Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:25:14 (2796)

1997-01-28 16:25:14# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:25]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka undir með hv. málshefjanda að ég tel að þessi umræða hafi út af fyrir sig verið þörf og það er auðvitað sjálfsagt að löggjafinn taki umræðu um stórmál af þessu tagi sem eru til meðhöndlunar eða meðferðar og umræðu í þjóðfélaginu. Annað væri í raun ekki sæmandi en við færum yfir málin og skiptust á skoðunum.

Örfá atriði eru hér sem hafa komið fram í umræðum. Mig langar fyrst að segja út af orðum hv. 4. þm. Austurl. Mér fannst hann aðeins vilja snúa út úr fyrir mér þegar ég sagði, og hann hafði orðrétt eftir, að ekki þyrfti að orðlengja það þegar verið væri að tala um afstöðu eða niðurstöðu umhvrh. varðandi úrskurðinn um matið á umhverfisáhrifunum. Ég átti fyrst og fremst við það að í þessari umræðu þyrfti ekki að orðlengja það frekar. Úrskurðurinn liggur fyrir. Það þarf í raun ekki að spyrja um það hér vegna þess að það kemur þar fram. Ekki það að ég geti ekki fallist á að um þetta geti verið skiptar skoðanir, það er allt annað mál og menn geta haldið áfram umræðunni. En afstaðan lá fyrir og tímans vegna ekki þörf á að fara frekar yfir það. Hún er sýnilegt. Það var mín meining með orðum mínum í þessu efni.

Hér hafa hins vegar farið fram umræður um hvar á að staðsetja stóriðju og athugasemdir komið fram um það frá mörgum aðilum sem ég get vel tekið undir. Val á staðsetningu, hvar á hún að vera og hvernig og hvar á að virkja? Auðvitað er þetta umræða sem við hljótum að þurfa að hafa á hverjum tíma og kannski enn frekar nú en hingað til vegna þess að viðhorf og afstaða manna til umhverfismála almennt og náttúruverndar er og hefur verið að breytast. Það vil ég fyllilega taka undir.

Hv. 8. þm. Reykn. velti fyrir sér hvað réði staðarvalinu. Það var ekki umhvrh. og þar sem umhvrh. er hér fyrst og fremst til svara, þá var það ekki hann sem bauð fram ákveðin svæði heldur var bent á svæði, sem hv. þm. réttilega taldi upp, af því að það eru svæðin sem menn hafa þegar gefið sér að kæmu til greina fyrir stóriðju ef hún á að vera einhvers staðar. Það var ekkert nýtt í því. Ég fór yfir það í upphafi að þetta er einn af þeim stöðum, ég man ekki hvort hún taldi fjóra staði eða hvað marga, þar sem farið hefur fram svæðisskipulag og gert er ráð fyrir starfsemi af þessu tagi. Var þá óeðlilegt að bent væri á þann stað? Það var út af fyrir sig ekki mitt verk og þarf ekki að hafa um það fleiri orð af minni hálfu.

Ég var þegar tíma mínum lauk áðan að svara næstsíðustu eða þriðju síðustu spurningu hv. málshefjanda og vil ljúka máli mínu með því að fara yfir það sem þá var eftir. Ég var að tala um ferðaþjónustuna eða þá spurningu sem laut að ályktun Ferðamálaráðs, þ.e. nauðsyn þess að samstilla þá möguleika, sem ég tel að við höfum, og það getur þá verið viðhorf mitt, eins og hv. þm. orðaði það í lok síns máls, að ég vildi hóflega stóriðju. Ég tel að við eigum að nýta náttúruna okkar og þær auðlindir sem hún hefur upp á að bjóða. Ég tel ekki að náttúruvernd sé fyrst og fremst í því fólgin að halda öllu óbreyttu, þ.e. að náttúruvernd þýði að allt eigi að vera óbreytanlegt og megi engu til hnika. Ef það er náttúruvernd í almennum skilningi og skilja mætti af því sem hér hefur komið helst fram í umræðunni, þá er það ekki sú stefna sem ég hef viljað fara eftir. Ég vil benda á að ég tel að ferðamannaiðnaðurinn hafi í mörgum tilfellum farið vel saman með framkvæmdum, t.d. orkuframkvæmdum. Ætli ein orkuvirkjunarstöðin okkar sé nú ekki vinsælasti ferðamannastaðurinn á landinu og sennilega sá sem er mest þekktur í útlöndum? Það er Bláa lónið við Svartsengi. Nesjavellir eru mjög oft heimsóttir af ferðamönnum og innlendir áhugamenn um ferðalög og útivist nýta sér veiðivötn á hálendinu sem hafa orðið til við virkjunarframkvæmdir þannig að ég tel að þetta megi og geti farið saman.

Hvað varðar Bændasamtökin er það talið og kemur fram, svo ég vísi einu sinni enn í úrskurðinn um mat á umhverfisáhrifum þar sem fjallað er um mengun af völdum ýmissa tegunda snefilefna og lífræna ræktun, að þynningarsvæðið svokallaða er nánast hið sama og svæði járnblendiverksmiðjunnar þannig að þetta mun ekki hafa áhrif út fyrir það. Ég vil, með leyfi forseta, lesa eina málsgrein: ,,Miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar útreikningum og eru viðurkenndar er ekki talið að mengun frá starfsemi álversins hafi áhrif á umhverfið utan þynningarvæðis. Í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna verður m.a. skilgreint nánar umfang og tíðni umhverfisrannsókna og verður haft samráð við sveitarstjórn Kjósarhrepps og bændur hvað það varðar og sett upp mælistöð í Kjósarhreppi. Einnig, komi í ljós við reglubundna vöktun að umhverfisáhrif mengunar verði önnur en áætlað var, verði gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir það og starfsleyfið endurskoðað.``

Þetta kemur reyndar fram líka í drögum að starfsleyfi sem nú er enn til meðhöndlunar.

Allra seinustu orðin, hæstv. forseti. Í ríkisstjórninni hefur að sjálfsögðu verið fjallað um mikilvægi þess að nýta sem best þá kosti sem landið okkar býr yfir til að treysta atvinnulíf og efnahagslíf landsmanna og skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri. Viðhorfin breytast og e.t.v. er ekki hægt eða talið rétt í dag að nýta kosti eða fara fram með sama hætti og við töldum að hægt hefði verið í gær. Þetta á t.d. við um að 10% séu virkjuð af virkjanlegum kostum í landinu. Ég hygg að við séum búnir að virkja meira en 10%, sennilega miklu meira vegna þess að önnur viðhorf eru til þess í dag. Þó hægt sé að gera það á reikniborðinu með útreikningum þá er það ekki talið ásættanlegt af öðrum sjónarmiðum. Ríkisstjórnin hefur fjallað um að mótuð verði langtímastefna um staðarval og umfang stóriðju og orkuframkvæmdir með tilliti til náttúruverndar og umhverfissjónarmiða. Ég tel það nauðsynlegt og tel að það sé hægt að gera svo vel fari.