Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 224 . mál.


1200. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um laun forseta Íslands, nr. 10/1990.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason, deildarstjóra í forsætisráðuneyti. Þá fékk nefndin senda umsögn um málið frá ríkisskattstjóra.
    Í frumvarpinu er lagt til að skattfrelsi forseta Íslands og maka hans verði afnumið. Á fundum nefndarinnar kom fram að margar hliðar eru á þessu máli sem ekki er vikið að í frumvarpinu, t.d. varðandi skatt af ýmsum hlunnindum sem forseti nýtur, svo sem af embættisbústað og bílaafnotum. Gera má ráð fyrir að bein laun forsetans yrðu hækkuð ef slík breyting næði fram að ganga. Kjaradómur ákveður laun forseta Íslands og margra æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Hefur dómurinn jafnan reynt að gæta samræmis í ákvörðunum sínum og er því ekki útilokað að hækkun launa forsetans leiddi jafnframt til hækkunar launa annarra embættismanna. Ef svo færi gæti slík breyting ein og sér sett af stað ákveðna keðjuverkun í kjaramálum opinberra starfsmanna. Meiri hluti nefndarinnar telur, í ljósi þessara atriða, að málið þurfi nánari skoðunar við og felur ríkisstjórninni að kanna áhrif slíkrar lagabreytingar og undirbúa frumvarp um málið ef raunhæft þykir.
    Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 4. júní 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Kristjánsson.

Hjálmar Jónsson.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Kristján Pálsson.