Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:47:34 (2789)

1997-01-28 15:47:34# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:47]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Umræðan um fyrirhugaða byggingu álvers fyrirtækisins Columbia á Grundartanga hefur verið nokkuð sérstök að undanförnu. Það virðist svo sem ýmsum komi á óvart að reisa eigi nýtt stóriðjuver á Grundartanga þótt það hafi um langt árabil ekki verið spurning hvort heldur hvenær að slíkum framkvæmdum kæmi.

Á skipulagi svæðisins sunnan Skarðsheiðar sem samþykkt var 1994 er skýrt markað stórt iðnaðarsvæði á Grundartanga. Engar athugasemdir komu fram þar að lútandi en öllum mátti ljóst vera að þarna var verið að afmarka svæði fyrir stóriðju eins og fram kemur í greinargerð með skipulaginu.

Flestir þeir erlendu aðilar sem sýnt hafa áhuga á að fjárfesta í orkufrekum iðnaði hér á landi á undanförnum árum hafa talið Grundartanga ákjósanlegan stað fyrir slíka starfsemi. Fyrir því eru ýmsar ástæður, svo sem gott landrými, raforkuvirki, góð hafnaraðstaða og að stutt er í gott vinnuafl. Þá veit ég að góð samskipti stjórnenda og starfsmanna Járnblendifélagsins hafa einnig virkað vel á þá aðila sem hafa kynnt sér aðstæður á Grundartanga en þess má geta að þar hefur aldrei komið til vinnustöðvunar þau 20 ár sem verksmiðjan hefur starfað.

Forráðamenn hreppanna sunnan Skarðsheiðar og Akraneskaupstaðar hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á frekari uppbyggingu á Grundartanga og að kynna kosti svæðisins. M.a. rituðu þeir iðnrh. bréf í maí 1990 þar sem iðnaðarsvæðið á Grundartanga var boðið til nota fyrir álver sem Atlantsálhópurinn hugðist þá reisa hér á landi. Forráðamenn þessara sveitarfélaga sendu frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem þeir leggja áherslu á jákvætt viðhorf sveitarfélaganna til staðsetningar álvers á Grundartanga, að sjálfsögðu að því gefnu að ekki sé dregið á nokkurn hátt úr kröfum um varnir gegn mengun og að þess verði gætt að framkvæmdir við iðjuver verði felldar að landi og umhverfi.

Hvers vegna skyldu nú sveitarstjórnarmenn á þessu svæði leggja svona mikla áherslu á meiri stóriðju á Grundartanga? Það er mikið talað um það hér að öllu sé hrúgað á suðvesturhornið en hver hefur þróunin verið á þessu svæði á undanförnum 10 árum? Jú, íbúum hefur fækkað í Borgarnesi, hreppunum fjórum sunnan Skarðsheiðar og á Akranesi um yfir 400 manns eða 5--6%. Ástæðan er sú að störfum hefur fækkað mikið, m.a. var Mjólkursamlaginu í Borgarnesi lokað, Hvalstöðin í Hvalfirði hefur ekki starfað í sjö ár, þó að vonandi standi það til bóta. Störfum fækkaði verulega við sameiningu fiskvinnslufyrirtækja og fækkun togara á Akranesi. Hefðbundin landbúnaðarframleiðsla hefur dregist mjög saman á svæðinu og t.d. hefur framleiðslu verið hætt á 12 jörðum af 24 í Hvalfjarðarstrandarhreppi einum samkvæmt upplýsingum oddvitans. Allt að 40 störf munu tapast á veitingastöðum í Hvalfirði og á Akraborginni með tilkomu Hvalfjarðarganga. Það hefur allt of lítið komið í staðinn. Þess vegna fækkar fólki stöðugt og þess vegna er það gífurlegt hagsmunamál fyrir íbúa þessa svæðis, suðurhluta Vesturlandskjördæmis, að af þessari uppbyggingu verði. Ef járnblendiverksmiðjan verður stækkuð og Columbia reisir álver á Grundartanga skapast þar hátt í 200 störf að viðbættum störfum við þjónustu við þessi fyrirtæki og starfsmenn þeirra.

Það er rétt sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan að launatekjur starfsmanna í stóriðjufyrirtækjum eru hærri en víða gerist á vinnumarkaðnum og meðalstarfsaldur manna er mjög hár, jafnt á Grundartanga sem í Ísal. En að sjálfsögðu verður að tryggja að fyrirtækin uppfylli þær ströngu kröfur sem settar eru um mengunarvarnir. Til þess höfum við Hollustuvernd ríkisins. Ég treysti þeirri ágætu stofnun vel til þeirra verka. Ég tek undir það sem sagði í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í fyrradag að það hefur enginn sýnt fram á það með nokkrum skynsamlegum rökum að sérstök ástæða sé til að hafa áhyggjur af áhrifum álversins á umhverfi þess. Mótmæli andstæðinga álvers á Grundartanga minna mig mjög á andstöðu við byggingu járnblendiverksmiðjunnar fyrir 20 árum. Sú andstaða var að vísu mun almennari og mun háværari heldur en núna. Ég man m.a. að alþýðubandalagsmenn ágætir efndu til hópferðar að Grundartanga og reistu þar níðstöng á lóð fyrirtækisins. Margir spáðu því að mengun frá verksmiðjunni mundi leggja umhverfi hennar í rúst allt til Akraness. Allar reyndust þessar hrakspár sem betur fer tóm vitleysa og stjórnendur fyrirtækisins á Grundartanga hafa lagt áherslu á að starfa í sátt við umhverfi sitt eins og glöggt má sjá á gróðurfari og dýralífi í nágrenninu. Enda heyrast engin mótmæli við fyrirhugaðri stækkun járnblendiverksmiðjunnar.

Herra forseti. Ég tel að væntanleg uppbygging á Grundartanga geti skipt sköpum fyrir atvinnulíf og íbúaþróun í sveitarfélögunum í kringum Grundartanga. Því fagna ég þessum framkvæmdum ef af verður en ítreka að þessi fyrirtæki verða að sjálfsögðu að uppfylla okkar ströngustu kröfur um mengunarvarnir.