Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 224 . mál.


1199. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um laun forseta Íslands, nr. 10/1990.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Frumvarpið er flutt af sex þingmönnum, Ólafi Hannibalssyni, Svanfríði Jónasdóttur, Kristni H. Gunnarssyni, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Ólafi Erni Haraldssyni og Pétri H. Blöndal. Fulltrúar minni hluta nefndarinnar hafa ítrekað beðið um að frumvarpið verði tekið til efnislegrar umræðu, en því miður var ekki orðið við því fyrr en í lokaviku þingsins. Þá kom endanlega í ljós að ekki er vilji fyrir því hjá meiri hlutanum að mæla með afgreiðslu frumvarpsins eða að nefndin flytji annað frumvarp um tengt efni sem einnig kom til umræðu.
    Efnislega fjallar fyrri grein frumvarpsins um að orðin „og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum“ í 2. gr. laga um laun forseta Íslands, nr. 10/1990, falli brott. Síðari greinin afnemur einnig skattfrelsi maka forsetans, en samkvæmt henni fellur úr gildi 1. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981. Samkvæmt sömu grein er kveðið á um að gildistakan verði 1. ágúst 1996 eða við upphaf kjörtímabils næsta forseta lýðveldisins.
    Ljóst er að breytingar af því tagi sem frumvarpið mælir með verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir: „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“ Því er rétti tíminn nú, þegar forsetakosningar fara í hönd, að taka afstöðu til skattfríðinda forseta Íslands og maka hans.
    Minni hlutinn átelur að frumvarpið fékk ekki viðhlítandi umfjöllun í nefndinni. Minni hlutinn telur að þau sjónarmið, sem fram koma í greinargerð frumvarpsins, séu gild: Óeðlilegt sé að launakjör forsetans felist að verulegu leyti í skattfríðindum. Launakerfi ríkisins eigi að vera gagnsætt og eigi það að gilda um æðsta embættismann þjóðarinnar sem aðra.
    Minni hlutinn vill sérstaklega vekja athygli á breyttri stöðu maka forsetans, m.a. með tilliti til atvinnuþátttöku og jafnréttis kynjanna. Rökstutt er í greinargerðinni að hvorki forsetinn né maki hans geta afsalað sér skattfrelsi sínu almennt og bent á að skattyfirvöldum væri óheimilt að ákvarða forseta og maka hans skattgreiðslur þótt beiðni bærist frá þeim þess efnis. Þetta er að mati minni hlutans alls ekki í anda hinnar nýju jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
    Handhafar forsetavalds njóta samanlagt jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir fara með forsetavald um stundarsakir skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar. Handhafar forsetavalds eru þó hvergi í lögum beinlínis undanþegnir skattskyldu. Samt sem áður eru laun þeirra fyrir forsetastarfann skattfrjáls með sama hætti og laun forseta. Þetta er fráleitt og knýr enn frekar á endurskoðun þessara mála.
    Minni hlutinn harmar að nefndin tók þetta grundvallarmál ekki til umfjöllunar fyrr en undir lok þingsins, og þá mjög stuttlega, ekki síst þar sem forsetakosningar eru fram undan og þáttaskil af þeim sökum. Það er afstaða minni hlutans að æskilegast hefði verið að nefndin hefði sjálf flutt málið á þann hátt sem pólitísk samstaða næðist um. Að minnsta kosti hefði átt að taka á skattfrelsi maka forsetans. Því miður komst umræðan aldrei í þann farveg innan nefndarinnar. Tillaga meiri hlutans um að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í þinglok, er sýndarmennska þar sem ljóst er að ekkert getur gerst í málinu fyrr en undir lok kjörtímabils næstkjörins forseta. Með stuðningi við þetta frumvarp er ekki tekin afstaða til launa forsetans heldur til þess eins að forsetinn, maki hans og handhafar forsetavalds greiði skatta eins og aðrir þegnar.
    Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 4. júní 1996.



Guðný Guðbjörnsdóttir,

Ögmundur Jónasson.

Lúðvík Bergvinsson.


frsm.