Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:12:44 (2772)

1997-01-28 14:12:44# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem ég ætlaði að ræða er ákvæði 15. gr. sem hv. síðasti ræðumaður kom reyndar lítillega inn á. Fyrir þinginu liggur frv. um efnislega sams konar breytingar á gildandi lögum, um að það fáránlega misræmi verði leiðrétt að heimilt sé að fella niður aðflutningsgjöld og gjöld af innfluttum búnaði til snjóflóðavarna en ekki heimilt að endurgreiða hann á sama hátt ef um innlenda framleiðslu er að ræða að þetta. Ég held að það sé miklu nær að tala hér um leiðréttingu á augljósum ágalla í lögum sem enginn maður getur mælt bót. Nú vill svo til að á þetta ákvæði hefur reynt. Framleiðandi að íslenskum búnaði hefur verið með sölusamninga um sinn búnað en það hefur staðið í vegi fyrir kaupunum að innflutningur er sem þessu nemur ódýrari. Og það nær auðvitað engri átt, herra forseti, að við mismunum beinlínis í lögum innlendri framleiðslu í óhag eins og hér er gert.

Vegna þess að nú kann svo að fara að hv. þingnefnd telji sig þurfa nokkurn tíma til að vinna að þessu máli og jafnvel fram undir vorið, vil ég beina því til hæstv. forsrh. og jafnframt til hv. umhvn. hvort ekki megi athuga að taka þetta einstaka efnisatriði út úr og lögfesta þessa breytingu strax. Ég hef enga trú á öðru en að um það sé algjör pólitísk samstaða hér á þingi og ég bendi á að flutningsmenn að frv. sem liggur fyrir í hv. umhvn. eru þingmenn úr öllum flokkum og þingmenn úr jafnmörgum kjördæmum og flokkarnir eru sem allir þekkja vel til mikilvægis þessara mála. Herra forseti. Reyndar var komið á dagsskrá að reyna að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi en það tókst ekki í önnunum þá þannig að ég kem þessari góðlátlegu ósk hér á framfæri.