Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:52:37 (2790)

1997-01-28 15:52:37# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Stjórnvöld hverju sinni hafa þá skyldu við fólkið í landinu að horfa lengra en til næstu kosninga þegar framtíðarhagur þjóðarinnar er annars vegar. Tólf þúsund störfum var lofað á kjörtímabilinu. En var það hvað sem það kostar? Óvarkár uppbygging stóriðju nú gæti kostað okkur þúsundir starfa í framtíðinni. Þar vísa ég til mikilla tækifæra í vistvænni ferðaþjónustu. Stóriðjuframkvæmdir geta grafið undan þeirri ört vaxandi atvinnugrein ef ekki er því betur á málum haldið. Stöðvaðar hafa verið framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu til að koma í veg fyrir þensluáhrif stóriðjuframkvæmda vegna álvers í Hvalfirði, framkvæmdir í Ártúnsbrekku stöðvaðar og löngu tímabærum endurbótum á okkar aðalinnanlandsflugvelli, Reykjavíkurflugvelli, frestað. Allt vegna álvers á Grundartanga, álvers sem reisa skal í ósátt við fólkið í firðinum. Álver á að starfsetja án þess að nokkrar rannsóknir hafi farið fram á náttúrufari Hvalfjarðar eða mengunaráhrifum þar vegna járnblendiverksmiðjunnar sem er þar fyrir. Eru þetta verk sama flokks og Eysteinn Jónsson var í forgöngu fyrir á sínum tíma? Ágætir framsóknarmenn, erum við ekki betur komin með störfin sem skapast við að halda framkvæmdaáætlun hér á höfuðborgarsvæðinu?

Skilaboð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru út og suður í atvinnu- og náttúruverndarmálum. Heildstæð atvinnustefna er ekki til. Hæstv. samgrh. kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðamálum á síðasta ári þar sem lögð er áhersla á vistvæna ferðamennsku og sjálfbæra nýtingu auðlinda í þágu ferðaþjónustu. Á sama tíma sendir viðskrh. frá sér glansbæklinga með gylliboðum til erlendra fjárfesta í útlöndum um orku á útsölu, um menntað vinnuafl á þrælakjörum þróunarlanda og þriðja flokks umhverfiskröfur. Hæstv. umhvrh., sem hefur lagt áherslu á vistvænan landbúnað sem landbrh., virðist vera kominn alveg undir hælinn á hæstv. iðnrh. ef marka má tíðindi undanfarinna vikna og mánaða. Við eigum hér mikinn auð sem er ósnortin einstök náttúrufegurð en slíkt er að verða æ sjaldgæfara í heiminum. Náttúra, hreinleiki, friðsæld og hálendið, er það sem sérstaklega laðar erlenda ferðamenn hingað samkvæmt könnun Ferðamálaráðs. Það er ljóst að stóriðja og ferðaþjónusta fara illa saman. Viðhorf til atvinnumála hafa breyst. Stóriðja er ekki lengur það eina sem koma skal í hugum þorra fólks. Við höfum gengist undir alþjóðlega sáttmála sem allir hníga að því að okkur beri að vernda umhverfið. Það sem fram undan er í stóriðjuframkvæmdum virðist fara þvert á þær skuldbindingar í ýmsu. Það getur vel verið að mengunarkröfurnar við framkvæmdirnar í Hvalfirði standist íslensk lög en það segir okkur ekki að við séum ekki komin aftur úr í lagasetningu í umhverfismálum og að íslensk lög þurfi ekki að endurskoða og færa til samræmis við kröfurnar í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Hér verður að krefjast bestu mengunarvarna, ekki aðeins vegna efnamengunar heldur einnig sjónmengunar, og gera kröfur um að umhverfi þeirrar stóriðju sem hér er verði þannig að hún falli inn í umhverfið svo hún skaði ekki þá ímynd sem við viljum gefa landinu. Við verðum að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum. Það verður að vera víðtækara, óvilhallir aðilar verða að koma þar að og gera verður almenningi betur kleift að koma með faglegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Uppbygging atvinnulífs verður að vera heildstæð og byggð á framsýni. Það er mikilvægt í viðkvæmu landi eins og okkar. Atvinnugreinarnar sem við byggjum atvinnulíf okkar á verða að vera þannig að þær grafi ekki undan hver annarri heldur styðji hver aðra. Framtíðarhagsmunir ferðaþjónustu og náttúruverndar mega þar ekki fara halloka.