Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:38:43 (2798)

1997-01-28 16:38:43# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:38]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af þeirri umræðu sem hér er hafin af hálfu hv. 4. þm. Austurl. vil ég fyrst víkja að síðustu spurningum hv. þm., um hverjir séu ábyrgir. Ætlar ráðherrann að draga starfsmenn til ábyrgðar í þessu efni eða er hann sjálfur ábyrgur fyrir þessu? Auðvitað er það svo að ráðherrann hlýtur að vera það. Hann er ábyrgur fyrir þeim reglugerðum sem hann hefur skrifað undir, farið yfir og honum hefur verið gerð grein fyrir. Nú er það auðvitað svo að ráðherrar hljóta að þurfa að styðjast æðimikið við trausta starfsmenn varðandi hina ýmsu þætti sem þeir eru ekki sérfróðir um eða á sviðum þar sem þeir eru ekki sérfræðingar. En ábyrgðin er auðvitað þeirra og þeir skjóta sér ekki á bak við það. Það reyni ég ekki að gera heldur.

Það sem fram kom í svari mínu við athugasemdum frá hv. málshefjanda 11. des. sl. var að hugsunin varðandi reglugerðarbreytinguna sem gerð var á sl. sumri hefði fyrst og fremst verið sú að úrskurður eða starfsleyfi sem ráðherra gefur út sé endanlegt og því verði ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar. Það var meiningin. Auðvitað hlýtur starfsleyfi sem út er gefið af ráðherranum að vera endanlega niðurstaðan og ábyrgðin hans og því sjálfsagt hægt með réttarfarsreglum að vísa eða skjóta til dómstóla eins og við er að búast og vera ber. Þar geta mál endað sem málsaðilar telja sig ekki geta sætt sig við ef stjórnkerfið og þar með talið auðvitað ráðherrarnir vinna einhvern veginn öðruvísi en viðkomandi telja ásættanlegt og vilja leita réttar síns lengra. Það var meiningin. Það var ekki meiningin af minni hálfu, ég segi það hér og ég sagði það þá, sem svar við spurningu hv. þm., og segi það aftur, að brjóta lög eða ganga á rétt almennings eða einstaklinga eða þeirra sem telja sig málið varða og telja sig hafa athugasemdir við það að gera. Þegar þessar athugasemdir höfðu komið fram hér í þinginu, mjög alvarlegar athugasemdir af hálfu hv. þm., athugasemdir höfðu reyndar komið fram af hálfu Hollustuverndar þar áður og verið teknar til umræðu og umfjöllunar í ráðuneytinu samkvæmt bréfi frá Hollustuvernd, dags. 4. nóv. á seinasta ári, og eftir frekari umfjöllun í stjórn Hollustuverndarinnar þótti mér sýnt að við yrðum að taka málið til enn frekari skoðunar. Vegna þess, og ég segi það aftur, að meining mín var fyrst og fremst að skýra leikregluna og skýra það hvernig málin ættu fram að ganga. Það var ekki meining mín að taka rétt af mönnum til þess að nota þann rétt sem lög heimila og veita viðkomandi aðilum. Að öllu þessu gerðu og skoðuðu varð það niðurstaðan að við yrðum að breyta reglugerðinni aftur, fara yfir hana á ný, vegna þess að eins og hún leit út eftir breytinguna á síðasta sumri þá væri hún vart í samræmi við lög. Þetta er því skýlaust eins og það lítur út í dag. Ég vænti þess að reglugerðin komi í Stjórnartíðindum í dag eða á morgun, ég veit ekki nákvæmlega hvern daginn það er, en hún lítur dagsins ljós þessa dagana.

Af því að hv. málshefjandi spurði um það í lokin hvort það breytti ferlinu fram að þessu þá tel ég að það geri það ekki. Menn hafa haft allan rétt til að koma að sínum athugasemdum við alla málsmeðferð hingað til án þess að reglugerðin eins og hún hljóðaði frá því í sumar hafi haft þar nokkur áhrif. Það verður engin breyting á því. Starfsleyfistillögurnar eins og þær eru núna, ef við tökum þetta einstaka dæmi sem er til meðferðar í augnablikinu og reglugerðin eða starfsreglurnar kunna auðvitað að hafa áhrif á, eru í meðhöndlun hjá Hollustuverndinni. Stjórn stofnunarinnar fer yfir málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og fer yfir þær athugasemdir eða kærur eða hvað við köllum það og skal innan ákveðins tíma hafa gert endanlega starfsleyfistillögu sem fer til ráðherra. Þá kemur til þessi kærufarvegur fyrir málsaðila sem enn sætta sig ekki við hina endanlegu starfsleyfistillögu, að kæra hana þá til úrskurðarnefndarinnar og fer þá með það samkvæmt stjórnsýslulögum. Þetta er það ferli sem verður viðhaft og ég vona að sé þá ásættanlegt gagnvart öllum málsaðilum sem telja sig þurfa og eiga auðvitað að hafa möguleika til þess að neyta réttar síns eins og lögin kveða á um, að ekki sé brotið á þeim í þessu efni.