Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:08:28 (2793)

1997-01-28 16:08:28# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:08]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Nú er vandlifað. Eina stundina eru stjórnvöld ásökuð um að sitja auðum höndum meðan atvinnuleysið magnast, en um leið og hagsveiflan snýst upp virðast áhyggjur víkja fyrir óraunsærri rómantík og hástemmdri náttúrudýrkun. Rómantíkerar, sem nú spretta upp eins og gorkúlur, hefðu gott af því að lesa ljóð Einars Benediktssonar, Tínarsmiðjur, sem hann orti eftir að hafa litið yfir verksmiðjuhverfi í Newcastle og hrifist af mikilfengleik þeirrar sjónar. Þar kveður við nokkuð annan tón heldur en hjá þeim sem í dag tala gegn stóriðjuframkvæmdum.

Stjórnvöld hafa síðustu áratugina unnið að því að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulíf landsmanna með því að laða að erlenda stóriðju og frekar verið gagnrýnd fyrir lítinn árangur en hitt. Mér þykja því mótmæli nú skjóta skökku við þó að ég sé þeirrar skoðunar að auðvitað þurfi líka að leggja áherslu á uppbyggingu annarra greina. Í andófi gegn stóriðju er rætt um að með rekstri nýs álvers hér á landi muni Íslendingar stórauka losun á koltvíoxíði út í andrúmsloftið og að sú aukning skerði möguleika okkar, að því er mér skilst, á því að stunda aðra mengunarstarfsemi, svo sem að auka við bílaflota landsmanna eða fjölga togurum. Ég verð nú bara að segja það eins og er að hvorugt er forgangsverkefni í dag hjá mér, að fjölga bílum eða stækka togaraflotann.

Þegar verið var að reisa álverið í Straumsvík var hafður uppi svipaður málflutningur og þá voru miklar hrakspár um þá flúormengun sem af starfseminni hlytist. Ekki gengu þær hrakspár eftir, enda var þetta fyrir þann tíma að skólayfirvöld fóru að gefa börnum flúortöflur til inntöku. Í dag verður ekki annað séð en full sátt sé á milli álversins í Straumsvík og nágranna þess og ég minnist þess ekki að hafa séð að álverið í Straumsvík hafi þurft að auglýsa eftir verkafólki, enda er mér sagt að þar skrái fólk sig á biðlista eftir vinnu.

En það má spyrja af hverju þessi órói sé nú. Það er enginn nýr sannleikur fólginn í því að störfum nútímamannsins fylgi óæskileg áhrif á umhverfið. Slíkt er einfaldlega það gjald sem við gjöldum fyrir þá lifnaðarhætti sem við höfum valið okkur og það er mikil einfeldni að halda að menn losi jarðarkringluna við aukna mengun með því að hér verði ekki reist nýtt álver. Eftirspurn eftir áli í heiminum mun ráða því hvað fer af óæskilegum efnum frá álverum út í andrúmsloftið en ekki það hvort Kjósverjar ná að kála einu álveri eða ekki. Ef lifnaðarhættir okkar, sem við ráðum auðvitað mestu um sjálf, kalla á aukna framleiðslu á áli þá rísa álverksmiðjur einfaldlega annars staðar ef Íslendingar vilja þær ekki. Og með hagsmuni alheimsins í huga verð ég að segja að betur treysti ég íslenskum stjórnvöldum til eftirlits með slíkum rekstri en mörgum öðrum löndum sem eru tilbúin að taka við slíkum álverksmiðjum.

Því hefur verið haldið fram að verksmiðja á Grundartanga muni valda sjónmengun þegar farið er um Hvalfjörð. Ég verð að segja að ég er ekki sammála þessu, enda er Hvalfjörður þeirrar náttúru að hann er því aðeins fallegur að menn aki inn fjörðinn. (Gripið fram í.) Já, þegar farið er inn fjörðinn. (Gripið fram í.) Nei, menn njóta bara þeirrar fegurðar meðan ekið er inn fjörðinn. Og ég verð einnig að játa að það er með mig eins og Einar Benediktsson þegar hann leit yfir stóriðjuna í Newcastle að mér þykir búsældarlegt að líta yfir fjörðinn og yfir að Grundartangaverksmiðjunni, sérstaklega að kvöldi og nóttu til þegar þarna er upplýst og ber merki um þann stórhug og þann framkvæmdavilja sem þar er í gangi.

Herra forseti. Það er í rauninni ekkert nýtt að uppi séu órökstudd upphlaup sem tengjast svæðinu í kringum Grundartanga. Það þarf ekki að fara til baka nema rúma öld til að rifja upp að þá fengu einhverjir á þessu svæði þá flugu í höfuðið að það byggi skrímsli í Katanestjörn. Það sló miklum óhug á íbúa og gerður var út leiðangur þá eins og nú. Í það skiptið, eins og þegar síðasti leiðangur fór um, var ljósmyndari með í för. Þessi ljósmyndari skyldi mynda skrímslið. En það sem var öðruvísi þá var að þá var líka höfð með skytta til að skjóta skrímslið. Óvætturin fannst ekki þá frekar en núna en það sem hins vegar gerðist í leiðangrinum núna var að menn fundu fyrir engilásjónu iðnrh.

Ég hygg að þegar frá líður og menn ná aftur áttum, þá sjái fólk að álverið verður engin óvættur og vel og örugglega verður staðið að nýrri og stórhuga sókn til fjölbreyttara atvinnulífs á Vesturlandi.