Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:15:30 (2774)

1997-01-28 14:15:30# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:15]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum láta í ljós ánægju mína yfir því að þetta frv. er fram komið og ég tel að í öllum meginatriðum sé hér um að ræða mjög skynsamlega stefnumótun sem menn hafa komist að samkomulagi um eftir nokkuð ítarlega yfirferð og í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið af framkvæmd laganna sem í gildi hafa verið. Eins og mönnum er ljóst hefur löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tekið allmiklum breytingum á síðustu árum í ljósi mjög sárrar reynslu sem við öll þekkjum og engin ástæða er til að orðlengja um. Fram að því höfðu gilt reglur sem gerðu ráð fyrir því að sveitarfélög greiddu 20% af kostnaði við ofanflóðavarnir. Við sáum að sveitarfélögunum var þetta mjög víða ofviða og þegar menn fóru að skoða ofanflóðavarnirnar kom það í ljós að víða höfðu þær verið látnar drabbast niður einfaldlega vegna þess að kostnaðurinn við að viðhalda þessu var sveitarfélögunum mörgum um megn. Þar sem þörf er á ofanflóðavörnum háttar yfirleitt þannig til að um er að ræða frekar lítil sveitarfélög og oft vanmáttug til þess að takast á hendur þessi miklu og dýru verkefni. Þess vegna held ég að það hafi verið mjög skynsamlegt þegar Alþingi breytti kostnaðarskiptingunni í þá veru sem núna er í gildandi lögum.

Það hefur auðvitað komið á daginn að sveitarfélög eru eftir sem áður misjafnlega sett þrátt fyrir að hlutur þeirra hefur verið minnkaður úr 20% í 10%. Það blasir við að í tilvikum eins og í Súðavík þar sem við erum ekki að rýma eina götu eða hverfi heldur einfaldlega að færa heila byggð, heilt sveitarfélag nánast til, er augljóst mál að sveitarfélaginu er ofviða að standa straum af því, að svo miklu leyti sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Þess vegna vil ég láta í ljós mikla ánægju yfir því og lýsa alveg sérstökum stuðningi við það jöfnunarákvæði sem gert er ráð fyrir að sett verði í lögin, hér í 13. gr. frv. og hæstv. forsrh. hefur þegar gert ágætlega grein fyrir.

Ég vil svo enn fremur vekja athygli á því að almenna reglan í þessari lagasetningu er sú að það beri að verja byggðina og það er í raun og veru gengið út frá því í riti Veðurstofu Íslands um þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi sem kynnt var á liðnu hausti. Almenna reglan er að verja byggðina. Í þeim tilvikum sem það er ekki skynsamlegt eða fjárhagslega hagkvæmt er heimilt að kaupa upp húseignir eins og hefur verið gert til að mynda í Hnífsdal þar sem mun skynsamlegra var að fara þá leiðina heldur en að verja mannvirki.

Loks vil ég aðeins víkja að 7. gr. frv. sem ég tel að komi mjög til móts við sjónarmið heimamanna sem höfðu gagnrýnt þau ákvæði í núgildandi lögum að hlutur heimamanna væri mjög fyrir borð borinn. Þau mál voru sérstaklega rædd við lagasetninguna síðast. Niðurstaðan var þá að almenna reglan væri sú að Veðurstofan sæi um rýminguna en heimamenn væru ráðgefandi. Hérna er hins vegar opnað á það að lögreglustjóri í heimabyggðinni geti í samráði við almannavarnanefnd ákveðið að rýma húsnæði vegna hættu ofanflóðum. Ég held að þetta sé mjög skynsamlegt og mjög í anda þess sem rætt var og muni mæta þeirri gagnrýni sem verið hefur á núgildandi ákvæði í lögum.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að orðlengja þetta mál. Ég vil ítreka stuðning minn við frv. og tel að hér hafi verið komist að farsælli og góðri niðurstöðu og veit að það mun fá vandaða málsmeðferð í þinginu.