Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:46:34 (2800)

1997-01-28 16:46:34# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:46]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til að gera það að tillögu minni að hæstv. umhvrh. fyrir hönd Framsfl. taki fyrsta eða annað vers Einars Benediktssonar í Tínarsmiðjum inn í mengunarvarnareglugerð. Ástæðan er önnur.

Með reglulegu millibili verða umræður á Alþingi um skil milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Menn kvarta sáran um að Alþingi sé í vaxandi mæli að tapa sjálfstæði sínu frammi fyrir framkvæmdarvaldinu. Menn tala um að Alþingi sé eins konar framkvæmdarvaldsalþingi, eins konar stimpilpúði fyrir vilja ráðherra.

Hæstv. forseti hefur öðrum fremur látið sér annt um að snúa þessu tafli við og auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og talað um nauðsyn þess að þingmenn stæðu saman í þeirri togstreitu.

Það er ekki bara að menn kvarti undan því að framkvæmdarvaldið undirbúi löggjöf. Menn tala um að oft sé kastað til þess höndum, að löggjöf sé oft meingölluð, að umfjöllun nefnda Alþingis sé oft gölluð, m.a. einatt vegna tímaskorts og þeirra hrakningsvinnubragða sem verða við tímaskort fyrir jól og þinglok. En síðan ræða menn sér í lagi um hversu oft það hafi gerst að ráðherrar fari yfir öll eðlileg mörk með reglugerðarvaldi sínu.

Nú er komið upp dæmi sem er alveg sígilt. Ég stend hér fyrst og fremst upp til að segja alveg eins og menn hafa í þessari umræðu í dag fjallað um nauðsyn þess að umhvn. fari rækilega ofan í þau mál sem eru til umræðu og tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem segir: Þetta mál er þannig vaxið að það ætti að vera sjálfsögð krafa að umhvn. fjallaði alveg sérstaklega um það. En það er einfaldlega þannig vaxið að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vekur athygli þingheims á því að hæstv. ráðherra hefur sett reglugerð sem hann, þingmaðurinn, fullyrðir að standist ekki lög. Hæstv. ráðherra fullyrðir á móti að víst standist þetta lög. Nú er orðið upplýst að stofnanir, sem heyra undir hann, t.d. Hollustuvernd ríkisins hefur fjallað um málið og talið að þingmaðurinn hafi haft margt til síns máls en viljað vísa því frá. Að lokum er málið búið að vera í höndum úrskurðarnefndar sem kveður alveg upp úr um það að hér var um lögbrot að ræða. Hæstv. ráðherra sagði áðan að vart væri annað hægt en að breyta reglugerðinni. Hún muni taka breytingum á morgun. Hann hefur í rauninni viðurkennt að ásökun þingmannsins hafi verið á rökum reist. Hér hafi verið um það að ræða að hann hafi farið yfir lagaheimildir sínar, reglugerðin hafi ekki fengist staðist en hann hefur ekki beðið þingheim afsökunar. Bæði það og svo hins vegar spurningin fyrir þingnefndina um hvaða ályktanir megi draga af þessu máli er meira en einnar messu virði í umhvn.