Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:36:15 (2787)

1997-01-28 15:36:15# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:36]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Mörg undanfarin ár hefur þjóðin verið full eftirvæntingar vegna áforma og umræðna um uppbyggingu stóriðju hér á landi þar sem sérstaklega hefur verið litið til bygginga álvera og vegna þess að í tengslum við það gætum við nýtt þá auðlind sem við eigum í orkunni. Mjög mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur verið þessu fylgjandi enda ljóst að slík uppbygging muni skila þjóðinni auknum atvinnutækifærum og þjóðartekjum.

Í tengslum við þessa umræðu er skemmst að minnast þess að togast hefur verið á um það á milli landsvæða hvar skuli reisa næstu álver þar sem flestir virðast vilja slíka starfsemi á sínu svæði. Þá má einnig rifja það upp að þjóðarsálin virðist hafa orðið fyrir hverju áfallinu af öðru á undanförnum árum vegna þess hve lítið hefur miðað í uppbyggingu stóriðju hér á landi þrátt fyrir miklar væntingar sem skapast hafa vegna stöðugra áforma og umræðna þar um.

Eftir að núverandi hæstv. iðnrh. tók til starfa hefur hann oft og tíðum komið fram í fjölmiðlum til að svara spurningum um það hvort álver verði reist við Grundartanga í Hvalfirði. Ráðherrann hefur svarað þessu af varfærni, væntanlega með það fyrir augum að forðast að vekja óeðlilegar væntingar meðal þjóðarinnar um að nú verði byggt álver og ráðist í auknar virkjunarframkvæmdir í þeim tilgangi að bæta hag þjóðarbúsins.

Umræður um áform um byggingu og rekstur álvers við Grundartanga hafa verið meðal þjóðarinnar í töluverðan tíma og því getur það ekki hafa komið fólki á óvart að það skuli nú allt að því orðið að veruleika.

Í þeirri umræðu sem nú á sér stað í þjóðfélaginu um þetta mál hafa andstæðingar málsins farið mikinn og látið mjög að sér kveða. Málstað sinn byggja andmælendur m.a. á umhverfissjónarmiðum er snúa að mengunarhættu fyrir nánasta umhverfi. Rætt er um sjónmengun af væntanlegu álveri. Fullyrt að ímynd landsins sem náttúruperlu sé í hættu og fullyrt að tilkoma álvers á þessu svæði muni skaða stórlega möguleika ferðaþjónustunnar í næsta nágrenni og jafnvel á landsvísu. Þá eru einstaka aðilar sem fullyrða að málið hafi ekki borið að með eðlilegum hætti hvorki út frá skipulagslegum né umhverfislegum sjónarmiðum.

Það er fullkomlega eðlilegt og í raun fagnaðarefni að fólk skuli vera vakandi yfir umhverfi sínu og vilji standa vörð um að vernda náttúru landsins. Hins vegar er ljóst að þetta mál hefur eins og önnur a.m.k. tvær hliðar.

Ég hef að undanförnu hlustað af athygli á umræðuna um þetta mál, átt þess kost að sitja fundi þar sem sjónarmiðin eru rædd og einnig átt persónuleg samtöl við ýmsa aðila um málið. Það er ljóst að nokkuð skiptar skoðanir eru um málið eins og eðlilegt er.

Hvað varðar umhverfissjónarmið þá er ljóst að við hljótum að gera ýtrustu kröfur um mengunarvarnir í umræddu álveri til þess að tryggja eins og kostur er að náttúran í nágrenni álversins skaðist ekki af starfseminni. Ég hygg að engum hafi komið til hugar að leyfa starfsemi álversins vitandi það að starfsemi þess mundi stórskaða nánasta umhverfi sitt.

Hvað varðar sjónmengun vegna mannvirkja á svæðinu þá er sjónmengun á sinn hátt afar afstætt hugtak þar sem hver og einn leggur sitt mat á það. Hins vegar hafa slík mannvirki verið reist þannig að vel fari við nánasta umhverfi og má benda á að mörgum finnst járnblendiverksmiðjan á Grundartanga vel heppnuð hvað það varðar. Fram hefur komið að gerðar verði strangar kröfur um þessa þætti ef til þess kemur að umrætt álver rísi á Grundartanga.

Hvað varðar þá hættu að ímynd landsins hljóti skaða af verði álverið starfrækt við Hvalfjörð og að hagsmunir ferðamannaiðnaðar skaðist þá hefur komið fram að skiptar skoðanir eru um það meðal ferðaþjónustuaðila. Ég hygg að ef talin er veruleg hætta á mengun vegna tilkomu álversins þá sé ekki síður nauðsynlegt að fjalla um mengunarhættu á ýmsum sviðum vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Má þar meðal annars nefna mikla mengun frá flugumferð til og frá landinu og ekki síður það hvort og hvernig náttúra landsins er í stakk búin til að taka við verulega aukinni umferð ferðamanna um landið. Þetta mál hefur ýmsar hliðar þó svo að við þurfum að sjálfsögðu að halda áfram uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins í okkar landi sem bætir og styrkir okkar þjóðarbúskap.

Það er ljóst að tilkoma álvers við Grundartanga mundi skipta mjög miklu máli fyrir atvinnulíf og uppbyggingu á Vesturlandi þó svo að áhrifin kæmu til með að verða mest og helst í suðurhluta kjördæmisins. Tilkoma álversins mun koma til mótvægis gegn þeirri þróun sem verið hefur á þessu svæði þar sem landbúnaðarframleiðsla hefur dregist verulega saman, atvinnutækifærum hefur fækkað og fólksfækkun hefur verið mörg undanfarin ár. Tilkoma álversins mun fjölga atvinnutækifærum bæði beint og óbeint og styrkja búsetu fólks á þessu svæði.

Það liggur fyrir að á síðustu árum hefur verið stefnt að því að stóriðja verði reist á þessu svæði. Það kemur m.a. fram í svæðisskipulagi fyrir svæðið sunnan Skarðsheiðar sem staðfest var af Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi umhvrh., árið 1994. Og það hefur verið staðfest í máli sveitarstjórnarmanna á þessu svæði, m.a. í viðtali sjónvarpsins við bæjarstjórann á Akranesi í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Sveitarstjórnirnar hafa lýst yfir eindregnum vilja til þess að álverið rísi á Grundartanga og einnig hafa samtök (Forseti hringir.) sveitarfélaga á Vesturlandi ályktað í þá veru.

Herra forseti. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að fram fari umræða um jafnmikilvægt og margþætt mál og hér er rætt því það er mjög mikilvægt að það ríki sem mest sátt meðal þjóðarinnar um það hvernig við eigum að fara með þau málefni sem hér eru til umræðu.