingi.“

Tillögur minni hlutans.
    Meginniðurstaða minni hlutans er að stjórnarfrumvarpið um fjármagnstekjuskatt, þ.e. mál 421, sé verulega gallað og breytingartillögur meiri hlutans bæti þar lítið úr.
    Minni hlutinn bendir á að hin einfalda útfærsla í formannafrumvarpinu hefði verið mun heppilegra skref til að koma á vaxtaskatti hér á landi en það sem stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir. Leggja ber áherslu á að stjórnarfrumvarpið hefur fyrst og fremst þau áhrif að léttar eru skattbyrðir hjá hlutafjáreigendum, einkum hinum stærri, og lækkaðar skattgreiðslur hjá fyrirtækjum.
    Á sama tíma er skattbyrðin þyngd hjá almennum launamanni og almennum sparifjáreiganda. Þetta er röng efnahagsstefna og dýru verði keypt að taka upp svokallaðan fjármagnstekjuskatt, enda hefur útfærsla ríkisstjórnarinnar lítið með það hugtak að gera.
    Minni hlutinn telur að þetta mál verði að vinna betur, m.a. verði að gæta að samræmingu gagnvart lífeyrisþegnum eins og áður var heitið. Einnig eru sveitarfélögin mjög ósátt við stjórnarfrumvarpið og telja rétt að fresta málinu frekar en að hlutur þeirra sé fyrir borð borinn.
    Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það verði lagt fram í endurskoðuðu formi í upphafi næsta þings í haust. Slík vinnubrögð eru eðlileg miðað við að hér er um gallað frumvarp að ræða sem mun hafa alvarlegar afleiðingar og nær ógjörningur verður að vinna eftir því eins og það er nú útfært.
    Verði þessi tillaga minni hlutans ekki samþykkt leggur hann fram breytingartillögu um að setja hámark á þær tekjur sem eru skattlagðar sem fjármagnstekjur, þ.e. arðs-, vaxta- og leigutekjur, með 10% skattinum.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemd við staðgreiðslufrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er eðlilegt fylgifrumvarp með þeirri útfærslu sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpinu. Breytingartillögur, sem lagðar eru til af hálfu meiri hlutans við staðgreiðslufrumvarpið, eru til bóta, en þær fela m.a. í sér að sett eru mun fyllri ákvæði um staðgreiðslu af vaxtaskattinum.
    Samþykkt stjórnarfrumvarpanna mun leiða til verulegrar tilfærslu á fjármunum til þeirra betur stöddu í þjóðfélaginu. Þess vegna hefði verið rétt að stíga skrefin hægar en gert er og fara þá leið sem formennirnir leggja til í sínu frumvarpi. Í nefndinni náðist ekki samstaða um þá útfærslu og heldur ekki um að taka út úr stjórnarfrumvarpinu hin sérstöku ívilnandi ákvæði gagnvart stærri hluthöfum. Auðséð er að ríkisstjórnin ætlar sér með þessu frumvarpi enn og aftur að hygla þeim sem betur mega sín.

Alþingi, 29. maí 1996.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Sighvatur Björgvinsson.


frsm.