Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 437 . mál.


1128. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarp það sem hér um ræðir er að stofni til samkomulag sem sjávarútvegsráðherra gerði á útmánuðum við Landssamband smábátaeigenda. Það samkomulag var afrakstur viðræðna Landssambandsins og sjávarútvegsráðherra sem hófust í kjölfar aðalfundar Landssambands smábátaeigenda á sl. hausti.
    Um þetta samkomulag og aðdraganda þess mætti ýmislegt segja en ljóst er að á lokasprettinum var samkomulagið unnið til enda án samráðs við aðra aðila hvort heldur önnur hagsmunasamtök eða Alþingi og sjávarútvegsnefnd Alþingis. Sjávarútvegsráðherra ber því einn pólitíska ábyrgð á þessu samkomulagi og sama má segja um frumvarpið. Málið er mjög umdeilt eins og fjöldi umsagna og mótmælasamþykkta, sem ringdi yfir sjávarútvegsnefnd, ber með sér.
    Ekki er deilt um að þörf var á að lagfæra þau ákvæði sem giltu um veiðar smábáta eða krókabáta. Var reyndar þegar bent á það þegar lögum var breytt á Alþingi sl. vor að sú niðurstaða gengi engan veginn upp og kallaði á að málið yrði tekið fyrir að nýju þegar á þessum vetri eins og raun varð á. 2. minni hluti sjávarútvegsnefndar lagði þá til allt aðra skipan mála varðandi sókn smábáta, sbr. breytingartillögur á þskj. 61 á 119. löggjafarþingi. Hefði þeirri skipað verið komið á væri ekki þörf þeirra breytinga sem nú er verið að gera.
    Ljóst er að með samkomulaginu hefur hagur þess hluta smábátaflotans sem stundar veiðar með krókum vænkast mjög, einkum þó þeim sem hafa allmikla aflareynslu í þorski og hafa því möguleika á að velja svonefnt aflahámark. Ágallarnir eru hins vegar þeir að áfram mun hluti krókaveiðiflotans búa við verulegt óöryggi strax að afloknu næsta fiskveiðiári, þ.e. fiskveiðiárinu 1996–1997, og bendir flest til verulegs niðurskurðar á róðrardögum þegar þar að kemur. Enn verri er þó útkoma þess hluta smábátaflotans sem valdi aflamark á sínum tíma. Í reynd er þar á ferðinni gleymdur floti sem tekið hefur á sig að fullu niðurskurð veiðiheimilda í þorski undanfarin ár á sama tíma og aðrir bátar hafa haft mun meiri möguleika til að bæta stöðu sína í gegnum krókaveiðikerfið.
    Það er niðurstaða 2. minni hluta nefndarinnar að samkomulag þetta, þótt í því felist verulega bætt staða fyrir hluta smábátaflotans, taki alls ekki á málum á þann heildstæða hátt sem þörf er á. Í reynd má segja að komið sé verulega til móts við óskir tiltekins hluta smábáta- og bátaútgerðarinnar í landinu en aðrir liggi áfram óbættir hjá garði. Niðurstaðan felur því í sér áframhaldandi mismunun auk þess sem stjórnkerfið verður, ef eitthvað er, enn flóknara en verið hefur. Í reynd má segja að komið verði á ferns konar stjórnkerfi fiskveiða gagnvart þessum minnsta hluta flotans. Veruleg hætta er á að strax á næsta vetri komi málið enn á ný til kasta Alþingis þegar ljóst verður í hvað stefnir með afla þess hluta krókaveiðiflotans sem áfram sækir á grundvelli róðrardaga án aflahámarks og við blasir að líkindum veruleg fækkun róðrardaga á fiskveiðiárinu 1997–1998. Hér er því ekki verið að ganga frá málum til frambúðar þannig að trúverðugt sé.
    Annar minni hluti gagnrýnir harðlega að ekki skuli reynt að taka á málum fyrir smábáta- og bátaútgerðina í heild sinni en einungis hluta bátaútgerðarinnar veitt úrlausn. Eðlilegast hefði verið að skoða samhliða samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda um meðferð krókabátanna, jöfnunaraðgerðir gagnvart aflamarksbátum og skipum. Í gangi eru þrenns konar jöfnunarpottar, eða aðgerðir innan fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í fyrsta lagi eru ákvæðin um 12.000 þorskígildi til jöfnunar skv. 9. gr. laganna, í öðru lagi 5.000 þorskígildi til jöfnunar samkvæmt sérstökum reglum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða sem gildir út fiskveiðiárið 1998–1999 og í þriðja lagi 500 þorskígildi af óslægðum fiski til sérstakrar jöfnunar til staða sem eru háðir smábátaútgerð og Byggðastofnun úthlutar.
    Annar minni hluti telur að alla þessa jöfnunarpotta hefði átt að færa saman og útfæra samræmt jöfnunarkerfi þar sem tekið hefði verið mið af breyttum aðstæðum í ljósi samkomulagsins um krókabátana. Einnig breyttum aðstæðum almennt, með það að markmiði að tryggja jafnari útkomu einstakra hluta útgerðarinnar, aflamarkssmábáta, bátaútgerðar, vertíðarbáta og ísfiskskipa með mikla aflareynslu í þorski. Slíkan jöfnunarpott hefði mátt tengja úthlutuðum aflaheimildum þannig að hann færi minnkandi og tæmdist loks með vaxandi veiðiheimildum.
    Í breytingartillögum meiri hlutans á þskj. 1093 er ákvæði um afnám svonefndrar línutvöföldunar. Sjávarútvegsráðherra sendi sjávarútvegsnefnd erindi þar að lútandi að kannað yrði hvort nefndin vildi standa að breytingum í þá veru. Niðurstaðan er sú að meiri hlutinn leggur til að línutvöföldun verði afnumin með tilteknum hætti, sbr. 5. tölul. breytingartillagnanna. 2. minni hluti telur aðferðina, sem þar er lögð til, mjög umdeilanlega og reyndar málið í heild. Ljóst er að enn eru í fullu gildi mörg upprunaleg rök sem lágu til grundvallar því á sínum tíma að hvetja sérstaklega til línuútgerðar yfir vetrartímann. Var þá einkum haft í huga atvinnusjónarmið, að beitning í landi og línuútgerð skapaði mikla atvinnu og er svo enn þar sem um hefðbundna landróðra, línuútgerð, er að ræða. Í öðru lagi gæfu línuveiðarnar gott hráefni. Í þriðja lagi væri ástæða til að hvetja til sóknar á þennan hátt á þessum árstíma til að auka framboð á fersku hráefni til vinnslu eða útflutnings með flugi þegar hráefnisframboð væri takmarkað og fleira mætti nefna.
    Meiri hlutinn leggur til að notuð verði sú aðferð að skipin taki með sér sextíu hundruðustu af aflareynslu sinni í línutvöföldun og séu tekin til viðmiðunar tvö bestu árin af þremur síðustu. Ljóst er að sú aðferð er afar hagstæð þeim skipum sem komið hafa til sögunnar í línuútgerð á síðustu árum eða hafa aukið hlutdeild sína á því tímabili í þessum veiðum en að sama skapi óhagstæð hefðbundinni línuútgerð sem var við lýði þegar línutvöföldunarreglurnar voru upp teknar og hefur að einhverju leyti verið víkjandi síðan.
    Ljóst er að með þessu er mikil aflareynsla færð yfir á svonefnd verksmiðjuskip, eða útileguskip sem stunda línuveiðar með beitningarvélar um borð, frá hefðbundinni landróðraútgerð en röksemdir fyrir línutvöföldun voru á sínum tíma einmitt að styðja við bakið á slíkri útgerð sem þá var á undanhaldi og menn vildu styrkja til þess að hún legðist ekki af. Aðferðin nú er í raun í mikilli mótsögn við upphaflegan tilgang línutvöföldunarinnar og hefði þarna þurft að leita annarra aðferða.
    Það er einnig ljóst að með því að taka aflareynslu skipanna undanfarin ár og breyta henni í hlutdeild nú þegar þorskveiðiheimildir eru einungis um 150 þús. tonn er valinn afar hagstæður viðmiðunarpunktur fyrir skipin. Þannig verður sú ákvörðun strax á næsta ári til þess að færa skipunum auknar veiðiheimildir ef veiðiheimildir verða auknar eins og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar bendir til.
    Annar minni hluti er þeirrar skoðunar að skoða hefði átt aðra möguleika, t.d. þann að afmarka hópinn, sem sótt gæti í framtíðinni á grundvelli línutvöföldunar, við þau skip sem þegar væru komin með reynslu af slíkum veiðum undanfarin ár. Í öðru lagi hefði mátt hugsa sér að útilegulínuskip með beitningarvél um borð hefðu mátt hverfa út úr pottinum með t.d. 50% af reynslu sinni frá undanförnum árum, en hefðbundin landróðraútgerð línuskipa hefði átt þess kost að halda áfram að sækja á grundvelli tvöföldunarákvæðanna. Þriðji kosturinn hefði verið sá að leyfa mönnum að velja hvort þeir kysu að halda áfram þessari útgerð á grundvelli tvöföldunarreglnanna eða fara út úr pottinum með sína hlutdeild. Í fjórða lagi væri að sjálfsögðu hægt að ákveða að láta einfaldlega óbreyttar reglur gilda áfram. Væri því lýst yfir um leið að sú ákvörðun væri til frambúðar mundi kapphlaupi um að mynda aflareynslu í von um væntanlegan kvóta, sem staðið hefur að undanförnu, ljúka.
    Annar minni hluti treystir sér alls ekki til að mæla með þeirri aðferð við afnám línutvöföldunar sem hér er lögð til og mun greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.
    Í breytingartillögum meiri hlutans á þskj. 1093 er að finna ákvæði sem taka mið af frumvarpi sem er til meðferðar í sjávarútvegsnefnd, flutt af Steingrími J. Sigfússyni og Kristni H. Gunnarssyni, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Er þar einkum átt við 1. tölul. breytingartillagnanna um að sú dagsetning sem bundið hefur vald sjávarútvegsráðherra til að breyta leyfðum heildarafla þorsks við 15. apríl ár hvert falli niður. 2. minni hluti fagnar því að með breytingartillögunni er komið til móts við þau sjónarmið sem lágu til grundvallar flutningi áðurnefnds frumvarps og mun að sjálfsögðu styðja þennan lið breytingartillagnanna. Sama má segja um c-lið 2. tölul. Þar er á ferðinni ákvæði sem lýtur að því að skip, sem er frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana, skuli gagnvart því ári undanþegið þeirri reglu að nýta að lágmarki 50% veiðiheimilda sinna annað hvert ár. Þessi ákvæði og reyndar fleiri í breytingartillögunum og frumvarpinu, sem eru til bóta að mati 2. minni hluta mun hann styðja. Að öðru leyti mun afstaða 2. minni hluta til breytingartillagna meiri hlutans og einstakra efnisatriða frumvarpsins koma fram við atkvæðagreiðslur í samræmi við þau viðhorf sem hér að framan hefur verið lýst.

Alþingi, 30. maí 1996.



Steingrímur J. Sigfússon.