Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:41:57 (2788)

1997-01-28 15:41:57# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:41]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir rúmlega fimm árum varð þáverandi iðnrh., Jón Sigurðsson, að viðurkenna frammi fyrir alþjóð að áform um álver á Keilisnesi væru runnin út í sandinn þrátt fyrir óbilandi trú hans á glæstri framtíð áliðnaðar. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Umræðan um skyldur okkar gagnvart umhverfinu og nauðsyn þess að draga úr mengun hefur tekið á sig form alþjóðasamninga sem fela í sér margháttaðar skyldur. Ég fæ ekki betur séð, hæstv. forseti, en að ríkisstjórn Íslands sé að koma sér undan því að sinna þeim skyldum og stefni að aukinni mengun í stað þess að draga úr henni.

Ég hygg að varla nokkur maður hafi trúað því að eitthvað kæmi út úr viðræðunum við Columbia Ventures fyrirtækið eftir allt það sem á undan var gengið í tilraunum til að fá hingað álver. Verð á áli hefur sveiflast upp og niður og líkur verið litlar á því að nokkrir framleiðendur hefðu áhuga á því að byggja nýjar verksmiðjur hér þrátt fyrir gylliboð um lágt raforkuverð, lág laun og minni mengunarkröfur en í öðrum löndum í sjálfri náttúruparadísinni Íslandi. Því er það ekki fyrr en nú þegar samningur er nánast í höfn að landsmenn eru að vakna upp við vondan draum og það hressilega.

Hæstv. forseti. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Fyrirtækið á eftir að fjármagna dæmið. Það er enn hægt að hætta við, í það minnsta að endurskoða staðarvalið, þótt álver á öðrum stað valdi að sjálfsögðu sömu mengun bara á annan hátt.

Umræðan um álver á Grundartanga er margslungin. Hún snýst um atvinnustefnu okkar Íslendinga. Hún snýst um alþjóðlegar skuldbindingar okkar í umhverfismálum. Hún snýst um það hvort mengandi stóriðja fer saman við uppbyggingu á lífrænum landbúnaði og ferðamennsku sem fyrst og fremst byggist á skoðun á ósnortinni náttúru. Hún snýst um það hve langt skuli gengið í virkjunum á hálendinu og hvaða áhrif miðlunarlón, háspennumöstur og raflínur hafa á ásýnd landsins, náttúruna og ferðamennskuna. Ætlum við að vernda ósnert víðerni landsins og hafa tekjur og ánægju af því að njóta þeirra eða fórna hluta þeirra til framleiðslu á raforku sem óhjákvæmilega kostar miklar fjárfestingar, lántökur og skuldir sem tekur þjóðina áratugi að greiða án þess að víst sé að kaupendur séu til staðar?

Hæstv. forseti. Það eru u.þ.b. þrír áratugir síðan menn fóru almennt að gera sér grein fyrir þeim mikla skaða sem umsvif mannsins hér á jörðu hafa valdið náttúrunni og eiga einkum rætur að rekja til iðnbyltingarinnar. Eyðing skóga og ósonlags, mengun vatna og hafsvæða af völdum eiturefna, gróðurhúsaáhrif, koltvísýringsmengun, kjarnorkuúrgangur, sorp og bruni á eldsneyti með tilheyrandi loftmengun eru meðal þeirra umhverfisvandamála sem við er að glíma.

Sameinuðu þjóðirnar hafa leitt þjóðir heims saman á ráðstefnum og sáttmálar hafa verið samþykktir um sjálfbæra þróun og aðgerðir til að draga úr mengun og eyðileggingu á umhverfinu, m.a. að dregið verði úr koltvísýringsmengun sem margir telja ógna framtíð mannkyns og lífs á jörðinni umfram annað. Það ætti að vera öllum ljóst að Vesturlandabúar verða að söðla um, breyta lifnaðarháttum sínum, draga úr neyslu og eyðslu og stefna að samfélagi sjálfbærrar þróunar. Því miður gengur hægt og það er ekki hægt að segja að íslensk stjórnvöld séu til fyrirmyndar í þeim efnum.

[15:45]

Á meðan almenningur um allan heim verður æ virkari í umhverfisvernd og meðvitaðri um umhverfis sitt gangast íslensk stjórnvöld fyrir því að auka hér mengandi stóriðju. Hvaða áhrif mun það hafa á ferðaþjónustuna? Hingað til lands kemur fyrst og fremst fólk sem vill njóta náttúrunnar og fer því sem betur fer fjölgandi. Hvort felast meiri möguleikar til atvinnusköpunar og tekjuöflunar í vaxandi ferðaþjónustu eða orkusölu og mengandi stóriðju? Þessum spurningum verðum við að svara. Hvernig viljum við skila landinu til komandi kynslóða? Í mínum huga er ótvírætt að hagsmunir stóriðju og ferðaþjónustu stangast á eins og Ferðamálaráð hefur bent á. Það er framtíðinni í hag að hafna mengandi stóriðju og þá áður en við eyðileggjum þá ímynd sem miklu fjármagni hefur verið varið til að byggja upp.

Við getum deilt um magn mengunar, áhrif hennar, staðarval o.s.frv. en það er alveg ljóst að verið er að auka mengun þvert á það sem við Íslendingar höfum heitið að gera og það dugar ekki að planta þúsundum trjáa, jafnvel milljónum, til mótvægis. Staðarvalið er afar óheppilegt miðað við þá starfsemi sem er í nágrenninu. Það er alveg sama hvað verkfræðingar og aðrir sérfræðingar halda fram um mengun umhverfisins, mengandi stóriðja á ekki heima í nágrenni sumarbústaðalanda eða bújarða, þótt ýmsir bændur megi huga betur að þeirri mengun sem landbúnaður veldur. Ef svo er eins og hæstv. iðnrh. sagði, hvernig væri þá að setja niður álver á Snæfellsnesi eða t.d. í Vík í Mýrdal?

Hæstv. forseti. Sú atvinnustefna sem felst í því að laða hingað mengunariðnað sem aðrar þjóðir eru að reyna að losa sig við er tímaskekkja. Íslensk stjórnvöld hafa um áratuga skeið látið sig dreyma háspennudrauma um raflínur þvers og kruss um landið, nú síðast í kapli til útlanda á meðan vaxtarbroddar atvinnulífsins eru í litlum fyrirtækjum, sjávarútvegi og margnefndri ferðaþjónustu sem miklu nær væri að styðja og styrkja. Þar eru möguleikar sem við eigum að nýta.