Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:32:17 (2797)

1997-01-28 16:32:17# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hef óskað eftir þessari umræðu út af máli sem snertir mjög náið samskipti löggjafar- og framkvæmdarvalds og mikilvægt er að Alþingi fjalli um í þessari umræðu og ef til vill síðar. Ég tel mjög alvarlegt mál hér á ferðinni, þ.e. breytingar umhvrh. á mengunarvarnareglugerð sl. sumar, og mun færa nokkur rök fyrir því. En í tengslum við þetta mál hlýt ég að minna á annað mál þessu skylt sem gerðist á haustmánuðum 1995 þegar meiri hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins, m.a. pólitískt skipaðir málsvarar þar inni, aðstoðarmaður hæstv. landbrh., varaformaður, fyrir utan formanninn skipaðan af hæstv. ráðherra, brugðu á það ráð að þrengja stórlega aðgengi almennings að málsmeðferð varðandi starfsleyfi orkufrekra iðnfyrirtækja og fleiri fyrirtækja, og sem birtist í því að athugasemdum mínum við málið, sem var stækkun álbræðslunnar í Straumsvík og umhverfisáhrif hennar og starfsleyfi sem þá lá fyrir í drögum, var vísað frá vegna þess að mér kæmi málið ekki við. Ég vísaði því efni lögum samkvæmt, sem ég átti rétt til, til úrskurðarnefndar sem starfar á grundvelli laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og sú nefnd veitti mér réttinn á nýjan leik og dæmdi frá þau atriði sem meiri hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins bar fyrir sig. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að breyta ákvæði þessarar reglugerðar þannig, eins og það er nú í reynd, að allir Íslendingar eigi aðkomurétt. Auðvitað hefði átt að breyta reglugerðinni þannig að hún væri skýr að þessu leyti. Hvað var hér á ferðinni? Það var verið að reyna að ýta frá óþægilegum málsatriðum og þrengja rétt almennings. Síðan kemur að næstu álbræðslu, álbræðslu á Grundartanga. Þá virðist farið að leita leiða af hæstv. umhvrh. til að þrengja á nýjan leik möguleika manna til þess að láta reyna á athugasemdir í tengslum við afgreiðslu starfsleyfa með því að klippa á tengslin, lögboðin tengsl þeirra sem athugasemdir gera við þessa úrskurðarnefnd og raunar að víkja einnig stjórn Hollustuverndar ríkisins til hliðar sem úrskurðaraðila.

Eftir þessu tók ég þegar ég fór að líta á drög að starfsleyfi fyrir álbræðslu á Grundartanga og vakti athygli á því hér á Alþingi í fyrirspurn sem hæstv. umhvrh. svaraði 11. des. sl. Mitt sjónarmið var eindregið það að reglugerðin stangast á við lög. Ég hef dreift hér þessari umræðu eins og hún liggur fyrir í þingtíðindum á borð hv. þm. og þar geta menn kynnt sér svar ráðherrans sem var eindregið það að hann hefði lög að mæla í þessu máli.

Fyrir hverjum vitibornum manni, og þarf enga lögfræðikunnáttu til, mátti vera augljóst að reglugerðin stangaðist á við lög. Og það finnst mér kannski vera stóra málið í þessu. Ég hlýt að spyrja, herra forseti: Hvað er hægt að gera, hvað er rétt að gera? Verður ekki Alþingi að láta þetta mál til sín taka? Eðlilegast væri að umhvn. tæki málið til athugunar. Hvaða ástæður lágu að baki þessari aðför að rétti almennings? Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég hef nokkrar áhyggjur almennt séð af stjórnsýslu umhvrn. eins og hún birtist okkur hér í frv. eftir frv. sem að mörgu leyti virðist heldur illa undirbyggt þannig að einnig þar gæti verið þörf á almennri stjórnsýsluúttekt, ekki vegna þessa máls sérstaklega.

Ég spyr hæstv. ráðherra í tilefni þessa máls: Til hvaða ráða hyggst ráðherrann grípa eftir þau afglöp sem hann hefur gert sig beran að í sambandi við þessar reglugerðir? Ætlar ráðherra að gera starfsmenn ráðuneytisins ábyrga fyrir málavöxtum eða taka á sig alla ábyrgð? Hvaða afleiðingar hefur væntanleg endurútgáfa reglugerðar á undirbúning og vinnslu starfsleyfis fyrir álbræðslu á Grundartanga sem nú stendur yfir? (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Er ekki óhjákvæmilegt að auglýsa starfsleyfistillögur á ný og veita eðlilegan frest til athugasemda? Sé það ekki gert, við hvaða útgáfutíma reglugerðar ætlar þá hæstv. umhvrh. að miða varðandi fram komnar athugasemdir? Ég tel augljóst, þar sem úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laganna verður að nýju virk, að hæstv. ráðherra getur ekki gripið inn í niðurstöðu hennar varðandi endanlegt starfsleyfi til þeirra iðnfyrirtækja sem um er að ræða. Það næsta sem væntanlega reynir á er margumrædd álbræðsla á Grundartanga.