Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:59:42 (2781)

1997-01-28 14:59:42# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir að hafa vakið máls á þessu þarfa efni. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að einmitt á þessum tímamótum reynum við að fara yfir þá stóriðjustefnu sem við höfum á síðustu árum fylgt og hefur verið tiltölulega breið samstaða um, að mér hefur fundist, á meðal Íslendinga.

Í þessum efnum er vandratað meðalhófið og við eigum, eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði áðan, auðvitað að treysta á sérfræðinga en við verðum samt líka að hlusta á fólkið eins og hægt er. Það hefur ekki alltaf verið farsælt að treysta einvörðungu á sérfræðinga. Við höfum séð að það hafa orðið slys þegar við höfum bara hlustað á þá. Ég þarf ekki að minna á það. Ég nefni bara fyrirbæri eins og Sogsvirkjanir. A.m.k. eina virkjun þar hef ég kallað mesta umhverfisslys sem orðið hefur í sögu lýðveldisins. Það er líka hægt að benda á það hvernig atbeini fólksins og andstaða almennings hefur leitt til þess að fyrirhuguðum áætlunum um virkjanir hefur verið breytt. Þetta er nauðsynlegt að komi fram, herra forseti.

Hins vegar höfum við Íslendingar, eins og ég sagði, fylgt ákveðinni stóriðjustefnu sem hefur verið nokkuð víð samstaða um innan margra stjórnmálaflokka og minn stjórnmálaflokkur hefur fylgt mjög dyggilega á síðustu árum. Það verður að segjast að veður skipast skjótt í lofti. Fyrir aðeins örfáum missirum hygg ég að sá iðnrh. sem hefði komið með þann samning sem núna liggur á borðinu varðandi Hvalfjörð hefði verið klappaður upp. En staðan er þannig að hæstv. ríkisstjórn er lent í kröppum dansi fyrir að standa í samningum um byggingu álvers á stað þar sem er stóriðja fyrir og þar sem hefur verið gert ráð fyrir um nokkurra ára skeið samkvæmt skipulagi, sem ég staðfesti á sínum tíma, að stóriðja yrði aukin. Enginn hreyfði um langt skeið mótmælum við þessu. Þess vegna verð ég að segja að ég get ekki áfellst hæstv. iðnrh. Ég get heldur ekki séð að hann hafi farið út fyrir mörk laga og reglna og hann hefur í raun ekkert til saka unnið nema fylgja fram þeirri stefnu sem síðasta ríkisstjórn fylgdi, sömu stefnu og hefur verið tiltölulega víð samstaða um í flestum íslensku stjórnmálaflokkunum. Það er þess vegna ekki hægt að segja að það sé stefnubreyting af hálfu stjórnvalda sem hefur valdið þessari úlfúð og deilum sem hafa sprottið um fyrirhuguð áform, heldur er það fyrst og fremst, að ég tel, að almenningur er góðu heilli farinn að velta þessum málum fyrir sér upp á nýtt. Menn eru farnir að endurmeta þá afstöðu sem þeir höfðu til stóriðju og ég tel það jákvætt. Ástæðan fyrir þessu er ekki aðeins aukin áhersla á umhverfisvernd heldur líka breyttar kringumstæður í atvinnu- og efnahagsmálum.

Við skulum ekki gleyma því að á síðasta kjörtímabili leiddu ytri aðstæður til þess að hér skapaðist djúp kreppa. Menn bundu þá miklar vonir við stóriðju og ég minnist þess að það voru aðallega taldar hjáróma raddir sem drógu í efa nauðsyn stóriðju fyrir Íslendinga þá. Nú eru hins vegar breyttar aðstæður. Samkvæmt yfirlýsingum margra landsfeðranna erum við að sigla inn í mikið góðæri, sumir segja mesta góðæri aldarinnar, þannig að hin efnahagslega nauðsyn á erlendri stóriðju er ekki jafnrík og áður í atvinnulegu og efnahagslegu tilliti. Þess vegna er tóm til þess að staldra við núna og velta þessum málum fyrir sér. Það er líka óhjákvæmilegt að velta fyrir sér í þessu samhengi að ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir, bara rétt fyrir jólin í umræðunni um ríkisfjármál, að vegna framkvæmda í stóriðju þyrfti að grípa til sérstakra samdráttarviðbragða til að koma í veg fyrir of mikla þenslu. Ríkisstjórnin nefndi þar sérstaklega fyrirhugað álver í Hvalfirði. Slíkar yfirlýsingar skapa að sjálfsögðu jarðveg fyrir efasemdir og ég segi alveg óhikað að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um þetta hafa ekki stuðlað að kyrrð í kringum álverið á Grundartanga.

Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál, og jafnvel örlað á því þegar í þessari umræðu, að Kjósverjar hafi verið gagnrýndir fyrir sein viðbrögð. Það hefur verið á það bent, m.a. af hæstv. umhvrh., að það hefur legið fyrir staðfest skipulag sem er samið að tilhlutan sveitarfélaganna á svæðinu þar sem var opnað fyrir mikla stóriðju í framtíðinni. Þeim til varnar verður hins vegar að benda á að um margra ára skeið höfðu menn uppi miklar væntingar og mikil áform um stóriðju sem urðu aldrei að veruleika. Þó að á skipulagi væru sýndar allmargar lóðir á Grundartanga sem væru ætlaðar undir stóriðjuver, þá sýndi reynslan einfaldlega að þessi stóriðjuver komu ekki. Það voru litlar líkur á því þá að stóriðjuverin risu. Þvert á móti dreg ég athygli manna að því að meira að segja á fyrri hluta síðasta kjörtímabils komu upp efasemdir um framtíð járnblendisins. Nú er staðan hins vegar gerbreytt. Það liggur fyrir að járnblendiverksmiðjan verði stækkuð, það er álver á næsta leyti, það hefur verið rætt um annars konar stóriðju á Grundartanga og samkvæmt skipulaginu, eins og ég sagði áðan, eru enn fleiri lóðir fráteknar undir frekari stóriðju. Og er nema von að mönnum bregði í brún og Kjósverjar sjái sína sæng upp reidda.

Það eru þrjú atriði í tengslum við álver á Grundartanga og raunar stóriðju almennt sem ég vil drepa á. Það er í fyrsta lagi sú löggjöf og reglur sem við búum við og tengjast stóriðju. Það er enginn snefill af efa í mínum huga um það að bæði hæstv. iðnrh. og umhvrh. hafa fylgt bókstaf laganna. Ég get ekki séð að þeir hafi farið út fyrir ramma hans. En lögin og reglurnar hafa sætt gagnrýni, bæði innan lands og erlendis og það er spurning hvort okkar löggjöf er í þessum efnum nægilega í takt við vilja almennings. Þar að auki er nauðsynlegt að hafa líka í huga að tækninni fleygir fram og það er réttmætt að menn skoði reglubundið hvort lög og reglur séu í samræmi við þær tækninýjungar sem gera breytingar og framþróun mögulega á sviði hreinsibúnaðar.

Í öðru lagi er það röksemd sem mælir með stóriðju að hún skapar mörg vel launuð störf þó að umsvifin í atvinnulegu tilliti séu langmest á meðan á byggingu veranna stendur og ekki síst á meðan virkjanirnar eru í uppbyggingu. En við verðum að skoða þessa hluti í samhengi. Og hvert er þetta samhengi í dag? Við erum að fara í stækkun álvers í Straumsvík. Við ætlum að stækka járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Við áformum nýtt álver á Grundartanga, enn annað er í umræðunni á Keilisnesi. Hæstv. iðnrh. ræðir um stórfelldar virkjanir á hálendinu til að selja hráa orku um streng til útlanda og þar fyrir utan eru á sveimi fleiri lausar hugmyndir um enn frekari stóriðju á Íslandi. Andspænis þessu er óhjákvæmilegt að staldra við og spyrja: Hvaða áhrif hefur þetta til langs tíma á náttúru landsins? Hver verða áhrifin á þann gullmola sem við eigum í ferðaþjónustunni? Getur verið að stóriðjustefnan, sem við fylgdum um árabil, sé ekki samrýmanleg hagsmunum ferðaþjónustunnar sem er þegar orðin ómetanlegur burðarás í atvinnulífi Íslendinga?

Ég er ekki á móti stóriðju og ég geri mér grein fyrir því að hún er nauðsynleg. En við þurfum að koma henni fyrir þannig að hún raski hvorki öðrum atvinnugreinum né náttúru landsins. Ég er í vaxandi mæli að verða þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að við hugsum upp á nýtt okkar viðhorf gagnvart stóriðju og m.a. út frá langtímahagsmunum ferðaiðnaðarins.