Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:27:11 (2785)

1997-01-28 15:27:11# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:27]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hefði átt að fara fram eftir að umhvn. Alþingis hefur fjallað um stöðu málsins eins og ákveðið hefur verið. Það hefur verið farið eftir öllum vinnureglum og lögum við undirbúning að starfsemi álvers á Grundartanga. Eina spurningin er: Þarf að breyta þeim starfsreglum sem unnið hefur verið eftir? Við verðum öll að taka ábyrga afstöðu í þessu máli. Stefna Alþfl. er óbreytt. Vörn Vesturlands gegn hnignun hefur af hálfu alþingismanna, sveitarstjórnarmanna og íbúa svæðisins verið leit að atvinnutækifærum. Miðað við íbúafjölda á Íslandi er nú söguleg mannfæð á Vesturlandi. Vegna hvers? Vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum, t.d. landbúnaði og vegna fiskveiðistjórnarkerfisins. Árið 1990 buðu sveitarstjórnirnar sunnan Skarðsheiðar Grundartangasvæðið fram fyrir stóriðju, nánar tiltekið fyrir allt að 400 þús. tonna stóriðju eða álver. Á sama tíma var hafin svæðisskipulagning og er umrætt svæði eitt af fáum sem er fullskipulagt að öllu leyti á Íslandi fyrir stóriðju og iðnaðarsvæði þar með talið. Það eina sem hefur vantað er atvinnustarfsemi.

Fulltrúar Íslands buðu Columbia Venture svæðið við Grundartanga. Á svæðinu sunnan Skarðsheiðar hefur fækkað yfir 400 manns á sl. 16 árum. Bara á Akranesi um meira en 350 manns. Vörn Vesturlands felst í atvinnusköpun. Að fá umrædda álverksmiðju er ámóta og að fá 25--30 þús. tonna þorskkvóta úthlutaðan á Vesturland.

Vinna við undirbúning álvers Columbia Ventures á Grundartanga er komin svo vel á veg að ég tel að ekki verði aftur snúið, þ.e. ef fjármögnun fyrirtækisins tekst. En nú fyrst á síðustu vikum hafa komið í ljós áhyggjur af mengun svo sem kunnugt er.

[15:30]

Andstæðingar álvers fara offari eins og ávallt hefur verið í sambærilegum tilvikum. Þegar sementsverksmiðjan var byggð sögðu mótmælendur að fiskiðnaður mundi leggjast af á Akranesi. Niðurstaðan er sú að þar hefur aldrei verið meiri fullvinnsla sjávarafla en núna. Þegar Íslenska járnblendifélagið fór af stað sögðu andstæðingar að eftir þrjú ár yrði allt svæðið sviðin jörð. Niðurstaðan er sú að það hefur aldrei verið meiri gróður og trjárækt í nánasta umhverfi og nágrenni Grundartanga.

Hver er svo stefna Columbia Ventures sem loks hyllir undir í allri uppbyggingu á Vesturlandi? Hún er skilgreind í Morgunblaðinu 9. janúar sl.:

,,Að koma fram við alla þá sem hlut eiga að máli --- starfsmenn, viðskiptavini, bæjarfélög, birgja og almenning --- af heiðarleika, reisn og virðingu.

Að fara að öllum gildum lögum og reglum og ávinna fyrirtækinu orðspor sem góður og gildur þegn í þjóðfélaginu.

Að ávinna sér gott orð fyrir fyrsta flokks gæði vöru og þjónustu meðal viðskiptavina, innan og utan fyrirtækisins, um leið og unnið er samkvæmt öllum settum reglum í umhverfismálum.``

Herra forseti. Umhverfismál skipta alla máli. Ein af auðlindum Íslands er mikilvæg og umhverfisvæn orka. Við verðum að gera hana að útflutningsvöru með fullvinnslu eftir því sem unnt er á Íslandi. Við eigum að setja fram kröfur um fullkominn mengunarvarnabúnað. Við eigum að treysta sérfræðingum okkar til þess að svo sé um hnúta búið að fyllsta öryggis sé gætt gagnvart náttúrunni, skepnum og mönnum.

Mín niðurstaða, herra forseti, er að við heimilum byggingu álvers Columbia Ventures á Grundartanga með mengunarvörnum sem standast strangar íslenskar kröfur, sköpum atvinnutækifæri fyrir Vestlendinga. Það er vörn Vesturlands. Keilisnesið er frátekið fyrir miklu umfangsmeiri stóriðju en hér um ræðir og það mundi ekki vera farið af stað með þessa verksmiðju á Keilisnesi miðað við þær forsendur sem fyrir liggja.